Sóknargjaldafrekja ríkiskirkjunnar
Undanfarið hafa stjórnendur ríkiskirkjunnar kvartað undan niðurskurði á sóknargjöldum. Þeim finnst hækkunin sem var samþykkt á síðustu fjárlögum ekki nægja, heldur heimta þau meiri pening frá ríkinu. Staðreyndir málsins eru þær að sóknargjöld höfðu hækkað gríðarlega fyrir hrun. Alþingi ræður algerlega upphæð sóknargjalda og má lækka þau með lagabreytingum eins og það vill. Það er því engin ástæða til þess að hækka þessi framlög.
Ofgreiddu sóknargjöldin
Eftirfarandi tafla byggir á tölum frá fjármálaráðuneytinu og sýnir hvað ríkið hefur borgað trúfélögum á ári í sóknargjöld fyrir hvern skráðan meðlim:
Frá 1988 til 2008 höfðu sóknargjöld hækkað gífurlega, um 42%, að raungildi. Ef árið 1988 er notað sem viðmið þá hefur ríkiskirkjan í raun fengið meira en þrjú ár aukalega. Ef það á að stunda einhverjar “leiðréttingar" vegna sóknargjalda, þá ætti Þjóðkirkjan því frekar að greiða eitthvað af því til baka.
Helstu rök kirkjunnar fyrir “leiðréttingu" eru þau að frá hruni hafi sóknargjöld verið meira skorin niður heldur en önnur framlög til annarra ríkisstofnana innanríkisráðuneytisins. En höfðu hin framlögin líka hækkað um nánast helming á síðustu tveimur áratugum fyrir hrun?
Að fara eftir lögum
Kirkjan heldur því líka fram að með því að biðja um hækkun séu þau bara að biðja um að “lögin gildi, að það sé farið að lögum og reglum í þessu landi", svo vitnað sé í Agnesi biskup.
Sóknargjöld eru vissulega ákveðin með sérstökum lögum og þar er regla sem segir hvernig upphæð sóknargjalda eigi að breytast á ári hverju. Agnes og kirkjunnar menn eru alltaf að vísa í þá reglu.
En þegar Alþingi sker sóknargjöldin niður, þá breytir Alþingi lögunum og bætir við ákvæðum þar sem upphæð sóknargjalda hvers árs er beinlínis ákveðin. Í núverandi lögum má sjá þessi ákvæði sem segja að þrátt fyrir fyrrnefnda reglu, þá verða sóknargjöldin það árið einhver önnur upphæð.
Talsmenn ríkiskirkjunnar eru ekki að biðja um “að það sé farið að lögum og reglum í þessu landi", heldur eru þau að biðja Alþingi um að hætta að breyta lögunum: Þau eru að biðja Alþingi um að hætta að skera niður sóknargjöld, en klæða það í villandi tal um löghlýðni.
Lausn á vandanum
Alþingi má breyta lögum og lækka sóknargjöld eins mikið og það vill. Ríkiskirkjan á því ekki neinn rétt á því að sóknargjöld séu ekki skorin niður og tölurnar benda ekki till þess að niðurskurðurinn sé á nokkurn hátt ósanngjarn. Réttast væri auðvitað að leggja sóknargjöld algerlega niður og leyfa trúfélögum að fjármagna sig sjálf.
Og ef Þjóðkirkjunni vantar pening, hvers vegna rukka þau þá ekki bara félagsmenn sína? Þannig fjármagna frjáls félagasamtök sig almennt og alltaf hamra kirkjunnar menn á því að Þjóðkirkjan sé frjáls og sjálfstæð. Ef þau vilja endilega aðstoð ríkisins við að innheimta félagsgjöld þá geta þau beðið um að tekinn verði upp nefskattur á félagsmenn kirkjunnar. Af hverju gerir kirkjan ekki það í staðinn fyrir að heimta sífellt meiri pening frá ríkinu?
Matti (meðlimur í Vantrú) - 18/01/15 15:19 #
Þegar útgjöld ríkissjóðs til kirkjunnar eru borin saman við aðrar ríkisstofnanir er einnig mikilvægt að skoða fjölda skjólstæðinga.
Meðlimum ríkiskirkjunnar hefur ekki fjölgað síðustu ár en viðskiptavinum annarra stofnana hefur nær undantekningarlaust fjölgað.