Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Óskammfeilna trúboðsfélagið Gídeon

Barn með Nýja testamentið

Gídeonfélagið er trúboðsfélag. Þessu virðast sumir ekki átta sig á. Markmið félagsins er að „Ávinna menn og konur fyrir Drottinn Jesús Krist“. „Dreifing Heilagrar ritningar og einstakar hluta hennar er aðferð til að ná því marki“ segir mjög skilmerkilega á vefsíðu félagsins. Þegar Gídeonmenn mæta á staði og gefa bækur eru þeir að stunda trúboð. Og þá alveg sérstaklega þegar þeir leiða viðstadda í bæn. Sem trúboðar eru Gídeonmenn auðvitað óþreyttir við að koma sér inn á staði sem vænlegir eru til boðunar. Sérstaklega sækjast þeir í að fá að boða börnum trú sína án þess að foreldrar séu viðstaddir.

Reykjavíkurborg hefur sett sérstakar reglur um samskipti menntastofnana við trú- og lífsskoðunarfélög. Þessar reglur eru ekki flóknar. Trúar- og lífsskoðunarfélög eiga ekki að stunda starfsemi sína innan veggja menntastofnana borgarinnar. Sérstaklega er tekið fram að þetta eigi við allar heimsóknir í trúarlegum tilgangi og dreifingu á boðandi efni. Það er því morgunljóst að trúboðafélagið sem kennt er við Gídeon má ekki stunda þá trúarlegu starfsemi sína að boða trú með dreifingu trúarrita.

En Gídeonmenn eru eins og áður sagði staðfastir í trú sinni og fylgja því fast að ná markmiði sínu. Í síðustu viku kom í ljós að þeir báðu um að fá að mæta með trúboð sitt í Melaskóla í Reykjavík. Skólastjórinn brást ekki rétt við þessari beiðni ef miðað er við reglur borgarinnar því að hann bar erindi félagsins undir foreldra, en hefði átt að hafna því samstundis. Foreldrar barna í Melaskóla tóku reyndar ómakið af skólastjóranum og mótmæltu því að trúboðarnir kæmu í skólann.

Reglur borgarinnar hljóta að vera Gídeonfélaginu ljósar. Nógu mikið var þeim mótmælt úr þeirra röðum á sínum tíma, þó að þeir hafi ekki alltaf virst stoltir af því að tilheyra félaginu. Ekki geta þeir heldur falið tilgang sinn undir því yfirskyni að heimsóknin sé liður í fræðslu því að samkvæmt reglum borgarinnar eiga slíkar heimsóknir að vera á forsendum og af frumkvæði skólastjórnenda eða kennara, sem augljóslega var ekki tilfellið hér.

En kannski telja Gídeonmenn sig ekki þurfa að fara eftir reglum sem sveitarfélög setja um starfsemi skóla. Þeir hafa skýr markmið og þeir ætla sér að ná þeim. Réttur skóla, réttur foreldra og réttur barna fölnar við hliðina á heilögum markmiðum Gídeonfélagsins. Þeir ætla sér að stunda sitt trúboð í barnaskólum sama hvað hver segir.

Egill Óskarsson 07.10.2014
Flokkað undir: ( Gídeon , Skólinn )

Viðbrögð


Helgi - 12/10/14 19:13 #

Hvað er að því þó þeir fái stöku sinnum að koma inn í skólana? Hvers vegna að vera svo uppfullur af forræðishyggju og ofverndunartilburðum að setja sérstakar reglur um slíkt?


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 12/10/14 20:07 #

þetta hefur ekkert með forræðishyggju eða ofverndun að gera... þetta snýst um hvert hlutverk skólanna er, þeir eru jú, menntastofnanir og þess vegna á áróður trúfélaga ekkert erindi þangað - ekki frekar en td. hænsnaskítur í ísbúð, svo ég nefni dæmi af handahófi!


Helgi - 12/10/14 20:53 #

Telst kynning Gídeonfélagsins á nýja testamentinu ekki ákveðin fræðsla?


