Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þingmaður Sjálfstæðisflokksins vill trúboð í skólum

Mynd af skólastofu

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, skrifaði grein sem birtist í Morgunblaðinu nýlega. Greinin var um þá gríðarlegu árás á kristinn sið og þjóðmenningu í landinu að dagskrárgerðaryfirvöld Rásar eitt höfðu ákveðið að fella niður morgunbænir og Orð kvöldsins en bæta þess í stað klukkutíma löngum kristilegum þætti á dagskrá stöðvarinnar einu sinni í viku. Þessari árás var á endanum hrundið þegar biskup ríkiskirkjunnar fann símann sinn og hringdi í útvarpsstjóra.

Grein Ásmundar er merkileg. Í henni kemur nefnilega fram að Ásmundi þykir trúboð hinn eðlilegasti hlutur í opinberum skólum:

Heimsóknir presta í skólana voru bannaðar og Gideonfélaginu var bannað að gefa skólabörnum Nýja testamentið eins og það hafði gert til margra ára. Þessi góður siður Gideonfélaga hefur treyst kristna trú í landinu og gefið börnum og unglingum tækifæri til að kynnast góðum kristnum gildum sem ekki er vanþörf á í samfélagi dagsins í dag.

Þarna er ekkert verið að reyna að fela það að Gideon gefi Nýja testamentið til þess að „treysta kristna trú í landinu“. Að ákveðnu leyti er það virðingarvert að Ásmundur tali hreint út. Það hefur nefnilega verið svolítið erfitt að fá þá sem berjast fyrir trúboðinu í skólum til að viðurkenna að um trúboð sé að ræða.

En það er reyndar alveg skiljanlegt. Flestir gera sér nefnilega grein fyrir því að trúboð í opinberum skólum er ekki bara óæskilegt heldur hreinlega óleyfilegt. Trúboð og önnur mismunun á grundvelli trúarbragða í skólum er einfaldlega ekki í boði. Um það vitna alþjóðlegir mannréttindasáttmálar sem Ísland er aðili að. Í grein sinni grípur Ásmundur til hinna margþekktu meirihlutaraka. Af því að meirihluti Íslendinga séu skráðir í kristin trúfélög þá hljóti að mega boða trú í skólum.

Þarna sýnir einstaklingur sem situr á löggjafarþingi Íslendinga algjöran grundvallarmisskilning á eðli mannréttinda. Hann er reyndar ekki fyrsti þingmaðurinn, og alveg örugglega ekki sá síðasti, sem virðist ekki átta sig á því að mannréttindi eru ekki bundinn við hópastærðir. Ef umræðan snerist um kynþætti en ekki trúfrelsi dytti fæstum í hug að beita fyrir sig meirihlutarökunum. En þau eru alveg jafn gölluð, og lýsa alveg jafn miklum moldarkofahugsunarhætti, og þegar kemur að því að boða börnum trú í skólum.


Mynd fengin hjá kemorgan65

Egill Óskarsson 22.08.2014
Flokkað undir: ( Skólinn )

Viðbrögð


Freyr - 22/08/14 11:39 #

Myndin sem er vísað á með "skrifaði grein" hlekknum virkar ekki, eins og vanti að leyfa öllum að sjá myndina.


Stefán - 22/08/14 12:20 #

Við þetta má bæta því við að þessi ágæti þing- og trúmaður var í viðtali á Bylgjunni í framhaldi af þessum pistlaskrifum. Það hélt hann því blákalt fram að jólahald væri bannað í skólum - eða a.m.k. verið að reyna að banna það.

Maður spyr sig stundum að því hvernig svona málflutningi væri tekið ef umræðuefnið væri annað. Ef þessi umræða snérist um íslenskukennslu eða stærðfræðikennslu. Kæmist fólk upp með að fara með ýkjur og hrein ósannindi algerlega gagnrýnislaust trekk í trekk? Ég er ekki viss um að svona fullyrðingar færu athugasemdalaust í gegn hjá spyrlum þá.

