Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Engar ókeypis lóðir fyrir kirkjur

Mynd af Seljakirkju

Merkileg skoðanakönnun birtist nú um daginn. Samkvæmt niðurstöðum hennar eru yfir 70% aðspurðra á móti því að trúfélög fái fríar lóðir undir trúarbyggingar. Þetta er nokkuð mögnuð niðurstaða sem hlýtur að vekja upp spurningar um það af hverju í ósköpunum trúfélög búi við það umfram önnur félög að fá gjafir upp á jafnvel tugmilljóni króna frá sveitarfélögum.

Eitt trúfélag hefur auðvitað öðrum framar grætt á þessu í gegnum árin. Ríkistrúfélagið hér á landi. Það er kirkja í svotil hverri sveit landsins og í hverju einasta hverfi á höfuðborgarsvæðinu, og stundum fleiri en ein. Þarna liggja talsverðir fjármunir sem sveitarfélögin hefðu annars getað nýtt í hag allra útsvarsgreiðenda sinna, ekki einungis þeirra sem reglulega nýta sér kirkjuhúsnæði.

Niðurstöðu könnunarinnar ber að fagna. Það sem kemur einna mest á óvart varðandi hana er að andstaðan við þessar fríu úthlutanir er mest meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins. Stefna hans er samkvæmt seinasta landsfundi að hlúa beri að kirkjunni og að standa vörð um ríkiskirkjufyrirkomulagið. Kannski er landsfundur svona illa úr tengslum við grasrótina en í öllu falli ber að fagna því þegar fólk sér ljósið.

En mögulega misskildu einhverjir spurninguna. Ef til vill voru aðspurðir með hugann við umræðuna um nýlega úthlutun Reykjavíkurborgar á landi til byggingar mosku í borginni. Í þeirri umræðu kristallaðist einmitt stærsti gallinn við núverandi kerfi. Það heldur þeim möguleika opnum að trúfélögum sé mismunað, telji þeir sem fara með opinbert vald sig ekki geta leyft öllum skráðum trúfélögum að sitja við sama borð þegar kemur að bitlingum.

Það er til mjög einföld leið til þess að koma í veg fyrir það. Trúfélög eiga að greiða sjálf fyrir þær lóðir sem þeim er úthlutað, eins og önnur félög og allur almenningur gerir. Annað er í raun fáránlegt. Og um það virðast 70% þjóðarinnar vera sammála mér, sé miðað við þessa könnun.


Mynd fengin hjá Álfheiði Magnúsdóttur

Egill Óskarsson 15.10.2013
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Jón Ferdínand - 15/10/13 09:55 #

Það sem kom mér mest á óvart var stuðningur VG við slíkt fyrirkomulag. Það finnst mér einna helst benda til þess einmitt að margir tengdu þetta við mosku-málið. Skoðanir Sjálfstæðisfólks finnst mér þó ekkert koma mér neitt sérstaklega á óvart ef miðað er við hugmyndafræði frjálshyggjunnar. Þar er ekkert ókeypis og ef þú vilt fá eitthvað, þá þarftu að vinna fyrir því.


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 15/10/13 11:34 #

Það er rétt að útfrá frjálshyggju þá ætti ekki að koma á óvart að sjálfstæðisfólk sé á móti því að trúfélög fái ókeypis lóðir. Það hinsvegar hefur bara farið ansi lítið fyrir frjálslyndi í samfélagsmálum, og þá sérstaklega trúmálum, hjá flokknum undanfarið ef við undanskiljum ungliðahreyfinguna.


Jóhann - 18/10/13 00:27 #

Ég held að þú þurfir að gera grein fyrir því hvenær þjóðkirkjan fékk síðast úthlutað ókeypis lóð, Egill.

Var það á þessari öld?

Nú kann veraldahyggja að vera þér einkanlega hjartkær, líklega í nafni frjálslyndis og frjálshyggju sem þú hrærir saman í einn graut.

Þó þessar stefnur séu vart röklega tengdar.

Þú hjalar bara um neysluhyggju í nafni trúleysis.


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 18/10/13 00:39 #

Tja, hvenær var síðasta kirkja reist?

Úr lögum um kristnisjóð og fleira (nr. 35/1970):

  1. gr. Sveitarfélögum kaupstaða og kauptúna er skylt að leggja til ókeypis lóðir undir kirkjur og undanskilja þær gatnagerðargjaldi.

