Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ágústínusarverðlaun Vantrúar 2012: Úrslit

Ágústínus

Dómnefnd Vantrúar hefur lokið því mikla verki að telja öll atkvæðin sem bárust í kosningunum um Ágústínusarverðlaun Vantrúar 2012. Nú liggur því loksins fyrir hver fær þessi eftirsóknaverðu verðlaun fyrir framfarir á sviði guðvísinda.

Þriðja sæti

Í þriðja sæti lenti ríkiskirkjupresturinn Hildur Eir Bolladóttir fyrir framlag sitt til stjórnmálaguðfræði í prédikuninni Brjóstvit forsetans:

Lýðræði og trú tengjast órofa böndum, sá sem játar trú á Jesú Krist elskar hann og virðir hlýtur einnig að virða og elska lýðræðið.

Það er ljóst að endurrita þarf allar sögubækur Evrópu. Hingað til hafa menn talið að Evrópu hafi verið stjórnað af kristnum kóngum sem kirkjan studdi. Það stenst klárlega ekki skoðun í ljósi þess að kristið fólk hlýtur að virða og elska lýðræði!

Annað sæti

Í öðru sæti lenti ríkiskirkjupresturinn Bragi J. Ingibergsson fyrir framlag sitt til guðfræði nýrra miðla í prédikuninni Skuggahliðar netheimanna

Í vantrú er meiri hætta á að við sökkvum í hyldýpi myrkurs og magnleysis, ótta og angistar, sjálfselsku og siðleysis, eiturs og illsku – (og svo mætti áfram telja) einfaldlega vegna þess að vantrúna vantar hömlur og haldreipi sem hverjum manni eru nauðsynleg tæki á vandrötuðu neti veraldar.

Á þeim tímum þegar hafís vantrúar rekur stjórnlaust um hafsjó netheimanna er lífsnauðsynlegt fyrir ungt kristið fólk að fá aðvaranir frá lærðum kennimönnum um hættur siðleysis vantrúarinnar. Hárnákvæm greining séra Braga J. Ingibergssonar á þessum andlega sjúkdómi er stórkostlegt framlag í þeirri baráttu.

Fyrsta sæti

Fyrsta sæti hreppti vígslubiskup ríkiskirkjunnar Solveig Lára Guðmundsdóttir fyrir framlag sitt til guðfræðilegrar þekkingarfræði í greininni sinni Að efast á gleðidögunum

En hugsum aðeins um raunveruleika efasemdarfólks. Efasemdarfólk hefur daginn á því að setjast við tölvur sínar og lesa bréf sem einhver annars staðar á landinu eða jafnvel í fjarlægum löndum hefur skrifað þá um morguninn. Bréfin skila sér eftir einhverjum ósýnilegum leiðum. Efasemdarfólkið kveikir ljós og ristar brauð með tækjum sem eru knúin af ósýnilegu rafmagni. Efasemdarfólk talar í gemsana sína og á skype-inu með ósýnilegum þræði yfir lönd og álfur. En efasemdarfólkið trúir ekki á Jesú nema það fái að snerta og koma við sárin.

Í örfáum setningum tekst frú Solveigu að benda á hversu ótrúlega ósamkvæmt sjálft sér hið svokallaða ‘efasemdarfólk’ er: það trúir á ósýnilega hluti eins og rafmagn og farsímabylgjur, en neitar um leið að trúa því að ósýnilegur andi Jesú Krists sé allt í kring um okkur. Ef Jesú-afneitararnir vilja áfram nota síma og senda tölvupóst ‘eftir einhverjum ósýnilegum leiðum’ þá ættu þeir að játa tilvist Jesú. Þetta er stórkostleg guðfræðileg uppgötvun sem á svo sannarlega skilið Ágústínusarverðlaun Vantrúar 2012.

Ritstjórn 27.05.2013
Flokkað undir: ( Ágústínusarverðlaunin )

Viðbrögð


ORK - 27/05/13 11:00 #

Og svo öndum við að okkur ósýnilegu lofti með okkar efasemda lungum.

Magnets. How do they work????


Eiríkur Kristjánsson (meðlimur í Vantrú) - 27/05/13 16:31 #

Er nóg að sjá ummerki rafmagns í ristuðu brauði, eins og með Jesús?

Ef svo er, þá held ég að efasemdarfólk getið andað rólega í hyldýpi eiturs og illsku.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 27/05/13 20:24 #

Er þörf á smá vísindakennslu í guðfræði- og trúarbragðafræðideildinni? Kannski bæta við einum litlum skyldukúrs sem fer yfir helstu "undur" vísindanna.


Emil Friðriksson (meðlimur í Vantrú) - 28/05/13 10:20 #

Já, það þyrfti kannski að benda henni á muninn á "ósýnilegt" annarsvegar og "ómælanlegt" hinsvegar.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.