Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Siðmennt fékk skráningu

Borði Siðmenntar

Siðmennt hefur fengið lögformlega skráningu sem lífsskoðunarfélag. Þetta þýðir að hér eftir hefur Siðmennt sömu réttindi og hlunnindi frá ríkinu og trúfélög hafa haft hingað til. Giftingar Siðmenntar verða „alvöru“ giftingar og ekki má gleyma því að ríkið mun styrkja Siðmennt um tiltekna upphæð fyrir hvern einstakling, 16 ára eða eldri, sem skráir sig í félagið hjá Þjóðskrá. Félagar í Vantrú óska Siðmennt til hamingju með þennan áfanga.

Í tilkynningu frá Siðmennt kemur fram að félagið er mótfallið sóknargjaldafyrirkomulaginu því þó trúfélög hafi haldið öðru fram eru þetta ekki félagsgjöld heldur beinn styrkur frá ríkinu greiddur af skattfé allra landsmanna óháð því hvort þeir eru skráðir í trúfélag (hér eftir lífsskoðunarfélag) eða ekki:

Félagið er hlynnt aðskilnaði ríkis og kirkju og hefur ekki verið hlynnt sóknargjaldakerfinu þar sem það er í raun byggt á skattheimtu en ekki félagsgjaldi, en að svo stöddu vildi félagið standa jafnfætis trúarlegum lífsskoðunarfélögum (trúfélögum) hvað þetta varðar. #

Fyrir þá sem vilja leggja sóknargjaldkerfið niður er auðvitað spurning hvort það sé gott eða slæmt fyrir baráttuna að þessi mismunun gegn Siðmennt hafi verið leiðrétt. Vissulega er þó verið að laga augljóst óréttlæti í kerfinu og nú mun athafnaþjónusta Siðmenntar njóta jafnréttis á við trúfélög, fyrir utan auðvitað ríkiskirkjuna.

Við bendum þeim sem vilja styrkja starf Siðmenntar að þeir geta skráð sig í félagið hjá Þjóðskrá og einnig er hægt að vera félagi í Siðmennt án skráningar í þjóðskrá. Við bendum þeim sem vilja ekki styrkja starf Siðmenntar á að skrá sig að minnsta kosti úr Þjóðkirkjunni hjá Þjóðskrá. Á heimasíðu Siðmenntar eru leiðbeiningar um hvernig er hægt að breyta skráningu sinni rafrænt.

Að lokum er vert að taka það fram að Vantrú mun ekki sækjast eftir að fá skráningu sem lífsskoðunarfélag og er alfarið á móti sóknargjaldakerfinu.

Ritstjórn 07.05.2013
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Sigurdur Holm Gunnarsson - 07/05/13 14:41 #

Ég vil fá að vekja athygli á að "Stefna Siðmenntar í trúfrelsismálum er skýr og óbreytt".


Ragnar - 03/08/13 07:13 #

Giftingar eru trúarlegur arfur. Það er furðulegt að nokkur skuli vilja giftast nema af trúarlegum ástæðum. Það væri allt í lagi að menn giftust prívat og persónulega, heima hjá sér eða innan trúfélaga, en giftingar eiga ekki að koma ríkinu við og eiga að hætta að vera til sem ríkisstofnun. Annað er mismunun gegn annars konar sambýli af ýmsu tagi og réttindum einstaklingsins.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 03/08/13 13:36 #

Hjónaband af einhverri tegund er sammannlegt og hafa fundist þess merki í nánast öllum samfélögum. Það felur aðalega í sér lagalegar og félagslegar skuldbindingar og ætti því eðli málsins samkvæmt að vera í höndum ríkisvaldsins.


Ragnar - 05/08/13 04:51 #

Það að eitthvað sé þekkt fyrirbæri í mannfræðinni gerir það ekki rétt. Lagalegt hjónaband þekkist ekki hjá öllum hópum mannkyns, það er alhæfing sem afhjúpar fáfræði þegar kemur að mannfræði. Og form hjónabanda eru mörg og margvísleg og það ætti að virða. Samkynhneigðir víða um heim hafa kvartað yfir að fá ekki að heimsækja maka sinn á spítala og fleira. En það eru margir sem eiga engan maka, en kannski óskyldan vin og lífsförunaut, sem þeir ættu að geta veitt réttindi fullkomlega sambærileg við réttindi maka. Og ef kona vill eiga þrjá menn eða maður fjórar, nú eða tvær konur og tvo eiginmenn, þá er ekkert nema trúarleg innræting, þó hún feli sig niðri í undirmeðvitund manns sem kallar sig trúlausan, sem kemur í veg fyrir að samfélagið samþykki slíkt. Það er líka eingöngu úrelt innræting sem kemur í veg fyrir að tveir vinir eða tveir frændur geti haft með sér samband sín á milli fyllilega jafnrétthátt hjónabandi fyrir lögum. En það væri erfitt að semja öll þessi nýju lög, svo best væri að afnema hjónaband með öllu en tryggja meiri réttindi einstaklingsins, til að ákveða sjálfur hver heimsæki hann á spítala, hver erfi hann og svo framvegis, og binda hann ekki í fjötra bábilja fortíðarinnar. Að múlbinda fólk til "lagalegra skuldbindinga" var til að koma í veg fyrir skilnað, sem var af trúarlegum ótta við helvíti. Þeir sem enn í dag aðhyllast stofnunina hjónaband sýna með því að þeir eru talsmenn gamaldags viðhorfa og innprentaðir af gamla skólanum, en ekki frammáviðþenkjandi menn sem geta lagt stund á sjálfstæða hugsun, né menn sem virða almennt grundvallarréttindi einstaklinga. Einstaklingar mega undirgagnast serímóníur og kalla þau hjónabönd, einir síns liðs eða með hjálp trúfélaga eða lífsskoðunarfélaga sem eru lituð af trúarlegum arfi og hafa ekki losnað undan honum, eins og Siðmennt, sem er eins konar eftirhermu-félag Þjóðkirkjunnar, bara mínus Guð. En það réttlætir ekkert að brjóta á réttindum annarra einstaklinga með að þvinga borgaralegt, veraldlegt samfélag til að gera ráð fyrir slíkri stofnun í lögum sínum, frekar en að hafa Þjóðkirkju eða heimta að menn séu jarðaðir í vígðri mold eða ösku þeirra komið fyrir á skilgreindum stöðum. Allt eru þetta bara bábiljur fortíðar og einungis risaeðlur sem hafa ekki komist undan heilaþvotti kirkjunnar sjá það ekki.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 05/08/13 23:37 #

Ef þú villt ræða um efni greinarinnar er það gert hér. Ef þú hinsvegar villt ræða um eðli og gildi hjónabands í lagalegum skilningi þá tel ég spjallborðið vera mun betri stað til þess.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.