EgillO (meðlimur í Vantrú) - 18/10/13 00:41 #

Formið hérna hefur haldið að ég væri að fara að gera lista. Þetta á að vera 5. grein.

Það væri svo ágætt, Jóhann ef þú nenntir að kynna þér hlutina aðeins áður en þú gasprar.


Jóhann - 18/10/13 02:11 #

Ég er enginn kirkjunnar maður.

En þú ert bara að gotta þér á muninum á kirkjum og öðrum byggingum sem varða trú manna.

Ekki til þess að bjóða uppá neitt annnað en ruglið í þér um "frjálshyggu og frjálslyndi".

Sem á endanum varðar líklega öðru fremur skattlagningu.

Þar liggur þín andlega reisn.


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 18/10/13 07:53 #

Viðurkenndu bara að þú hljopst á þig.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 18/10/13 09:30 #

Guðríðarkirkja í Grafarholti var byggð á þessari öld - á ókeypis lóð. Lindakirkja í Kópavogi var einnig byggð á þessari öld og líka á ókeypis lóð.


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 18/10/13 15:29 #

En þú ert bara að gotta þér á muninum á kirkjum og öðrum byggingum sem varða trú manna.

Ég er einmitt að benda á að það er engin munur á kirkjum og öðrum byggingum sem varða trú manna þegar kemur að fríum lóðaúthlutunum. Er ekkert þreytandi að lesa sífellt eitthvað annað í orð okkar en þar er að finna?


Jóhann - 18/10/13 21:38 #

Það er eitt að halda því fram að allar trúarlegar stofnanir eigi að fá ókeypis lóðir.

Það er annað að halda því fram að engar trúarlegar stofnanir eigi að fá ókeypis lóðir.

Það viðmið, sem þið notið til að greina þarna á milli, varðar öðru fremur "hagfræðilegt réttlæti".

Má vera að á endanum verði sú heimsýn raunin, að allt verði verðmerkt, í nafni "frjálslyndis og frjálshyggju". Og tilfallandi genastreymi a la Dawkins verði trúarjátningin.

Kannski mætti biðja ykkur trúleysingjana á benda á eina stofnun í nafni ykkar, sem sinnir hungruðum og hrjáðum? Hvort heldur sem er mönnum eða dýrum.

Áður en að því kemur þá þykir mér réttara að hygla lítilega þeim sem vilja safna mönnum saman um hugmyndina um trú, von og kærleika.


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 19/10/13 10:36 #

Það er eitt að halda því fram að allar trúarlegar stofnanir eigi að fá ókeypis lóðir.

Það er annað að halda því fram að engar trúarlegar stofnanir eigi að fá ókeypis lóðir.

Takk. Þetta var ekki algjörlega augljóst fyrir.

Það viðmið, sem þið notið til að greina þarna á milli, varðar öðru fremur "hagfræðilegt réttlæti".

Ef þú vilt kalla það "hagfræðilegt réttlæti" að vera á móti því að hið opinbera greiði niður rekstrarkostnað ákveðinna félaga um tugi og hundruði milljóna þá er það í lagi mín vegna. Okkar rök snúa hins vegar ekki að því eingöngu, eins og kemur skýrt fram í pistlinum.

Áður en að því kemur þá þykir mér réttara að hygla lítilega þeim sem vilja safna mönnum saman um hugmyndina um trú, von og kærleika

Á hverju ári fara milljarðar úr ríkiskassanum til trúfélaga. Reglulega niðurgreiða svo sveitarfélög tugi milljóna til trúfélaga í formi ókeypis lóða og niðurfellinga á fasteignagjöldum. Það er ekkert lítillega við þetta á sama tíma og verið er að skera niður í grunnþjónustu. Þú mátt alveg kalla þá afstöðu að vilja frekar að fjármagn hins opinbera fari frekar í hluti eins og heilbrigðis- og menntakerfið sem frjálshyggju, en það er einfaldlega aumt þvaður. Ef þú vilt ræða skoðanir mínar í pólitík frekar þá bendi ég þér á spjallborðið. Þessi grein snýst ekki um þær og byggir ekki á þeim.


