Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Guðfræðilegur ómöguleiki ríkiskirkjunnar

Mynd sem blandar merki ríkiskirkjunnar og litum Framsóknarflokksins

Nú á dögunum ákvað borgarstjórnarflokkur Framsóknar og flugvallarvina að tilnefna einstakling sem vill mismuna fólki eftir trúarskoðunum í Mannréttindaráð borgarinnar. Borgarfulltrúum flokksins var vel kunnugt um skoðanir Gústafs Níelssonar á trúmálum og vísuðu með velþóknun til skrifa hans gegn trúfrelsi múslima hér á landi þegar þeir voru spurðir út í tilnefningu hans.

En svo kom í ljós að Gústaf vill ekki bara mismuna fólki vegna trúarskoðana heldur líka vegna kynhneigðar. Þrátt fyrir að þekkja til skrifa Gústafs um múslima virtust borgarfulltrúarnir ekki kunna að gúgla sér til gagns, því að það er ekkert hernaðarleyndarmál hvaða skoðanir hann hefur á réttindum samkynhneigðra. Framsóknarflokkurinn játaði á sig „mistök“ og Gústaf verður skipt út við næsta tækifæri. Væntanlega liggja þær Sveinbjörg og Guðfinna sveittar yfir gúgúl til að finna fulltrúa sem vill bara mismuna eftir trúarskoðunum, engu öðru.

En Gústaf Níelsson situr fastur við sinn keip og lýsir hjónaböndum samkynhneigðra sem guðfræðilegum ómöguleika. Nú ætla ég ekki að dæma um hvað gengur upp og hvað gengur ekki upp innan guðfræðinnar en ég verð að viðurkenna að mér finnst svolítið skrýtið að látið er eins og Gústaf sé einhverskonar hrópandi í eyðimörkinni þegar kemur að þessari skoðun. Það er eins og fólk hafi gleymt því að í öllum þeim tilfellum þar sem auka hefur átt réttindi samkynhneigðra hefur Gústaf Níelsson átt sér sterkan bandamann í ríkiskirkjunni.

Skemmst er að minnast orða fyrrverandi biskups um hjónabönd samkynhneigðra og öskuhauga sögunnar en það er líka vert að rifja það upp að aldrei fékkst meirihluti fyrir því á kirkjuþingum að kirkjan styddi hjónabönd samkynhneigðra. Það var ekki fyrr en alþingi tók loksins af skarið sem að kirkjan reyndi að eigna sér baráttuna fyrir þessum réttindum. Og svo má einnig skoða þessa yfirlýsingu hér(sem er merkilegt nokk eitt af því sem Framsóknarfólk í borginni hefði fundið með lágmarksgúgli), en í henni segir m.a.:

Um leið hörmum við það fráhvarf frá kristnum siðferðisgildum sem ríkistjórn Íslands sýnir með frumvarpi til laga um réttarstöðu samkynhneigðra. Frá því að þjóðin gerðist kristin, hefur hún haft fyrrnefnd siðferðisgildi sem grundvallarviðmiðun í löggjöf landsins. Að lögleiða aðra skipan er fráhvarf frá skíru og kláru boði Heilagrar ritningar og í andstöðu við siðfræði kristinnar kirkju í heild sinni.

Með tilvísun til þeirra greina frumvarpsins sem fjalla um ættleiðingar barna til para í staðfestri samvist og tæknifrjóvgun hjá konum í staðfestri samvist, þá teljum við í ljósi kristinnar grundvallarafstöðu okkar hvort tveggja vera fráleitt. Við teljum að réttur barna sé skertur með nefndu frumvarpi og samband barns við föður og móður ekki virt. Við minnum á að samkvæmt upphafsgrein Barnalaganna, nr. 76/2003, á barn rétt á að þekkja báða foreldra sína.

Breytingartillögu við frumvarpið, sem felur í sér heimild forstöðumanna trúfélaga til hjúskaparvígslu tveggja einstaklinga af sama kyni, teljum við fráleita og höfnum henni alfarið. Rök okkar eru þau sömu og áður: Hin boðaða löggjöf fer þvert gegn kristinni kenningu um hjónabandið og samband foreldra og barns.

Á meðal þeirra sem skrifa undir þessa yfirlýsingu ásamt Gústaf eru fimm núverandi eða fyrrverandi prestar ríkiskirkjunnar auk ýmissa annara sem barist hafa hart gegn hverskyns réttarbótum til þeirra sem falla ekki inn í þeirra eigið norm.

Miðað við umræðu síðustu daga mætti ætla að skoðanir Gústafs á réttindum samkynhneigðra séu einhverskonar frávik sem fáir taka undir. Staðreyndin er hinsvegar sú að skoðanir Gústafs eru mjög hefðbundnar innan kristinna trúfélaga á Íslandi. Og þá er ríkiskirkjan síst undanskilin.

Egill Óskarsson 29.01.2015
Flokkað undir: ( Ríkiskirkjan , Stjórnmál og trú )