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 12/10/14 21:43 #

nei


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 12/10/14 22:10 #

þeas. "nei, þetta er engin fræðsla", þeir fræða nemendur ekkert umfram það sem kennarar í trúarbragðafræðum geta gert... þess vegna er þetta marklaust sem fræðsla


Helgi - 12/10/14 22:28 #

Þeir geta að vísu miðlað sinni reynslu af trúarbrögðum, það er að segja sinni eigin upplifun innan þess trúarsamfélags sem þeir tilheyra. Þar með eru þeir að miðla einhverju sem kennarinn hefur ekki tök á að miðla. Rétt eins og samkynhneigður maður sem segir frá sinni reynslu af samkynhneigð, sem gagnkynhneigður kennari gæti að sama skapi ekki.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 12/10/14 22:59 #

Þeir koma ekki til að miðla reynslu sinni, þeir koma ekki að beiðni kennara.. þeir koma til að reka áróður.

Þú vilt kannski hafa skólana opna fyrir hvern sem er að koma og reka áróður? Ég er að minnsta kosti ósammála.

Þessi grein snýst um að sýna fram á að Gideon er trúboðsfélag, það er verið að reyna að halda því fram að þeir stundi ekki trúboð í skólum.


Helgi - 12/10/14 23:07 #

Eru einhver skjalfest dæmi um áróður af þeirra hálfu innan skólanna?


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 13/10/14 08:23 #

Er þetta einhver grínspurning Helgi?


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 13/10/14 17:06 #

Já, það eru til fjölmörg dæmi um að Gídeon, trúboðsfélag sem boðar trú með bókagjöfum, stundi trúboð þegar félagið mætir í skóla til að gefa bækur.

Lestu greinina betur, það leynist í henni linkur á dæmi.


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 13/10/14 17:08 #

Og eins og fram kemur í greininni þá eru fræðsluheimsóknir leyfðar, en þær þurfa að vera á forsendum og af frumkvæði skólanna sjálfra, sem var ekki tilfellið hér.


Benni - 17/10/14 13:54 #

Það er ekki trúboð að gefa þeim sem eru kristnir Nýja Testamentið. Langflest grunnskólabörn eru kristin. Annað mál væri ef það væri að gefa rit annarra trúarbragða.Það kallast trúboð.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 17/10/14 14:26 #

Úff, ertu að reyna að vinna einhverja rökleysu verðlaunakeppni?

Það má gera ráð fyrir að 25%-70% prósent barna séu kristinnar trúar - allt eftir því við hvað þú miðar. Ég veit ekki hvað þú meinar með "langflest". Við erum að minnsta kosti sammála um að ekki öll börn eru kristin.

Ef þú telur það að dreifa trúarritum annarra sé trúboð vegna þess að hluti (stór, ekki stór, langflest, en ekki öll) barna séu kristin.

Þá leiðir beint af því að það að gefa hinum börnunum NT er líka trúboð.

Þannig er út frá þinni fullyrðingu búið að staðfesta að það að gefa börnum NT er trúboð!

Við erum svo ósammála um það að jafnvel þó öll börn væru kristin þá er það trúboð að mínu viti að mæta með trúboð í skólann. En það skiptir ekki máli. Staðfest er að ekki öll börn eru kristin. Þá er staðfest að heimsóknir Gideon eru trúboð.


Benni - 17/10/14 18:09 #

Furðulegar prósentutölur þetta hjá þér 25-70%. Svona 9 af hverjum tíu í bekk eru skírð til kristinnar trúar eða eru kristin. Allir kristnir eiga NT sameiginlegt,ekki bundið við þjóðkirkju þannig að þetta er ekki trúboð. Það er náttúrulega ekki hægt að rökræða við þig frekar en aðra bókstafstrúarmenn. Tel þig til bókstafstrúar án trúarbragða. Ef ég væri að gefa NT í bekk eða landi þar sem ekki væri kristin trú þá værum við að tala um trúboð sama ef múslimar hér færu að gefa kóranninn til kristinna barna. Flestir með þokkalega vitsmuni sem eru ekki í Vantrú skilja þetta þótt ég virði alveg þína skoðun eins og annarra ofstækismanna meðan þær valda ekki tjóni á samfélaginu. Það er umfram all sá boðskapur í NT sem hefur gert íslenskt samfélag að því sem það er hvort sem menn eru trúaðir eður ei. Sá boðskapur sem er þar hvort sem þér líkar betur eða verr þá er það staðreynd.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 17/10/14 18:25 #

Benni, ertu með einhverjar kannanir á trú skólabarna sem styðja þessar fullyrðingar þínar um að "langflest" barnanna séu kristinnar trúar?

