Margt er það í tungutaki okkar sem við höfum misst sjónar á hvers eðlis er. Við bjóðum góðan dag, gott kvöld, góða nótt, óskum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. Allt á þetta uppruna sinn í að fyrr á tíð töldu menn orðin hafa töframátt, að hafa mætti áhrif á gang veraldar og örlög manna með því að þylja orðastreng.
Bænir, bölbænir og galdraþulur eru þessa eðlis. "Megir þú aldrei þrífast", "Guð gefi þér góða nótt", "fari hann til fjandans", "blessa forseta vorn og fósturjörð"; allt lýtur þetta sömu hugmynd, að andaverum megi stýra til góðra eða slæmra verka.
Þegar við sendum ættingjum og vinum jólakveðjur með ósk um gæfuríkt komandi ár, er það góður hugur sem fylgir, vilji til friðar og sáttar meðal manna. Í raun má segja að með því einu að viðra slíkar óskir séum við að hafa áhrif á viðhorf annarra til okkar með beinum hætti og ekki þurfi yfirnáttúrleg öfl til að framfylgja þessu. Að þessu leytinu eru kveðjur og óskir í fullu gildi þótt losnað hafi um tengslin við galdraþulur fyrri alda. En vitneskjan um hvaðan þetta er sprottið gerir þó ekki annað en framkalla aukalega bros út í annað, því það er eitthvað krúttlegt við þetta.
Svo lengi sem menn trúa því ekki að með því að hafa þessi orð yfir sé verið að stýra huldum öflum, er þetta allt saman í besta lagi. Við hér ætlum því óhikað að óska lesendum okkar gleðilegra jóla og vonumst eftir hreinskiptnum og hispurslausum samskiptum við ykkur öll á nýju ári.
Góður pistill :) gæti veitt svo mörg andsvör hérna en læt mér nægja að segja Gleðileg jól kæra ritstjórn :).
Gleðilegt nýtt ár. Fer ekki að detta inn ný grein hérna fljótlega, maður bíður alltaf spenntur ;)
Jú. Við erum bara öll svo helvíti löt eftir allar steikurnar.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Boaz - 24/12/12 12:55 #
Gledileg Jól