Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Að vera eða vera ekki trúfélag

Prestar

Á Íslandi njóta skráð trúfélög þeirra forréttinda að fá framlög frá ríkinu í formi sóknargjalda. Siðmennt hefur tvisvar sótt um að fá skráningu en var í bæði skiptin neitað á þeim grundvelli að Siðmennt flokkaðist ekki sem trúfélag samkvæmt lögunum. Á Alþingi liggur fyrir frumvarp sem á að tryggja þessum svokölluðu “lífsskoðunarfélögum” sama rétt og skráðum trúfélögum. Um daginn gagnrýndu tveir guðfræðingar, Pétur Pétursson og Bjarni Randver Sigurvinsson, frumvarpið í Fréttablaðsgrein.

Gagnrýni guðfræðinganna

Í grein sinni segja guðfræðingarnir að innan trúarbragðafræðanna sé hægt að skilgreina “trúfélag” svo vítt að Siðmennt flokkist sem trúfélag. Í ljósi þessa finnst þeim “með ólíkindum” að Siðmennt hafi ekki fengið skráningu sem trúfélag.

Þeir telja að sú þrönga skilgreining sem notuð er á “trúfélag” í lögunum, til aðgreiningar frá “lífsskoðunarfélögum”, endurspegli of mikið sérstakan skilning Siðmenntar á trú, og að “ríkið ætti ekki að festa “túlkun eins félags umfram annars í lög”.

Að skilgreina trúfélag

Það er vissulega rétt hjá þeim að innan trúarbragðafræðinnar séu skilgreiningar sem myndu klárlega flokka Siðmennt sem trúfélag. En þeir minnast ekki á að samkvæmt öðrum skilgreiningum innan trúarbragðafræðanna er ekki hægt að flokka Siðmennt sem trúfélag. Samkvæmt öðrum skilgreiningum væri jafnvel hægt að flokka aðdáendaklúbba, stjórnmálaflokka og íþróttafélög sem trúfélög!

Í mörgum þessara skilgreininga er vísað til eins þáttar sem virðist ansi einkennandi innan þess sem kallast í almennu tali trúarbrögð: trú á yfirnáttúruverur af ýmsu tagi. Ef maður notar eitthvað af þessum skilgreiningum, þá er Siðmennt ekki trúfélag.

Hefði Siðmennt átt að fá skráningu?

Guðfræðingunum finnst það “með ólíkindum að umsóknum Siðmenntar um skráningu út frá núgildandi lögum hafi í tvígang verið hafnað.” Mér finnst þessi fullyrðing þeirra með ólíkindum.

Við skulum ekkert vera að velta okkur upp úr því að annar þeirra, hann Bjarni Randver, skrifaði blaðagrein fyrir nokkrum árum þar sem hann hélt því fram að Siðmennt ætti “að fá synjun um slíka skráningu [sem trúfélag] hér á landi”. Við skulum frekar einfaldlega skoða núgildandi lög um skráð trúfélög.

Strax í upphafi laganna er gerður greinarmunur á “trúfélögum” og félögum um “lífsskoðanir, þ.m.t. trúleysi”.

Guðfræðingarnir gætu mótmælt, og haldið því fram, eins og þeir gera í blaðagreininni, að þrátt fyrir almenna notkun á hugtakinu “trúleysi”, sé hægt að skilgreina hugmyndafræði Siðmenntar sem “trú”. Því miður fyrir þá, þá tekur greinargerð laganna af allan vafa.

Sagt er að utan skilgreiningarinnar falli félög um trúleysi og í frumvarpinu er trúleysi notað sem þýðing á danska orðinu “ateistiske”. Í greinargerðinni er svo sagt að sami skilningur á “trúfélagi” verði notaður og er hafður í norskum lögum, en þar er greint á milli trúfélaga, félaga sem stunda “religiøs tro” og “félaga um lífsviðhorf”, en á þeim tíma sem þetta var skrifað var einungis eitt þess konar félag starfrækt í Noregi: systursamtök Siðmenntar, Human-Etisk forbund. Auk þess er sagt að þetta sé sami skilningur og er notaður í stjórnarskránni en þar stóð áður fyrr að það væru félög sem væru stofnuð “til að þjóna Guði”, en gerð var orðalagsbreyting á þessu ákvæði. Það er hægt að benda á margt annað [1] , en það er í raun óumdeilanlegt að Siðmennt er ekki trúfélag í augum laganna.