Og Benni, ef þú vilt halda því áfram að kalla okkur "ofstækismenn" og "bókstafstrúaða", þá skaltu gjöra svo vel að fara eftir reglunum sem gilda hér um athugasemdir.


Benni - 17/10/14 20:01 #

Eru einhverjar kannanir á bakvið 25-70% hlutfall kristinna skólabarna á Íslandi?


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 18/10/14 00:13 #

Benni, ég hef ekki þær kannanir. Á hverju byggirðu þá fullyrðingu að "langflest" skólabarna séu kristin?

Eru 6 ára börn líka inn í þeirri tölu hjá þér? Eru flest þeirra kristin?


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 18/10/14 14:30 #

Félag sem hefur það að markmiði að boða trú með því að gefa bækur er bara víst að stunda trúboð þegar það fer á einhvern stað til þess að gefa bækur og leiða viðstadda í bæn. Hvaða trú verið er að boða eða hversu margir viðstaddir játa þá trú skiptir engu máli.

Réttur barna til þess að verða ekki fyrir trúboði í opinberum skólum, sem ég hélt að væri nokkuð óumdeildur, skerðist ekki við það að ákveðið margir séu af þeirri trú sem verið er að boða. Enda byggjast mannréttindi ekki á prósentum.


Benni - 18/10/14 14:50 #

Það er auðvitað ekki hægt að rökræða við aðila jafn blinda og forherta á að enginn hafi rétt fyrir sér nema þeir sjálfir. Ok það eru ákveðin réttindi að vera jafn njörvaður í ákveðið form. Það þarf ekki vísindamann til að gera könnun á því hve mörg börn í hverjum 6 ára bekk eru skírð barnaskírn eða eru í öðru kristnu trúfélagi. Það er bara dapurlegast að ákveðið minnihluta ofbeldi fær að vðgangast gagnvart meirihluta þjóðarinnar og meirihluta foreldra barna sem finnt ekkert athugavert að NT sé fært kristnum einstaklingum að gjöf enda ekki trúboð. NT er ekki þröngvað upp á neinn og frjálst er að afþakka.


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 18/10/14 15:14 #

Það er auðvitað ekki hægt að rökræða við aðila jafn blinda og forherta á að enginn hafi rétt fyrir sér nema þeir sjálfir.

Nei, ég kannast við þetta...

Það er bara dapurlegast að ákveðið minnihluta ofbeldi fær að vðgangast gagnvart meirihluta þjóðarinnar og meirihluta foreldra barna sem finnt ekkert athugavert að NT sé fært kristnum einstaklingum að gjöf enda ekki trúboð. NT er ekki þröngvað upp á neinn og frjálst er að afþakka.

Er það ofbeldi að Gídeonfélagið megi gefa öllum þeim börnum sem vilja NT nema í opinberum skólum? Þeir mega ganga hús úr húsi, þeir mega senda það í pósti, þeir mega bjóða fólki að sækja það í húsnæði Gídeon og þeir mega bjóða fólki að koma í kirkjur og sækja það. Það sem þeir mega ekki gera er að mæta með trúboð sitt (og það þarf ekkert að ræða það hvort að Gídeon sé trúboðsfélag, það er yfirlýst markmið félagsins, lestu bara greinina) inn í bekki í opinberum skólum. Getur verið að þú sért að gengisfella hugtakið 'ofbeldi' svolítið?

Og aftur, við metum réttindi fólks ekki útfrá meiri- eða minnihluta. LGBT fólk, litað fólk og fatlaðir eru t.d. í minnihluta á Íslandi. Við notum það samt ekki sem rök fyrir mismunun. Réttindi fólks byggjast einmitt á því að við gerum það ekki.

