Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ég þakka guði..

Mynd af hamfarasvæði

Ég hef oft velt því fyrir mér hvort ekki sé erfitt að vera trúaður þegar einhver bjargast úr slysi eða náttúrhamförum og þakkar guði fyrir björgunina. Þegar einhver telur að guð hafi hlaupið upp til handa og fóta (þannig séð) og ákveðið að þessi viðkomandi einstaklingur megi nú ekki farast á þessari stundu og geri það sem þarf til að hann bjargist. Færi hann til í lest, rétti honum björgunarvesti, beini byssukúlu á leið sinni örlítið til hliðar eða sveigi jafnvel bíl eilítið af leið.

Ég hef svo sem aldrei skilið hvers vegna fólk vill ekki sjá að þarna er um hreinar og klárar tilviljanir að ræða. En það er kannski einhver þörf fyrir að sýna þakklæti og að fá útrás fyrir þann létti sem fylgir því að sleppa fyrir hreina tilviljun.

Þetta er auðvitað ekkert erfitt.

Það sem er erfitt er að vera aðstandandi hinna sem farast eða slasast illa í slysum, hvort sem um sama slys eða sambærilegt slys er að ræða.

Þeir sem þakki guði fyrir björgunina eru nefnilega um leið að segja við aðstandendur þeirra sem látast að guði hafi verið nákvæmlega sama um þeirra ástvini. Eða fyrst hann var að ómaka sig á annað borð við að bjarga einhverjum bendi til að hann hafi beinlínis ákveðið að þeir mættu nú missa sig sem hann var ekki að ómaka sig við að bjarga.

Eða, svo við veltum þess enn lengra, að guð hafi einfaldlega staðið fyrir viðkomandi slysi og telji kominn tími á þá sem fara illa úr slysinu.

Hvaða svör fá trúaðir aðstandendur þeirra sem farast?

Að vegir guðs séu órannsakanlegir? Það stenst ekki nánari skoðun, amk. eru vegir þess guðs sem bibían lýsir mjög vel rannsakanlegir og einkar ógeðfelldir. Og ef þeir eru órannsakanlegir í þeim skilningi að ekki eigi að leggja merkingu í að hann hafi fórnað ákveðnum einstaklingum, liggur þá ekki í hlutarins eðli að það tákni lítið hverjum var bjargað. Og þar af leiðandi óþarfi að þakka guði.

Annað vinsælt svar er að þeir sem guðirnir (allt í einu er guð kominn í fleirtölu) elski deyi ungir. Og hvað, hatar hann (þeir) þá þessa sem ekki deyja ungir. Þetta stenst auðvitað ekki heldur, í fyrsta lagi eru bæði ungir og aldnir sem farast eða bjargast (smá minnisatriði til trúlausra: það er í rauninni tilviljun sem ræður).

En það sem verra er, ef þeir sem guðirnir (í fleirtölu) elska deyja ungir, af hverju eru þeir sem bjargast þá að þakka guði?

Valgarður Guðjónsson 07.02.2014
Flokkað undir: ( Rökin gegn guði )

Viðbrögð


G. - 07/02/14 12:37 #

Þetta „spakmæli“ um að sá deyi ungur sem guðirnir elska er reyndar upprunalega úr forngrískum gamanleik eftir Menandros. Þetta er bara brot sem hefur varðveist í formi tilvitnunar (lengri brot úr sama verki hafa seinna fundist á papýrus) þannig að það er erfitt að segja til um samhengið en mér skilst að þetta hafi í leikritinu verið sagt yfir líki gamals manns... Ef þeir sem taka þessa speki alvarlega þekktu bara uprunann!


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 07/02/14 16:31 #

Já, ég átti nú ekki beinlínis von á að þetta væri sér-kristið fyrirbæri... þó það hafi - eins og svo margt annað - verið gripið með þar.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.