Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Bull og bókstafstrú

Mynd af biblíunni á altari

Ég held að ég hafi fundið svarið við því hvers vegna sumir trúmenn ganga með þá ranghugmynd að trúleysingjar séu “bókstafstrúaðir". Svarið byggir á þeirri staðreynd að biblían er uppfull af bulli. Bæði trúleysingjar og bókstafstrúarfólk kaupa ekki tilraunir frjálslyndra trúmanna til að koma viti í bullið og þess vegna heldur frjálslyndi trúmaðurinn að þeir séu eins.

Bullið í biblíunni

Þegar fólk les bull þá bregst það við því á mismunandi hátt. Það getur:

  1. Viðurkennt að þetta sé bull.
  2. Trúað bullinu.
  3. Reynt að koma viti í bullið með fjarstæðukenndum útskýringum.

Trúleysingjar eru líklegastir til gera 1, viðurkenna að bullið sé bull. Bæði “bókstafstrúarfólk” og “frjálslyndir" trúmenn stunda 2 og 3 en “bókstafstrúarfólk" er líklegra til að trúa bullinu, á meðan “frjálslyndir” trúmenn eru líklegri til að reyna að koma viti í bullið með fjarstæðukenndum útskýringum.

Það eina sem bókstafstrúarfólkið og trúleysingjar eiga sameiginlegt er að báðir hafna oft tilraunum frjálslyndra trúmanna við að koma viti í bullið. Þegar trúleysingjar hafna útskýringum frjálslynds fólks, þá flokkar það trúleysingja því ranglega með bókstafstrúarfólki.

Nokkur dæmi

Hér eru nokkur dæmi af bulli og svo þeim þremur mismunandi viðbrögðum sem fólk kemur með:

Í Nýja testamentinu er talað um tilvist djöfulsins:

  1. Djöfullinn er ekki til.
  2. Djöfullinn er til.
  3. Satan er frásagnartæknileg aðferð til að tala um hið illa. #

Sömuleiðis er Jesús að reka illa anda úr veiku fólki:

  1. Illir andar eru ekki til.
  2. Illir andar eru til. Jesús rak illa anda úr fólki.
  3. Jesús vissi að illir andar eru ekki til, en vildi ekki leiðrétta sjúkdómsskilning samtíma síns og talar því og lætur eins og illir andar séu til. Hann er að bara að vinna úr því mynd- og táknmáli sem samtímamenn hans myndu skilja. #

Í Nýja testamentinu er talað um heimsendi, dómsdag og endurkomu Jesú:

  1. Þeir höfðu rangt fyrir sér. Það kom enginn heimsendir og það verður enginn heimsendir.
  2. Heimsendir mun koma og þá mun Jesú refsa fólki eins og hann sagði.
  3. a) Hver einasti dagur er dómsdagur og að það sem maður geri og segir felur í raun alltaf í sér val. # b)Heimsendir og dómsdagur er ekki einhver dagur þegar veröldin endar. Hinstu tímar okkar er þegar einhver deyr. [1]

Í Nýja testamentinu er talað um helvíti sem stað sem “vont” fólk mun enda í eftir dauðann:

  1. Helvíti er ekki til.
  2. Helvíti er til.
  3. Helvíti er ástand hér og nú, í þessu lífi. Skapað af mannfólkinu sjálfu. #

Hvers vegna fjarstæðukenndar útskýringar?

Ég held að “frjálslyndir trúmenn” komi oft með þessar fjarstæðukenndu útskýringar af því þeim líkar illa við hina tvo möguleikana. Þau sjá að það gengur ekki að trúa bullinu en þau vilja heldur ekki viðurkenna að það sé bull í trúaritinu þeirra. Þess vegna neyðast þau til að koma með einhverjar útskýringar, hversu fjarstæðukenndar sem þær eru.

Viðurkennið tilvist bullsins

Ég held ég geti líka útskýrt hvers vegna þessir sömu trúmenn koma oft með bókstafstrúarásökun þegar við trúleysingjarnir bendum einfaldlega á eitthvað bull í biblíunni. Í þeim tilvikum eru trúmennirnir kannski ekki með neina fjarstæðukennda útskýringu á bullinu og þá eru bara tveir möguleikar í boði: Að viðurkenna að þetta sé bull eða trúa bullinu.

Þar sem að þeir vilja ekki viðurkenna bullið þá halda þeir ranglega að við séum að biðja þá að trúa bullinu.

Það er rangt. Við erum bara að reyna að fá þá og bókstafstrúarmennina til að viðurkenna að það er bull í biblíunni.


[1]"Hinir hinstu tímar eru nefnilega ekki einhver endanlegur heimsendir, dómsdagur þegar veröldin ferst eins og í amerískri bíómynd. Nei, hinir hinstu tímar okkar hvers og eins renna upp þegar tímaglasið okkar tæmist, þegar við erum kölluð til hins himneska brúðkaups, til himnaríkis. Þangað er okkur öllum boðið. Spurning er hvort við séum tilbúin þegar kallið kemur." - Þórhallur Heimisson, Hin mörgu andlit kristindómsins bls 247-248

Upprunaleg mynd frá Magnus Franklin og birt með CC-leyfi.

Hjalti Rúnar Ómarsson 24.03.2015
Flokkað undir: ( Biblían )

Viðbrögð

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?