Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Af hverju ekki nefskattur?

Mynd af peningum

Í desember 2013 skipaði innanríkisráðherra starfshóp sem hafði það verkefni að endurskoða fjárhagsleg samskipti ríkis og Þjóðkirkjunnar og safnaða hennar. Sá sem hér ritar hefði haldið að slíkur hópur myndi taka tillit til athugasemda Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, sem í úttekt sinni á stöðu mannréttinda á Íslandi árið 2012 gerði athugasemd við fyrirkomulag sóknargjalda á Íslandi.

Nefndin taldi að íslensk stjórnvöld ættu ekki að leggja sóknargjöld á alla þegna óháð því hvort þeir séu skráðir í trúfélag eða kjósi að standa utan þeirra. Í dag eru sóknargjöld ekki innheimt sérstaklega heldur litið svo á að þau séu hluti af almennum tekjuskatti, en álagning tekjuskatts er alveg óháð trúfélagaaðild.

Því kemur á óvart að í frétt á heimasíðu innanríkisráðuneytis frá 5.9. um tillögur starfshópsins kemur ekkert fram um hugsanlegar breytingar á þessu kerfi. Einungis er talað um að hækka þurfi þær upphæðir sem renna úr ríkissjóði til skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga, til að leiðrétta fyrir skerðingu þessara gjalda til jafns við aðra aðila „sem byggja rekstur sinn á framlögum af fjárlögum“. Í frétt á heimasíðu Þjóðkirkjunnar má lesa meira um vinnu starfshópsins, en þar stendur: „Starfshópurinn telur að það fyrirkomulag sem kveðið er á um í gildandi lögum um sóknargjöld hafi staðist tímans tönn. Það sé farsælt bæði fyrir ríki og kirkju þar sem það skapi stöðugleika í fjármögnun sókna og sé einfalt í framkvæmd.“

Hvernig það geti talist hagstætt fyrir ríkið að þurfa að greiða sóknargjöld til Þjóðkirkjunnar og fjölda misgáfulegra trúfélaga úr ríkissjóði er erfitt að sjá. Eðlilegra væri að trúfélög, líkt og önnur félög sem vilja kalla sig sjálfstætt starfandi félög, innheimti sín félagsgjöld sjálf, en fái þau ekki greidd úr ríkissjóði. Ef hins vegar ríkið og trúfélög vilja að ríkið annist innheimtu sóknargjalda ætti ríkið að innheimta slík gjöld sem nefskatt á þá sem skráðir eru í trúfélög, en ekki líta svo á að sóknargjöld séu innifalin í almennri skattheimtu á alla þegna, líkt og hver önnur ríkisrekin þjónusta.


Birtist upphaflega í Fréttablaðinu

Einar Karl Friðriksson 15.09.2014
Flokkað undir: ( Aðsend grein , Sóknargjöld )

Viðbrögð


Einar Karl Friðriksson - 15/09/14 10:10 #

Nefskattur er auðvitað ekki eina lausnin. Aðalmálið er að skattleggja ekki þá sem ekki eru skráðir í þessi félög sem fá sóknargjöld.

Í Svíþjóð sér ríkið enn um að innheimta sóknargjöld, fyrir viss viðurkennd trúfélög. En sænska ríkið innheimtir EKKI þetta gjald af þeim sem ekki eru í slíku trúfélagi. Sóknargjaldið sænska er hins vegar ekki nefskattur, heldur viss prósenta af útsvarsstofni. Sóknargjaldið er ekki einhliða ákvarðað af ríkinu, heldur hefur hver og ein sókn nokkuð um það að segja.

http://www.svenskakyrkan.se/655252

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.