Guðfræðingarnir átta sig kannski ekki á því að þó að þeir geti fundið einhverjar skilgreiningar á “trúfélagi” sem passar við Siðmennt þá skiptir sú skilgreining sem lögin sjálf nota máli þegar ákveða á hvort að þau eigi við Siðmennt. Það sem mér finnst “með ólíkindum” er að þessi lög voru samin af þriggja manna nefnd og einn nefndarmanna var sjálfur guðfræðingurinn Pétur Pétursson!

Túlkun eins félags

Í staðin fyrir að skilgreina “trúfélag” upp á nýtt, þá notar frumvarpið sem liggur fyrir núverandi þingi einfaldlega sömu skilgreiningu og notuð hefur verið hingað til. Í ljósi þessa verður að teljast afskaplega fjarstæðukennt að segja að frumvarpið sé að fara að festa í sessi “túlkun eins félags [Siðmenntar]”.

Hefur Siðmennt stjórnað túlkun laga og stjórnarskráa Íslands, Danmerkur og Noregs? Stóð Siðmennt á bak við núgildandi gerð laga um skráð trúfélög? Pétur ætti að vita það, hann samdi frumvarpið! Ég held að hingað til hafi bara sá skilningur á “trúfélagi” verið lagður til grundvallar sem að er kallaður “almennur skilningur á orðinu í mæltu máli” í greinargerð núgildandi laga og að Siðmennt sé einfaldlega sammála þeirri túlkun,

Betri lög?

Í grein sinni leggja guðfræðingarnir til að í lögunum “þurfi” að tiltaka “sameiginleg einkenni” lífsskoðunarfélaga og trúfélaga sem væru skilyrði fyrir skráningu. Þó svo að það sé eflaust vel hægt, og gaman væri að sjá alvöru tillögu frá þeim, þá er erfitt að sjá hvers vegna þetta er nauðsynlegt, eða yfir höfuð betra. Í Noregi hafa verið lög í gildi sem gera greinarmun á trúfélögum og lífsskoðunarfélögum í meira en þrjátíu ár og ég veit ekki til þess að það séu nein vandræði í framkvæmd þeirra.

Þó ég telji það mikla réttarbót að trúfélög séu ekki í forréttindastöðu miðað við sambærileg veraldleg félög eins og Siðmennt þá held ég að best væri að jafna stöðuna niður á við og afnema einfaldlega trúfélagslögin.


[1] Á Alþingi var t.d. lögð fram breytingartillaga til að víkka skilgreiningu á trúfélagi í lögunum þannig að það næði yfir starfsemi Siðmenntar, sú tillaga var felld.

Hjalti Rúnar Ómarsson 27.11.2012
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


gös - 27/11/12 10:25 #

[Þ]essi lög voru samin af þriggja manna nefnd og einn nefndarmanna var sjálfur guðfræðingurinn Pétur Pétursson!

Sæll Hjalti. Ég er forvitinn að vita hvaðan þessar upplýsingar koma.

Í víðara samhengi þá langar mig að vita hvort upplýsingar um höfunda einstakra laga sé eitthvað sem auðvelt er að komast að og þá hvernig.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 27/11/12 10:30 #

Í greinargerðinni sem vísað er á kemur fram:

Frumvarp þetta er samið af nefnd sem dóms- og kirkjumálaráðherra skipaði með bréfi dags. 2. október 1997. Í nefndina voru skipaðir Davíð Þór Björgvinsson, prófessor í lögfræði, sem jafnframt var formaður, Haraldur Ólafsson, prófessor í mannfræði, og Pétur Pétursson, prófessor í guðfræði.


Thork - 27/11/12 11:50 #

Þó ég telji það mikla réttarbót að trúfélög séu ekki í forréttindastöðu miðað við sambærileg veraldleg félög eins og Siðmennt þá held ég að best væri að jafna stöðuna niður á við og afnema einfaldlega trúfélagslögin

Sammála þessu. Það eru vonbrigði að Siðmennt skuli vilja taka þátt í ósómanum.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 27/11/12 17:01 #

Thork, við erum samt ósammála ;) Mér finnst sjálfsagt af Siðmennt að fá sömu styrki fyrst ríkið er á annað borð að gera þetta, en betra væri ef ríkið myndi bara sleppa þessum framlögum.


gös - 27/11/12 17:05 #

@Matti: Takk.


