Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ofbeldið og trúfrelsið

Mynd af málverki af ofsóknum gegn kristnu fólki í Rómarveldi

Prestar ríkiskirkjunnar og aðrir varðliðar hennar hafa farið mikinn undanfarin misseri. Ástæðan er það sem þeir kalla sífelldar árásir á kirkjuna og kristna trú. Samkvæmt þeim er verið að reyna að jaðarsetja kirkjuna og kristni, að útrýma kristni úr almannarými og þeir sem ganga lengst líkja þessum „árásum“ við þær raunverulega ofsóknir og ofbeldi sem kristið fólk má búa við í ákveðnum heimshlutum.

En í hverju felast þessar árásir? Tvennt hefur komið til. Annars vegar sú krafa að í skólum sé frætt um trú en hún ekki boðuð. Sú krafa kemur skýrast fram í reglum Reykjavíkurborgar um samskipti menntastofnanna við trú- og lífsskoðunarfélög, en þær reglur byggjast á skýrslu starfshóps sem kirkjan sjálf átti aðild að. Í henni kemur skýrt fram að trúboð eigi ekki heima í skólum.

Hitt atriðið varðaði dagskrárgerð á annari af tveimur ríkisreknum útvarpsstöðvum landsins, þar sem ákveðið var að hætta með örstutta dagskrárliði sem fálust í bænum og hugleiðingum um biblíuvers en setja þess í stað á dagskrá klukkutíma langan kristilegan þátt. Sú aðgerð varð tilefni til háværra mótmæla, þar sem ummælin um jaðarsetningu og árásir á kristna komu fram.

En hvað felst í þessum harmakveinum ríkiskirkjufólks? Það merkilega er að þau staðfesta einfaldlega í eitt skipti fyrir öll að það sem kirkjan vill er að halda í forréttindi sín. Engin önnur trúarbrögð eru boðuð skólabörnum með bókagjöfum eða heimsóknum. Ekkert annað trúfélag hefur viðlíka aðgang að Ríkisútvarpinu. Þær aðgerðir sem um er rætt voru til þess fallnar að jafna stöðu ríkiskirkjunnar á við önnur trúar- og lífsskoðunarfélög. Reyndar ekki einu sinni það því að kirkjan hefur t.d. áfram mikinn aðgang að RÚV, eins og t.d. með vikulegum útvarpsmessum.

Þetta leyfir fólk sér að kalla jaðarsetningu og að líkja við ofbeldi og ofsóknir. Það að ríkiskirkjan búi við sama borð og aðrir er ofbeldi, og borðið sjálft er úti á jaðrinum. Þetta kemur auðvitað lítið á óvart. Þeir sem búa við forréttindi vilja sjaldnast gefa þau eftir.

Ríkiskirkjan hefur nákvæmlega engan áhuga á að hér ríki raunverulegt trúfrelsi, sem felst í því að ekki sé gert upp á milli trúar- og lífskoðanna og félaga. Í hennar huga jafngildir trúfrelsi því að hún sé beitt ofbeldi og ofsóknum. Það er alveg stórmerkilegt, og um leið ofboðslega afhjúpandi.

Egill Óskarsson 08.02.2015
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Jón Valur Jensson - 10/02/15 03:05 #

"En í hverju felast þessar árásir?" spyr Egill Óskarsson og svarar sjálfum sér: "Tvennt hefur komið til ..." (sjá pistilinn). ––En þar talar hann þvert gegn betri vitund. Þær hefur ekki skort HÉR árásirnar skæðu af margvíslegu tagi á þessu vefsetri, árum saman, sennilega meira en áratug.

Svo gengur hann líka fram hjá 1) alls konar ýtni og ljótri niðran um kristna trú á öðrum vettvangi, einkum á vefsíðum eins og dv.is, visir.is og eyjan.is, en einnig að nokkru í blöðum; 2) Berufsverbot á vegum yfirvalda á Akureyri og í Reykjavík vegna sérskoðana kristinna manna (Snorra Óskarssonar og Gústafs Níelssonar) og skammarlegt fjársvelti sem Íslenska Kristskirkjan var beitt (og mismunun um leið) vegna skrifa Fiðriks Schram á vefsetur þeirrar kirkju.

Borgaryfirvöld taka samstöðu með múslimum fram yfir kristni, og þið í Vantrú eruð kannski sammála þeim þrátt fyrir hörmulegt ástand mannréttinda (og hvað þá kvenréttinda!) í múslimskum löndum!


