Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Örlög guðanna

Mynd af Ólympusfjalli

Um suðurheim kristnin var geingin í garð
og guðirnir reknir af löndum,
en kominn var blóðugur kross í það skarð
og kirkjur með fjöllum og ströndum.

Hin heilögu goð voru af Ólympi ærð
og alstaðar frelsið í nauðum,
og listin hin gríska lá svívirt og særð
hjá Seifi og Appolló dauðum.

Þar bygði fyrr Júppíter blómlegust lönd,
uns beygði hann ellinnar þúngi;
og svipuna guðinum gamla úr hönd
tók Gyðingakóngurinn úngi.

Og næst var svo krossinn með nauðúng og þraut
að norrænu þjóðunum borinn,
og svipan og morðvopnin brutu' honum braut
og blóðug og mörg voru sporin.

Og Ásum í Hlíðskjálfi ólgaði blóð,
þá austræna skrímslið þeir sáu,
er sunnan um valinn það svamlaði óð,
þar saxnesku hetjurnar lágu.

Og ekki við hafið sú óvættur beið,
en ólmleg og þrútin í bragði
að eyjunum grænu hún óðfluga skreið
og yfir þær hrammana lagði.

Og loksins að Svíþjóð hún færði sinn fót,
því fornhelga Ýnglíngabóli,
og hvesti nú augu sín Uppsölum mót,
að ættbogans heilaga stóli.

En bikarinn Óðinn þann súrastan saup,
og sýndist þá ótryggur friður,
er Hákon hin góði á knjebeðinn kraup
hjá krossfesta Gyðingnum niður.

Og óhreinkast tók nú hið ásrunna blóð
í Ýnglínga goðbornu niðjum,
er Ólafur Tryggvason öndverður stóð
í andskotaflokkinum miðjum.

Hann lamdi og kúgaði sveit eftir sveit,
uns sigur var Alföður þrotinn
og eldgömlu salina auða hann leit
og ölturin saurguð og brotin.

Og nú sem í dróma lá Noregur þar
og níðingi geinginn til handa;
en úti var kóngslausa eyjan í mar,
þar átti nú hríðin að standa.

En þar bygðu dreingir, þó þjóð væri smá,
og þeim gat hann öruggur trúað,
því eyjuna þeirra í æginum blá
gat einginn í heiminum kúgað.

Og þeim gat ei Ólafur bruggað sitt böl
með báli og hverskonar pínum
og látið þá æpa og eingjast af kvöl
til ununar guðunum sínum.

Þeir mundu að feðurnir ljetu þau lönd,
er lýðfrægu hetjurnar ólu,
og undu þá seglin við ættjarðar strönd
og eilífu guðunum fólu.

Og þeir leiddu drekana heila um haf
með hersanna göfuga lýði,
og óðulin fögru þeim Alfaðir gaf
og eyjuna hvítu í víði.

Í áshelgum ljóma nú Ísland þar stóð
og ómaði af gígjunnar hreimi,
og fár mundi ræna þá frjálsustu þjóð
og fegursta vígið í heimi.

Og síst mundi hjörtunum hvika við það,
sem herlið að múrunum færi,
þó Kristur hinn austræni kæmi þar að
og kóngsþrælar með honum væri.

En þrælunum hafði þar lokist upp leið
og lýðnum þótt höfðinginn fagur;
og annarhvor goðanna útlegðar beið,
og upp var nú runninn sá dagur.

Um guðina nýju varð geysileg þraung:
þeir geingu að dóminum prúða
með reykelsis ilmi og raumverskum saung
í rósfögrum hátignarskrúða.

Og Alfaðir stóð þar og Æsir hans hjá
og ekki til málanna lögðu;
þeir litu yfir völlinn hjá lindunum blá
og lögbergið helga og þögðu.

En hjer var um guði sem hæglegast breytt.
Þeir hjuggu þar eldgamla bandið;
og Alföður þótti þeim ganga það greitt,
að gjalda sjer frelsið og landið.

Og guðinn hinn úngi stje brosandi á bekk,
er búið var dóminn að heyja;
en þegar að sætinu Guðsmóðir gekk
þá glottu þær Iðunn og Freyja.

Á leiðirnar bláu frá landinu því
nú lyftu sjer guðirnir reiðu,
og þá var hið fyrsta og ferlega ský
að færast á tindana heiðu.

Og Alfaðir leit hina lækkandi sól
og landinu mátti' hann ei gleyma,
en lífgyðju elífri frelsisins fól
hann fjörviðinn Íslands að geyma.

Úr norðrinu heiðu sá hávaxinn stóð
og helgaður guðunum einum,
og aldrei á jörgðu var alsælli þjóð,
en undir þeim himnesku greinum.

En Sturlúngar limuðu grein eftir grein
og Gissur af þjóðvalda meiði,
nú varðar hún stofninn þann vinlaus og ein
og vakir hjá heiðninnar leiði.

Og Guðsmóður leingi þeir göfguðu þar,
svo gerðist hún farin og lúin,
úr hásæti guðanna hrakin hún var
og heilaga skrúðanum rúin.

En Kristi og Jehóva þyrmdu þeir þá,
og þeir eiga að sitja þar leingur,
en eitt sinn mun dagurinn upprenna sá,
að yfir þá dómurinn geingur.

Því kóngar að síðustu komast í mát,
og keisarar náblæjum falda,
og guðirnir reka sinn brothætta bát
á blindsker í hafdjúpi alda.

Þorsteinn Erlingsson 01.01.2014
Flokkað undir: ( Fleyg orð )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.