Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Af hverju trúa prestar ekki á meyfæðinguna?

Mynd af engli að birtast Maríu

Í messum segjast prestar trúa því að Jesús hafi verið “getinn af heilögum anda” og “fæddur af Maríu mey”. Sumir prestar trúa því hins vegar alls ekki. Svo algeng er þessi vantrú presta að í nýlegu fermingarkveri var sagt að Jesús hafi verið “holdlegur sonur Maríu og Jósefs[1]. Það er því ansi merkilegt að nú skuli einn prestur ríkiskirkjunnar halda því fram að það sé auðvelt fyrir trúmenn að trúa á meyfæðinguna.

Sjónarmið prestsins

Í greininni Jólin - tími kraftaverks og endurnýjunar [2] svarar presturinn Gunnar Jóhannesson því sem hann kallar vísindalegan fyrirvara við trú á meyfæðinguna. Fyrirvarinn er á þá leið að gangverk heimsins fylgir algerlega náttúrulögmálum og því séu kraftaverk ómöguleg. Gunnar bendir á að þetta geri ráð fyrir því að enginn guð sé til.

Ef maður gerir hins vegar ráð fyrir því að tilvist guðs sé möguleg, þá getur guðinn haft áhrif á framgang náttúrunnar, truflað framgang náttúrulögmálanna. Hann getur framkvæmt kraftaverk.

Svo endar Gunnar á því að segja að “sérhver nútímamaður sem trúir á Guð [getur] gengist við kraftaverki með eins hægu móti og Jósef.

Nauðsynlegt, en ekki nægjanlegt

Það er vissulega rétt hjá prestinum að ef maður gerir ráð fyrir því að tilvist andaveru á borð við guðinn hans sé algerlega ómöguleg, þá eru augljóslega engin kraftaverk til, þá eru engar andaverur til sem grípa fram í framgang náttúrunnar.

Til þess að trúa á meyfæðingu Jesú þá er auðvitað nauðsynlegt að maður útiloki ekki algerlega tilvist guðs, en það er ekki nægjanlegt. Möguleikinn á tilvist einhvers konar guð gerir meyfæðingu Jesú einungis mögulega, en ekki líklega.

Alls konar hlutir eru mögulegir, en þeir eru líklega ekki réttir út af öðrum ástæðum. Fólk trúir þeim ekki bara af því að það er mögulegt, það þarf að hafa nægjanlegar ástæður fyrir því að trúa á það.

Vantrú trúmanna

Þetta sést best á því, sem Gunnar minnist líka á í grein sinni, að jafnvel kristnir trúmenn, þar með talið prestar, trúa ekki á meyfæðinguna, þrátt fyrir að þeir trúi á tilvist guðs.

Því þó svo að kraftaverk séu möguleg, þá eru líka til aðrir möguleikar í stöðunni en að trúa bara sögunum af meyfæðingunni. Við vitum að helgisagnir, ýkjur og lygar eru til, og allt þetta er miklu algengara en kraftaverk. Á tímum Jesú voru líka sögur um mikilmenni sem getin höfðu verið á stórkostlegan hátt algengar.

Einu heimildir okkar fyrir meyfæðingunni eru tvö rit eftir óþekkta höfunda sem voru óhræddir við að ýkja og skálda[3].

Kraftaverk eru miklu ólíklegri heldur en venjulegri atburður á borð við það að saga um kraftaverkafæðingu sé búin til og gögnin sem fullyrða um meyfæðinguna eru það léleg að þau gefa ekki nægilega ástæðu til þess að trúa ólíklegri möguleikanum. Það er því miklu líklegra að um enn eina helgisögu af fæðingu sé að ræða, frekar en að í þetta eina skiptið sé um kraftaverk að ræða.

Gunnar notar líklega nákvæmlega þessa röksemdafærslu þegar um er að ræða sögur af kraftaverkafæðingum sem eru ekki í biblíunni. Sumir stéttarbræður Gunnars gera bara ekki undantekningu frá þessum eðlilega hugsunarhætti þegar kemur að þeirra eigin trúarbrögðum og hafna því meyfæðingunni.

Hvað þarf til að trúa á meyfæðinguna?

Ef maður vill trúa á meyfæðingu Jesú, þá dugar því ekki bara að telja tilvist guðs mögulega, maður verður líka að gerast einstaklega trúgjarn og ef maður vill ekki trúa hvaða furðusögu sem er, þá verður maður að passa sig á því að vera bara trúgjarn þegar kemur að helgisögum sinna eigin trúarbragða.


[1] Faðir vor, trúarjátningin & boðorðin tíu: fermingarhefti / Reykjavík / Kjalarnesprófastsdæmi 2010 bls 27
[2] “Jólin - tími kraftaverks og endurnýjunar”, Morgunblaðið 2013-12-07.
[3] Það þarf ekki annað en að bera saman fæðingarfrásagnir þeirra eða þá að skoða hvað Matteusarguðspjall hefur bætt við frásögnina af dauða Jesú.
.

Hjalti Rúnar Ómarsson 13.01.2014
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?