Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Fölsun Agnesar biskups í drottningarviðtali

Blaðaúrklippa

Fyrir stuttu tilkynnti biskup ríkiskirkjunnar, Agnes Sigurðardóttir, að hún ætlaði að taka þátt í hátíð Franklin Grahams. Það kom okkur í Vantrú ekki á óvart. Það sem kom hins vegar á óvart var að í drottningarviðtalinu þar sem hún tilkynnti um þetta á Rás 2 virtust útvarpsmennirnir beinlínis hafa fengið spurningalista frá Biskupsstofu og leyfðu Agnesi að komast upp með hreint ótrúlega sögufölsun.

Sögufölsun Agnesar

Þetta segir Agnes Sigurðardóttir á 52. mínútu Morgunútvarps Rásar 2:

Þjóðkirkjan hefur verið í fararbroddi af kirkjum heimsins [í réttindabaráttu hinsegin fólks - Hjalti] og jafnvel líka hér á Íslandi af stofnunum þjóðfélagsins.

Agnes fer alls ekki með rétt mál. Sannleikurinn er nefnilega sá að ríkiskirkjan barðist gegn nánast öllum áföngunum í réttindabaráttu hinsegin fólks og tafði réttarbætur um mörg ár, jafnvel áratug. Þjóðkirkjan var dragbítur og fylgdi síðan straumnum þegar hún gat ekki lengur barist við hann.

Afrekaskrá ríkiskirkjunnar

Ríkiskirkjan barðist gegn því að samkynhneigðir fengu að ættleiða og að lesbíur fengu að fara í tæknifrjóvgun[1].

Árið 1995, þegar verið var að semja lög um staðfesta samvist vildi ríkið leyfa prestum ríkiskirkjunnar að staðfesta samvist. Ríkiskirkjan var á móti því[2].

Það tók kirkjuna tólf ár að skipta um skoðun og árið 2007 féllst ríkiskirkjan á að prestum hennar yrði leyft að staðfesta samvist, en kirkjan lagði mikla áherslu á þessir starfsmenn ríkisins hefðu “samviskufrelsi”[3].

Þá þegar voru háværar kröfur í samfélaginu um ein hjúskaparlög. Nokkrir prestar vildu svara kalli samfélagsins og lögðu það til á Prestastefnu sama ár að Þjóðkirkjan myndi styðja ein hjúskaparlög. Því var auðvitað hafnað[4]og á kirkjuþinginu 2007 var sagt að kirkjan “stendur við hefðbundinn skilning á hjónabandinu sem sáttmála karls og konu”.

Ári seinna var lagt fram á Alþingi frumvarp til einna hjúskaparlaga. Þjóðkirkjan lagðist gegn þeim og í umræðum á Alþingi kemur fram að margir vildu ekki styðja þetta vegna þess að þeir vildu ekki “styggja kirkjuna”.

Loksins árið 2010 nennti fólk ekki að bíða eftir ríkiskirkjunni lengur. Þá kom fram á Alþingi frumvarp til einna hjúskaparlaga sem myndi að öllum líkindum verða samþykkt. Á prestastefnu 2010 kom fram tillaga um að Þjóðkirkjan myndi styðja ein hjúskaparlög. Sú tillaga var ekki samþykkt. Alþingi samþykkti síðan lögin, en ríkiskirkjan barðist mikið fyrir því að prestar hennar, sem eru embættismenn ríkisins, gætu sleppt því að vígja samkynja hjón ef þeir vildu það ekki. Agnes sjálf hefur sagst styðja þetta “samviskufrelsi”[5].

Að vera ofarlega í fjórðu deild

Ég efast stórlega um að ríkiskirkjan sé í “fararbroddi af kirkjum heims” í réttindabaráttu hinsegin fólks. Það er helling af frjálslyndum kirkjum í heiminum sem hafa stutt þessa baráttu alla tíð (á Íslandi má til dæmis benda á Fríkirkjuna í Reykjavík).

Þjóðkirkjan er eflaust í fararbroddi ef við miðum við kirkjur eins og kaþólsku kirkjuna, Krossinn og rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna, en að hrósa sér af því er eins og að telja það stórkostlegt afrek að vera ofarlega í fjórðu deild.