Jóhann - 19/10/13 20:51 #

"Ef þú vilt ræða skoðanir mínar í pólitík frekar þá bendi ég þér á spjallborðið. Þessi grein snýst ekki um þær og byggir ekki á þeim."

Þessi grein þín varðar öðru fremur pólitík!

...og vinsamlega ekki flagga: "á sama tíma og verið er að skera niður í grunnþjónustu." framan í mig.

Þér væri nær að hampa viðlíka hugmyndum á Útvarpi Sögu, enda vija fábjánarnir þar afnema alla þróunaraðstoð með nákvæmlega sömu rökum.


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 20/10/13 00:05 #

Þessi grein þín varðar öðru fremur pólitík!

...og vinsamlega ekki flagga: "á sama tíma og verið er að skera niður í grunnþjónustu." framan í mig.

Þú ert að reyna að halda því fram að hér ráði einhver frjálshyggja för hjá mér. Ég er að benda þér á að það er kjaftæði því að það sem fer í taugarnar á mér varðandi þessar gjafir til trúfélaga er að þetta er peningur sem væri hægt að nýta á betri hátt af hinu opinbera. Semsagt engin frjálshyggja. Ef þú værir að reyna að koma fram með málefnalega gagnrýni þá hefðir þú áttað þig á þessu samhengi.


Einar - 22/10/13 14:27 #

Kannski mætti biðja ykkur trúleysingjana á benda á eina stofnun í nafni ykkar, sem sinnir hungruðum og hrjáðum? Hvort heldur sem er mönnum eða dýrum.

Voðalega er svona yfirlæti þreytandi.

Trúlaust fólk starfar út um allan heim í hinum og þessum góðgerðasamtökum og við hjálparstörf. Læknar, hjúkrunarfólk.. líka starfsfólk á dýraskýlum ;), sjálfboðaliðar.. osfrv. Látum trúarstofnanirnar sjá um að halda úti ríkisstyrktum góðgerðasamtökum, þótt að það geti vel verið að samtök fólks sem ekki trúir á guð, sé að vinna að góðgerðamálum.


Gaurinn - 26/10/13 06:42 #

Afhverju kemur það á óvart? XD er ekki að styðja kirkjuna af sömu ástæðum og margir halda kannski, og það búa aðrar kenndir á bak við það. Betra að fara ekki nánar út í það. Eða á maður að þora því? En þó ástæðan fyrir stuðningi þeirra við Þjóðkirkjuna væri fyrst og fremst trúarleg, sem hún er alls ekki, þá er á skjön við hugmyndafræði þeirra í stjórnmálum að útdeila almannafé á þennan hátt. Vinstri Grænir hugsuðu þetta ekki lengra en moskuna. Af gamalkunnum bláeygum barnaskap. Þeir hefðu örugglega sagt nei ef þeir hefðu hæfileika til að hugsa lengra en nef þeirra nær og fattað þetta bitnaði illa á Þjóðkirkjunni. VG-liðar detta flestir, ekki bráðgreindi minnihlutinn í þeim flokki sem samanstendur af rjóma Íslands, í bjálfagryfjuna um að óvinur vinar míns sé vinur minn. Ef Arabarnir og Íran væru upp á kant við Kína eða Bólívíu, þá myndu þeir fæstir sýna trúmálum þeirra áhuga frekar en mannréttindamálum Tíbet eða slæmri stöðu Ástralskra frumbyggja. Besti óvinur sem hægt er að eiga er Bandaríkin. Þá eignast maður svo marga góða vini. Ef Kananir væru ekki svona kristnir, þá væru þessir Vinstri Grænu örugglega margir að taka kaþólska prestvígslu.