Matti (meðlimur í Vantrú) - 10/02/15 09:17 #

Borgaryfirvöld taka samstöðu með múslimum fram yfir kristni

Þetta er ótrúlegt þvaður. Það þarf ekki annað en að skoða allt borgarlandið sem fer undir kristnar kirkjur til að sjá það. Auk þess styðja borgaryfirvöld kristilegt starf um tugi milljóna á ári hverju.

Það að Félag múslima fá loks lóð eftir áratuga bið er ekki dæmi um einhverja sérstaka samstöðu með múslimum Jón Valur.


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 10/02/15 09:44 #

Þær hefur ekki skort HÉR árásirnar skæðu af margvíslegu tagi á þessu vefsetri, árum saman, sennilega meira en áratug.

Þetta er einmitt gott dæmi um ofurviðkvæmni kristinna. Jón Valur, ef lítið félag eins og Vantrú er þess megnugt að jaðarsetja kristna trú og útrýma henni úr almannarými þá stendur trúin einfaldlega ekki traustum fótum í samfélaginu.

2) Berufsverbot á vegum yfirvalda á Akureyri og í Reykjavík vegna sérskoðana kristinna manna (Snorra Óskarssonar og Gústafs Níelssonar) og skammarlegt fjársvelti sem Íslenska Kristskirkjan var beitt (og mismunun um leið) vegna skrifa Fiðriks Schram á vefsetur þeirrar kirkju.

Þetta gætu verið góð dæmi ef þeir sem tóku ákvarðanir um brottvikningu Snorra væru ekki að megninu til kristnir. Sama gildir um Gústaf. Og að prestar, að hluta til þeir sömu og væla undan ofsóknum, hafa tekið þátt í að fordæma orð þeirra beggja.

Þannig að það sem eftir stendur er 'ýtni og ljót niðran' sem þú nefnir engin dæmi um í fjölmiðlum og á netsíðum.

Mikið vildi ég að ég gæti haft jafn litla trú á ítökum ríkiskirkjunnar í þjóðfélaginu og þú.


Jón Valur Jensson - 10/02/15 14:44 #

Ég hef hvergi sagt, að "lítið félag eins og Vantrú [sé] þess megnugt að jaðarsetja kristna trú og útrýma henni úr almannarými," þið megið ekki ætla mig svo skyni skroppinn, þótt árásir ykkar smáa jaðarfélags á kristindóm og kirkju hafi verið linnulausar í áratug – en falla reyndar um sjálfar sig, eins og gjarnan á við um slík klámhögg á fleiri sviðum.

Það fer ekki fram hjá neinum, að þið Vantrúarmenn ráðizt mun fremur á kristnar kirkjur en á múslimasið í skrifum ykkar hér, þrátt fyrir að öfgaislamska er ábyrg fyrir flestum fjöldamorðum heimsins frá síðustu aldamótum, en öfgakristni næstum alsaklaus í samanburði.

Þeir sem tóku ákvarðanir um brottvikningu Snorra og Gústafs voru ekki trúir kristindómi, ekki frekar en mannréttindum. Og prestar, sem veittust að þeim, eru þar á línu með félagspólitískum "rétttrúnaði" sósíalista jafnt sem veraldarhyggju-líberalista, en alls ekki trúir postullegum kristindómi.

Og Matti þarf að átta sig á því, að það er 100% eðlilegt, að kristnir söfnuðir í kristnu landi hafi fengið lóðir fyrir sínar kirkjur –– og ókeypis, enda bein lagaskylda –– en hitt er engin lagaskylda, að múslimar fái slíka lóð og sízt af öllu kostalóð á kjörstað, sem borgin hefði líklega getað selt fyrir a.m.k. 150 milljónir. Ennfremur er fráleitt að leyfa múslimasöfnuði að fá margfalt stærri og verðmeiri lóð frá borginni heldur en ásatrúarsöfnuðinn sem er margfalt stærri heldur en múslimasöfnuðirnir tveir samanlagðir.*

Fyrir hverja er 481 múslimur að byggja svona gríðarstóra mosku, 800 fermetra, milli Mikubrautar og Suðurlandsvegar? Og fyrir hvaða PENINGA? Vellríkra, handarhöggvandi Wahhabíta-öfgamanna í Saudi-Arabíu og Qatar?! Og lýsir það mannréttindaást Salmannanna tveggja, hins nýja kóngs í Saudi-Arabíu og Tamimis á Íslandi, að fylgja boði Kóransins um handarhögg þjófa? Salmann "okkar" gat vitaskuld ekki hafnað þessu handarhöggsákvæði, þegar hann var spurður í frægum þætti í Útvarpi Sögu, þá hefði hann verið að hafna Kóraninum (í súru 5, versi 38). En stendur Matti þá með mannréttindum í raun, ef hann styður múslimasöfnuð með slíkan leiðtoga?

