Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Jólahald trúleysingjans

Listaverk af sólinni

Af hverju halda trúleysingjar jól? Eru ekki allir þessir trúleysingjar sem vilja ekki að börnin sín fari í kirkju þar sem þau eru látin signa sig og biðja sem hluta af skólahaldi fyrir jólin bara hræsnarar ef að þeir halda svo sjálfir upp á jól? Á ekki bara að láta þetta fólk vinna yfir jólin?

Þessar spurningar og aðrar álíka gáfulegar hef ég séð núna fyrir jólin. Það hefur alltaf verið eitthvað um það að fólk velti jólum trúleysingja fyrir sér en þetta árið finnst mér forvitnin hafa umbreyst hjá mörgum yfir í hálfgerðar blammeringar. Sennilega hefur markviss og síbyljandi áróður kirkjunnar gegn reglusetningu Reykjavíkurborgar um samstarf trúfélaga og menntastofnana haft tilætluð áhrif.

En ekki nenni ég að skrifa um það svona fyrir jólin. Miklu frekar langar mig að svala forvitni þeirra sem eru í alvörunni forvitnir um jólahald trúleysingja, þó að ég geti auðvitað bara sagt ykkur frá sjálfum mér.

Það sem ber kannski fyrst að nefna er að það er langt í frá að jólin séu að uppruna kristin hátíð. Hvergi í Biblíunni er að finna neinar dagsetningar um fæðingu Jesú en einhverjir telja að hægt sé að lesa það úr frásögnunum að atburðurinn eigi að hafa átt sér stað um sumar. Hins vegar hafa verið haldnar hátíðir seint í desember frá alda ófi. Þessar hátíðir voru haldnar vegna sigurs sólarinnar á myrkrinu. Sú ákvörðun kirkjuyfirvalda í bernsku kirkjunnar að taka yfir þessa og aðrar gamlar hátíðir var rammpólitísk og til þess fallin að auka völd kristninnar á kostnað annara trúarbragða og hefða.

En þetta er aukaatriði. Annað sem mig langar að benda á er að jólin á Íslandi eru ekkert sérstaklega kristin atburður heldur. Rétt upp hönd sem fer í kirkju um jólin. Rétt upp hönd sem tekur frá tíma á jóladag til að hugsa um jesúbarnið í jötunni. Rétt upp hönd sem væri til í að sleppa öllum jólagjöfunum, jólakortunum, jólatrjánum (hundheiðinn hefð), jólabjórunum, jólaölinu, góða matnum, fína víninu, jólaboðunum og jólaskrautinu. Ekkert af ofantöldu er sérstaklega kristið.

En þetta er líka aukaatriði. Það sem mig langaði að segja ykkur frá er hvað jólin eru fyrir mér, trúleysingjanum.

Jólin eru tækifæri til þess að gera sér dagamun. Jólin snúast um að veita sér vel í mat og drykk. Jólin snúast um að hafa það gott. Jólin snúast, eins og hjá heiðingjunum áður fyrr, um að fagna hækkandi sól. Og það sem jólin snúast fyrst og fremst um er fólkið sem mér þykir vænt um.

Ég hef mínar ákveðnu jólahefðir. Ég og bræður mínir plottum saman um hvað sé best að gefa foreldrum okkar, og hvorum öðrum. Á hverju ári tek ég mynd af sjálfum mér umvöfðum í jólaseríu eða sitjandi með engil í fanginu sem ég set í jólakort og keyri sjálfur út til vina og vandamanna með mikilli fyrirhöfn. Ég baka alltaf lakkrístoppa eitt kvöld í vikunni fyrir jól. Á aðfangadag þarf ég nauðsynlega að fara á bensínstöðina í Engihjallanum og kaupa mér beikonpylsu (þær voru ekki til í fyrra, jólunum var næstum því frestað). Og á Þorláksmessu verð ég að rölta með Birki vini mínum niður Laugarveginn, enda í Björk og kaupa stóran vindil sem er púaður á leiðinni til baka.

