Þann 6. nóvember birti RÚV frétt þess efnis að landlæknir hafi krafið kuklauglýsendur um að sýna fram á gildi þeirra lækningameðferða sem þeir auglýstu á vefsíðu sinni. Umrædd meðferð er svokölluð ósonmeðferð sem er sögð lækna ýmsa alvarlega sjúkdóma svo sem lifrarbólgu C og krabbamein*. Þessar aðgerðir landlæknis eru afar ánægjulegar því óhefðbundnar meðferðir eins og umrædd ósónmeðferðir virðast vera að sækja í sig veðrið á Íslandi.
Eins og kemur fram á ósónmeðferðarsíðunni, þá er þessi meðferð notuð gegn mjög alvarlegum og jafnvel ólæknandi sjúkdómum, þ.m.t. krabbameini, sykursýki, MS og rauðum úlfum (lupus). Því miður veldur það því að fólk með þessa sjúkdóma freistast til að gangast undir þessa meðferð sem síðasta úrræði. Að sjálfsögðu hafa þessar meðferðir engan lækningamátt; einu áhrifin er að pyngja sjúklingsins léttist. Þannig er örvænting fólks með ólæknandi sjúkdóma notuð til að hafa af því pening.
Brýnt er að krefja auglýsendur óhefðbundinna lækninga um að sannreyna það sem þeir halda fram, og í raun ættu óhefðbundnar lækningar að þurfa að ganga í gegnum sama samþykktarferli og þær hefðbundnu. Annars er auðvelt fyrir hvern sem er að halda því fram að þessi eða hin meðferð sé áhrífarík gegn hinum ýmsu sjúkdómum. Landlæknir á því hrós skilið fyrir að krefja aðstandendur ósónmeðferðarinnar um sannanir fyrir staðhæfingum sínum, og það er vonandi að fleiri kuklarar fái bréf frá honum í framtíðinni.
*Smáa letrið á vefsíðunni þar sem meðferðin er auglýst tekur þó fram að engum lækningum er lofað. Hins vegar er meðferðin sjálf ávallt kynnt sem n.k. undralækning, t.d. er kostnaður við hana borin saman við lyfjakostnað.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Björn Geir Leifsson - 08/11/13 16:53 #
Já. Það er um að gera að fólk sé duglegt að senda honum ábendingar og kvartanir. Hann er sá aðili sem samkvæmt (óljósum) lögum á að taka við slíku og veita kuklurum aðhald. Ekki gerir BÍG það, svo mikið er víst.