Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Skaðsemi erfðabreyttra matvæla

Kornakur

Fæðuöryggi er mikilvægt málefni sem vissulega snertir okkur öll. Því er mikil þörf á yfirvegaðri umræðu um þá fæðu sem við innbyrðum og áhrifum hennar á heilsu og umhverfið.

Örugg gæði matvæla

Það hefur orðið mikil vitundarvakning á Íslandi hvað varðar ræktunaðferðir á plöntum og dýrum. Fólk virðist hugsa meira en áður um gæði matarins sem það neytir. Þetta hefur vissulega skapað mörg viðskiptatækifæri á Íslandi.

Meðal þeirrra málefna sem vakið hafa umræðu undanfarin ár er erfðabreyting matvæla og möguleg áhrif hennar á umhverfið og hollustu matvælanna.

Vissulega er mikilvægt fyrir samfélagið að ræða nýja tækni sem kemur fram á sjónarsviðið, öryggi hennar, áhrif á samfélagi og siðferði svo eitthvað sé nefnt.

Það er einnig mikilvægt að umræðan sé byggð á rökum og staðreyndum, fremur en tilfinningum. Það gerir lýðræðissamfélaginu okkar mögulegt að taka upplýstar ákvarðanir sem hámarka nýtingu tækninýjunga og lágmarka skaðsemi.

Tilfinningahlaðið óvísindalæsi

Því miður vill brenna við að umræðan um erfðabreytt matvæli verði alveg einstaklega tilfinningahlaðin. Staðhæfingum er fleygt fram af ofsalegu hugsunarleysi og oftar en ekki byggt á tilfinningu frekar en staðreyndum.

Ofan á tilfinningaofsann bætast svo oft umfjallanir fjölmiðlafólks sem virðast ekki hafa mikið vísindalæsi. Þá er voðinn vís. Umræðan fer út um víðan völl og erfitt er fyrir fólk að átta sig á því á hverjum er mark takandi.

Þessa vikuna hefur mikið verið fjallað um grein sem birtist í vikunni í tímaritinu "Food and Chemical Toxicology" þar sem áhrif erfðabreytts maís og plöntueitursins Roundup á dánartíðni rotta yfir tveggja ára tímabil voru könnuð [1].

Umræðan um dauðu dýrin

Greinarhöfundar halda því fram að niðurstöður þeirra sýni að erfðabreyttur maís og Roundup í drykkjarvatni við leyfileg viðmiðunarmörk trufli hormónastarfsemi og valdi krabbameini og dauða í rottum.

Greinin hefur verið gagnrýnd harðlega af vísindamönnum í erlendum fjölmiðlum [2] og af rannsóknarstofnunum[3] en lítið hefur verið fjallað um það í íslenskum fjölmiðlum.

Egill Helgason á Eyjunni og Oddný Anna Björnsdóttir á Smartlandi mbl.is hafa minnst á rannsóknina. Þau staðhæfa bæði að um tímamótarannsókn sé að ræða og sýni eituraráhrif af völdum erfðabreyttra matvæla.

Á Vísir birtist líka grein um málið og er umfjöllunin þar álíka ógagnrýnin. Niðurstöður eins og þær eru túlkaðar af rannsóknarteyminu eru settar fram án þess að minnast á það í hverju gagnrýni íslenskra og erlendra vísindamanna felist.

Það er í raun áhyggjuefni að þegar flest umfjöllun um málið á virtum erlendum fréttamiðlum er mjög gagnrýnin, þá kýs íslenskt fjölmiðlafólk að skauta framhjá allri gagnrýni og kynna niðurstöðurnar eins og um viðurkenndar staðreyndir væri að ræða.

200 rottur rannsakaðar

Rannsóknin fylgdist með 200 rottum í 2 ár. Rottunum var skipt eftir kyni, þar sem fylgst var með 100 kvenrottum og 100 karlrottum. Þeim hópum var síðan skipt aftur niður í 10 hópa hvorn og var hópunum gefið 10 mismunandi fóðurblöndur eða vatn.

Rotturnar fengu annað hvort fóður unnið úr venjulegum maís eða mismunandi hlutfalli af venjulegum maís og erfðabreyttum maís. Ennfremur voru sömu hlutföll notuð af erfðabreyttum maís og í ofangreindum hópum, en illgresiseitrinu Roundup hafði verið sprautað á erfðabreytta maísinn. Aðeins 10 rottur fengu óerfðabreyttan maís, og voru viðmiðurnarhópur.

Allar rannsóknir standa og falla með viðmiðunarhópunum sem notaðir eru. Ef viðmiðunarhópurinn er ekki rétt hannaður þá er einfaldlega ekki hægt að túlka gögnin. Í þessari rannsókn voru notaðar 10 viðmiðunarrottur fyrir 90 rottur sem fengu mismunandi meðhöndlun. Tölfræðistyrkurinn er því takmarkaður við 10 rottur.