Í skýrslu sem unnin var fyrir borgina af samráðshóp sem í voru m.a. fulltrúar ríkiskirkjunnar og samskiptareglurnar byggja á kom skýrt fram að það á ekki að stilla börnum og foreldrum upp við vegg með því að neyða börn til þess að taka þátt í trúarlegu starfi í skólum eða að aðskilja þau frá barnahópnum á meðan slíkt starf fari fram. Það samrýmist reyndar nokkuð vel túlkun á sáttmálum sem Ísland er aðili að, eins og Mannréttindasáttmála Evrópu og Barnasáttmálanum. Með öðrum orðum: börn eiga ekki að þurfa að afþakka trúboð og þátttöku í annarri trúarlegri starfsemi í opinberum skólum. Það er einfaldlega réttur þeirra.

Það er ekkert því til fyrirstöðu að Gídeon gefi þeim börnum sem það vilja NT annarsstaðar en í skólum. Ekkert nema það að Gídeon vill hafa aðgang að öllum börnum, ekki bara þeim kristnu.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 18/10/14 21:26 #

Já, er ekki einfaldast fyrir Gideon að mæta í kirkju ef þeir vilja gefa kristnum börnum NT? Þá ná þeir til þeirra kristnu - og láta aðra í friði.


Jón Valur Jensson - 12/11/14 06:03 #

Stjórnarskráin tiltekur sérstaklega í 62. gr. vernd og stuðning við kristinn sið (í formi Þjóðkirkjunnar). Stjórnarskráin er ekki hlutlaus gagnvart trúargildum og mótstríðandi lífsskoðunum, heldur tekur afstöðu með kristni, rétt eins og inntak hennar er ekki heldur hlutlaust gagnvart pólitískum stefnum – þar er valinn stuðningur við lýðræðisfyrirkomulag og réttarríki, andstætt einræðisríkjum, gerræðisstjórn, "alþýðudómstólum", áníðslu mannréttinda og kynþáttastefnu.

Já, stjórnarskráin tekur afstöðu með kristni, og þar er frumatriði, að grunnheimild kristinnar trúar fái aðgang að öllum (nema þeim, sem ekki vilja eða nota sitt sjálfsagða foreldravald til að stýra þeim málum fyrir börn sín).

Þetta er líka það, sem bindandi námsskrá í kristnum fræðum gerir ráð fyrir: að börn í grunnskólum hafi aðgang að þessari frumheimild um Jesúm Krist og rit lærisveina hans. Ef Gídeonfélagið fær ekki að sinna þessu sjálfsagða hlutverki, með fórnfúsu gjafastarfi sínu, þá ættu skólayfirvöld sjálf að sjá um dreifingu þessa grunnrits kristindómsins til skólabarna.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 12/11/14 08:26 #

Nei Jón. Þú hefur einfaldlega rangt fyrir þér. Þessi krafa þín mun stangast á við allskyns alþjóðlegar samþykktir, sem og íslensk lög og reglur.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 12/11/14 09:40 #

...bindandi námsskrá í kristnum fræðum gerir ráð fyrir: að börn í grunnskólum hafi aðgang að þessari frumheimild...

Það er hægt að uppfylla með því að hafa eintök á bókasafni. Svo má ljósrita valda kafla handa blessuðum börnunum.

Það er engin þörf á gjöf Gídeon.


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 12/11/14 14:01 #

Þetta er líka það, sem bindandi námsskrá í kristnum fræðum gerir ráð fyrir: að börn í grunnskólum hafi aðgang að þessari frumheimild um Jesúm Krist og rit lærisveina hans.

Þetta er einfaldlega ekki rétt hjá þér. Hvergi í aðalnámskrá kemur fram að nemendur verði að hafa aðgang að frumheimildum. Þessu hefur ítrekað verið haldið fram af þeim sem ekki hafa lesið aðalnámskrá en verður ekkert réttara við endurtekninguna.

En eins og Matti bendir á þá þarf ekki trúboð Gídeon til þess að börn hafi aðgang að Nt. Ef kennarar vilja nýta það til kennslu geta þeir farið að því á sama hátt og með öll önnur námsgögn sem þeir vilja nota.

Þú ert líka úti að aka varðandi stjórnarskránna, hún tiltekur sérstaklega Þjóðkirkjuna. Það er Þjóððkirkjan sem á að styðja og vernda. Gídeonfélagið er ekki Þjóðkirkjan og þeir sem stjórna félaginu eru margir ekki einu sinni meðlimir í henni.


