Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Um Læknavísindakirkjuna

Mynd af frægu merki lækninga

Hugmyndin á bak við Læknavísindakirkjuna er fín en erfið í framkvæmd. Ríkið borgar ríkiskirkjunni 11.600 krónur á ári fyrir hvern meðlim. Með því að stofna trúfélag sem gefur peninginn til heilbrigðismála, eða einhverra góðgerðamála, getur fólk látið peninginn renna í eitthvað gagnlegra heldur en ríkiskirkjuna. Framtakið er gott, enda er núverandi ástand ólíðandi. En ef fólk vill gera eitthvað gagnlegt strax* þá getur það skráð sig utan trúfélaga. Sóknargjöldin renna þá í ríkissjóð og þaðan til ráðuneyta, þar á meðal til heilbrigðisráðuneytisins.

Skýr skilyrði fyrir skráningu

Vandamálin sem liggja fyrir skráningu Læknavísindakirkjuna eru þónokkur.

Til að byrja með mun ekki ganga upp að segja að “trú á læknavísindin” sé grundvöllur trúfélagsins. Lögin gera ráð fyrir því að með orðið trú sé notað í venjulegri merkingu, en ekki einhverri útúrsnúningsmerkingu eins og “Trúleysi er trú” eða “Að halda með fótboltaliði er trú”.

Læknavísindakirkjan þyrfti því að bæta inn einhvers konar alvöru trú, til dæmis trú á norrænu læknagyðjuna Eir. Það væri hugsanlega einfaldara að reyna fá skráningu sem lífsskoðunafélag. En það eru einnig ýmis vandkvæði sem fylgja því.

Félagið þarf líka að “sjái um tilteknar athafnir, svo sem útfarir, giftingar, skírnir eða nafngjafir og fermingar eða aðrar hliðstæðar athafnir” og félagið þarf að “hafa náð fótfestu” og “starfsemi þess [skal vera] virk og stöðug”. Þetta tekur allt tíma og vinnu.

Loks þarf samþykki nefndar sem er meðal annars skipuð af fulltrúa Guð- og trúarbragðafræðideildar HÍ. Það er ekkert leyndarmál að gamli Prestaskólinn er meira en lítið hallur undir ríkiskirkjuna. Fulltrúar hans sitja á kirkjuþingum ríkiskirkjunnar og hafa atkvæðisrétt í biskupskjöri. Það er óskiljanlegt að fulltrúar ríkiskirkjunnar í HÍ hafi umsagnarrétt um skráningar trú- og lífskoðanafélaga.

Hver á peningana?

Talsmenn ríkiskirkjunnar og ýmissa stjórnmálaflokka halda því oft fram að sóknargjöld séu félagsgjöld. Það er ekki rétt. Ef svo væri, þá er frekar furðulegt að fólk þurfi að beita svona brögðum til þess að beina eigin peningum þangað sem það vill.

Ef þarna væri um innheimtu á félagsgjöldum að ræða myndi fólk utan trúfélaga ekki borga þessi meintu félagsgjöld. Það gæti látið peninga sína renna hvert sem það vildi, til Landsspítalans, Hjálparsveit skáta eða Kattholts svo dæmi séu tekin.

Eðlilegasta lausnin væri að breyta kerfinu og hætta að styrkja trúfélög með sóknargjöldum. Þau myndu þá fjármagna sig eins og hvert annað félag, með félagsgjöldum. Og þá væri engin þörf á Læknavísindakirkjunni.

Alvöru hjálp

Þó það sé útilokað í dag að Læknavísindakirkjan fái skráningu sem trúfélag þá hefur uppátækið engu að síður vakið athygli á fáránleika sóknargjaldakerfisins og stuðlað að umræðu um þetta málefni. Því fögnum við.

Ef fólk vill mótmæla ríkiskirkjufyrirkomulaginu og sjá til þess að meira fjármagn renni í þarfari verkefni en Þjóðkirkjuna þá er afskaplega auðvelt að skrá sig úr ríkiskirkjunni.


*Samkvæmt hefðbundnum skilningi á orðinu strax, þ.e. í dag - ekki á næstu árum.

Mynd fengin hjá Steve Snodgrass

Ritstjórn 14.10.2013
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú , Sóknargjöld )

Viðbrögð


Magnús Ragnar Magnússon - 14/10/13 21:41 #

Af hverju er ekki hægt að búa til stofnunargjald fyrir „þá sem minnst eiga (svo sem hjálparstofnanir sem vilja útríma fátækt í hvaða mynd sem sú fátægt kann að nefnast)“ og síðan getur helmingurinn af þessum útgjöldum farið í sjúkrakaup á nýjum tækjum og þess nauðsinnleggs útbúnaði sem hver sjúkrahús þurfa á að halda, og líka væri hægt að leggja helming styrk til hjálparsveitskáta og þess úræðis sem fylgja þeirri hjálparstofnun.

Því í raun þarf ekki trúargjöld að vera, heldur hjálpargöld sem hjálpar þeim sem minnst eiga og eru fordómslega fordæmdir við það að eiga við fátægt að stríða, og ekki nóg með það, þá eiga margir sjúkir í þessum heimi mjög erfitt nú á okkar 21. öld mikið við vanda að stríða sem ríkisjóðir landsins geta ekki (eða vilja ekki) leggja sína hjálparhönd við að styðja.

Þannig ef jafnræði á að vera á milli vantrúaða og trúaða, þá verður ríkið að jafna það frelsi, en ekki splundra frelsi manna á það sem líf allra skiptir mest máli. Því jú, við erum öll fólk, og við öll köllum eftir jafnræði; enn hvernig jafnræði viljum við?


Emil Friðriksson (meðlimur í Vantrú) - 25/10/13 10:03 #

Rakst á sniðugt video á Khan Academy. Það er hægt að lýsa ýmiskonar athöfnum sem fara nú þegar fram hjá læknum á svipaðan hátt og kirkjulegum athöfnum.

Sjá myndbandið hér

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.