Á aðfangadag er svo borðaður hamborgarhryggur heima hjá mömmu og pabba. Og vitiði hvað? Við hlustum á messuna á meðan. Þrír trúleysingjar og tveir þjóðkirkjumeðlimir sitja við borð og hlusta á hið heilaga orð. Af því að það er hefð. Í fyrra sátu reyndar fimm hneykslaðir einstaklingar við borðið þegar prestinum þótti rétt að gerast pólitískur og tala um (þá væntanlegar) reglur um samskipti skóla og trúfélaga. En það gleymdist um leið og búið var að vaska upp og gjafirnar voru opnaðar.

Mér finnst gaman að fá jólagjafir. En mér finnst miklu skemmtilegra að gefa jólagjafir. Vinum mínum finnst mér gaman að gefa eitthvað sem er frá mér sjálfum. Ég hef nýtt mér mína takmörkuðu hæfileika sem ljósmyndari í þeim tilgangi seinustu ár svo eitthvað megi nefna. En aðallega finnst mér gaman að gleðja og gleðjast með vinum og fjölskyldu. Um það snúast jólin.

Þetta er jólalag trúleysingjans Tim Minchin. Hann er snillingur og nær að orða það sem mér finnst jólin standa fyrir miklu betur en ég gæti nokkurn tíman gert. Förum eftir því sem Tim segir. Njótum jólanna með þeim sem okkur þykir vænt um. Fáum okkur gott að borða og drekka. Gefum hvort öðru gjafir.

Eigum saman gleðileg jól.


Þessi grein birtist á vefritinu Hamragrill.is fyrir jólin í fyrra. Hamragrillið liggur niðri eins og er og því birtist greinin nú hér á vefriti Vantrúar.

Ljósmynd: ImageMD á flickr

Egill Óskarsson 19.12.2012
Flokkað undir: ( Jólin )

Viðbrögð


Gísli Baldur - 19/12/12 09:39 #

Frábær pistill!


Oi - 19/12/12 13:18 #

Að sjálfsögðu heldurðu bara uppá jólin :).

Þú talar um hefðir, trú er að miklu leyti einmitt það. Nema þín trú er yngri, þú heldur uppá samverustund með fjölskyldunni sem er frábær leið til að njóta skammdegisins. Ég er trúaður og held einmitt uppá jólin af sömu ástæðum, ég reyndar held uppá jólin líka útaf fæðingu frelsarans, þó dagsetningin sé ekki endilega nákvæm. Um að gera að fjölskyldan eða ástvinir hjúri sér uppað hvoru öðru á þessum tíma.

Því segi ég gleðileg jól, trú er eitthvað sem þú finnur, öðlast og gefur til þeirra sem vilja þiggja. Þín trú er ekki verri en mín, alls ekki.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 19/12/12 13:32 #

Fínn pistill, en "Oi", svona þér að segja er það talsvert eldri hefð en kristnin að gera sér dagamun á þessum tíma.


Þorgeir Tryggvason - 19/12/12 17:38 #

Ágætur pistill. Og "Hvítvín í sólinni" ætti að hafa sama status meðal sekúlar jólabarna og Heims um ból hefur meðal kristinna.


Björn Friðgeir - 20/12/12 10:53 #

Valgarður: Ekki segja svona. Þú veist að Jesú fann upp vetrarsólstöðurnar.


Jóhann Ingi (meðlimur í Vantrú) - 20/12/12 12:58 #

Góður pistill sem ég get auðveldlega tengt við. Sjálfur er ég með nokkrar svona hefðir sem ég hef myndað með sjálfum mér og mínum vinum og ættingjum.

Hvítvín í sólinni hefur verið mitt uppáhaldsjólalag frá því ég heyrði það fyrst fyrir um rúmu ári síðan. Algjörlega frábært lag sem segir allt sem ég vil segja um jólin, fyrir utan það að ég gæti skipt hvítvíni út fyrir malt & appelsín og sólskini út fyrir slyddu og smá rok með.

