Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trúmálarétt frá grunni

Ríki og kirkja

Þegar samin eru ný lög þá getur verið góð hugmynd að ímynda sér hvernig lög maður myndi semja ef engin lög væru fyrir, frekar en að velta fyrir sér hvernig best sé að breyta þeim lögum sem þegar eru í gildi. Þetta viðhorf er að mínu mati einstaklega viðeigandi þegar kemur að 62. grein stjórnarskrárinnar, hinu svokallaða ríkiskirkjuákvæði.

62. gr. Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.

Landnemar

Ef við ímyndum okkur að við erum landnemar í fjarlægu landi og erum að koma okkur saman um grunnlög, myndi einhver virkilega koma með þá uppástungu að velja ætti eitt trúfélag framar öðru og þetta trúfélag ætti ríkið að styðja og vernda? Þetta trúfélag væri sérstaklega tengt ríkinu og myndi njóta ýmissa forréttinda. Ég leyfi mér að efast um það.

Þegar ég les varnarskrif fylgismanna 62. greinar stjórnarskrárinnar þá á ég erfitt með að sjá að þeirra rök myndu virka á landnemana. Oftar en ekki er vísað til þess að svona sé þetta í öðrum löndum, svona hafi þetta alltaf verið eða að með því að halda í greinina sé verið að mæta andstæðingum hennar á miðri leið.

Betra ákvæði

Ef það væri í mínum verkahring að skrifa nýja stjórnarskrá, og það ætti yfirhöfuð að minnast eitthvað á trúfélög í stjórnarskránni, þá væri mín uppástunga sú að segja einfaldlega að ríkið mætti ekki mismuna trú- og lífskoðunarfélögum.

Það er meira réttlæti fólgið í því að skrifa grein um jafnrétti trú- og lífsskoðunarfélaga frekar en að gefa sérstöku trúfélagi forréttindi í grunnlögum þjóðarinnar. Það er engin góð ástæða fyrir því að halda 62. greininni óbreyttri. Ef ég er spurður að því hvort ég vilji að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi er svarið einfalt: Nei.

Ég kem því til með að kjósa gegn því laugardaginn 20. október, og vona að þú gerir það líka.

Hjalti Rúnar Ómarsson 16.10.2012
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Ingi Þór - 16/10/12 09:45 #

það er nokkuð athyglisvert að hlusta á rökstuðning presta fyrir því að hafa þessa grein inni í stjórnarskránni. Þeir segja að þetta sé mjög mikilvægt ákvæði vegna þess að kirkjan sé svo stór hluti af lífi okkar, en þeir gera líka lítið úr kosningunni og segja að hún skipti ekki máli.

Persónulega vildi ég frekar kjósa um aðskilnað ríkis og kirkju á laugardaginn. En ég læt þetta duga að sinni.


Þorsteinn - 17/10/12 06:28 #

"Ef ég er spurður að því hvort ég vilji að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi er svarið einfalt: Nei."

Ef ég væri spurður, og hefði tækifæri til að svara í lengra máli en "Já"/"Nei", þá myndi ég segja "Já, ég vil að í stjórnarskrá verði ákvæði sem segir að það verði barasta engin þjóðkirkja á Íslandi."

En því miður er ekki hægt að svara svona án þess að ógilda seðilinn. Þá býst ég við að "Nei" sé næst-skásti kosturinn.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.