Árni Árnason - 27/11/12 23:57 #

Ég tel algerlega augljóst hvaða hvatir liggja að baki því að útvíkka sóknargjöldin og láta þau einnig ná yfir "ekki"-trúfélög. Allir sjá hversu afspyrnu fáránlegt er að stjórnvöld séu að útdeila skattfé til trúfélaga, en þetta er hugsað fyrst og fremst fyrir Þjóðkirkjuapparatið sem þá má með sanni kalla Ríkiskirkju. Allir sjá þetta en enginn hefur kjark til þess að hætta þessu bulli, og því er reynt að réttlæta þetta með því að allir trúarsöfnuðir fái líka dúsu. Svo sáu menn að það var lítið skárra því að þá er verið að mismuna trúlausum. Þá er bara stigið eitt skrefið í viðbót. Látum trúlausa líka hafa dúsu þá þegir öll hersingin og kirkjan heldur áfram að fá sitt. Það má vel fórna nokkrum millum í einhverja sértrúarhópa og trúleysingja því þá getur enginn sagt neitt við milljörðunum sem kirkjan fær.

Hið eina rétta er að sleppa þessa alfarið. Siðmennt er í raun komin með Stockholms syndrome ef hún ætlar að gera sér þessar gælur óvinarins að góðu.

Það er alþekkt aðferð til að fá menn til að þegja yfir spillingu að gera þá að þátttakendum í henni. " Þú færð líka og þegiðu þá"

Straumur peninga af almannafé til trúfélaga er spilling og hún skánar ekkert þó að fleiri séu látnir taka þátt. Þeir hugsa til þess með hryllingi hvað myndi gerast ef raunverulegt réttlæti ríkti í þessu máli. Þá myndu þeir sem eru utan trúfélaga fá skattaafslátt sem nemur sóknargjaldinu, og fólk myndi streyma unnvörpum úr kirkjunni. Flestir trúa hvort eð er ekki orði af því sem stendur í Bibblíunni, er skítsama umhvað fram fer í kirkjum og koma þangað aldrei ótilneyddir. Þeir væru langflestir til í að spara sér nokkra þúsundkalla og kirkjan myndi tæmast á innan við ári. Raunverulegt trúfrelsi ? Nei það má aldrei verða.


Sigurður Egill Ólafsson - 28/11/12 04:05 #

Algerlega sammála Árna hér að ofan.

Þó ég skilji það að það sé ákveðin viðurkenning að siðmennt gæti verið skráð sem lífsskoðunarfélag við hlið trúfélaga er ég samt sem áður hálf hissa á að Siðmennt sé að reyna að fara þessa leið.

Ég legg til að Siðmenn sýni gott fordæmi með því að sækjast ekki eftir skráningu út af því ranglæti að skattpeningur fari í trúfélög og að trúlausum sem séu utan allra félaga sé mismunað. Siðmennt gæti síðan kannski einnig sýnt gott fordæmi með því að sækjast eftir félagsgjöldum (eða frjálsum félagsgjöldum eflaust í formi gíróseðils í netbanka) í staðinn og sýnt að það sé ekki háð stuðnings ríkis/skattpenings og að afskipti ríkis sé óþarfi.

Kannski er einnig hægt að hvetja einhver önnur trúfélög sem eru nú þegar skráð (Ásatrúarfélagið?) til að sýna gott fordæmi og afskrá sig á sömu forsendum til að útiloka, og mótmæla því, að ríkið sé milliliður.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 28/11/12 08:19 #

Árni og Sigurður, þó svo að Siðmennt myndi fá jafna stöðu, þá eru ~35.000 manns ekki í skráðum trúfélögum og ég efast um að það séu ~35.000 manns í Siðmennt, þannig að ef Þjóðkirkjan og stjórnmálamenn eru sammála um að þetta séu félagsgjöld, þá ætti ekki að vera erfitt að finna einhvern utan trú- og lífsskoðunarfélaga til þess að fara í mál. ;)


