Maðurinn hefur eðlislæga tilhneigingu til að gera ráð fyrir því að ef tveir atburðir fara saman í tíma og rúmi, þá sé orsakasamband á milli atburðanna. Þessi tilhneiging býr líklega að baki því hugræna vélvirki sem gerir okkur kleift að læra af reynslunni og er í mörgu tilliti afar gagnleg í daglegu lífi. Ef við tökum dæmi af manni sem leggur lófann á heita eldavélahellu og brennir sig, þá er hann líklegur til að setja fyrri atburðinn (það er að leggja lófann á eldavélahelluna) í samband við síðari atburðinn, (það er brunann) og lærir í framhaldinu að forðast að snerta heitar eldavélahellur.
Þessi tilhneyging til að tengja atburði saman með þessum hætti er augljóslega gagnleg og hefur líkast til stuðlað tegundin hefur lifað þróunarsögu dýrategundanna af til þessa. Vegna hennar lærum við að spá fyrir um atburð á grundvelli annarrar atburðar sem venjulega verður vart á undan og lærum þannig að sjá fyrir hættur og forðast þær.
En stundum drögum við mjög óheppilegar ályktanir um orsakasamband þar sem ekkert er. Þæmi um slíkt er til dæmis þegar maður fær kvíðakast, með miklum hjartslætti, svima og yfirliðstilfinningu, köfnunartilfinningu, svitakófi og fleiri óþægilegum líkamlegum einkennum. Það er algengt að kvíðasjúklingar af þessu tagi setjist á bekk, styðji sig við vegg eða forði sig úr þeim aðstæðum þar sem kvíðakastið byrjar. Kvíðinn líður hjá og viðkomandi telur sig hafa lært hvernig hann getur bundið enda á þessi hræðilega óþægilegu kvíðaköst. Það sem fólk sem þjáist af ofsakvíða sem þessum gerir sér yfirleitt ekki grein fyrir er að kvíðaköst líða alltaf hjá af sjálfu sér. Bætta líðan mætti því líklega skilja betur í ljósi aðhvarfs að meðaltali. En vegna þessarar tilhneigingar okkar til að tengja saman atburði sem fara saman í tíma og rúmi og gera ráð fyrir orsakasambandi þar á milli, þá lærir kvíðasjúklingurinn ranglega að þessar öryggisráðstafanir sem hann greip til hafi valdið því að kvíðinn leið hjá. Hann sér ekki bara tvo atburði fara saman í tíma og rúmi, heldur gerir hann ráð fyrir orsakasambandi. Hann mun í framhaldinu alltaf grípa til þessara öryggisráðstafana þegar hann fær kvíðakast, og lærir því aldrei sannleikann, það er að kvíði líður alltaf hjá og einkennin sjálf eru ekki hættuleg. Með því að grípa til þessara ráðstafana viðheldur hann því kvíðaköstunum til lengri tíma litið.
Við höfum áður á þessari síðu lagt áherslu á að vísindarannsóknir geta skorið úr um hvort tilteknar ákvarðanir, svo sem meðferð af einhverju tagi, geti haft tiltekin áhrif, svo sem bata, eða jafnvel skaða. Það sem þarf þó að hafa í huga þegar við kynnum okkur slíkar rannsóknir er að stundum er greint frá hárri tölfræðilegri fylgni án þess að hægt sé að fullyrða um orsakasamband. Ég ætla næst að fjalla örstutt um að hvaða leiti fylgni og orsakasamband eru merkingarlega óskyld hugtök og taka síðan tvö dæmi þar sem há fylgni og orsakasamband fer ekki saman.