Takið eftir, að jafnvel ráðherra Verkamannaflokksins norska, sjálfur utanríkisráðherrann Jonas Gahr Störe, beitti sér eindregið gegn því, að Saudi-arabar fengju að fjár­magna bygg­ingu á mosku(m) í Noregi, enda hafa t.d. um 80% bandarískra moska færst í róttækniátt vegna áhrifa Saudanna. ––> http://krist.blog.is/blog/krist/entry/1568728/

  • Í Ásatrúarfélaginu eru skv. tölum Hagstofunnar 2.382 félagsmenn, en í Félagi múslima á Íslandi eru margfalt færri: aðeins 481 meðlimur, og í hinum (róttækari) múslimasöfnuðinum, Menningarsetri múslima á Íslandi, í Skógarhlíð (gamla Ýmis-húsinu), eru aðeins 360 manns! Samt stendur til hjá fyrrnefnda félaginu að byggja gríðarstóra mosku, sem svo lítið félag hefur ekki efni á.

EgillO (meðlimur í Vantrú) - 10/02/15 15:03 #

Ég hef hvergi sagt, að "lítið félag eins og Vantrú [sé] þess megnugt að jaðarsetja kristna trú og útrýma henni úr almannarými," þið megið ekki ætla mig svo skyni skroppinn, þótt árásir ykkar smáa jaðarfélags á kristindóm og kirkju hafi verið linnulausar í áratug – en falla reyndar um sjálfar sig, eins og gjarnan á við um slík klámhögg á fleiri sviðum.

Það væri ágætt ef þú gætir haldið þræði, þú virðist nefnilega hafa tapað honum strax í fyrsta kommentinu þínu. Til upprifjunar fyrir þig þá byrjaði pistilinn minn svona:

Prestar ríkiskirkjunnar og aðrir varðliðar hennar hafa farið mikinn undanfarin misseri. Ástæðan er það sem þeir kalla sífelldar árásir á kirkjuna og kristna trú. Samkvæmt þeim er verið að reyna að jaðarsetja kirkjuna og kristni, að útrýma kristni úr almannarými og þeir sem ganga lengst líkja þessum „árásum“ við þær raunverulega ofsóknir og ofbeldi sem kristið fólk má búa við í ákveðnum heimshlutum.

Í kjölfarið á því velti ég því upp hvaðan þessar árásir, sem samkvæmt prestum og öðrum varðliðum kirkjunnar eru til þess fallnar að jaðarsetja kirkjuna og kristni, að útrýma kristni úr almannarými og er líkt við raunverulegt ofsóknir og ofbeldi koma og hvað í þeim felst.

Þá svarar þú með þessu:

En þar talar hann þvert gegn betri vitund. Þær hefur ekki skort HÉR árásirnar skæðu af margvíslegu tagi á þessu vefsetri, árum saman, sennilega meira en áratug.

Nema að þú hafir hreinlega verið að svara einhverjum allt öðrum punkti, sem er svosem ekkert ólíkt þér að gera, þá er mjög hæpið að setja þetta í annað samhengi en ég gerði svo í svari mínu við fyrstu athugasemd þinni.

Þeir sem tóku ákvarðanir um brottvikningu Snorra og Gústafs voru ekki trúir kristindómi, ekki frekar en mannréttindum. Og prestar, sem veittust að þeim, eru þar á línu með félagspólitískum "rétttrúnaði" sósíalista jafnt sem veraldarhyggju-líberalista, en alls ekki trúir postullegum kristindómi.

Það skiptir bara engu máli í samhenginu hvort að þetta hafi verið sannir skotar. Til þess að rökstyðja það að prestar ríkiskirkjunnar og aðrir varðmenn hennar hafi rétt fyrir sér um þessar árásir getur þú ekki notað "árásir" sem prestar í ríkiskirkjunni og aðrir varðmenn hennar standa að miklu leyti fyrir sjálfir.

Þú ert aftur farinn að ræða eitthvað allt annað en það sem ég var að skrifa um.

Það fer ekki fram hjá neinum, að þið Vantrúarmenn ráðizt mun fremur á kristnar kirkjur en á múslimasið í skrifum ykkar hér, þrátt fyrir að öfgaislamska er ábyrg fyrir flestum fjöldamorðum heimsins frá síðustu aldamótum, en öfgakristni næstum alsaklaus í samanburði.

