Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Sjálfsprottið guðleysi

Á undanförnum árum hefur mikið verið rætt og ritað um guðleysi. Ekki hef ég í hyggju að rifja upp innihald þeirrar rökræðu. Það er þó ekki hægt að horfa fram hjá því að í gegnum aldirnar hafa guðleysingjar oft verið litnir hornauga og jafnvel útskúfaðir. Hér bera þjónar kirkjunnar auðvitað talsverða ábyrgð. Yfirlýst guðleysi sumra af þekktustu harðstjórum 20. aldar hefur ekki bætt orðspor guðleysingja. Sú spurning hlýtur því að vakna hvort hægt sé að bera saman guðleysið sem rann undan rifjum einræðisherranna og vantrúarbylgjuna sem riðið hefur yfir Vestur-Evrópu og Norðurlöndin á undanförnum áratugum.

Eins og alkunna er beittu Stalín, Maó og Pol Pot þjóðir sínar miklu harðræði til þess að ná fram pólitískum stefnumálum. Eitt af markmiðum þeirra var að útrýma hefðbundinni trú. Sovésk stjórnvöld boðuðu t.a.m. guðleysi af hörku í skólakerfinu, fjölmiðlum, bókum, listum og fleiri miðlum. Þrátt fyrir þetta benda rannsóknir til þess að ekki hafi tekist að uppræta trúarþörf stórs hluta þjóðarinnar.

Það er því ljóst að þó áðurnefndir einræðisherrar hafi beitt stjórnkerfi þjóða sinna af fullum þunga til þess að þvinga guðleysi upp á þegna sína varð þeim ekki að ósk sinni. Þegar þetta er haft í huga hlýtur það að teljast eftirtektarvert að víða um Vestur-Evrópu og á Norðurlöndunum hefur fjöldi þeirra einstaklinga sem aðhyllast guðleysi, efahyggju eða hafna trú á persónulegan guð, vaxið mikið á undanförnum áratugum. Hér er um að ræða það sem félagsvísindamaðurinn Phil Zuckerman kallar „sjálfsprottið guðleysi“, enda hafa stjórnvöld þessara landa ekki beitt sér sérstaklega til þess að hvetja til efasemda um tilvist guðs.

Eins og Zukerman bendir á í ritgerðasafninu „The Cambridge Companion to Atheism“ (2007) eru Norðurlöndin þær þjóðir í heiminum þar sem mest er um „sjálfsprottið guðleysi“ (Svíþjóð 46-84%, Danmörk 43-80%, Noregur 31-72%, Finnland 28-60%). Ástæða þessarar þróunar er að bætt velferð, aukinn jöfnuður og opinbert velferðarkerfi virðist draga úr þörf borgaranna til þess að leita á náðir trúarinnar. Þetta hafa endurteknar rannsóknir sýnt fram á.

Hér er mikilvægt að benda á að „sjálfsprottna guðleysið“ er margþætt. Í greininni „The Origins of Religious Disbelief“ (2013) benda sálfræðingarnir Ara Norenzayan og Will M. Gervais á að til séu að minnsta kosti 4 gerðir vantrúar: Fyrsta gerðin skilur ekki trú, gerðir tvö og þrjú eru áhugalausar um trú, og fjórða gerðin er full efasemda um og hafnar trú. Einstaklingar sem ekki aðhyllast guðstrú eru því mun margbreyttari hópur en venjulega er gengið út frá. Þetta ætti að vera enn ein áminningin um hversu varasamt er að alhæfa um þennan hóp.

Vinsælasta alhæfingin snýr líklega að siðferði. Lítum á eina frá þjóðkirkjupresti: „Ef Guð hverfur úr lífi fólks og þjóða er hætta á að á nokkrum kynslóðum hverfi gildin, hverfi munur góðs og ills, hverfi siðgreind fólks og þar með verði allt flatt. Allt flýtur“. Prímatasérfræðingurinn Frans de Waal gefur ekki mikið fyrir svona yfirlýsingar í bókinni „The Bonobo and the Atheist“ (2013). Hann segir hugmyndina um að siðferði mannsins komi utanfrá sé „sköpunarmýta“, enda hafa rannsóknir sýnt fram á að rætur þess liggi í þróun mannsins sem félagsveru. Til þess að varpa ljósi á ummæli prestsins skulum við líta á eitt af fórnarlömbum Adolfs Hiltler.

Í bókinni „The Drowned and the Saved“ (1986) bendir ítalski efnafræðingurinn og gyðingurinn Primo Levi (1919-1987), sem lifði af árs dvöl í Auswitch útrýmingarbúðnum, á að hann hafi farið í búðirnar og yfirgefið þær án nokkurrar guðstrúar. Raunar hafi reynslan í búðunum staðfest vantrúna. Það er aðdáunarvert að ekki ber á hatri til Þjóðverja í bókum Levis, „If This is a Man“ (1947) og „The Truce“ (1963), þar sem hann fjallar um dvölina í Auswitch og ferðalag sitt þaðan til Ítalíu. Fyrir þessu liggur einföld ástæða: Hann segist trúa því að skynsemi og samræða séu helsta forsenda framfara og því bæli hann niður hatur innra með sjálfum sér. Byggðist frásögnin því á „stilltu og yfirveguðu orðfæri vitnis“ en ekki „harmakveini fórnarlambsins eða reiðu orðfærði þess sem leitar hefnda“. Levi sagðist einnig tilbúinn að fyrirgefa böðlum sínum að því tilskyldu að þeir viðurkenni af heilum hug afbrot sín og vinni að upprætingu fasisma.

Hér er ekki á ferðinni einstaklingur sem hefur tapað „siðgreind“ sinni. Levi virðist falla vel að lýsingu sálfræðingsins Benjamin Beit-Hallahmi í „The Cambridge Companion to Atheism“ á algengustu guðleysingjunum á Vesturlöndum: Þeir „birtast okkur sem minna ráðríkir og áhrifagjarnir, minna kreddufastir, minna fordómafullir, meira umburðalyndir gagnvart öðrum, löghlýðnir, samúðarfullir, og vel menntaðir. Þeir hafa miklar gáfur og margir helga sig fræðilegri umræðu og menntakerfinu. Í stuttu máli sagt, það er gott að hafa þá sem nágranna“. Það ætti því ekki að koma á óvart að Norenzayan og Gervais enda áðurnefnda grein með því að benda á að við séum hugsanlega að verða vitni að nýrri umbreytingu í sögu mannsins: „Tilvist vantrúar og samfélaga sem trúa ekki á guð“.


Birtist í Morgunblaðinu, 19. Júní, 2013

Steindór J. Erlingsson 20.06.2013
Flokkað undir: ( Aðsend grein )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.