Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ódrepandi goðsagan af Atlantis

Mynd af Plató

Fólk er alltaf að finna Atlantis. Núna seinast hélt einhver að hann hefði fundið Atlantis á Google Ocean. Þar sást fyrirbæri sem var lýst eins og neti af strætum sem gæti ekki mögulega verið til nema af mannavöldum. Það reyndist rétt að þetta var af mannavöldum, en ekki reyndis það vera Atlantis frekar en fyrri daginn. Þvert á móti voru þetta bátar sem notuðu sónartæki til að mynda hafsbotninn. Google og MBL voru fljótir að leiðrétta þennan misskilning.

En af hverju er ég þá að velta þessu fyrir mér? Það er vegna þessa að alltaf öðru hvoru telja einhverjir, stundum kallaðir vísindamenn, að þeir hafi fundið þessa sokknu borg. Það er eins og fólk átti sig ekki á því að sagan af Atlantis er goðsaga rétt eins og Askur Yggdrasils, Edensgarðurinn og jólasveinninn. Það dettur engum í hug ef hann finnur risavaxið tré að þar sé Askur sjálfur. Það myndi engum detta í hug að einhver fallegur gróðri vaxinn staður sem hann fyndi væri Edensgarðurinn. Og það dettur engum í hug að rauðklæddu mennirnir sem sjást á vappi í kringum jólin séu alvöru jólasveinar.

En hvað með Atlantis? Plató skrifaði dæmisöguna um Atlantis og Plató er jafnframt fyrsta og eina frumheimildin um þessa borg. Allar aðrar heimildir byggja á einn eða annan hátt á Plató. Atlantis átti að vera mjög tæknivædd borg en græðgi varð henni að falli. Sagan er dæmisaga sem Plató notaði til þess að vara íbúa Aþenu við því að líta of stórt á sig, ekkert annað.

Þegar sagan er skoðuð verður þetta algjörlega augljóst. Ég ætla að láta mér nægja að segja frá tveimur staðreyndum í þessu samhengi. Í fyrsta lagi ber að nefna ótrúlega stærð borgarinnar. Plató segir að borgin, sem átti að vera í miðju Atlantshafi, hafi verið jafn stór og Norður-Afríka og Litla Asía til samans. Þetta er álíka stórt og Grænland. Ég endurtek: Grænland! Hvorki meira né minna. Þessi eyja á stærð við Grænland á svo að hafa sokkið á sólarhring í jarðskjálfta. Þetta er vægast sagt ótrúlegt. Fyrir utan það að það ætti ekki að vera flókið að finna eitthvað svona risavaxið þá eru engar heimildir fyrir því að eyjur hafi sokkið í hafið vegna jarðskjálfta, hvorki fyrr né seinna.

Í öðru lagi ber að nefna hvernig Plató segist hafa fengið söguna. Plató segir að Krítías hafi sagst hafa heyrt söguna frá Sóloni. Sólon þessi á svo að hafa sagt að hann hafi heyrt söguna frá einhverjum egypskum presti meðan hann ferðaðist um Egyptaland. Egypski presturinn á að hafa sagt Sóloni, sem á að hafa sagt Krítíasi sem á að hafa sagt Platóni, að sagan væri 9000 ára gömul. Ég veit ekki með ykkur, en ég trúi ekki alltaf öllu sem sagt er við mig, hvað þá ef það eru einhverjir ókunnugir prestar sem ég hitti fyrir tilviljun á ferðalögum mínum og ef sagan á að vera 9000 ára gömul. Þó við gerðum ráð fyrir því að Plató hafi ekki verið að búa þetta til þá er mjög ótrúlegt að svona saga lifi svona lengi í munnmælum án þess að bjagast neitt í 9000 ár. Þið þurfið ekki annað en að fara í hvíslleik til þess að sannfærast um að það er algjörlega ómögulegt að halda frásögn lifandi svona lengi í óbreyttri mynd.

Fyrir þá sem ekki vita þá er hvíslleikur hópleikur sem gengur út á að hvísla setningu manna á milli. Fólk situr í hring, einn velur setningu og hvíslar að næsta manni og hann að næsta manni. Þannig gengur þetta koll af kolli þar til allir eiga að hafa heyrt setninguna. Þá segir sá sem heyrði setninguna síðast frá því sem hann heyrði. Þeir sem hafa spilað þennan leik vita að það kemur nánast aldrei sú setning sem var sögð í upphafi. Það er alltaf einhver sem misheyrir, einhver sem ákveður að grínast og svo framvegis þannig að frásögnin brenglast. Þegar farið er í leikinn með börnum á vissum aldri virðist það lífsins ómögulegt að fara hringinn án þess að sagan fari á einn eða annan hátt að fjalla um kúk og piss.

En af hverju ætli Plató hafi haft söguna svona langsótta? Sennilega til þess að það væri algjörlega augljóst að þetta er dæmisaga en ekki sagnfræði. Og sennilega til þess að það fari ekki einhverjir út um allan heim að leita að þessari borg. Þetta hefur þó greinilega mistekist hjá honum.

Nú er ég ekki að setja út á dæmisögur. Dæmisögur geta verið mjög gagnlegar til þess að kenna einhverja lexíu. Dæmisögur eru til dæmis oft notaðar í siðfræði og það hefur þann kost að þá tökum við sjálf okkur úr jöfnunni. Það er miklu auðveldara að segja til um hvort aðrir breyti rétt heldur en hvort við sjálf breytum rétt. Dæmisögur geta líka verið mjög gagnlegar til þess að sýna fólki fram á ákveðna röksemdarfærslu. Þetta geri ég til dæmis í fyrsta pistlinum á Húmbúkkinu (svo má auðvitað deila um það hversu góð sú dæmisaga er). Þetta þýðir auðvitað ekki að við eigum að taka dæmisögur bókstaflega. Við tökum dæmisöguna af Dúmbó ekki þannig að það hafi verið til fíll sem gat flogið á eyrunum, enda er það út í hött.

Þó svo að sagan af Atlantis séu augljóslega ekki sönn, og hafi ekki einu sinni átt að vera sönn, þá virðist goðsögnin vera ódrepandi. Þessi saga er svo lífsseig að fólk hefur jafnvel spunnið upp miklar kenningar um að geimverur hafi byggt Atlantis og að sömu geimverur hafi byggt pýramídana í Egyptalandi og svo framvegis. Þannig að fólk ímyndar sér ekki bara geimverur, heldur líka að þær hafi byggt eyju sem er vitað að er ímynduð. Þetta er í raun það merkilegasta við þessa goðsögu, það er hvað fólk er til í að trúa ótrúlegum hlutum án þess að hafa nokkuð fyrir sér í því.


Heimildir:

Skepdic’s Dictionary um Atlantis
Vísindavefurinn um Atlantis
Wikipedia um Atlantis

Birtist upphaflega á Húmbúkk

Þórður Örn Arnarson 15.04.2014
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Magnús T - 15/04/14 09:58 #

Hérna er norræna sjónarhornið aðeins að þvælast fyrir skalanum í landafræðinni. Samkvæmt þrengstu skilgreiningu á Norður-Afríku er það svæði tæplega átta milljónir ferkílómetra en Grænland er rúmlega tvær milljónir ferkílómetra. Afríka er alltaf fáránlega lítil á kortunum okkar en í rauninni er hún ansi stór.


Jóhann - 15/04/14 20:27 #

Sjáum hvort þessi staðhæfing fái að hanga inni:

Allar goðsagnir fela í sér sannindi um hlutskipti manna.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?