Nú vita allir að Bylgjan er ekki fréttamiðill heldur eru þar dagskrárliðir sem eru hannaðir fyrir kranablaðamennsku (dulbúnir sem þjóðmálaumræða) - en þetta gerist einnig á virtari miðlum. Ég hef lengi haldið í vonina um að þetta fari að taka breytingum og þau sem hafa bein áhrif á umræðu fari að taka þessi hindurvitni fastari og röklegri tökum - en sú von fer þverrandi. Hafa fleiri þetta á tilfinningunni?


Smári Freyr Snæbjörnsson - 22/08/14 12:58 #

sko, ég vill koma minni skoðun á framfæri.

jólin í mínum augum tengjast kristinni trú ekki rassgat í dag svo það er algjör óþarfi að leggja það niður, fólk kemur saman gefur gjafir syngur saman og hefur það notalegt við kertaljós á litlu jólunum.. mjög gaman.

það er ekki árið 1700 og fólk ætti að fara að þroskast úr því að rífast um það hver skapaði lífið vegna þess að það er engin leið að vita það og að ætla að fullyrða eitthvað sem eitthvað fólk skrifaði í fullt af bókum í gamla daga hljóti að vera heilagur sannleikur sýnir ekkert nema vanþroska og hræðslu við það að viðurkenna það að maður viti ekkert um það.

ástæða þess að meirihluta íslendinga eru kristnir er vegna þess að á sínum tíma komu hingað kolbrjálaðir menn frá útlöndum og heimtuðu það að fólk tæki upp kristni í stað þess að trúa því sem trúað var hér á sínum tíma.

trúboð hvort um sé að ræða kristni, kaþólsku, múslimatrú eða hinduisma er fáránlegt, vilji fólk hópa sig saman og iðka sína trú er það flott. en komandi kynslóð ætti ekki að þurfa að fá þetta í æð.

þú ágæti lesandi gerir þér vonandi grein fyrir því að samkvæmt trúarritum múslima og gyðinga (sem er nokkuð svipað og kristinna) segir til um að jerúsalem sé heilagur staður sem þeim var lofað. þarna hafa verið stríð síðan fyrstu bókmentir voru ritaðar. í írak minnir mig er ofsatrúarhópur að stunda nasisma af fullum krafti í nafni síns vínkils af íslamskri trú. ætlar þú virkilega að taka þátt í þessu ?

við gætum sem lifandi fólk dáðst af lífinu sjálfu og talað hlýlega hvert við annað í nafni okkar sjálfs og lífsins óháð því hvernig við höldum að lífið hafi byrjað. það er ekki trúarskoðun heldur bæði skynsemi og rökrétt aðferðafræði.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 22/08/14 14:45 #

Myndin sem er vísað á með "skrifaði grein" hlekknum virkar ekki, eins og vanti að leyfa öllum að sjá myndina.

Takk fyrir ábendinguna Freyr, búinn að laga þetta.


Valur Arnarson - 22/08/14 17:42 #

Egill Óskarsson

Þú misskilur hugtökin "Trúboð" og "Mannréttindi".

Að treysta kristna trú í landinu er ekki það sama og að boða kristna trú. Þú getur treyst kristna trú án þess að boða hana, t.d. með því að styrkja kristið trúfélag. Sögnin "að treysta" þýðir að styrkja, efla, gera sterkari. Í þessu þarf ekki að felast trúboð. Gídeon félagið styrkti börn landsins með Nýja Testamenntinu og gjöfin er tilkomin vegna þeirra sjálfboðavinnu. Þannig hafa þeir treyst kristna trú í landinu með sínum verðmætum í formi sjálfboðarvinnu.

Mannréttindi eru svo:

  1. Réttur hvers manns til að vera ekki misþyrmt, rændur, kúgaður, niðurlægður eða myrtur.

  2. Þau réttindi sem þarf að tryggja fólki til að þeim réttindum sem nefnd eru í lið (1) sé ekki stefnt í voða.

Að flokka heimsókn Gídeonfélagsins í skóla borgarinnar sem "mannréttindabrot" er því óvirðing við allt það fólk sem þarf að þola raunveruleg mannréttindabrot í dag. Við skulum ekki útþynna hugtakið.


Valur Arnarson - 22/08/14 17:49 #

Fyrirgefið en ég gleymdi að geta heimilda:

Atli Harðarson, “Mannréttindi” og “Er jafn kosningaréttur mannréttindi?” í Vafamál: Ritgerðir um stjórnmálaheimspeki og skyld efni, Hið íslenzka bókmenntafélag 1998.


