Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Sauðskinnsskór

Mynd af sauðskinnsskóm

Það er alltaf gaman að koma á forngripasöfn. Um mig hríslast iðulega leiðslukennd sæla þegar ég stend andspænis einhverju sem tilheyrði löngu látnu fólki, hvort sem það eru nytjahlutir, skrautmunir eða jafnvel líkamsleifar.

Ég átti bágt með mig síðast þegar ég kom við í Þjóðminjasafninu og skoðaði aldagamlar altaristöflur. Þrátt fyrir andúð mína á trúarruglinu öllu, ofríkinu og ranghugmyndunum fannst mér þessar töflur eitthvað svo krúttlegar og til vitnis um það þegar mannkynið var á bernskara stigi en það er nú. Mannsmyndirnar voru eitthvað svo skólakrakkalegar og sama andlitið á öllum, eins og teiknarinn kynni bara eina aðferð til að teikna andlit. Og maður hugsaði: "Einu sinni var mannkynið á þessu ófullkomna þroskastigi og var upptekið af þessu Jesúdóti öllu saman og alltaf að blanda honum inn í allar setningar sem komu út úr því - nei, bíddu, fólk er að þessu enn í dag!"

Já, hún slær mig alltaf sterkt, þessi vitneskja um að þessar miðaldir skuli enn vera á ráfi í hausum margra samborgara, þegar þær hafa birst mér aftan úr fortíðinni á söfnum. Þetta slær mig iðulega líkt og nútíminn færi að neyða okkur til að ganga á ný í sauðskinnsskóm og snæða úr aski með útskornum spón sem við geymum eins og gersemi í sérstöku hulstri. Eins kjút og fortíðin blasir við okkur svona á skjön við hið fullkomna nútímasamfélag, að okkur finnst, þá verður hún eins og hrollvekja þegar hennar sér stað í daglegu lífi okkar.

Sauðskinnsskór eru fallegir gripir, en ekki myndi ég kæra mig um að arka slabbið á vetrarkvöldum skæddur þeim. Þeir eru fínir á safninu, en hugsið ykkur ef það væri ríkisstofnun sem hefði það að hugsjón sinni að fá okkur til að ganga í þeim og hafna nútímaskóbúnaði, þá vekti þessi fótabúnaður óhug og hroll með okkur, einfaldlega af því að nú vitum við betur.

Og myndum við ekki mótmæla ef þessi ímyndaða ríkisstofnun heimtaði aðgang að skólabörnum, daglegu plássi í ríkisfjölmiðlunum og fengi mikið að dýrum og skreyttum húsakynnum til að boða þetta afturhvarf sitt? Myndi okkur ekki finnast að skattfé okkar væri betur varið í eitthvað gáfulegra?

Kristindómurinn er best geymdur á Þjóðminjasafninu. Eins ógnvænlegur og hann hefur verið gegnum aldirnar, með kúgun sína, dráp og ofsóknir, birtist hann okkur sem sætur, jafnvel kómískur eftirómur á gömlum altaristöflum. Sama má segja um sauðskinnsskóna. Þeir eru aðdáunarverðir í glerborði, en tilhugsunin um að þurfa að notast við þá allan ársins hring, jafnt í snjósköflum sem og fjallgöngum að sumri, er ömurleg og fær okkur til að kenna í brjósti um áa okkar sem ekkert áttu betra að fara í.

Birgir Baldursson 22.10.2014
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Árni Árnason - 21/11/14 15:12 #

Ég þekki vel þessa tilfinningu. Ég vil varðveita kristna sögu í þeim byggingum, gripum, tónlist og ritlist sem voru afsprengi og eða birtingarmynd kristninnar um aldir. Mér finnst alltaf rangt að forsmá fyrri tíðar fólk og afurðir þeirra vegna þess að þekkingin var bara ekki meiri en þetta. Þetta fólk sem í algerri einlægni lagði nótt við dag að skapa eitthvað, sem það hélt af innstu sannfæringu að væri raunverulegum guði þóknanlegt, hafði engar forsendur til annars en trúa því sem að þeim var haldið. Traustið á viturleik hinna menntuðu var algert.

Ég veit til dæmis fátt fallegra en sálminn:"Heyr himnasmiður" sem er eftir Kolbein Tumason aftan úr grárri forneskju. Einlæg vissan um almáttugan guð drýpur af hverju orði.

Á hinn bóginn vekja prestar nútímans manni velgju með mærðarlegri helgislepju sinni. Þeir eins og annað nútímafólk vita betur en að bera þessa þvælu á borð fyrir okkur. Verst er þó að við erum nauðbeygð til að borga þeim laun fyrir útbreiðslu bábiljanna. Kirkjur er hluti menningarsögunnar og ber að varðveita sem slíkar, en að byggja nýjar er alveg út í hött.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 09/12/14 23:59 #

Vel mæl, Árni. Ég er sammála þér um himnasmiðinn (og auðvitað prestana).

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?