Guðjón - 12/11/14 15:24 #

Ég get ekki séð hvernig börn geta verið kristin. Þau hafa varla þær forsendur sem þarf til að taka upplýsta ákvörðun um kristni eða önnur trúarbrögð. Þau eru jú sjálfsagt flest skráð í eitthvert trúfélag en hafa nú líklega fæst fengið einhverju um það ráðið.


Jón Valur Jensson - 13/11/14 02:17 #

Merkilegt hve mikið þið hafið á móti því, að börn hafi aðgang að frumheimildinni! "Við hvað eruð þið hræddir?!" gætu menn spurt, en ég ætla sérstaklega að spyrja ykkur að þessu: Er það ekki almenn regla í öllum faggreinum að iðka fyrir upplýstri og gagnrýninni hugsun og rannsóknum og hindra því ekki aðgang að frumheimildum, þar sem menn geta á sjálfstæðari hátt en í gegnum fáein ljósrit (handvalin af kennara) séð og kannað texta í samhengi sínu (innan hvers rits og með samanburði við önnur rit í ritsafninu)?

Og síðan hvenær varð það goðgá að spara skólakerfinu peninga? Við hvað eruð þið hræddir þar? Að Gídeonfélagið fái svo miklar vinsældir út á gjöfina? Eða kannski hitt, að fallegur búningur ritsins í síðustu útgáfum þar og uppfærður textinn í átt til nútímamáls geri boðskap Jesú og postulanna aðgengilegri börnum og unglingum?

Og hver skyldi þá vera ástæða ótta ykkar við það?!

Svo á ég ýmsu hér enn ósvarað – það kemur með kalda vatninu (en ekki með þessum hræðilega vatnsskatti sem bandamenn ykkar, vinstri menn í Reykjavík, leggja á húseigendur!).


Guðjón - 13/11/14 09:19 #

"Að Gídeonfélagið fái svo miklar vinsældir út á gjöfina? Eða kannski hitt, að fallegur búningur ritsins í síðustu útgáfum þar og uppfærður textinn í átt til nútímamáls geri boðskap Jesú og postulanna aðgengilegri börnum og unglingum?"

Það ber nú kannski fjarlægð ykkar frá raunveruleikanum helst vitni að þið gerið ráð fyrir því að börn og unglingar hafi í raun áhuga á trúmálum. Ég leyfi mér að fullyrða að börnum gæti ekki verið meira sama um trúmál nema þá kannski þau grey sem eru alin upp í guðhræðslu. Almennt eru þau forvitin og velta þessu að sjálfsögðu fyrir sér en það á líka við um önnur málefni. Að gera þeim upp áhuga, og trúboðunum vinsældir, er broslegt.


Jón Valur Jensson - 13/11/14 12:31 #

Þetta er ekkert svar gegn ábendingu minni um, að fallegt Nýja testamenti á nútímamáli geti sannarlega vakið áhuga ... ekki endilega allra barna eða unglinga, en margra í hópnum. Það kemur ekkert í veg fyrir forvitni þeirra á öðrum sviðum, enda gengur kristin trú einna sízt út á obcúrantisma og vanþekkingu, þótt þetta síðastnefnda mætti þó halda af mörgu, sem þið skrifið á þessu vefsetri.

Að Nýja testamentið talar gegn því, að menn hylji sig í einhverri þröngsýni og vanþekkingarskýi (sem obscúrantismi gengur út á), kemur skýrt í ljós í ýmsum textum þar, dæmi:

1) Filippíbréf Páls postula 1.9: "Og þetta bið ég um, að elska yðar aukist ennþá meir og meir, með þekkingu og allri dómgreind, svo að þér getið metið rétt þá hluti, sem munur er á, til þess að þér séuð hreinir og ámælislausir til dags Krists, auðugir að réttlætis ávexti ..."

2) I. Korintubréf Páls, 14.20: "Bræður, verið ekki börn í dómgreind, heldur verið sem börn í elskunni (2007-þýð.: verið hrekklaus sem börn), en verið fullorðnir í dómgreind."