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 22/08/14 18:18 #

Markmið starfsins er að ávinna menn og konur fyrir Drottinn Jesú Krist. Dreifing Heilagrar ritningar og einstakra hluta hennar er aðferð til að ná því marki.

Þetta er yfirlýst markmið Gídeon. Þetta er trúboð. Ekkert annað. Það að 'treysta trú' í landinu í gegnum yfirlýsta trúboðsstarfsemi er... trúboð.

Það að vitna í skoðun eins heimspekings á því hvað mannréttindi eru segir ekki neitt, Valur. Þú getur ekki valið úr einhverja eina túlkun og talið hana upphaf og endis allrar umræðu. Sérstaklega þegar sú túlkun er vægast sagt umdeild og á skjön við hefðbundna túlkun á mannréttindum. Ísland er aðili að fjölmörgum sáttmálum sem lögbinda miklu víðtækari skilning á mannréttindum, fyrir utan auðvitað stjórnarskránna okkar. Réttur til þess að verða ekki fyrir mismunun vegna kynhneigðar, kyns, kynþáttar, fötlunar, trúar- og lífsskoðunar er nokkuð óumdeildur hluti mannréttinda.

Hér er svo brot úr samningsviðauka nr. 1 um verndun mannréttinda og mannfrelsis, úr mannréttindasáttmála Evrópu.

  1. gr. – Réttur til menntunar Engum manni skal synjað um rétt til menntunar. Hið opinbera skal í öllum ráðstöfunum sínum, er miða að menntun og fræðslu, virða rétt foreldra til þess að tryggja það að slík menntun og fræðsla sé í samræmi við trúar- og lífsskoðanir þeirra.

Norðmenn voru dæmdir fyrir brot á þessu ákvæði vegna þess að of mikil áhersla var lögð á kristni í trúarbragðafræðikennslu þar á kostnað annara trúarbragða og lífsskoðanna og hætta var talinn á að kennslan bæri meiri dám af innrætingu en fræðslu. Var það m.a. rökstutt með því að samkvæmt lögum væri skólum ætlað að hjálpa við kristið og siðrænt uppeldi barna, en það ákvæði varð til þess að dómstóllinn skoðaði ítarlega námskrár og önnur gögn.


G2 (meðlimur í Vantrú) - 22/08/14 18:19 #

@ Valur Arnarson

Skilgreining Atla Hrðar. er tilraun til að skilgreina algild mannréttindi óháð tíma og samfélagi (http://visindavefur.is/svar.php?id=2453). Trúboð Gídeon - því það er það þótt þú viljir ekki við það kannast - er kúgun. Að sjálfsögðu er til mikið svæsnari kúgun, en hvar eru mörkin Valur? Hvað er 'nægjanleg' kúgun til að teljast mannrétindabrot?


Valur Arnarson - 22/08/14 20:11 #

Sæll Egill,

Ég þakka tilsvarið. Til þess að byrja einhverstaðar að þá hélst þú því fram í færslunni að Ásmundi þyki trúboð hinn eðlilegasti hlutur í skólum. Þetta er rangt hjá þér. Það er ekki hægt að finna því stað í tilvitnununni eftir hann að þetta sé hans skoðun. Að styrkja stöðu kristninnar í landinu er ekki það sama og að boða trú. Þú getur styrkt stöðu kristninnar með því að styrkja trúarstarfsemi með sjálfboðarvinnu, eins og Gídeonfélagið gerir þegar þeir gefa börnum Nýja Testamenntið.

Nú að Gídeonfélaginu sjálfu. Þú vitnar í markmið félagsins og þeir hafa dreift því sem þeir kalla "Heilaga ritningu" víðar en til grunnskólabarna en það þarf ekki að þýða að í hvert skipti sem þeir gefa bókina að þá sé sjálfkrafa um trúboð að ræða - að halda slíku fram er fásinna. Þá væri það trúboð ef barni yrði gefin bók með trúarlegu innihaldi t.d. í fermingargjöf. Það hlýtur að vera framkvæmd athafnarinnar sem er gildisgefandi fyrir hana sjálfa.