Jafnvel þó að við lítum framhjá því að það er góð ástæða fyrir því að í landi með kristna ríkiskirkju þá beinum við sjónum fyrst og fremst að henni þá sé ég ekki hvernig í ósköpunum það kemur þessari umræðu við. Ertu að halda því fram að við styðjum íslam umfram kristni? Hver er punkturinn eiginlega?

en hitt er engin lagaskylda, að múslimar fái slíka lóð

Þetta kemur umræðunni ekkert við en þeir eru fáir lögfræðingarnir sem taka undir með þér varðandi þetta.

Ef þú vilt ræða um það sem fram kemur í greininni þá gerðu það endilega. Mér þætti samt vænt um að þú læsir greinina betur yfir svo að þú áttir þig á því hverju þú ert að svara.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 10/02/15 15:05 #

Ennfremur er fráleitt að leyfa múslimasöfnuði að fá margfalt stærri og verðmeiri lóð frá borginni heldur en ásatrúarsöfnuðinn sem er margfalt stærri heldur en múslimasöfnuðirnir tveir samanlagðir.*

Ég held reyndar að verðmæti lóðar í Öskjuhlíð sé frekar vanmetið í þessari yfirlýsingu Jóns Vals. Ég held líka að Jón Valur sé dálítið að ýkja varðandi "gríðarstóra mosku" Félags múslima, 800 fermetrar er ekki mikið, hvað á kaþólska kirkjan á Íslandi mikið af fermetrum í fasteignum?

En hvað um það, ég er ekki hrifnari af kristni en íslam eins og ég hef ítrekað tekið fram (jafnvel við Jón Val). Íslam er jaðarskoðun á Íslandi og múslimar hér á landi hafa ekkert verið að abbast upp á mig. Það hafa kristnir því miður ítrekað gert, t.d. með ásókn sinni í leik- og grunnskóla. Ég er líka á móti því að trúfélög fái afhentar lóðir en tel ekki réttlætanlegt að mismuna fólki út frá trúarskoðunum.

Þetta snýst dálítið um sátt og samlyndi Jón Valur.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 10/02/15 16:32 #

og skammarlegt fjársvelti sem Íslenska Kristskirkjan var beitt (og mismunun um leið) vegna skrifa Fiðriks Schram á vefsetur þeirrar kirkju.

Jón Valur er líklega vísa til þess að Kristskirkjan fékk ekki styrk úr kirkjubyggingasjóð Reykjavíkur.

Já, það að Reykjavíkurborg hafi sérstakan "kirkjubyggingarsjóð" og vilji ekki gefa hvaða kristna trúfélagi sem er milljónir eru "árásir".


Jón Valur jensson - 10/02/15 17:33 #

Þótt þú þykist kannski ekki vita það, Hjalti Rúnar, þá er það þó staðreynd, að ástæðan fyrir því, að hinni lúthersk-evangelísku Íslensku Kristskirkju var neitað um styrk úr kirkjubyggingarsjóðnum, var sú ein, að sr. Friðrik Schram hafði skrifað á vefsíðu þeirrar kirkju um biblíulega afstöðu í sambandi við mök og evt. hjónaband samkynhneigðra. Kirkjan var látin gjalda kristinna trúarviðhorfa hans og varð að bera miklu þyngri byrðar en ella við byggingu kirkjunnar. Þetta var því mismunun sem var náskyld bæði trúarofsókn og Berufsverbot.

Matti heldur enn áfram uppteknum ósið, að taka fremur afstöðu með múslimum en kristnum, það leynir sér ekki. Hann segir 800 fermetra "ekki mikið" fyrir múslimasöfnuðinn (það gæti þó orðið snúið fyrir söfnuðinn að borga þetta sjálfur!), og hann bætir við: "hvað á kaþólska kirkjan á Íslandi mikið af fermetrum í fasteignum?" ––Kaþólska kirkjan á Íslandi er með yfir 10.000 meðlimi, margfalt fleiri en þessi múslimasöfnuður. Hún hefur á löngum tíma sjálf byggt upp sín kirkju- og safnaðahús, auk þess sem St Jósefssystur og St Franziskussystur reistu hér af eigin fé og atorku og fórnarlund (með sáralitlum launum sem þær létu sér nægja) þrjá spítala í landinu, meðal hinna stærstu hér. ––Matti lítur þetta kannski öfundaraugum; ég er svo sem vanur slíkum viðhorfum hér á vefnum til kirkju og kristnihalds.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 10/02/15 17:39 #

Þetta var því mismunun sem var náskyld bæði trúarofsókn og Berufsverbot.

