Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þjóðkirkjan þvær hendur sínar

Mynd af handaþvotti

Það hefur væntanlega ekki farið framhjá mörgum að seint í september mun bandaríksi bókstafstrúarmaðurinn Franklin Graham koma í heimsókn. Eins og við var að búast brugðust margir illa við því þegar það kom í ljós að ríkiskirkjan tekur þátt í að flytja þennan alræmda andstæðing hinsegin fólks til landsins og auglýsti jafnvel heimsóknina á Hinsegin dögum.

Ríkiskirkjan og leynifélögin

Það hefur reyndar reynst erfit að fá það á hreint nákvæmlega hver tenging kirkjunnar við hátíðina er. Í yfirlýsingum frá ríkiskirkjunni hefur því verið haldið fram að hún komi ekki beint að þessari hátíð en að ákveðnar sóknir starfi með þeim sem að hátíðinni standa, væntanlega algjörlega upp á sitt eindsæmi. Það hefur þó ekki fengist uppgefið hvaða sóknir þetta eru sem er reyndar skiljanlegt. Það er nefnilega leyndarmál hverjir standa að þessari hátíð!

Við sendumi framkvæmdastjóra hátíðarinnar, Ragnari Gunnarsson, póst og spurðumst fyrir um hvaða samtök, trúfélög og sóknir stæðu að baki hátíðinni. Svarið var áhugavert. Ákveðið hefur verið að gefa það ekki upp að svo stöddu og sagði Ragnar að þar sem sá meðlimur Vantrúar sem sendi fyrirspurnina væri skynsamur maður hlyti hann að skilja af hverju sú ákvörðun hefði verið tekin!

Svar fjölmiðlafulltrúans

Anna Pála Sverrisdóttir, formaður samtakanna 78 hefur tjáð sig um þann boðskap sem gefa á vægi með heimboði Franklin Graham og m.a. bent á það hvaða skilaboð ríkiskirkjan sendir með fyrirhugaðri þátttöku biskups í þessari hátíð.

Árni Svanur Daníelsson prestur og upplýsingafulltrúi Biskupsstofu svaraði Önnu Pálu fyrir hönd biskups um daginn. Þar segir hann:

Við eigum að nýta hvert tækifæri til að tala fyrir hinu góða og berjast gegn því slæma. Þjóðkirkjan hefur tekið afstöðu með samkynhneigðum, réttindabaráttu þeirra og hjónabandi samkynhneigðra. Umræða undanfarinna daga hefur leitt í ljós að fordómar í garð samkynhneigðra leynast víða í samfélaginu. Við þurfum að taka höndum saman gegn þeim.

Það er rétt hjá Árna að fordómar gagnvart LBGT fólki hafa komið skýrt fram seinustu vikur og að það þurfi að taka höndum saman gegn þeim. Það virðist hins vegar reynast kirkjunni auðveldara að tala um samstöðu heldur að að sýna hana í verki.

Það myndi til dæmis sýna gott fordæmi ef biskup lýsti því einfaldlega yfir að hún kærði sig ekki um að taka þátt í hátíð sem gæfi mönnum eins og Franklin Graham tækifæri til þess að útbreiða hatursboðskap sinn. Það gæfi líka skýr skilaboð ef Biskupsstofa gefi tilkynnti að þeir söfnuðir innan hennar sem standa að Hátíð Vonar gerðu það í óþökk sinni. Hvað varðar afstöðu kirkjunnar með samkynhneigðum almennt þá hefur hún ekki verið mjög skýr lengi, í raun ekki síðan að kirkjan stóð algjörlega gegn auknum réttindum þeirra fyrir ekki svo löngu síðan.


Mynd fengin hjá GFreihalter

Ritstjórn 31.08.2013
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.