Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Alþingiskosningar

Mynd af Alþingi

Það hefur eflaust ekki farið framhjá mörgun að þingkosningar eru yfirvofandi. Fjöldi framboða er í sögulegu hámarki en laugardaginn 27. apríl kemur í ljós hvort að eftirspurnin er í takti við framboðin. Þessi miklu fjöldi framboða gerir það að verkum að erfitt getur verið að komast yfir öll þau loforð og allar þær stefnur sem eru í boði.

Á vef DV er boðið upp á próf þar sem áhugasamir lesendur geta parað sig saman við flokka og frambjóðendur eftir spurningarlista. Einnig er hægt að skoða svör einstakra frambjóðenda. DV bíður hins vegar ekki upp á það að hægt sé að skoða niðurstöður frambjóðenda við hverri spurningu fyrir sig, sem er bagalegt fyrir þá sem geta ekki hugsað sér að kjósa flokka eða frambjóðendur sem hafa ákveðnar skoðanir.

Páll Hilmarsson hefur gert bragarbót á þessu á vef sínum, gogn.in. Þar er hægt að skoða saman svör frambjóðenda við einstökum spurningum. Andstæðingar ríkiskirkju geta þannig til dæmis skoðað hver afstaða einstakra frambóðenda til hennar er. Þar kemur margt áhugavert fram, hér höfum við nokkur dæmi. Eftirfarandi eru meðal þeirra sem eru mjög eða frekar hlynntir ríkiskirkjufyrirkomulaginu

Lúðvík Kaaber - Lýðræðisvaktin - 2. sæti í Norðvestur

Eitt af einkennum nútímans er menningarleg hentistefna, eða öllu heldur “súbjektífismi”, sú skoðun að ein menning sé eins góð og önnur. Út af fyrir sig held ég að það geti - ég endurtek geti - verið rétt. Um það atriði fæst enginn dómari, því að ekki er gerlegt að dæma hlutlaust um eigið mál. Það er þó ekkert höfuðatriði. Menningarkjölfesta og menningararfleifð er samfélagi manna óendanlega miklu mikilvægari en dægurþras þeirra um peninga og pólitík, þó að fólk taki ekki eftir því í daglegu karpi sínu um þau mál eða önnur. Við vitum ekki hvernig heimurinn er, og jafnvel ekki heldur hvað hann er – nema auðvitað einfeldningar og vantrúartrúboðar – þeir hafa jú svör við flestu (ef þú vilt geturðu farið á “ludvik.is” og lesið þar innleggið “Vantrúarefi” frá 20. desember 2012). Þar er eftirfarandi klausu að finna, og læt ég nægja að klykkja út með henni: “Hvort sem okkur líkar það betur eða verr, þá er menningargrundvöllur okkar [ … ] afgerandi fyrir hugsunarhátt okkar og heimsskoðun. Þar sem heimurinn er óviss, óöruggur, og raunar óskiljanlegur ef við leyfum okkur að hugsa nógu langt, þá verðum við að hafa einhvern grundvöll að standa á. Þá er ekki úr vegi að gera það sem beinast liggur við, sem er að halla sér að þeim menningargrundvelli sem byggzt hefur upp og mótast meðal okkar eigin forfeðra. Við vitum ekki nema það kunni að vera fávíslegt og skaðlegt að kasta honum á glæ eins og hverju öðru rusli, í þágu fullyrðinga sjálfskipaðra lausnara úr fjötrum hugarfarsins, sem á hverjum tíma ber hæst á öldum tízkunnar. Reyndar má færa fyrir því góð rök að það væri hvort tveggja, fávíslegt og skaðlegt.” Annars er ég sjálfur, fyriri mitt leyti, líklega kaþólikki í hjartanu, þó að ég sé það ekki formlega. En ég tel íslenzku "þjóð"kirkjuna, svo undarlegt sem heiti hennar er (ef Guð er Guð allra þjóða, sem ég tel næsta víst), ómissandi menningarlega kjölfestu fyrir samfélag okkar.

Vilhjálmur Bjarnason - Sjálfstæðisflokkurinn - 4. sæti í Suðvestur

Ég vil ekki misgáfulega söfnuði á uppboði.

Lilja Rafney Magnúsdóttir - Vinstri græn - 1. sæti í Norðvestur

Amen eftir efninu !

Agla Þyri Kristjánsdóttir - Hægri Grænir - 2. sæti í Suður

Ber hlýjan hug til kirkjunnar, þrátt fyrir það mótlæti sem hún hefur mátt þola undanfarin ár

Ólína Þorvarðardóttir - Samfylkingin - 2. sæti í Norðvestur

Ég er fædd, skírð og fermd inn í íslensku þjóðkirkjuna. Til hennar hafa Íslendingar getað leitað á sínum sárustu og sælustu stundum. Þar heilsum við nýjum samfélagsþegnum í skírninni, stöndum með þeim í fermingunni, gleðjumst með þeim í giftingunni, og kveðjum þá í útförinni. Kirkjan er ríkur þáttur í menningu okkar og samfélagsmynstri. Ég virði að sjálfsögðu önnur trúfélög og ólíkar lífskoðanir, en mér þykir vænt um þjóðkirkjuna og vil tilheyra henni.


Mynd fengin hjá xxo23o

Ritstjórn 26.04.2013
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.