Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hómópatía – remedíur mæta rökum

Sykurpillur í hillu í apóteki

Hómópatía eða smáskammtalækningar er eitt af mörgum fyrirbærum sem einu nafni hafa verið nefnd óhefðbundnar lækningaaðferðir. Í þeirri umfjöllun sem fer hér á eftir verður erlenda heitið hómópatía notað enda gefa rannsóknir ekki tilefni til að nota heitið lækningar.

Höfundur hómópatíu var þýski læknirinn Samuel Hahnemann og upphafsártalið er talið vera 1755. Sagan segir að Hahnemann hafi blöskrað meðferð þeirra tíma læknisfræði á sjúklingum og því hafi hann farið að leita annarra leiða. Það verður að segjast að eins og ástandið var á þeirra tíma spítölum á Hahnemann hrós skilið fyrir að leita annarra leiða en aflimunar eða blóðtöku sem voru aðalverkefni lækna þess tíma. Á síðustu 250 árum hafa þó orðið mjög miklar framfarir í læknavísindum en hómópatía er hins vegar í öllum aðalatriðum óbreytt. Hugmyndafræði hómópatíunnar grundvallast fyrst og fremst á tveimur lögmálum, lögmálinu um að líkt læknar líkt og lögmálinu um lágmarksskammt.

Líkt læknar líkt – similia similibus curantur

Samkvæmt því sem ég hef lesið mér til um hómópatíu gengur hún meðal annars út á að “líkt læknar líkt”. Með því er átt við að sjúklingnum er gefið efni sem veldur þeim einkennum sem lækna skal og þannig sé líkamanum hjálpað að lækna sjálfan sig. Þannig er hugmyndin sú að til að lækna svitakóf gefum við efni sem veldur svitakófi, til að lækna magakveisu skuli gefa efni sem veldur magakveisu. Nú hlýtur að vera rökrétt að spyrja hvernig þetta má vera. Brjóstvitið gæti sagt okkur að meira af því sama viðhaldi einkennum frekar en að slá á þau.

Svar hómópatíunnar við spurningu brjóstvitsins er að þynna efnið út í mjög veika, pínulitla skammta sem eru svo agnarsmáir að enginn getur orðið veikur af þeim. Þá gæti brjóstvit einhvers tekið upp á því að spyrja: En getur þetta þá læknað nokkuð? Hómpatían telur sig líka eiga svar við því. Það er lögmálið um lágmarksskammt.

Lögmálið um lágmarksskammt – principle of minimum dose

Í sem allra stystu máli gengur lögmálið um lágmarksskammt út á það að því veikari eða meira þynntur sem skammturinn er því öflugri verði áhrifin. Þá er talað um að lausnin verði meira pótent. Lausn sem inniheldur virkt efni í hlutfallinu einn á móti milljón er samkvæmt þessu öflugri eða meira pótent en lausn sem inniheldur meira af virka efninu, til dæmis einn á móti þúsund. Skammtarnir eða remedíurnar verða því kraftmeiri eftir því sem þær eru þynnri og nú verður vikið að því hvernig remedíur eru framleiddar.

Aðferðin

Kerfið sem hómópatar nota við að þynna út remedíur sínar er við fyrstu sýn býsna flott. Til að lýsa eiginleikum þeirra er notast við viðskeyti sem byggja á rómverska talnakerfinu og tölur sem standa fyrir veldi af 10. Remedíurnar fá þannig heiti sem hafa vísindalegt yfirbragð eins og 30C eða 10X. Í rómverskum tölum stendur C fyrir 100 og þegar C er notað sem fasti við þynningu er einum hluta virka efnisins blandað í 99 af íblöndunarefninu sem oftast er vatn. Eftir blöndunina er lausnin hrist kröftuglega 10 sinnum áður en henni er skipt í 100 jafna parta og ferlið endurtekið fyrir hvern og einn þeirra. Þennan hristing segja hómópatar vera lykilatriði því við hann losni um orku úr sameindum virka efnisins sem færist yfir á vatnssameindirnar í lausninni. Arabíska talan á undan þeirri rómversku segir okkur svo hve oft ferlið er endurtekið. Þannig inniheldur remedía af styrkleikanum 30C einn hluta virks efnis á móti 100 í 30. veldi hluta vatns eða 100^30. Þessa tölu má svo einnig rita sem 10^60 þ.e. 1 með 60 núllum. Ef við höfum byrjað með einn millilítra af virku efni þynnist það því út í 10^60 millilítra vatns eða 10^57 lítra af vatni.

Það er mjög mikið af vatni. 10^57 má einnig rita svona: 100.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000

Til samanburðar má nefna að í einni 50 metra sundlaug má ætla að séu um 3000 rúmmetrar af vatni eða ca. þrjár milljónir lítra. 10^57 jafnast því á við mjög margar sundlaugar. Nánar tiltekið rúmlega 3*10^50 sundlaugar. Já það eru 3 með 50 núllum margar sundlaugar. Hafið jafnframt í huga að millilítrinn sem var í upphafi hefur dreifst jafnt á milli þeirra allra.

Fyrir þá sem finnst 57 eða 60 núll vera lítið má svo geta þess að hómópatar selja remedíur í þynningarhlutfalli allt að 200C (jú það er rétt, 100 í 200. veldi). Þær ku jafnframt vera mest pótent.

Og virkar þetta þá?

í stuttu máli nei.

Í aðeins lengra máli má fá dálitla hjálp frá efnafræðinni til að útskýra hvernig stendur á því.

