Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Að hafna lækningu vegna trúar

Mynd af fólki að gefa blóð

Stöku sinnum skýtur upp kollinum umræða um þá afstöðu ákveðinnar trúarhreyfingar að meðlimir hennar eigi að neita að þiggja blóðgjöf þó lífið liggi bókstaflega við. Hreyfingin treystir þannig á æðri máttarvöld, mikilvægi þess að fylgja (mögulega misskildum) boðum trúarinnar og lætur vísindi lönd og leið. Þetta verður til þess að einstaklingar deyja að óþörfu, jafnvel börn sem aldrei hafa valið sér viðkomandi trúarkenningar.

Valkostur eða ekki

Það velur sér enginn að verða veikur og gott heilbrigðiskerfi eykur lífslíkur og lífsgæði – og ef þau rök duga ekki til, þá skilar það líka aukinni hagsæld. Þeir sem verða veikir eiga einfaldlega ekki þann valkost að lifa án heilbrigðisþjónustu. Þannig er nokkuð augljóst að mínu viti að við eigum að nota sameiginlega sjóði til að tryggja boðlega heilbrigðisþjónustu.

Starfsemi trúfélaga er svo aftur eitthvað sem er einkamál hvers og eins – það er jú valkostur hvers og eins að tilheyra trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi. Enginn neyðist til þess að vera meðlimur í trúfélagi og það er vel hægt að lifa góðu lífi án þess. Þannig er jafn augljóst að engin ástæða er til að reka trúfélög úr sameiginlegum sjóðum.

Virkar eða ekki

Heilbrigðiskerfið byggir á vísindum, þar eru notaðar aðferðir sem búið er að sanna að virka, auðvitað ekki fullkomnar, en stöðugt er unnið að því að bæta þær, með aðferðum vísindanna. Þarna eru aðferðir sem bjargað hafa lífi óteljandi einstaklinga og bætt lífskjör enn fleiri. Þetta réttlætir fjárframlög úr sameiginlegum sjóðum.

Trúfélög byggja aftur á óstaðfestum hugmyndum og vangaveltum um yfirnáttúruleg öfl. Yfirnáttúru sem aldrei – ekki í eitt einasta sinn – hefur verið sýnt fram á að styðjist við staðreyndir hvað þá að grundvöllur hennar hafi verið sannaður. Enda þyrfti ekki „trú“ til ef hægt væri að sýna fram á að einhver fótur væri fyrir þessu. Það er auðvitað ekki hægt að réttlæta framlög úr sameiginlegum sjóðum fyrir þess háttar starfsemi. Þá nægir ekki að benda á ýmiss konar athafnaþjónustu til að réttlæta þetta, það er greitt sérstaklega fyrir hana.

Framlög í anda sértrúarsafnaðar

Mér er fyrirmunað að skilja hvers vegna við eyðum háum fjárhæðum úr sameiginlegum sjóðum í fyrirbæri sem enginn getur sýnt fram á að eigi sér nokkra stoð í raunveruleikanum. Og það á sama tíma og skorið er niður í lífsnauðsynlegum þáttum sem margoft hefur verið sýnt fram á að virka til að bæta lífskjör fólks.

Krafan um að hækka enn frekar framlög til trúmála á meðan heilbrigðiskerfinu „blæðir“ er nánast súrrealísk. Ríkisvald sem fer þannig með sameiginlega sjóði hagar sér þannig nákvæmlega eins og sértrúarsöfnuður sem fórnar mannslífum fyrir trúarkenningar.

Graf sem sýnir aðalatriði greinarinnar


Birtist upphaflega í Fréttablaðinu 2015-01-08
Upprunaleg mynd frá Smsantacasasp og birt með CC-leyfi

Valgarður Guðjónsson 15.01.2015
Flokkað undir: ( Vísindi og trú )

Viðbrögð


Guðjón Eyjólfsson - 15/01/15 13:14 #

Sæll Valgarður Það er þarft að vekja athygli á þessu, en af hverju í ósköpunum talar þú um afstöðu ákveðinnar trúarhreyfingar? Af hverju talar þú ekki um Votta Jehóva? Eru einhverjar aðrar trúarhreyfingar á íslandi sem eru á móti blóðgjöfum? Ef svo er er ástæða til þess að vekja athygli á því. Það er vissulega rétt hjá Dawkins að trúarhreyfingar eiga ekki að vera undanþegnar gagrýni ef þær aðhafast eitthvað sem er gagnrýnisvert. Það er hins vegar ekki sanngjart að gagrýna trúarbrögð almnennt fyrir trúarlega sérvisku sem er bunin við lítin minnihlutahóp.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 15/01/15 13:26 #

Vegna þess að ég er að taka dæmi um fráleita og stórhættulega stefnu þar sem trúin er beinlínis lífshættuleg.. hvað trúfélagið kallar sig er algert aukaatriði.

Punktuinn með greininni einmitt að bera þetta það hvernig ríkissjóður forgangsraðar. Þegar ríkissjóður setur almannafé í trúfélög á sama tíma og skorið er niður í heilbrigðiskerfinu þá eru afleiðingarnar þær sömu.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?