Jón Valur, fá múslímar og ásatrúarmenn styrki úr kirkjubyggingasjóði?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 10/02/15 17:39 #

Matti heldur enn áfram uppteknum ósið, að taka fremur afstöðu með múslimum en kristnum

Ég tek nákvæmlega sömu afstöðu gegn báðum.

Hann segir 800 fermetra "ekki mikið" fyrir múslimasöfnuðinn

Ég segi 800 fermetra ekki mikið i sjálfu sér. Íbúðarhúsnæði mitt er t.d. um þriðjungur af þessu.

Matti lítur þetta kannski öfundaraugum;

Öfundaraugum! Því fer fjarri.

Jón Valur, þú verður að hætta að rembast svona við að gera mér upp skoðanir. Það er svo barnalegt þegar þú gerir það.


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 10/02/15 17:39 #

Þetta var því mismunun sem var náskyld bæði trúarofsókn og Berufsverbot.

En ekki dæmi um þær "árásir" sem ég velti fyrir mér í pistlinum. Það gengur einfaldlega ekki upp að fyrirbæri sem er til eingöngu til þess að gefa kirkjum peninga sé hluti af árásum sem eiga að jaðarsetja kirkjuna og kristni og útrýma kristni úr almannarými. Þess þá heldur er kirkjusjóður sambærilegur við þær ofsóknir og ofbeldi.

Þú hengur í einhverri trúarpólitík innan kristni sem er einfaldlega ekki það sem prestarnir og aðrir varðhundar eru að tala um.


Jón Valur Jensson - 10/02/15 19:47 #

Kirkjubyggingasjóður er til bygginga á kirkjum, ekki hofum eða moskum eða pagóðum. En þegar kirkju Friðriks einni sér var mismunað vegna viðhorfa hans, sem vinstri mönnum borgarráði féllu ekki í geð, þá var það dæmi um ranglát og fordómafull afskipti af kirkjumálum.

Þótt Matti búi í víðáttustóru húsnæði, breytir að því ekki, að 800 fm moska með 9 metra turn er mjög stórt fyrirtæki fyrir 481 mann að kosta og reisa.

Matti sniðgengur jafnan spurninguna um það, hvaðan múslimarnir ætli að fá peninga til að fjármagna þetta. Hefur hann ekki heyrt, að Sverrir Agnarsson hefur opnað á glufu fyrir því að þiggja fé erlendis frá? Hefur Matti engar áhyggjur af því, að þetta verði fjármagnað af harðlínu-wahhabítum? Telur hann kannski þörf á þeim í trúarflóruna hér?


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 10/02/15 19:54 #

Kirkjubyggingasjóður er til bygginga á kirkjum, ekki hofum eða moskum eða pagóðum.

Það er sem sagt til sérstakur sjóður hjá Reykjavíkurborg fyrir kristnar kirkjur og Reykjavíkurborg ákveður að gefa ekki einhverri ákveðinni kirkju pening úr þessum sjóði.

Þetta vill Jón Valur flokka sem "trúarofsóknir".


Jón Valur Jensson - 10/02/15 19:57 #

Tal Matta um álit lögfræðinga hefur ekkert upp á sig. Það hefur engin könnun verið gerð á áliti þeirra, og ef þeir álíta aðra en kirkjur geta fengið fríar lóðir hjá sveitarfélögum, þá er eitt víst, að það er ekki samkvæmt lagabókstafnum, heldur þvert gegn honum. Borgarfulltrúar hafa ekki leyfi til að kasta peningum borgarbúa út um gluggann eða eyða í það, sem ekki er heimild fyrir. Fullyrðingin um mismunun ella er í ósamræmi við þá staðreynd, að stjórnarskráin leyfir mismunun.

Þar fyrir utan ber kristindómurinn af islam, og yfir 324.000 manns á landinu eru ekki múslimar! Margir hafa bent á, að sennilega er ekki rétt að viðurkenna opinberlega múslimasöfnuði (og gefa þeim um leið viss forréttindi) sem boða ósiðlega hluti og þá sem ganga gegn allsherjarreglu.


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 10/02/15 20:01 #

Ég skrifaði um þessa ákvörðun varðandi Kristskirkjuá sínum tíma og þau skrif birtust hér á Vantrú: http://www.vantru.is/2011/09/12/12.00/

Þetta er bara engan vegin dæmi sem styður þitt mál, Jón Valur.

Og af hverju ertu að röfla þessi ósköp um múslima? Hvernig kemur það efni greinarinnar við?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 10/02/15 21:02 #

Tal Matta um álit lögfræðinga hefur ekkert upp á sig.

Nú er ég alveg ringlaður, hvað sagði ég?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.