Undarleg aðferðarfræði og niðurstöður

Ein meginniðurstaða rannsóknarinnar er að rotturnar sem fengu erfðabreytta maísinn dæju mun tíðar úr krabbameini. Hins vegar fá rotturnar af afbrigðinu sem notað var í rannsókninni mjög oft krabbamein, sérstaklega þegar þær fá að éta eins og þær vilja [4]. Hér var því hækkun á mjög hárri tíðni krabbameina rannsóknarefnið.

Það er enn önnur ástæða til þess að draga í efa að 10 rottur í viðmiðunarhóp sé nóg. Ef tíðnin er há fyrir og mæla á áhrif sem þessi er ólklegt að fá tölfræðilegar marktækar niðurstöður nema að viðmiðunarhópurinn sé jafnstór meðferðarhópnum.

Við frekari skoðun á niðurstöðum greinarinnar kemur enn betur í ljós að niðurstöður rannsóknarinnar eru mjög oftúlkaðar af höfundum greinarinnar. Tíðni krabbameins og dauða eykst til dæmis ekki þegar skammtur annað hvort erfðabreytta fæðisins eða illgresiseitursins var hækkað.

Klassísk aðferð til að mæla áhrif efna á lífverur er einmitt að hækka skammtana í skrefum og skoða hvort að áhrifin aukist með stækkandi skömmtum. Ekki þykir sýnt fram á að um raunveruleg áhrif af efninu sé að ræða nema skammtaáhrif sem þessi komi fram.

Tíðni oftúlkana

Það má halda lengi áfram að gagnrýna aðferðafræði rannsóknarinnar. Til dæmis var ekki tekið fram hvernig stærð æxlanna var mæld, en leitað var eftir þeim með einföldum þreifunum. Ekki var notast við blindni í rannsókninni. En til að skekkja niðurstöðurnar er nóg að vísindamenn viti hvaða rottur eru í hvaða hópi þegar þeir framkvæma tilraunir.

Tölfræðileg úrvinnsla gagnanna er líka saga út af fyrir sig. Hvergi kemur orðið p-gildi fyrir í greininni og hvergi er notast við "error bars" til að gefa lesanda óvissu mælinganna til kynna. Höfundarnir fóru í staðinn út í flókna línulega aðhvarfagreiningu til að kreista einhverjar tölfræðilegar niðurstöður út úr gögnunum.

Það er reyndar auðvelt að taka tölulegar niðurstöður greinarinnar og gera einfalda tölfræðiútreikninga, til þess að athuga hvort nokkur tölfræðilegur munur sé á einhverjum meðferðarhópanna og viðmiðunarhóp. Við skoðun á niðurstöðunum finnst mér ólíklegt að sá munur finnist.

Lítil raunveruleg áhrif

Það er nokkuð ljóst að lengi mætti skrifa um vankanta rannsóknarinnar, en þegar öllu er á botninn hvolft er ekki sannað með þessari rannsókn að þessi litla aukning á dauða sem mældist væri annað en tilviljun vegna lítils fjölda dýra sem notuð voru í rannsókninni.

Ef um raunveruleg áhrif er að ræða, þá eru þau lítil og nota þyrfti mun fleiri dýr til rannsóknarinnar og passa þyrfti sérstaklega upp á það að nota ekki dýr sem væru mjög veik fyrir eins og þetta rottuafbrigði.

Af þessari rannsókn er því ekki hægt að draga ályktanir um áhrif erfðabreytts fóðurs á æxlisvöxt eða tíðni dauða í rottum og því hæpið að hún marki nokkur tímamót.Séralini

Samkvæmt grein Séralini et al. (sjá mynd) þá lifa karlrottur mun lengur ef þær éta 22% eða 33% erfðabreytt fóður miðað við 0% eða 11%. Af einhverju ástæðum eru þessar niðurstöður ekki ræddar í greininni (enda til marks um tölfræðilega ómarktækni tilraunarinnar).

Af rottum og mönnum

Jafnvel þótt við gæfum okkur að rannsóknin hefði verið tölfræðilega marktæk og niðurstöðurnar bentu til þess að rottur dæju unnvörpum við að éta korn sem sprautað hefði verið með Roundup, þá er himinn og haf á milli þess sem hefur áhrif á rottur og okkur mannfólkið.

Þannig þola rottur vel efnið þallidómíð, en það veldur fósturgalla í mönnum. Einnig eru rottur með öðruvísi efnaskipti en menn og því ber að fara varlega í því að heimfæra niðurstöður rotturannsókna á menn.

Vissulega er möguleiki að einhverjar gerðir erfðabreytinga séu skaðlegar fyrir þann sem neytir breyttu lífveranna, en þó er hæpið að þá skaðsemi mætti rekja til eðli erfðabreytinga í sjálfu sér.

DNA&GTAC4LIFE

DNA hefur einfalda uppbyggingu: það er gert úr 4 niturbösum sem raðast í nær óendanlega flóknar raðir af A, T, C og G í litningum lífvera og mynda þannig erfðamengið. Sama úr hvers konar lífveru eða úr hvaða genum það samanstendur, þá brotnar allt DNA niður við meltingu.