En nú að tilraun Atla Harðarsonar til þess að þrengja mannréttindahugtakið með framsetningu algildra mannréttinda, og þetta er líka til G2 (meðlimur Vantrúar):

Auðvitað er það ekki svo að einn heimspekingur geti mótað mannréttindahugtakið með einu ritverki - það er náttúrlega galið. Ég get tekið það á mig að hægt væri að skilja athugasemd mína þannig. Mér finnst tilraunin hans reyndar einstaklega vel heppnuð og vel rökstudd og það var virkilega þörf á slíku á þeim tíma er Atli skrifar verkið. Það á einnig við nú.

Það er t.d. mikill munur á því þegar samfélagið bregst ekki við því þegar fólki er mimunað vegna trúarskoðanna eða þegar samfélagið bregst ekki við því þegar fólki er misþyrmt vegna trúarskoðanna. Á þessu þurfum við að gera greinarmun. Mannréttindahugtakið má því ekki útþynna eins og búið er að gera og þó búið sé að gera það þá þýðir það ekki sjálfkrafa að gjörningurinn sé í lagi.

Þú vitnar í 1. gr. samningsviðauka nr. 1 um verndun mannréttinda og mannfrelsis, úr mannréttindasáttmála Evrópu. Samkvæmt henni, ef ætti að fara eftir henni í þeim skilningi að banna ætti Gídeonmönnum að gefa Nýja Testamenntið, þá þyrfti að banna kennslu um þróunarkenninguna í skólum vegna þess að hún er ekki í samræmi við trúarskoðanir kristinna manna. Þetta er einmitt dæmi um það hvað hlutirnir geta farið í mikla vitleysu þegar hugtök eru útþynnt.

Bestu kveðjur, Valur


Valur Arnarson - 22/08/14 20:18 #

Sæll G2,

Ég ákvað að svara þér sérstaklega vegna þess að þú komst hér inná áhugavert atriði sem er kúgun.

Kúgun getur aldrei verið afstæð. Ef þú gefur einhverjum bók og lest svo fyrir hann uppúr bókinni þá er ekki hægt að túlka það sem kúgun - ekki nema að túlkandi sé haldin einhverri alvarlegri geðveiki (fyrirgefið orðbragðið).

Kúgun: það að kúga, undirokun.

s.s. ánauð, áþján, harðstjórn, helsi, hnekking, nauðung, ok, ófrelsi, tröðkun, undirokun, þján, þjökun, þrældómur, þrælkun, þústun, þvingun.

Ekkert af þessu á við um atburðinn að gefa börnum Nýja Testamenntið.

Bestu kveðjur,


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 22/08/14 20:30 #

Kommonn, Valur. Það sem ég vitnaði í er markmið Gídeon. Gídeon er trúboðafélag. Markmiði sínu, þ.e. trúboðinu, nær Gídeon með því að gefa Nýja testamentið. Þetta er í alvörunni ekki flókið. Sá sem vill að Gídeon fái að stunda trúboð áfram í skólum með þeim orðum að það treysti kristna trú í landinu er fylgjandi trúboði í skólum. Þetta er nokkuð augljóst.

Þá væri það trúboð ef barni yrði gefin bók með trúarlegu innihaldi t.d. í fermingargjöf. Það hlýtur að vera framkvæmd athafnarinnar sem er gildisgefandi fyrir hana sjálfa.

Þetta er kjánalegt. Nei, tilgangur gjafar gefur henni gildi. Ef ég gef vini mínum Biblíuna í þeim tilgangi að hann geti kynnt sér alla ljótu kaflana og ruglið í henni er það augljóslega ekki trúboð.

Það er t.d. mikill munur á því þegar samfélagið bregst ekki við því þegar fólki er mimunað vegna trúarskoðanna eða þegar samfélagið bregst ekki við því þegar fólki er misþyrmt vegna trúarskoðanna. Á þessu þurfum við að gera greinarmun. Mannréttindahugtakið má því ekki útþynna eins og búið er að gera og þó búið sé að gera það þá þýðir það ekki sjálfkrafa að gjörningurinn sé í lagi.

Auðvitað er munur á því. Er einher að halda öðru fram? En það er engin útþynning á "mannréttindahugtakinu" að benda á brot sem eru vægari en önnur.