Gaurinn - 26/10/13 06:55 #

Sæll Jóhann. Afhverju ættu trúleysingjar að halda úti góðgerðarstofnun í sínu nafni? Það væri fáránlegt af mörgum ástæðum. Í fyrsta lagi myndu fáir líta við slíkri stofnun sem mest þurfa á aðstoð að halda. Nú er neyðin til að mynda mikil í Sýrlandi en þar voru uppreisnarmennirnir sem vilja koma á trúríki í stað hins nokkuð frjálslynda í trúmálum Assad myrt barn fyrir að segjast ekki trúa á Guð http://religiousatrocities.wordpress.com/2013/06/11/syria-islamic-rebels-execute-15-y-o-alleged-atheist/ Trúleysi er glæpur í þeirra augum. Ef "Rauða sigðin" góðgerðarsamtök í stíl Rauða Krossins og Rauða Hálfmánans kæmu til Sýrlands yrðu þeir strax myrtir allir með tölu. Trúleysi er glæpur sem varðar við dauðarefsingu í mörgum fátækustu ríkjum heims. Þó svo væri ekki og það væri óhætt fyrir trúlausa að stunda góðgerðarstarfsemi af þessu tagi, afhverju ættu þeir að gera það. Menn sameinast um eitthvað sem þeir trúa á, en ekki í vantrú. Einu hóparnir sem sameinast í vantrú og vanþóknun eru til dæmis rasistar. KKK liðar hópa sig saman og spjalla um hvað þeim sé illa við svarta menn og hvernig sé best að losna við þá. (Öfgatrúleysingjar er meira að reyna að "frelsa trúmenn". Þeim er sama um tilvist þeirra svo lengi sem þeir leitist við að verða "réttir", svona eins og hvítir menn sem eru smá rasískir en eru alveg til í að meðtaka einhvern sem fer að hegða sér eins og hvítur maður, losar sig við hreim og mállýsku og önnur menningarleg og persónuleg sérkenni sem tengja hann við svarta menn.) Betra er að safnast saman um eitthvað sem manni finnst skemmtilegt og hefur trú á. Fótbolltamenn gætu stofnað góðgerðarsamtök, líka áhugamenn um rapptónlist "Rap for charity" gætu þau heitið. Það væri líka hægt að stofna góðgerðarsamtök prjónakvenna, og mörg svoleiðis eru einmitt til. Það er aftur á móti ekki fýsilegt að setja á stofn góðgerðarsamtök "manna sem finnst ógeðslega hallærislegt að prjóna" eða góðgerðarsamtök "manna sem hata rapp". Það bara gengur ekki upp. Drifkrafturinn verður ekki nógu mikill til lengdar. Lífið er svo stutt það er betra að hugsa meira um það sem manni er kærast og maður hefur mesta trú á, heldur en alla vitleysuna í öllum hinum. Eitt af því fáa sem við jarðarbúar eigum sameiginlegt er að finnast allir sem eru mátulega ólíkir okkur sjálfum vera hálfgerðir vitleysingar og við á einhvern hátt betri, skynsamari og vitrari en þeir. Þeir sem afneita því eru bara í sjálfsupphafningu að ímynda sér þeir séu auðmjúkari og víðsýnni en aðrir, sem leiðir að sömu niðurstöðu: öðrum mönnum betri og fremri, skynsamari og þróðari.


4real - 27/10/13 11:21 #

Ríkið á ekki að styrkja nein trúarbrögð. Samt verður að setja lög til að koma í veg fyrir starfsemi trúfélaga sem virða ekki aðskilnað ríkis og kirkju og eru líkleg til tilrauna til valdaráns. http://www.youtube.com/watch?v=M4ZllIoagsQ Líklega er rétt að það að hafa Þjóðkirkju dregur úr áhuga á trúarbrögðum, miðað við að fjölgun múslima af Evrópskum uppruna er mest í Bandaríkjunum og í Frakklandi, þar sem aðskilnaður ríkis og kirkju er skírastur. Bandaríkin eru með sterkastan aðskilnað ríkis og kirkju og hafa gert lögbrot að biðja bæn í skólanum. Samt eru hvergi fleiri sértrúarsöfnuðir og hvergi fleiri sem breyta um trú. Í löndum þar sem er þjóðkirkja eins og Noregi og Íslandi er mjög lítill áhugi á trúarbrögðum, menn sáttir við eigin uppruna, en kukla kannski eitthvað upp á eigin spýtur í öðru, eða hunsa hann og láta sér fátt um finnast, án þess að yfirgefa kirkjurnar. En þetta öryggi sem Þjóðkirkjan veitir nægir samt ekki til að færa rök fyrir því, því Þjóðkirkja er mannréttindabrot og ekki hægt að tala um trúfrelsi þar sem er Þjóðkirkja. Áður en við losnum við Þjóðkirkjuna væri samt fínt að fá löggjöf sem kemur alfarið í veg fyrir að svona starfsemi sé lögleg eins og sést í þessu myndskeiði. http://www.youtube.com/watch?v=M4ZllIoagsQ

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.