Efnafræðin á margar skemmtilegar tölur og ein þeirra er tala Avogadros. Hún er 6,023*10^23 og lýsir fjölda mólikúla í einu móli hvaða efnis sem er. Mólmassi vatns er 18 g þannig að 18 g (eða ml) er því það magn vatns sem inniheldur 6,023*10^23 mólikúl eða sameindir vatns. Ef tölu Avogadros er beitt á remedíur hómópata kemur í ljós að allar remedíur sem hafa verið þynntar meira en sem nemur fastanum 12C eða 24X innihalda í raun aðeins vatn. Eftirfarandi dæmi sýnir fram á þetta:

Ef eitt mól vatns er 18 g inniheldur einni lítri 55,56 mól: 1000ml/18g=55,56ml

Ef við margföldum þá tölu með tölu Avogadros fáum við út fjölda vatnssameinda í einum lítra vatns:

55,56*6,023*10^23 = 3,35*10^25 Mólmassi arseniks er 74,92 g/mól. Fjöldi arsenikmólikúla í einu grammi er því 8,038*10^21. Sú tala er fengin með því að deila mólmassanum í tölu Avogadros: (6,023*10^23)/74,92=8,038*10^21

Arsenik er hér tekið sem dæmi vegna þess að vinsæl remedía heitir Arsenicum album, er sögð innihalda arsenik eða í það minnsta einhvers konar minningu um það og er gjarnan seld í þynningarhlutfallinu 30C. Ef við rifjum aðferðina upp munum við að 30C þýðir að lokaafurðin inniheldur einn hluta efnis á móti 10^60 hlutum vatns. Ef iðinn hómópati byrjar með 1 gram af arseniki þýðir það að hann endar með að hafa blandað þessu eina grammi saman við 10^57 lítra vatns. Ef við lækkum veldisvísinn um 12 fáum við fjölda rúmkílómetra vatns sem þyrfti til að blanda þetta eina gram af arseniki:

10^45 km³ vatns. Þess má geta að sú tala er mjög mikið hærri en áætlað heildarmagn vatns á jörðinni sem er 1.360.000.000 km³

Ef við gefum okkur nú að gamni að þrátt fyrir allt væri allt þetta vatnsmagn tiltækt gefur það samt augaleið að það myndi innihalda rosalega margar vatnssameindir. Nánar tiltekið væru þær ca. 3,35*10^82. Líkurnar á því að rekast á arseniksameind úr upprunalega gramminu innan um allan þennan fjölda vatnssameinda fást með deilingu:

(8,038*10^21)/ (3,35*10^82)=2,4*10^-61

2,4*10^-61 er agnarsmá tala. Sé hún rituð með 62 aukastöfum lítur hún svona út: 0,00000000000000000000000000000000000000000000000000000000000024

Önnur leið til að segja þetta er að ef við hefðum tök á því að velja eina sameind af handahófi úr súpunni þá væri ofangreind tala líkurnar á því að sú sameind yrði arseniksameind. Þessi tala er líka mikið minni en tala Avogadros og það er þess vegna sem efnafræðin getur sagt með vissu að þegar þarna er komið við sögu inniheldur remedían aðeins vatn.

En þetta virkar! – eða hvað?

Rétt eins og allir aðrir sem gefa sig út fyrir að lina þraut og lækna fólk eiga hómópatar auðvelt með að benda á frásagnir og gögn um meintan árangur af meðferðinni. Um það skal ekki deilt hér að margir lýsa dúnduráhrifum af remedíum hómópata. Það er hins vegar þrautin þyngri að benda á vísindalega traustar rannsóknir sem sýna fram á árangur. Í metaanalýsum á rannsóknum á áhrifum hómópatíu hafa höfundar komist að þeirri niðurstöðu að áhrif eða virkni hómópatíu sé ekki meiri en þau áhrif sem vænta mætti af lyfleysu. [1,2,3,4]

Við verðum því að leita annað til að skýra meintan bata af inntöku remedía. Nærtækustu skýringarnar fyrir þeim áhrifum sem remedíurnar eru taldar hafa eru svokölluð lyfleysu- eða placeboáhrif, tiltækiregla og aðhvarf að meðaltali. Þessum fyrirbærum sem öll eru mikilvæg þegar við reynum að skýra árangur hvaða meðferðar sem er verða gerð skil hér á vefnum er fram líða stundir.

Ritrýndar heimildir:
[1] Goldacre, B. (2007). Benefits and risks of homeopathy. The Lancet, 370, pp.1665-1736
[2] Linde, K., Clausius, N. o.fl. (1997). Are the clinical effects of homeopathy placebo effects? A meta-analysis of placebo-controlled trials. Lancet, 350, pp. 824-843.
[3] Linde, K. og Melchart, D. (1998). Randomized controlled trials of individualized homeopathy: A state-of-the-art review. The Journal of Alternative and Complementary Medicine, vol. 4 pp. 371-388.
[4] Shang, A., Huwiler-Müntener, K., Nartey, L. o.fl. (2005). Are the clinical effects of homeopathy placebo effects? Comparative study of placebo controlled trials of homeopathy and allopathy. The Lancet, vol. 366, pp. 726-732.

Aðrar heimildir:
Goldacre, B. (2007).The end of homeopathy? Sótt af eftirfarandi slóð: http://www.badscience.net/?p=578
– leitarorð: homeopathy, water

Slóðir:
http://www.elixirs.com/index.htm
http://www.elixirs.com/arsenicum.cfm
http://abchomeopathy.com/
http://www.homeowatch.org
http://www.quackwatch.org
– leitarorð: homeopathy, water

Frekara lesefni: – leitarorð: availability heuristic, cognitive bias, placebo effect, regression toward the mean

Birtist upphaflega á Húmbúkk

Mynd fengin hjá distillated

Pétur Maack Þorsteinsson 22.11.2013
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Gummi - 23/11/13 06:24 #

vatn er gott fyrir mann, no homeo

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.