Þetta er annars alveg ofboðslega þreytandi málflutningur, að maður megi ekki benda á eitthvað órétti af því að hægt er að benda á alvarlegra órétti annarstaðar. Veröldin er ekki binary. Ég get mótmælt báðum brotum.

Samkvæmt henni, ef ætti að fara eftir henni í þeim skilningi að banna ætti Gídeonmönnum að gefa Nýja Testamenntið, þá þyrfti að banna kennslu um þróunarkenninguna í skólum vegna þess að hún er ekki í samræmi við trúarskoðanir kristinna manna. Þetta er einmitt dæmi um það hvað hlutirnir geta farið í mikla vitleysu þegar hugtök eru útþynnt.

Nei, þetta er dæmi um hvað hlutirnir geta farið út í mikla vitleysu þegar snúið er út úr.

Fyrir það fyrsta, hver er að tala um bann á kennslu? Greinin snýst um bann við trúboði og innrætingu trúarskoðanna. Ertu ekki sammála því að slíkt eigi ekki heima í skólum?

Varðandi kennslu um þróunarkenninguna og aðra náttúrufræði þá hafa jú margir haldið þessu sama fram. Það hefur hinsvegar ekki reynt á þetta eftir því sem ég best veit, enda er almennt litið á kennslu í náttúrufræði sem ómissandi hluta af menntun. Mig rámar í að hafa heyrt af því að einhver lönd bjóði börnum sköpunarsinna upp á aðra valkosti en þori þó ekki að fullyrða það.


Valur Arnarson - 23/08/14 00:29 #

Sæll aftur Egill og takk fyrir svarið.

Mikið rétt. Þú vitnaðir í markmið Gídeon en þrátt fyrir að þetta sé markmið þeirra þá er ekki sjálfgefið að allar þeirra athafnir feli í sér trúboð. Ef við erum með orsök þá eru mögulegar afleiðingar aldrei bara ein.

Orsök: Gídeon gefur barni Biblíuna og les fyrir barnið vers úr Biblíunni.

Afleiðing: Barnið verður trúað.

Möguleikarnir eru alltaf fleiri:

  1. Barnið verður trúað.
  2. Barnið verður ekki trúað.
  3. Barnið lætur sig trúmál engu varða.

Í rauninni er möguleiki 3 lang líklegasta afleiðing af orsökinni, vegna þess að atburðurinn hefur litla merkingu fyrir barnið.

Ég get tekið dæmi. Amma mín gaf mér Biblíu í fermingagjöf. Hún las fyrir mig uppúr Matteusarguðspjalli um að leita og biðja. Ég hafði engan áhuga á að lesa Matteusarguðspjall þegar ég kíkti svo á Biblíuna. Ég byrjaði á byrjuninni og hætti í öllu þessu ættartölufargani. Ég nennti ekki að lesa lengur og varð, eins langt frá því að vera trúaður og mögulegt er. Ég tók svo trú 36 ára gamall og það hafði ekkert með þennan atburð að gera.

Ef þú ætlar að segja að Gídeon menn hafi stundað trúboð í grunnskólum þá er ekki nóg að benda bara á markmið félagsins. Þú verður að benda á hvað í heimsókn þeirra geti flokkast undir trúboð - bókagjöf er augljóslega ekki trúboð vegna þess að afleiðingarnar eru fleiri en ein.

Nú að mannréttindum.

Það hefur engin bannað þér að benda á órétti vegna þess að það sé meira órétti annars staðar í heiminum - því hefur hins vegar verið haldið fram að orðið "mannréttindabrot" sé í sumum tilfellum óviðeigandi um atburði sem eru langt frá því að vera í líkingu við alvöru mannréttindabrot. Á Íslandi og víða í Evrópu lýðst mismunun á grundvelli alls konar hluta. Þetta eru ekki mannréttindabrot heldur samfélagsleg mismunun. Að kalla slíkt mannréttindabrot gerir lítið úr þeim mannréttindabrotum sem þrífast t.d. í Úganda. Ég er samt ekki að mæla samfélagslegri mismunun bót. Hún er skelfileg. Það ættu t.d. allir að vera jafn réttháir samkvæmt lögum - því öll borgum við skatta til samfélagsins.

