Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Íslamófóbía og hið sammennska

Mynd tengd múslímum

Undanfarin ár hef ég oft séð fólk, meðal annars trúleysingja, reyna að afneita að það sé til eitthvað sem má kalla íslamófóbía. Sérstaklega er því mótmælt þegar þetta er kennt við rasisma og þá er bent á að íslam sé ekki kynþáttur en í því samhengi er rétt að benda á að hugmyndin um kynþætti er sjálf óvísindaleg flokkun á fólki eftir yfirborðskenndum einkennum. Ég ætla ekki að segja hvort íslamófóbía sé rasismi en það er augljóslega margt líkt með þessu (sem sést líka þegar íslamófóbía fer að bitna á fólki sem hefur unnið það eitt til saka að líkjast múslimum).

Íslamfóbía er til. Hún snýst um að dæma alla einstaklinga sem tilheyra næststærstu trúarbrögðum heims eins og það sé ekki gríðarlegur innbyrðis munur á þeim. Hún snýst um að átta sig ekki á að einstaklingsmunur sé svo mikill að þú veist nær ekkert um fólk þó þú vitir hvaða trúarbrögðum það tilheyrir. Þetta snýst um að þekkja ekki fólk eða þá að þekkja einhvern og draga þá ályktun að hann sé "einn af þeim góðu". "Góði músliminn" er ekki "einn af þeim góðu". Múslimar hafa, að minni reynslu, sama hlutfall af góðu fólki og aðrir hópar. Í versta falli eru til múslimar með skoðanir sem eru keimlíkar þeim sem voru allsráðandi hjá fyrri kynslóðum Íslendinga.

Menningarlæsi

Þegar múslimar sjást í sjónvarpinu kallandi "Allahu Akbar" vekur það ekki sömu hughrif hjá Íslendingum og þegar gamla frænka þeirra segir "Guð minn almáttugur". Samt þýðir þetta eiginlega það sama og er oft sagt af sömu ástæðum. Flesta Íslendinga skortir menningarlegt læsi til að skilja þetta. Þegar múslimi segir "guð er mikill" þá er hann hættulegur öfgamaður þó það liggi ekki endilega meiri trúarhiti á bak við það en að segja "guð hjálpi þér" þegar einhver hnerrar.

Þó íslamófóbía sé til þá þýðir það ekki að íslam sé yfir gagnrýni hafið og það eru ekki allir sem gagnrýna íslam íslamófóbískir. Við getum ekki neitað því að íslam sé áhrifavaldur í hryðju- og voðaverkum nema að við ætlum að draga þá ályktun að trúarbrögð hafi engin áhrif á þá sem aðhyllast þau. Að fólk vinni góðverk og illvirki án þess að trú þeirra hafi haft áhrif.

Hættulegar hugmyndir

Helsta hættan við trúarbrögð, frá mínu sjónarhorni allavega, er að þau gefa fólki réttlætingu sem stendur ofar hinu sammennska. Ef þú ert með stuðning guðs þá þarftu ekki mennska mælikvarða á gjörðir þínar. Auðvitað eru til aðrir álíka hættulegir hlutir. Þjóðerniskennd getur gefið fólki þá hugmynd að þitt fólk sé betra en aðrir. Rasismi er í raun eins. Trúarbrögð geta virkað nákvæmlega eins. Þú getur dregið þá ályktun að þeir sem ekki aðhyllast þína trú séu minna virði en þú.

Eftir að villuráfandi trúleysingi myrti múslimska nágranna sína (væntanlega út af bílastæði) tók ég þátt í undarlegri umræðu þar sem spurt var hvort það ætti ekki að krefjast þess að Vantrú og Dawkins fordæmdu morðin (eftir að bæði Dawkins og Vantrú höfðu gert einmitt það). Þetta var augljóst háð beint að þeim sem telja að hófsamir múslimar séu ekki nógu duglegir að fordæma voðaverk trúbræðra sinna. En það missti svoltið marks af því að í raun eru hófsamir múslimar oft merkilega duglegir í fordæmingum sínum en vandamálið er að enginn nennir að hlusta á þá, síst af öllu þeir sem eru einmitt að krefjast þessara fordæminga.