En sú fullyrðing Agnesar að ríkiskirkjan hafi verið í fararbroddi af stofnunum þjóðfélagsins í réttindabaráttu hinsegin fólks er vægast sagt fáránleg. Ég veit ekki um neina aðra stofnun á Íslandi sem hefur tafið réttarbætur samkynhneigðra jafn mikið og barist jafn mikið gegn þeim og enn í dag geta prestar neitað samkynhneigðum um ákveðna þjónustu. Ég á erfitt með að ímynda mér hvaða stofnanir þjóðfélagsins geta hugsanlega verið eftirbátar ríkiskirkjunnar.


Sjá einnig:

Framtíðin er núna, sem fjallar um svipaða fullyrðingu frá ríkiskirkjupresti.

Sigurður Hólm hrekur ýmsar aðrar fullyrðingar Agnesar í viðtalinu á skoðun.is


[1] Sjá umsögn Biskupsstofu um lagafrumvarpið sem veitti loks samkynhneigðum réttinn til ættleiðinga og tæknifrjóvgana.

[2] Svarbréf biskups til dóms- og kirkjumálaráðuneytis dagsett 21. nóvember 1995 (tilvitnun fengin úr greinargerð lagafrumvarpsins: “,Kirkjan gerir sér vitanlega grein fyrir því að prestar hennar eru ekki aðeins í þjónustu trúarlegs aðila, heldur einnig opinberir starfsmenn, sem hljóta að lúta lögum ríkisins og fyrirmælum. Hins vegar óskar kirkjan alls ekki eftir því og telur það mjög vafasamt að mælt verði fyrir því í lögum að heimild sé veitt til kirkjulegrar vígslu samkynhneigðra.”

[3] Samanber þessa ályktun kirkjuþings 2007: “Kirkjuþing lýsir stuðningi við meginatriði ályktunar kenningarnefndar um Þjóðkirkjuna og staðfesta samvist og stendur við hefðbundinn skilning á hjónabandinu sem sáttmála karls og konu.

Ef lögum um staðfesta samvist verður breytt þannig að trúfélög fái heimild til að staðfesta samvist þá styður Kirkjuþing það að prestum Þjóðkirkjunnar, sem eru vígslumenn að lögum, verði það heimilt. Kirkjuþing leggur áherslu á að frelsi presta í þessum efnum verði virt.”

[4] Frétt á heimasíðu kirkjunnar: “ “Prestastefna haldin á Húsavík 24. – 26. apríl 2007 leggur til að Þjóðkirkjan fari þess á leit við Alþingi að það samræmi hjúskaparlög og lög um staðfesta samvist þannig að vígslumönnum þjóðkirkjunnar og skráðra trúfélaga verði heimilt að annast hjónavígslu samkynhneigðra.”

Þessi tillaga var felld með 64 atkvæðum gegn 22.“

[5] “Ef fólk er samkynhneigt þá leiðir það af sjálfu sér að það vill vera í hjúskap einstaklings af sama kyni. Það á EKKI að þvinga presta til þess að framkvæma hjónavígslur af því tagi. Það Á AÐ virða samviskufrelsi þeirra.” - Agnes Sigurðardóttir #

Mynd tekin héðan

Hjalti Rúnar Ómarsson 06.09.2013
Flokkað undir: ( Ríkiskirkjan , Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Óli Jón - 06/09/13 10:04 #

Við hæfi er að halda til haga ummælum fyrri biskups þar sem hann sagði að með hjónabandi samkynhneigðra væri verið að kasta hjónabandinu á sorphaugana.

Sjá: http://www.vantru.is/2006/01/05/01.37/


gös - 06/09/13 10:20 #

Skuldið þið ekki Berserkjum, Einherjum og KFG afsökun?

Djók :)


Bisat - 06/09/13 11:24 #

Það var sorglegt að hlusta á þetta viðtal.

Sjálfsmæring um stuðning við samkynhneigða, fáfræði varðandi Franklin Graham og svo að sjálfsögðu þessar venjulegu rangfærslur varðandi sóknargjöldin, a.k.a. "félagsfjöldin".

Mikið rosalega vantar okkur Íslendinga alvöru fréttamenn sem þora að spyrja erfiðu spurninganna.