Fyrir það fyrsta, hver er að tala um bann á kennslu? Greinin snýst um bann við trúboði og innrætingu trúarskoðanna. Ertu ekki sammála því að slíkt eigi ekki heima í skólum?

Þú vitnaðir til þess að reynt hefði verið á ákvæði mannréttindasáttmálans í Noregi vegna þess að of mikil áhersla hefði verið lögð á kristni í trúarbragðafræði. En hvað með þá sem finnst of mikil áhersla vera á þróunarkenninguna? Við getum ekki verið með svona bull ákvæði sem gera ekkert nema að skapa endalausar málsóknir og hártoganir. Við eigum að treysta menntastofnunum til að sjá um þessi mál.

Mér finnst trúboð óviðeigandi í skólum - og þá er ég að tala um fyrirlestra - sem ganga útá að lofsama ein trúarbrögð á kostnað annara. Að gefa bók og lesa uppúr henni fellur ekki undir það, að mínu mati.

Mig rámar í að hafa heyrt af því að einhver lönd bjóði börnum sköpunarsinna upp á aðra valkosti en þori þó ekki að fullyrða það.

Sköpunarsinnar eiga ekki að hafa rétt til þess að hindra börn sín til að fræðast um aðrar hugmyndir. Það er réttur barnsins að fá að mynda sér sína eigin skoðun útfrá þeim möguleikum sem í boði eru.

En nú erum við í rauninni að tala um sitthvorn hlutinn eins og þú bendir réttilega á. Annars vegar kennslu og hins vegar kynningu. Kynningin þarf í öllum tilfellum að vera óhlutdræg. Hún má ekki fela í sér neikvæðni í garð annara lífsskoðanna og ekki gildishlaðna orðnotkun um viðkomandi trúarbrögð.

Heimsókn frá félagi Múslima þar sem Kóranin væri til gefins og nokkur vers lesin úr honum eru t.d. ekki trúboð að mínu mati.

Með góðum kveðjum, Valur


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 23/08/14 10:17 #

Ef þú ætlar að segja að Gídeon menn hafi stundað trúboð í grunnskólum þá er ekki nóg að benda bara á markmið félagsins. Þú verður að benda á hvað í heimsókn þeirra geti flokkast undir trúboð - bókagjöf er augljóslega ekki trúboð vegna þess að afleiðingarnar eru fleiri en ein.

Jú. Það er nóg að benda á markmið félagsins. Það hvort að félagið nái þessu markmiði sínu í öllum tilfellum breytir engu um tilganginn. Tilgangur Gídeon er trúboð. Þessu tilgangi reynir Gídeon að ná með bókagjöfum.

En auk þess er hægt að benda á að Gídeonmenn hafa iðulega farið fram á að biðja bænir með börnunum.

Það hefur engin bannað þér að benda á órétti vegna þess að það sé meira órétti annars staðar í heiminum - því hefur hins vegar verið haldið fram að orðið "mannréttindabrot" sé í sumum tilfellum óviðeigandi um atburði sem eru langt frá því að vera í líkingu við alvöru mannréttindabrot. Á Íslandi og víða í Evrópu lýðst mismunun á grundvelli alls konar hluta. Þetta eru ekki mannréttindabrot heldur samfélagsleg mismunun. Að kalla slíkt mannréttindabrot gerir lítið úr þeim mannréttindabrotum sem þrífast t.d. í Úganda

Þú ert að grínast er það ekki Valur? Mannréttindabrot er brot á réttindum sem teljast vera mannréttindi. Þessi mannréttindi eru skilgreind í lögum og alþjóðlegum samningum. Þetta er ekki flóknara en það.


Valur Arnarson - 24/08/14 01:18 #

Sæll Egill,

Ef bókagjafir flokkast undir trúboð þá eru Gídeon menn sekir um slíkt í grunnskólum - en ég er nokkuð viss um að það eru ekki allir sem leggja þá merkingu í gjörninginn. Ég er einn af þeim sem eru þér ósammála í þessu.

En auk þess er hægt að benda á að Gídeonmenn hafa iðulega farið fram á að biðja bænir með börnunum.