Þó allt bendi til þess að umrædd morð hafi ekki tengst trú fórnarlambanna þá væri best fyrir trúleysingja að túlka þetta sem hættumerki og spyrja okkur hvort það sé möguleiki að á meðal okkar séu þeir sem telji trúaða minna virði en trúlausa. Þess vegna fordæmdi Vantrú þetta strax. Þess vegna fordæmdi Richard Dawkins þetta strax. Við verðum að vera á tánum og passa okkur á að halda fókusinum á hið sammennska. Þess vegna er Vantrú félag sem berst fyrir trúfrelsi, jafnrétti og mannréttindum en ekki bara réttindum trúleysingja. Okkar fólk er ekki trúleysingjar heldur þeir sem deila þessum markmiðum með okkur.

Tjáningarfrelsi

Baráttan fyrir mannréttindum er líka baráttan fyrir tjáningarfrelsi. Þar lendum við stundum á bak við aðra línu en sumir múslimar. Þeir telja að trúarskoðun þeirra eigi að hafa áhrif á tjáningarfrelsi okkar. Það má aldrei vera. Það ætti að vera grundvöllur samfélags okkar að enginn þurfi að gangast undir reglur trúarbragða án þess að gera það sjálfviljugur. Þetta er sama frelsi og ætti að gefa múslimum færi á að lifa í sátt og friði í samfélögum þar sem þeir eru jafnvel í örlitlum minnihluta, eins og á Íslandi. Allir eiga að gangast undir sömu lög sem byggjast á hinu sammennska - ekki trúarbrögðum.

Múslimar hafa rétt til að gagnrýna alla sem þeim finnst að hafi farið yfir strikið í tjáningum sínum um trúarbrögð þeirra. En þeir eiga ekki að hafa rétt til að banna neinum neitt á grundvelli trúarskoðanna sinna. Ekki frekar en að íslensk yfirvöld hefðu átt að hafa rétt til að banna Spegilinn fyrir guðlast á sínum tíma. Eitt form tjáningar hefur þó almennt verið, og ætti að vera, takmarkað. Það eru ósannindi. Stóra vandamálið við ummæli oddvita Framsóknarflokks og flugvallarvina fyrir síðustu borgarstjórnarkosninga var ekki að hún gagnrýndi múslima heldur það að gagnrýnin var að stórum hluta ósönn og byggði á ósanngjörnum alhæfingum.

Voðaverk trúarbragða

Voðaverk trúarbragða eru af ýmsum gerðum. Það sem við köllum almennt hryðjuverk eru yfirleitt aðferð þeirra sem ekki hafa völd. Það gerir þau ekki minna hræðileg en við komum ekki í veg fyrir þau nema að skilja hvað liggur að baki. Sjálfur hef ég, frá upphafi, verið nokkuð sannfærður um að Írakstríðið hafi verið að hluta til kristilegt voðaverk. George W. Bush og Tony Blair hafa síðar nær staðfest að trúin var hluti af réttlætingu þeirra fyrir stríðsrekstrinum. Síðan er óhætt að segja að íslamófóbía kristinna Bandaríkjamanna hafi gert stríðið mögulegt. Auðvitað er það miklu flóknara en svo að við kennum eingöngu trúarbrögðum um. Meira að segja nafntogaðir trúleysingjar studdu innrásina í Írak. Þar ber fremstan að telja Christopher Hitchens. Hann sagði að stríðið væri réttlætanlegt af því að Saddam Hussein væri ekki lengur við stjórn. Ef hann væri á lífi í dag myndi ég benda honum á að ISIS hefði ekki orðið til nema vegna stríðsins.

Þegar það er ráðist á lönd eða fólk kúgað vegna íslamófóbíu verður það einna helst til þess að gera trúarbrögðin hluta af sjálfsmynd hinna kúguðu. Þess vegna er það í raun markmið íslamskra hryðjuverka- og ofbeldismanna að auka andúð á múslimum. Það er til þess að reyna að sannfæra alla um að sammennska okkar sé ekki það sem skiptir máli heldur trúarbrögðin og uppruni fólks. Eftir fyrra Íraksstríðið þá fór Saddam Hussein skyndilega að sýna að hann væri voða góður múslimi til þess að skerpa betur á hugmyndinni um okkur og hina.