Jóhann (meðlimur í Vantrú) - 06/09/13 13:09 #

Sem Hvítur Riddari þá er ég hrikalega sár og krefst afsökunar.

En án alls gríns, hvar eru fréttamennirnir með punginn?


edda - 06/09/13 13:46 #

Jóhann, hvar eru fréttamennirnir með "punginn"?? Ertu að gefa í skyn að þessir fréttamenn séu bara "kerlingar"? Æ plz... Ágætis samantekt annars.


Miniar - 06/09/13 20:59 #

Hélt nú að það væri þverbannað samkvæmt biblíunni að bera ljúgvitni...


Jóhann (meðlimur í Vantrú) - 06/09/13 21:52 #

Edda: Æ plz

Það er semsagt ekki aðeins kaldhæðni heldur einnig myndlíkingar sem skiljast illa yfir lesinn texta á veraldarvefnum?

Ég var ekki að biðja um fréttamenn með bókstaflegan pung, heldur hreðjar...

...til þess að spyrja þarfra spurninga.

Plz


Sindri G - 06/09/13 23:35 #

Ég fatta vel þennan punkt hjá Eddu... Jóhann ætlaði auðvitað ekki að vera með sérstaka karlrembu, en það er orðið tímabært að taka svona orðfæri til endurstkoðunar. Þ.e. að þeir sem hafi pung (hreðjar) hafi frekar dug og þor. Standi sig frekar. Það er auðvitað ekki svoleiðis. En þess háttar umræða tengist svo sem ekki efni greinarinnar. Góð samantekt og gott að halda þessu til haga. Kirkjan er svo sannarlega ekki í fararbroddi þegar kemur að réttindum samkynhneigðra, heldur er hún dragbítur.


Hörður Torfason - 07/09/13 09:57 #

Ég sem upphafsmaður réttindabaráttu samkynhneigðra á Íslandi og aðalhvatamaður að stofnun Samtakanna´78 get ég bætt því hér inní að ég forðaðist kirkjuna eins og heitan eldinn í allri umræðu um okkar málefni. Ég lagði á það áherslu þegar ég var að berjast fyrir stofnun Samtakanna ´78 (það tók rúm 2 ár) að við forðuðumst í lengstu lög að nefna kirkjuna á nafn í opinberri umræðu eða hleypa henni að málefnum okkar ef við ætluðum að ná árangri. Ég varð aldrei var við stuðning íslensku kirkjunnar, nema síður væri. Mér var alveg fullljóst að baráttan í beindist einmitt gegn viðhorfi og boðskap kirkjunnar.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 07/09/13 14:50 #

Alveg merkilegt að hún telji sig komast upp með þetta. Trúir hún þessu sjálf?

Off topic: Er algjörlega sammála Eddu. Það er engin ástæða til að notast við orðbragð sem byggir á úreltum kynjaímyndum.


Sindri Geir - 27/09/13 11:05 #

Svar guðfræðinema - gjörsvovel

https://ordid.hi.is/?p=1015


Matti (meðlimur í Vantrú) - 27/09/13 13:05 #

Ég er ekki að skrifa þetta til að fara í vörn fyrir biskupinn, heldur langar mig að þræða einhvern meðalveg á milli tveggja póla sem eru viðtal Agnesar og pistill Vantrúar.

Segir í grein guðfræðinemans en svo er tekið efnislega undir allt sem fram kemur í þessum pistli Vantrúar.

Því verður ekki neitað að þjóðkirkjan hefur svarta fortíð þegar litið er til réttindabaráttu samkynhneigðra og það er í raun særandi að Agnes fari með svona rangt með staðreyndir. Biskup og yfirstjórn þjóðkirkjunnar lögðu sig fram við að vinna gegn réttindabaráttu hinseginfólks, það er ekki hægt að hylma yfir það eða endurskrifa söguna.

Hvaða meðalveg er þá verið að þræða? Má ekki einfaldlega hrósa Vantrú fyrir réttmæta gagnrýni á rangfærslur biskups?