Gæti líka séð þetta vel fyrir mér, Dawkins er að messa yfir okkur í söfnuðinum með sálmum um Hitchens & Sagan og les hugleiðingar um vísindakenningar. Þess á milli spilar organistinn Tim Minchin.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 20/12/12 13:07 #

Og fyrir áhugasama, þá gáfum við Fræbbblar út jólalagið "Ótrúleg jól" (endurnýjuð útgáfa 2012)... Lággæða myndskreytt útgáfa er á http://youtu.be/mf2rCRfpgsg - textinn á svipuðum nótum, þeas. að við getum notið jólanna og hinna ýmsu hefða þessa árstíma án trúarbragða.

Og fæst fyrir 100 kall (til Unicef) á GogoYoko.


Bára Friðriksdóttir - 20/12/12 22:07 #

Góðan dag,

Þar sem ég veit ekki hvernig ég á að setja inn nýtt efni þá spyr ég hér: Fettið þið í Vantrú ekkert fingur út í allt jólasveinatalið? Fyrir stuttu varð allt vitlaust af því einhverjir í Kastljósi voru að tala hispurslaust um jólasveininn svo að auðgljóst var að hann væri ekki til. Finnst ykkur ekki ástæða til að toga þessa hefð sundur og saman? Á ekki að gagnrýna að foreldrar ljúgi þannig að börnum sínum?


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 20/12/12 22:24 #

Held við séum flest á því að þetta séu mjög saklaus ósannindi sem varla taki að vera að kalla lygi. Beitum okkur ekkert sem félag í jólasveinamálum þó að meðlimir kunni að hafa eigin skoðanir á þeim. Sjálfum finnst mér það alveg óþarfi að vera að halda þessu að börnunum. Mér þóttu jólin ekki vitund minna spennandi þegar ég komst að því að jólasveinarnir væru plat frekar en raunveruleiki.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 20/12/12 22:35 #

Einu sinni skrifaði ég greinina Verða krakkar að trúa á jólasveina. Mér finnst saklaust þó ungir krakkar trúi á jólasveina, mér finnst líka sjálfsagt að segja krökkum satt um sveinana og umgangast þá sem skemmtilegar ævintýraverur.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 20/12/12 22:35 #

Annars rétt að benda þér á að við erum til í að ræða allt slíkt í smáatriðum á spjallinu. Ferð bara á http://www.vantru.is/spjall/ og ýtir á Register takkan ofarlega á síðunni.


Jósef - 21/12/12 10:59 #

[ Athugasemdir Jósefs og viðbrögð færð á spjallborð ]


Oi - 25/12/12 12:08 #

@Valgarður, jú rétt er það enda benti ég á þetta litla mál með dagsetninguna :). Eins geri ég ráð fyrir að hann eða þú er ekki að halda í forna heiðna hefð þar sem þið eruð ekki trúaðir. Líklega eru þið bara að fljóta með straumnum en á hliðarlínunni auðvitað :).

Sjálfsagt mál að Valgarður og aðrir trúleysingjar geri sér dagamun á þessum tíma, hvað ættu þið annars að gera, það er búið að semja um frí, kjörinn tími til að taka þátt í showinu :).

Þú þarft ekki að vera trúaður til að trúa á hið góða og heiðra það. Ef það er ekki vilji að blanda guði í þetta þá er um að gera að bara taka miðan af og halda gleðileg jól, hver sem ástæðan er.


Kristján - 29/12/12 07:33 #

Jólinn eru í dag ein alsherjar trúarhátíð, nei ég er ekki að tala um kristindóm, ég er að tala um efnahagsmál, þá sér í lagi neysluþjóðfélagið sem við lifum í. Jólin eru einfaldlega alsherjar neysluháttið kapítalismans. Enda höfum við séð hvað blind trú hefur skilað okkur í formi efnahagshruns og alheims kreppu síðustu ár.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.