Þegar við tölum um orsök og afleiðingu erum við með nokkuð skýra hugmynd um að orsök komi á undan afleiðingunni og valdi því afleiðingunni á þann hátt að afleiðingin hefði aldrei att sér stað nema fyrir tilstuðlan orsakarinnar. Ef ég ýti á rofa á vegg og ljós kviknar í stofunni er til dæmis um slíkt orsakasamband að ræða. Með því að ýta endurtekið á rofann og verða vitni að því að ljósið kviknar og slokknar til skiptis göngum við úr skugga um að við getum haft áhrif á ljósið með því að stjórna rofanum. Stjórn af þessu tagi er til marks um orsakasamband. Rofinn hefur bein áhrif á ljósið, en fer ekki bara saman í tíma og rúmi. Vegna þess að það eru skýr tengsl milli þess hvort rofinn er inni eða úti annars vegar og hins vegar hvort ljósið er kveikt eða slökkt, þá er líka há fylgni milli þessara tveggja atburða. Hér fara orsakasamband og fylgni augljóslega saman, en það er ekkert nauðsynlegt að há fylgni lýsi orsakasambandi. Orsakasamband er þannig mjög sérstakt samband milli tveggja atburða þar sem annar atburðurinn veldur hinum. Fylgni lýsir engu öðru en því að atburðirnir hafa tilhneigingu til að fara saman, hver svo sem orsökin er. Til að skýra þetta er rétt að taka nokkur dæmi
Reykingar geta valdið krabbameini í lungum. Ég held að það treysi sér enginn til að draga þetta í efa. Þetta þykir nokkuð vel staðfest af fjölda rannsókna. Krabbamein er þó frekar sjaldgæfur sjúkdómur (að minnsta kosti ef borið er saman við kvefpestirnar sem ganga á veturna) og reykingar býsna algengar. Það fá ekki nálægt því allir reykingamenn krabbamein. Allur sá fjöldi reykingamanna sem ekki fær krabbamein lækkar tölfræðilega fylgni, en þegar reykingamaður fær krabbamein í lungu má nokkuð örugglega rekja það til þess að hann reykti. Orsakasambandið er skýrt þrátt fyrir lága fylgni.
Það er há fylgni milli skóstærðar og lestrargetu meðal barna á aldrinum fimm til tíu ára. Það er samt engin ástæða til að ætla að barn lesi betur við það eitt að fæturnir stækki. Barnið þarf að æfa sig í lestri og á meðan barnið æfir sig í að lesa tekur það út vöxt og þarf fljótlega að fá sér stærri skó.
Dæmi um að há fylgni skyrist af sameiginlegri orsök
Árið 2006 leiddi rannsókn í ljós að neikvæða fylgni milli brjóstastækkunar og krabbameins í brjóstum og jákvæða fylgni milli brjóstastækkunar og sjálfsvíga. Titill greinar þar sem greint er frá þessum niðurstöður gefur til kynna orsakasamband: „Breast implants lower cancer risk but boost suicides” (brjóstastækkanir minnka áhættu á krabbameini en auka líkur á sjálfsvígum). Með þessu er verið að gefa í skyn að brjóstastækkun sé líkamlega holl en andlegri óholl. Titill greinarinnar er þannig villandi. Líklegri skýring, á lægri krabbameinstíðni meðal þeirra kvenna sem láta stækka á sér brjóstin, er að þær konur sem hafa efni á slíkum aðgerðum sé betur menntað, betur upplýst um hvað stuðlar að góðri heilsu, og því meðvitaðara um heilbrigða lifnaðarhætti, en þær konur sem hafa ekki efni á þessum rannsóknum. Það er því hærri félagsleg og efnahagsleg staða (socio-economic status) sem skýrir bæði það að konurnar hafa efni á aðgerðunum og fari almennt betur með líkamann sinn. Sjálfsvígin skýrast líklega frekar með því að þunglyndi sé algengara meðal þessarra kvenna en annarra. Konur sem þjást af lágu sjálfsmati eru þannig bæði líklegri til að vilja stækka á sér brjóstin og þróa með sér alvarlegt þunglyndi.
Ítarefni:
Wikipedia: Correlation does not imply causation
Atheism.about: The Faulty Causation Fallacy
Birtist upphaflega á Húmbúkk
Mynd fengin hjá Nicholas Wilson
Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.
Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.