Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Barnalæknirinn guð

Skírnarfontur

Það kannast flestir við þá fullyrðingu sumra trúmanna að guðinn þeirra bjargi lífi fólks þegar óhöpp verða. Á yfirborðinu kann þessi hugsun að hljóma fallega, en það þarf ekki að kafa nema örlítið ofan í hvað hún felur í sér til að sjá að hún er ekki bara fjarstæðukennd, heldur gerir hún guð kristinna manna að skrímsli. Nýleg ummæli ríkiskirkjuprestsins Guðna Þórs Ólafssonar voru sama marki brennd:

Svo var líka önnur ástæða fyrir því að það þurfti að skíra börnin sem fyrst, því áður fyrr urðu börnin oft mikið veik og þá voru ekki til eins góð meðul og eru núna.

En foreldrarnir, skírnarvottarnir, afar og ömmur og margir aðrir voru sannfærð um að barn sem væri búið að skíra, það hefði betri vernd, af því að Guð væri búinn að blessa það, og blessunin væri eins og teppi sem væri búið að vefja barnið inní. Þessu trúði fólk, og þessu trúi ég. #

Töfraskírn?

Guðni Þór virðist trúa því að skírn veiti börnum einhverja vernd, þar með talið gegn sjúkdómum. Hvers vegna hann trúir þessu, er ekki alveg ljóst, en það væri lítið mál að rannsaka þess fullyrðingu hans vísindalega.

Það er heldur ekki ljóst hvernig þessi vernd á að virka. Er skírn einhvers konar töfraathöfn sem veitir börnunum töfraskjöld gegn óhöppum og sjúkdómum? Ég efast um að Guðni Þór trúi því. Mér finnst líklegra að hugmyndin sé sú að skírnin valdi því að guðinn hans Guðna passi betur upp á börnin ef þau eru skírð.

Þó svo að það kunni að hljóma fallega, þá gerir þessi hugmynd guðinn hans Guðna að skrímsli.

Á að hjálpa óskírðum börnum?

Ímyndum okkur tvö nýfædd börn: Kristin og Þór. Kristinn var skírður. Þór var ekki skírður. Báðir smitast þeir af lungnabólgu. Guðinn hans Guðna fylgist með þessu. Guðinn hans Guðna ákveður að lækna Kristinn, af því að hann var skírður. Þór deyr.

Þó svo að þetta sé tilbúið dæmi, þá get ég ómögulega séð annað en að svona dæmi séu afleiðingar þess að trúa því að andaveran guð verndi börn frekar ef þau eru skírð. Ef skírn veldur því að guð verndar frekar þau börn, þá gæti hjálp guðs oltið á því hvort að barnið sé skírt eða ekki. Guð gæti ákveðið að hjálpa Kristin á meðan hann horfir á Þór deyja.

Ef guð væri læknir

Hver yrðu viðbrögð okkar við lækni sem myndi hegða sér svona? “Því miður þá ætla ég ekki að hjálpa barninu ykkar, en ef það væri skírt, þá myndi ég hjálpa því.” Allir eru vonandi sammála því að sá læknir væri siðlaust illmenni. En svona hegðar guð sér sem verndar börn af því að þau eru skírð. Svona er guðinn hans Guðna.


Mynd fengin hjá Håkan Dahlström

Hjalti Rúnar Ómarsson 02.12.2013
Flokkað undir: ( Rökin gegn guði )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.