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 27/09/13 13:33 #

Sindri: Eins og Matti segir þá virðist amk af orðunum sem hann vitnar þar í að við séum í grundvallaratriðum sammála. Þjóðkirkjan á svarta fortíð í þessum málaflokki og það er skömm af því að Agnes reyni að falsa söguna svona (og hún er ekki ein um það!)

Svo sýnist mér þú hugsanlega misskilja fjórðu-deildar-líkinguna mína. Ég var að segja að þegar kemur að réttindum hinsegin fólks eru kirkjur almennt fjórða deildin, og Þjóðkirkjan er ofarlega í þeirri deild. Þegar talsmenn ríkiskirkjunnar eru að hampa sér yfir því að kirkjan þeirra sé "í fremsta flokki á meðal kirkna heimsins" þá er það bara frekar ómerkilegt afrek.

Fólk skiptir ekki um skoðun yfir nótt, það tók presta og leikmenn innan þjóðkirkjunnar mörg ár að komast að þeim stað sem hún er á í dag, en hún komst hingað vegna opinskárrar umræðu, bæði innan og utan kirkjunnar, vegna þrautseigju réttsýns fólks, en ekki aðeins til að fylgja almenningsáliti eins og Vantrú heldur fram.

Þjóðkirkjan kom á þann stað sem hún er í dag af því að hún var hálf-neydd til þess af Alþingi. Þegar á málið reyndi árið 2010 þá var einum hjúskaparlögum hafnað á prestastefnu. Eftir að lögunum var breytt af ríkinu fylgdi kirkjan því svo með því að breyta innri samþykktum sínum með hálfgert óbragð í munninum.

Næsti steinn sem velta þarf úr götu mannréttinda hinsegin fólks innan kirkjunnar er hið svokallaða samviskufrelsi presta. Auðvitað getur það ekki liðist að starfsmenn stofnunar hafi vald til að neita ákveðnum hópi þjónustu, það er í raun ekkert nema mannréttindabrot.

Og taktu því eftir að í fyrra kaus prestastéttin og sóknarnefndaformennirnir biskup sem styður þetta mannréttindabrot. Sannarlega í fararbroddi af stofnunum samfélagsins!


Sindri Geir - 27/09/13 13:43 #

Sæll, þú spyrð hvaða meðalveg ég er að þræða - ég er einfaldlega að benda á nokkra hluti, að það var ekki aðeins til að fylgja almenningsáliti sem að kirkjan breytti stöðu sinni gegn samkynhneigðum.

Kirkjan er ekki bara biskupinn og að afstaða biskupsins er ekki dæmigerð fyrir afstöðu kirkjunnar allrar, því finnst mér í raun að Karl Sigurbjörns hafi misnotað stöðu sína til að koma eigin fordómufullu skoðunum á framfæri í nafni þjóðkirkjunnar.

Það sem mér þykir í raun vanta hvað mest í pistilinn er viðurkenning á þeim hópi presta, guðfræðinga og leikmanna sem tóku virkan þátt í baráttu fyrir bættum mannréttindum hinsegin fólks innan kirkjunnar - þar tel ég mig kannski vera að feta ákveðinn milliveg á milli þess sem við takið ekki fram og þess sem Agnes virðist halda fram að öll kirkjan hafi verið boðin og búin til að bæta stöðu hinseginfólks og jafnvel verið leiðandi í samfélaginu.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 27/09/13 15:16 #

Það er rétt að hvorki núverandi biskup né fyrri biskupar eru endilega dæmigerðir fyrir kirkjuna alla eða talsmenn allra presta, djákna og annarra meðlima (þó þér séu lýðræðislega kosnir af sumu af þessu fólki) og það er engin spurning að frjálslyndum* prestum hefur fjölgað síðustu áratugi. Íhaldssömu prestarnir eru þó fjölmargir og besta dæmið um það er að á prestastefnu voru tillögur frjálslyndu prestanna felldar.

Hér er enginn að "gera lítið úr" baráttu fólks innan kirkjunnar fyrir breytingum í rétta átt - en þetta fólk tapaði þeirri baráttu innan kirkjunnar. Það var ekki fyrr en ríkið gafst upp og samþykkti lög í trássi við kirkjuna sem kirkjan neyddist til að breyta sínum innri samþykktum. Þetta er sagan sem ég er hræddur um að kirkjan muni reyna að endurskrifa.