3) II. Pétursbréf, 1.5–7: "Leggið þess vegna alla stund á að sýna í trú ykkar dygð og í dygðinni þekkingu, í þekkingunni sjálfsaga, í sjálfsaganum þolgæði, í þolgæðinu guðrækni, í guðrækninni bróðurelsku og í bróðurelskunni kærleika."


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 13/11/14 12:49 #

Verst að páfar kaþólsku kirkjunnar skyldu ekki lesa þennan texta um þekkingu og dómgreind, Jón Valur.

Ég efast um að nokkur stofnun síðustu alda hafi staðið jafn fast og grimmilega gegn þekkingu og dómgreind og sú kaþólska.

PS. þetta snýst ekki um hræðslu heldur vörn gegn frekju og yfirgangi.


Jón Valur Jensson - 13/11/14 13:28 #

Ekki kemur það mér á óvart, að Valgeir Guðjónsson opinberi hér megna vanþekkingu á menningar- og menntunar-hlutverki kaþólsku kirkjunnar nú sem fyrrum, en þakka má henni stofnun flestra háskóla í Evrópu framan af öldum.

Í þessum tengli: http://cara.georgetown.edu/caraservices/requestedchurchstats.html, getur Valgeir kynnt sér þá steðreynd, að kaþólska kirkjan – nú með 1.229 milljónir meðlima á heimsvísu – rekur á þessu ári 95.246 grunnskóla (Catholic elementary schools) með 32,3 milljónum nemenda, ennfremur 43.783 framhaldsskóla (secondary schools) með 13.713.000 nemendum.

Í Bandaríkjunum einum saman rekur kaþólska kirkjan 225 mennta- og háskóla (colleges and universities) með 787.574 nemendum (tölurnar eru frá þessu ári). Þið getið líka smellt á nafn mitt efst í þessu innleggi til að lesa fleira fróðlegt um kaþólsku kirkjuna.


Jón Valur Jensson - 13/11/14 14:04 #

Í síðasta innleggi mínu lislas ég fjölda nemanda í kaþólskum framhaldsskólum í heiminum (students in Catholic secondary schools). Fjöldinn er ekki rúmar 13,7 milljónir (það er árlegur fjöldi skírna þar, á börnum allt að 7 ára aldri), heldur hátt í 19 milljónir: 18.869.000. Vonandi er Valgeir ánægður!


Jón Valur Jensson - 13/11/14 14:06 #

... mislas ég ...


Óalfur H Ólafsson - 13/11/14 14:16 #

Sæl öll.

Ég get tekið undir margt gott sem þið látið frá ykkur fara, enn ef þessi umræða fjallar um hvað við ( þú) viljum þá ætla ég að benda þér á að Sveitarfélög ganga gegn stjórnarskránni með því að styðja ekki við Kirkjuna og Kristinn gildi. Svo einfallt er að nú í dag samkvæmt lögum. Skiljanlega eru þið á móti því að boða Kristinn gildi í skólum en þið verðið að sætta ykkur við að það er leyfilegt samkvæmt stjórnarskránni. Þegar henni hefur verið BREYTT sem ekki hefur verið gert verðið þið bara að sætta ykkur við lögin.

62. gr. Stjórnarskrá Íslenska lýðveldisins.
"Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda"

Það er miklu betra að snúa sér að vandamálinu sjálfu og þeim sem bera ábyrgð samkvæmt lögum Íslenska Ríkisins, en að ráðast gegn litlum samtökum Kristins hóps sem vinna lagalega samkvæmt stjórnarskránni. Þangað til breytingin á Stjórnarskránni á sér stað verðum við að sætta okkur við að um 90% þjóðarinnar er í Kristnum söfnuðum og stjórnmálamenn sem við kusum í meirihluta kosningu eru ekki tilbúnir að breyta þessu.

Kveðja Ólafur H


Matti (meðlimur í Vantrú) - 13/11/14 14:25 #

Sæll Ólafur,

eins og Egill benti á hér fyrir ofan, þá á þetta stjórnarskrárákvæði við tiltekið félag, ÞJóðkirkjuna, en ekki kristni almennt. Gídeon getur því ekki notað þetta til að réttlæta sitt starf.