Svanur Sigurbjörnsson - 28/11/12 23:09 #

Takk fyrir fína grein Hjalti Rúnar. Hún gerir þetta afar skýrt.
Það er athyglisvert að fram komi viðhorf hér í athugasemdum um að Siðmennt eigi ekki að sækja um skráningu og aðild að sóknargjaldakerfinu. Þetta hefur verið stór spurning og ef að endanlegt markmið er að ríkið greiði ekkert til lífsskoðunarfélaga, trúarlegra sem veraldlegra, þá virka tilburðir í þá átt að komast á spenann mótsagnakenndir. Það er frekar viðkvæm starfsemi að sjá um tímamótaathafnir fjölskylda (eins og t.d. útför)og það er einhvers virði að frjáls félagasamtök fjalli um siðferði. Með svona stuðningskerfi gegnum ríkið er tryggður einhver rekstrargrundvöllur og einhver uppbygging. Er það slæmt? Ég held að upphaflega baráttumálið um aðskilnað ríkis og kirkju hafi snúist um afnám þeirra valdatengsla, trúareinokunar og sérréttinda sem ein kirkja hafði í tengslum við konungsríki. Baráttan var til þess að uppræta valdaspillingu. Enn eru óeðlileg valdatengsl þjóðkirkju hér við löggjafann, forsetann og ýmsar ríkisstofnanir þannig að það er eftir heilmikil barátta fyrir þvi að afnema þá mismunun. Það að Siðmennt gangi inn í greiðslukerfi (sóknargjöld) byggt á fjölda félagsmanna (er í raun skattur þó)er ekki þátttaka í spillingu því að þjóð getur komið sér saman um að styðja starfsemi þessara félaga á jafnréttisgrundvelli telji hún hana gagnlega og réttmæta. Í því felst engin valdspilling. Baráttumálið heldur áfram og felst í því að afnema óeðlileg tengsl milli hinnar evangelísk-lútersku stórkirkju (hinar minni eru t.d. Fríkirkjurnar)og ríkisins og ákveða svo yfir heildina hversu mikið ríkið eigi að koma að fjárhag þessara félaga. Þó að Siðmennt geti áfram skrimt á þeim takmörkuðu félagsgjöldum sem hún fær,kæmu traustari tekjur sér mun betur. Heildarpakkinn til lífsskoðunarfélaga (trúarlegra sem veraldlegra) þarf þó að vera hóflegur og skoðaður í samhengi við annað sem ríkið rekur.

Á hinn bóginn þarf einnig að ákvarða hvað sé nægilega ábyrgt félag til að ríkið leyfi skráningu á því. Núverandi lög eru ekki nógu skýr um það.

Ef til vill er mér að yfirsjást eitthvað varðandi röksemdir fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju og því væri gott að fá að heyra enn dýpra kafað í þessi sjónarmið til að þroska umræðuna.

kv. Svanur Sig


Árni Árnason - 29/11/12 18:22 #

Vissulega má segja að baráttan fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju snúist að verulegu leyti um að afnema óeðlileg valdatengsl eins söfnuðar, einna trúarbragða, við ríkisvaldið. Hitt er engu að síður mikilvægt að það er algerlega óeðlilegt og í raun með öllu ótækt að ríkið sé yfirleitt með afskifti af trú eða ekki-trú fólks. Þar er á ferðinni svið þar sem hver og einn á að fá að trúa eða ekki trúa því sem hann vill án afskifta eða fjárhagslegrar íhlutunar stjórnvalda.

Á því tímaskeiði þegar allir trúðu á himnafeðgana lá beint við að kirkjan væri ríki í ríkinu, og ríkisvaldinu hentaði að nota trúarbókstafinn til að ráðskast með fólk. Öll þróun síðan gengur út á upplýsingu, færri og færri trúa bábiljunum, þekking kippir grundvellinum,fáfræðinni, undan trúarbrögðunum, á meðan prestar og aðrir þeir sem hafa beinna hagsmuna að gæta standa stífir á hemlunum og hanga hvíthnúaðir á handbremsunni til að stöðva hjól tímans.

Ein leiðin til að hanga á trúarbrögðunum löngu eftir að allir gera sér grein fyrir hversu úrelt þau eru, er að draga í land með kenningarnar. Byrjað er að afneita fáránlegustu og langsóttustu köflunum, og síðan hafna smátt og smátt öllu sem skynsemin véfengir þar til ekkert stendur eftir nema væminn kall í hempu.

Önnur leið er svo þessi sem verið er að fara núna, allir sjá hversu óeðlilegt það er að ríkið standi straum af trúarstarfi kirkjunnar, en í stað þess að hætta því, sem væri auðvitað hreinlegast, þá er smátt og smátt öllum boðið að vera með í veislunni.

Hverjir verða svo í nefndinni sem á að ákveða hvaða trúar- lífsskoðunar- ekkitrúar félög séu verðug ríkisreksturs ?

Hættum að blekkja okkur sjálf, það er bara ein fær leið. Trúar-/ ekkitrúar- félög standi á eigin fótum.


Sigurður Egill Ólafsson - 30/11/12 03:28 #

Takk fyrir viðbrögðin Svanur. Ég styð starfsemi Siðmenntar og vil endilega sjá meiri pening fara til ykkar en ég er enn á þeirri skoðun að þeir peningar eigi ekki að koma frá ríkinu og að afskipti ríkis eiga að vera sem allra minnst.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.