Þetta er sambærilegt við það að harðlínufólk í Ísrael og gyðingahatarar heimsins sameinast í því að reyna að setja samasemmerki milli stefnu ríkisstjórnar Ísraels og allra gyðinga. Þar er viljandi litið framhjá því að gyðingar eru ekki einhver ein heild sem er hægt að dæma saman. Jafnvel í Ísrael er til (margt) fólk sem skilur að kúgun þeirra á Palestínumönnum er röng. Það er fólk sem skilur sammennskuna og er kallað sjálfshatandi gyðingar fyrir það.

Hættulegasta hugmynd heimsins í dag er að kristni og íslam séu dæmd til þess að fara í allsherjar stríð. Þetta er æðsta stig íslamófóbíu. Ég hef heyrt hana yrta af brjáluðum Bandaríkjamönnum, einum vinnufélaga sem mér líkaði annars mjög vel við og indælum Færeying á G!Fest sem var að reyna að rækta kristnina í sjálfum sér af því hann taldi það eina rétta mótstöðuaflið við íslam. Anders Breivik er líka boðberi þessarar hugmyndar. Það hættulegasta við þessa hugmynd er að ef fólk fer að trúa á þessa sögulegu nauðhyggju þá gæti hún ræst.

Múslimarnir okkar

Auðvitað er rétt að leyfa múslimum að byggja mosku. Að banna að er fyrst og fremst að skerpa á hugmyndinni um að þeir séu öðruvísi og réttminni en aðrir. Ef við förum að setja trúarbrögð múslima framar sammennskunni erum við að hvetja þá til að gera það sama. Ef við teljum að músliminn sem er með okkur í Strætó sé væntanlegur hryðjuverkamaður frekar en bara manneskja þá erum við að byggja múra í stað þess að rífa þá niður.

Í fullri einlægni verð ég að játa að ég er ekki laus við íslamófóbíu. Ég hef setið á erlendum flugvelli og séð araba og hausinn minn fer að hugsa um hryðjuverk. Þannig er búið að forrita mig með fréttum, kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Þegar ég var tíu ára þá vöktu arabar fyrst og fremst upp hugmyndir um kvennabúr og kameldýr. Þetta eru jafn bilaðar hugmyndir og lukkulega er hægt að kveða þær í kútinn[*]. Það er góð byrjun að brosa til múslima og bjóða þeim góðan daginn. Þeir eru fyrst og fremst manneskjur eins og ég og þú. Ef allir átta sig á því þá er allt hitt yfirstíganlegt.

[*] Það að sjá þrjár búrkuklæddar konur versla sér kynlífshjálpartæki (í London) er líka gott til að hrista upp í hugarheimi manns. Í því tilfelli má ímynda sér að það sé frelsandi að vera hulin.

Óli Gneisti Sóleyjarson 13.04.2015
Flokkað undir: ( Hugvekja , Íslam )

Viðbrögð


Sverrir Agnarsson - 02/09/15 19:29 #

Góð pæling en þetta er sérkennileg afstaða ....."Þó allt bendi til þess að umrædd morð hafi ekki tengst trú fórnarlambanna"........

Rasismi er ekki einskorðaður við hatur á einhverjum skilgreindum kynþætti. Það er líka rasismi að vilja vernda eigin kynstofn frá hópi sem er skilgreindur sem ÖÐRUVÍSI og ÓGNANDI fyrir t.d. hvíta Íslendinga og svokölluð menningarverðmæti hans. Það er einfaldlega rasismi að líta á Islam sem ógn við íslenskt þjóðerni eða vestræna hvíta (kaukasus) menningu.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 02/09/15 21:40 #

Þetta er ekki "afstaða" Sverrir heldur heiðarleg frásögn af atburði. Það er ekkert sem bendir til þess að rasismi hafi tengst þessu tiltekna skelfilega morði. Afstöðuna sérðu í næstu setningum á eftir þeirri sem þú vitnaðir í.


Benedikt S - 30/09/15 16:01 #

Brilliant grein. Eins og samansafn hugsanna minna :)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.