Jón Valur veður úr einu í annað. Það kemur ekki á óvart. Skrítið að hann ráfi hingað inn þessa dagana.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 13/11/14 20:35 #

Jón Valur, þú mislast líka nafnið mitt, ég heiti Valgarður ekki Valgeir..

Ekki svo að skilja að ég sé sár, en það er kannski til merkis um flumbruganginn í þér að geta ekki haft einföldustu atriði í lagi.

Það að kirkjan reki skóla (hvers vegna skyldi það nú vera?) breytir engu um hegðun hennar gegnum tíðina gagnvart upplýsingum.

Þú mátt gjarnan spara okkur báðum tíma og sleppa því að þykjast ekkert vita - eða fara að tala um eitthvað allt annað.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 14/11/14 14:47 #

Jón Valur, svo að ég skipti algerlega um umræðuefni: Ættu skólar að gefa börnum lesefni þar sem hvatt er til ofbeldis gegn börnum?


Jón Valur Jensson - 15/11/14 02:36 #

Svarið er nei, Hjalti Rúnar, en ég sé fiskinn sem liggur undir þínum steini. Komdu bara ekki með rangtúlkanir ykkar einu sinni enn á Nýja testamentinu.

Valgarður, sem ég bið að afsaka að hafa farið rangt með nafn hans, eyðir ekki tíma í mínar röksemdir hér. Fyrstu tvær litlu setningarnar hans snerta þær röksemdir ekki á neinn hátt. Í þriðju setningunni af fjórum svarar hann yfirlætislega um skólamálin og þekkir trúlega sáralítið ef nokkuð til þeirra –– eða þykist hann geta gert lítið út fagmennsku, gæðum og samkeppnisstöðu kaþólskra háskóla, t.d. í Bandaríkjunum? –– og lokasetning hans fellur svo undir það sem skilgreina mætti sem gagnsleysu.

Valgarður hefur í raun ekki tekizt á við nein af rökum mínum.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 15/11/14 15:00 #

Ég bendi þér einfaldlega á að hvað svo sem kaþólska kirkjan hefur gert í skólamálum þá breytir það engu um hvernig hún hunsaði upplýsingar og staðreyndir og hélt fram bábiljum og staðlausum stöfum öldum saman - og gerir enn.

Þess vegna breytir engu þó þú hafir fundið 3-4 setningar sem eru jákvæðar um þekkingu.. það telur ekki mikið í heildinni sem elur á fáfræði og dómgreindarskorti.

Ef þú vilt virkilega gefa börnum bækur til að örva þekkingu og dómgreind þá NT ekki orfarlega á lista.. kemur auðvitað ekki til greina.


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 18/11/14 12:37 #

Merkilegt hve mikið þið hafið á móti því, að börn hafi aðgang að frumheimildinni! "Við hvað eruð þið hræddir?!" gætu menn spurt, en ég ætla sérstaklega að spyrja ykkur að þessu: Er það ekki almenn regla í öllum faggreinum að iðka fyrir upplýstri og gagnrýninni hugsun og rannsóknum og hindra því ekki aðgang að frumheimildum, þar sem menn geta á sjálfstæðari hátt en í gegnum fáein ljósrit (handvalin af kennara) séð og kannað texta í samhengi sínu (innan hvers rits og með samanburði við önnur rit í ritsafninu)?

Það hefur engin neitt á móti því að nemendur hafi aðgang að frumheimildinni. Lestu það sem við skrifum í stað þess að svara einhverju allt öðru. Við erum hinsvegar talsvert á móti því að trúboðsfélag fái að stunda trúboð innan skólakerfisins.

Hvað varðar frumheimildir annars þá er það nú þannig að almennt er ekki notast við þær í öllu námsefni grunnskóla. Þannig eru nemendum ekki afhent eintök af öllum þeim fjölda skáldsagna og ljóðabóka sem þeir lesa sýnishorn af í sýnisbókum í bókmenntum. Enda væri það líklega ógerningur. Hinsvegar geta nemendur í flestum tilfellum, ef þeir það kjósa, skoðað þessar bækur á bókasöfnum skóla.

En það er ágætt að þú ert búinn að bakka með það að gerð sé krafa um aðgang að Nt sem frumheimild í aðalnámskrá.