Þeir hafa lesið úr Matteusarguðspjalli versin sem eru kölluð "faðir vorið". Þetta er bara lestur uppúr bókinni sem þeir eru að gefa. Að biðja bænir er allt annað. Þegar þú biður bænir þá talar þú við Guð. Þegar þú lest uppúr bók þá ertu ekki að tala við Guð á sama tíma. Það er gildishlaðin merking á gjörningnum að halda því fram að þeir hafi "farið með bænir".

Þú ert að grínast er það ekki Valur? Mannréttindabrot er brot á réttindum sem teljast vera mannréttindi. Þessi mannréttindi eru skilgreind í lögum og alþjóðlegum samningum. Þetta er ekki flóknara en það.

Nei ég er ekki að grínast frekar en Atli Harðarson þegar hann gerði tilraun til að taka til baka þá útþynningu á mannréttindahugtakinu sem hafði átt sér stað. Þó eitthvað sé sett í lög og/eða alþjóðalega samninga þá þarf ekki að þýða að það sé endilega rétt.

Bestu kveðjur, Valur


Matti (meðlimur í Vantrú) - 24/08/14 10:57 #

Þeir hafa lesið úr Matteusarguðspjalli versin sem eru kölluð "faðir vorið". Þetta er bara lestur uppúr bókinni sem þeir eru að gefa.

Ok Valur, eitt er að þrasa, annað að ljúga eins og þú gerir hér. Þeir hafa leitt börnin í bæn, hvatt þau til að taka undir.

Þetta veit ég vegna þess að mín börn hafa verið viðstödd.

Þú veist að málstaður þinn er vondur þegar þú þarft að segja ósatt til að verja hann.

Það er gildishlaðin merking á gjörningnum að halda því fram að þeir hafi "farið með bænir".

Bænalestur er gildishlaðinn gjörningur og Gídeon er gildishlaðið félag, biblíugjafir þeirra eru svo sannarlega gildishlaðinn gjörningur sem á einfaldlega heima í kirkjum - t.d. þegar börn mæta þangað í kristilegan fermingarundirbúning. Það er ekki hægt að verja með sómasamlegum hætti að biblíuafhendingar eigi sér stað í grunnskólum.


Tinna - 24/08/14 11:21 #

Er Faðirvorið, þekktasta og algengasta bæn kristinna manna, hætt að vera bæn og orðin bara "einhver texti" sem menn lesa upp? Engin bæn, neinei, bara ótrúarlegur lestexti sem Jesú og lærisveinarnir, æjá, og allir heimsins kristnu menn (nema þú) kalla "bæn". En hvað vita þeir um kristnina...

http://www2.kirkjan.is/node/263


Valur Arnarson - 25/08/14 02:25 #

Sæll Matti,

Lygarar sem segja ósatt, í alvöru?

Nú er þessi umræða orðin persónuleg og hún orðin það af þinni hálfu. Ég tek ekki þátt í slíku.

Þetta vil ég segja. Hvorugur okkar hefur verið viðstaddur í öll þau skipti sem Gídeon menn hafa gefið skólabörnum Nýja Testamenntið. Að taka eitt stakt skipti, þ.e. þegar dóttur þinni var afhend gjöfin, og gera það dæmigert fyrir öll hin er í besta falli einfeldningslegt, í versta falli illkvitnislegt. Ég hallast frekar að því fyrra.

Þú verður að fyrirgefa mér Matti en fullyrðingaflaumurinn í athugasemd þinni er með þeim hætti að við hann verður ekki keppt.

Með góðum kveðjum, Valur


Valur Arnarson - 25/08/14 02:32 #

Sæl Tinna,

Faðir vorið er að sjálfsögðu bæn en aðeins sem samtal við Guð. Ef textinn er bara lesin upp úr bókinni þá hefur hann enga merkingu t.d. fyrir þann sem er ekki trúaður - þetta eru þá bara orð í bók í því tilfelli.

Mbkv. Valur


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 27/08/14 17:52 #

Semsagt, þrátt fyrir að Gídeonfélagið sé trúboðsfélag sem er með það yfirlýsta markmið að boða trú með bókagjöfum og að félagar biðji bæna með börnum sem þeir afhendi bækurnar, þá er það bara samt ekki trúboð samkvæmt Vali. Mér þætti eiginlega fróðlegt að sjá hvað Vali finnst eiginlega falla undir trúboðshugtakið.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?