Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Illgyðisáskorunin

Mynd af kettlingi

Bölsvandinn er ein algengasta mótbáran gegn tilvist þess guðs sem flestir trúmenn trúa á: Hvers vegna er svona mikið böl í heiminum ef það er til algóður, alvitur og almáttugur guð? Trúmenn hafa reynt að koma með ýmsar útskýringar á þessari mótsögn. Heimspekingurinn Stephen Law vonast til þess að hin svokallaða illgyðisáskorun verði til þess að trúmenn átti sig á því hversu lélegar þessar tilraunir þeirra eru.

Er til alvondur guð?

Útskýringar á tilvist böls í heimi sem algóður guð stjórnar eru alls konar:

  • Án hins illa gætum við ekki skynjað hið góða.
  • Hið illa er nauðsynleg afleiðing frjáls vilja.
  • Tilvist hins illa þroskar manneskjur.

Og svo framvegis.

Í staðinn fyrir að taka hverja útskýringu trúmanna fyrir og benda á gallana á þeim, þá vill Stephen reyna að vekja trúmennina til umhugsunar um hve lélegar þær eru með smá hugartilraun: Veltum fyrir okkur þeirri tilgátu að almáttug, alvitur og alill vera skapaði alheiminn.

Hve líkleg er tilvist þessa alilla guðs?

Gæfuvandamálið

Flestir sjá auðvitað strax að það er heilmargt í heiminum sem bendir til þess að alillur guð sé ekki til: gleði, ást, vinátta, góð heilsa, fjölskylda, kettlingar og svo framvegis.

Við myndum ekki búast við þessum hlutum í heimi sem væri skapaður af alillum guði. Alillur guð er því augljóslega ekki til, er það ekki?

Ekki endilega! Við getum nefnilega komið með sömu útskýringar fyrir hinu góða og trúmenn nota til þess að útskýra hið illa, það þarf aðeins að “spegla” þær.

Hvers vegna leyfir alillur guð ást og vináttu? Af því að hann vill frjálsan vilja svo að fólk geti framið alvöru illvirki af sínum eigin vilja. Hvers vegna skapar illur guð fallegt landslag og kettlinga? Af því að án hins góða, þá þekkjum við ekki hið illa. Og svo framvegis.

Augljóslega ekki til

Hve góðar eru þessar útskýringar? Ég er viss um að trúmaðurinn muni samþykkja það að þær dugi alls ekki. Alillur guð er augljóslega ekki til. Samt eru útskýringarnar á hinu góða bara spegilmyndir á hans eigin útskýringum.

Tilvist alills guðs er því jafn líkleg og tilvist algóðs guðs. Trúmaðurinn er sammála því að tilvist alills guðs sé út í hött. Skynsamur trúmaður ætti því að fallast á það að tilvist algóðs guðs sé út í hött.

Hægt er að lesa ítarlegri umfjöllun um illgyðisáskorun Stephen Laws í grein hans The evil-god challenge


Mynd fengin hjá Meliha Tunckanat

Hjalti Rúnar Ómarsson 03.04.2014
Flokkað undir: ( Rökin gegn guði )

Viðbrögð

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?