Það kemur ekki fram í þessari grein að kirkjan hafi aðeins verið að fylgja almenningsáliti eins og þú hefur eftir Vantrú í grein þinni. Það má þvert á móti gagnrýna kirkjuna fyrir að hafa verið a.m.k. áratug á eftir almenningsáliti í þessu máli.

* A.m.k. frjálslyndum varðandi réttindi samkynhneigðra, langflestir virðast mjög íhaldssamir þegar kemur að réttindum annarra hópa - t.d. trúleysingja. Ætli við munum ekki ræða það eftir svona tuttugu ár hvernig ríkiskirkjan hafi verið í fararbroddi af kirkjum heims í að jafna stöðu fólks út frá trúfélagsaðild/trúarskoðunum :)


Sindri Geir - 27/09/13 16:00 #

"og fylgdi síðan straumnum þegar hún gat ekki lengur barist við hann." - Þetta túlkaði ég sem svo að höfundur væri að segja að kirkjan hefði aðeins lúffað vegna utanaðkomandi pressu, ekki vegna þess fjöld presta sem vildi breytingarnar.

"..og enn í dag geta prestar neitað samkynhneigðum um ákveðna þjónustu. " Ég er búinn að fá póst frá tvem prestum frá því að þetta fór á netið sem benda mér á að í raun og veru sé ekki heimild í lögum eða frá kenninganefnd kirkjunnar til þess að hafna samkynhneigðum um hjónavígslu á grundvelli kynhneigðar þeirra. Hvergi er til ákvæði um þetta samviskufrelsi og aldrei hefur heldur reynt á það frá því að lögin voru sett. Það er nokkuð sem er vert að skoða.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 27/09/13 16:14 #

Það er nokkuð skýrt tekið fram í greininni og ítarefni að kirkjan lúffaði vegna þess að Alþingi setti einfaldlega lög þrátt fyrir andstöðu kirkjunnar. Straumurinn er ekki einungis almenningsálitið.

Það er að mínu mati alveg ljóst að þó fjöldi presta vildi breytingar hafði það ekkert með það að gera að kirkjan lúffaði á þessum tíma. Kirkjan var einfaldlega neydd til þess af Alþingi. Hver veit, kannski hefði frjálslyndu prestunum tekist að koma þessu í gegnum presta- og kirkjuþing (eða hvað þetta allt saman heitir) á næstu árum eða áratugum, en eins og staðan var þarna þurfti ríkið einfaldlega að taka frumkvæði og vaða yfir kirkjuna.

Mér finnst ekkert athugavert að þú viljir draga fram hlut þeirra frjálslyndu presta sem börðust fyrir réttindum samkynhneigðra, sumir þeirra eiga heiður skilið, en þú mátt ekki falla í þá gildru að gefa í skyn að þessi hópur hafi verið ráðandi innan kirkjunnar. Eins og ég benti á í síðustu athugasemd tapaði þessi hópur öllum sínum orustum.

Það að ekki hafi reynt á hjúskapalögin varðandi samviskufrelsi presta breytir því ekki að núverandi biskup og fjölmargir prestar eru þeirra skoðunar að prestar hafi þetta samviskufrelsi. Það hefur einfaldlega ekkert samkynhneigt par leitað til presta sem vilja ekki gifta samkynhneigða. Ég skil það ósköp vel enda nægt framboð af prestum sem eru til í að sjá um slíka athöfn.

Kannski eru einhverjir hressir guðfræðinemar af sama kyni til í að athuga þetta mál - leita til íhaldssamra presta og spyrja hvort þeir séu til í að gefa þá/þær saman. Væri það ekki áhugavert verkefni? :-)


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 27/09/13 16:33 #

Sindri, halda þessir prestar því fram að prestum sé skylt að verða að ósk samkynhneigðra um hjónaband?

Ef þú skoðar greinargerðina með frumvarpinu og umræðuna á Alþingi, þá héldu þeir sem settu lögin klárlega að með þeim væri prestum leyft að neita um þessa þjónustu.

En það er amk ljóst að yfirvöld kirkjunnar, þ.m.t. Agnesi Sigurðardóttur, telja að "samviskufrelsið" sé til staðar.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?