Og síðan hvenær varð það goðgá að spara skólakerfinu peninga? Við hvað eruð þið hræddir þar? Að Gídeonfélagið fái svo miklar vinsældir út á gjöfina? Eða kannski hitt, að fallegur búningur ritsins í síðustu útgáfum þar og uppfærður textinn í átt til nútímamáls geri boðskap Jesú og postulanna aðgengilegri börnum og unglingum?

Það er engin goðgá að spara skólakerfinu peninga. En það er einfaldlega ekki verið að spara skólakerfinu neina peninga því að það þarf ekki hver einasti nemandi hvers einasta árgangs að fá sitt eigið Nt.

En við erum ekki hræddir við neitt. Ætlar þú í alvörunni að gera þér upp fáfræði um það af hverju við erum á móti trúboði í opinberum skólum?


Jón Valur Jensson - 27/01/16 15:52 #

Gídeonmenn hafa aldrei tekið krónu, ekki einseyring, fyrir að koma í skólana í u.þ.b. 60 ár, allt þeirra starf er unnið í sjálfboðavinnu! Það er annað en Samtökin 78, sem eru farin að senda predikara síns meinta "fagnaðarerindis" inn í skólana í a.m.k. fimm stórum sveitarfélögum til að heilaþvo börn um "hinseginmál", en taka jafnvel launagreiðslur fyrir!!!

Þið eruð gersamlega blindir, Vantrúarmenn, að sjá þetta ekki.

Eigum við ekki að enda þetta á því að segja, að bandaríska avant garde-ljóðskáldið E.E. Cummings sendi ykkur þessa kveðju Guðs og sína:

      when any mortal(even the most odd) 
      can justify the ways of man to God 
      i'll think it strange that normal mortals can     
      not justify the ways of God to man.

Jón Valur Jensson - 27/01/16 15:56 #

Gídeonmenn hafa aldrei tekið krónu, ekki einseyring, fyrir að koma í skólana í u.þ.b. 60 ár, allt þeirra starf er unnið í sjálfboðavinnu! Það er annað en Samtökin 78, sem eru farin að senda predikara síns meinta "fagnaðarerindis" inn í skólana í a.m.k. fimm stórum sveitarfélögum til að heilaþvo börn um "hinseginmál", en taka jafnvel launagreiðslur fyrir!!!

Þið eruð gersamlega blindir, Vantrúarmenn, að sjá þetta ekki.

Eigum við ekki að enda þetta á því að segja, að bandaríska avant garde-ljóðskáldið E.E. Cummings sendi ykkur þessa kveðju Guðs og sína:

when any mortal(even the most odd)

can justify the ways of man to God

i'll think it strange that normal mortals can

not justify the ways of God to man.


Jón Valur Jensson - 27/01/16 15:58 #

Gídeonmenn hafa aldrei tekið krónu, ekki einseyring, fyrir að koma í skólana í u.þ.b. 60 ár, allt þeirra starf er unnið í sjálfboðavinnu! Það er annað en Samtökin 78, sem eru farin að senda predikara síns meinta "fagnaðarerindis" inn í skólana í a.m.k. fimm stórum sveitarfélögum til að heilaþvo börn um "hinseginmál", en taka jafnvel launagreiðslur fyrir!!!

Þið eruð gersamlega blindir, Vantrúarmenn, að sjá þetta ekki.


Jón Valur Jensson - 27/01/16 16:00 #

Gídeonmenn hafa aldrei tekið krónu, ekki einseyring, fyrir að koma í skólana í u.þ.b. 60 ár, allt þeirra starf er unnið í sjálfboðavinnu! Það er annað en Samtökin 78, sem eru farin að senda predikara síns meinta "fagnaðarerindis" inn í skólana í a.m.k. fimm stórum sveitarfélögum til að heilaþvo börn um "hinseginmál", en taka jafnvel launagreiðslur fyrir!!!

Þið eruð gersamlega blindir, Vantrúarmenn, að sjá þetta ekki.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 11/06/16 21:05 #

Það breytir engu um siðleysi þess sem Gídeon stendur fyrir þó þeir geri þetta í sjálfboðavinnu. Sýnir eiginlega enn betur hvað þetta eru siðlausir menn!

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.