Þannig fer líka fyrir öllum þeim genum sem bætt hefur verið inn í lífverur með erfðabreytingum. Þau brotna niður í sömu einingar og afgangur erfðamengisins. Því er mjög erfitt að sjá hvernig það ætti að vera skaðlegra heilsu okkar en annað DNA.

Að lokum má benda á það að niðurbrot DNA er fullkomið í maga okkar, og jafnvel þótt meltingin klikki þá tökum við ekki upp hálfmelt gen í frumur okkar og byrjum að nota þau[5]. Þá væri heimurinn fullur af fólki með tómata- og jafnvel hnúðkálsgen. Getum við ekki öll verið sammála um að það sé nokkuð langsótt?


Heimildaskrá:

[1] Long term toxicity of a Roundup herbicide and a Roundup-tolerant genetically modified maize
[2] Study on Monsanto GM corn concerns draws skepticism
[3] VIB exceptionally sceptical about the Séralini research
[4] Spontaneous neoplasms in aged Sprague-Dawley rats.
[5] The stability and degradation of dietary DNA in the gastrointestinal tract of mammals: implications for horizontal gene transfer and the biosafety of GMOs.


CC mynd frá Vermario @ Flickr.com

Erna Magnúsdóttir 21.09.2012
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 21/09/12 14:12 #

Því miður er umfjöllun íslenskra fjölmiðla um þetta mál alls ekki vönduð. Nú hafa Smugan og RÚV bæst í hóp þeirra sem fjalla um málið án þess að hafa fyrir því að kynna sér það almennilega.


Sigurjón - 21/09/12 14:27 #

Allt líf á jörðinni er erfðabreytt, sumt hratt og sumt hægt.

Það er erfitt að sjá að hraði erfðabreytinga hafi áhrif á nedanlega útkomu.

Fólk ruglar saman erfðabreytingum og aukaefnum sem blandað er í matvæli.

Hvernig dettur einhverjum í hug að bera saman erfðabreytt korn og óerfðabreytt og bæta svo roundup út í kornið. Afhverju settu þeir ekki bara arsenik í kornið. Eða uranium.

Þakka ykkur fyrir Vantruna.


Kristján Kristinsson - 21/09/12 15:20 #

Getur einhver útskýrt fyrir mér hvernig erfðabreytt matvæli eiga að geta valdið krabbameini fremur en matvæli sem eru ekki erfðabreytt. Hafa þeir/þau sem eru á móti erðabreyttum matvælum getað útskýrt þetta eða eru rökin bara þau að erfðabreytt matvæli eru svo af hinu illa að þau valda krabbameini?

Markmiðið er að reyna að koma sér í gegnum þessa grein en fljótt á litið virðist hún flokkast undir "Bad science".


Valdís - 21/09/12 15:55 #

Er það rétt að skordýraeytri sé sprautað í stærri skömmtum á erfðabreyttan mat (því hann er yfirleitt þolnari gegn því) og þar af leiðandi sé erfðabreyttur matur líklegri til að vera löðrandi í eytri?

Ps. Takk fyrir að vera eini fréttamiðillinn sem býður upp á gagnrýna umfjöllun á Íslandi.


Fjalar - 21/09/12 16:05 #

Ekki nóg með að æxli og dauðsföll voru ekki í neinu samhengi við magnið sem þær fengu af umræddu fóðri. Það mætti einmitt fylgja umræðum og fréttum að rotturnar í samanburðarhópnum fengu líka illa útlítandi æxli upp til hópa. Allt frá 2 og upp í 10 rottur fengu æxli í fjölmörg líffæri. Og að lokum eitt smáatriði: Rottur borða ekki, þær éta.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 21/09/12 16:20 #

Hvað ef þetta eru mjög dannaðar rottur? :-)

Takk fyrir ábendinguna.


Guðmundur - 21/09/12 16:55 #

Kristján:

"Getur einhver útskýrt fyrir mér hvernig erfðabreytt matvæli eiga að geta valdið krabbameini fremur en matvæli sem eru ekki erfðabreytt. Hafa þeir/þau sem eru á móti erðabreyttum matvælum getað útskýrt þetta eða eru rökin bara þau að erfðabreytt matvæli eru svo af hinu illa að þau valda krabbameini?"

Þú gerir þau mistök (eins og andstæðingar "erfðabreyttra matvæla") að líta á erfðabreytt matvæli sem eitthvað eitt samfellt fyrirbæri. Sem þau eru ekki. Þau eru bara (alls konar) matvæli sem hefur verið breytt frá upprunalegu ástandi með erfðabreytingum. Reyndar eru jafnvel vísindamenn gjarnir á að tala um "erfðabreytt matvæli" sem eitthvað samfellt fyrirbæri (sbr. "Erfðabreytt matvæli eru hættulaus" (http://ruv.is/frett/erfdabreytt-matvaeli-haettulaus) sem er ákveðin rökleysa). Ef matvæli geta valdið krabbameini er væntanlega eitthvað efni í matvælunum sem hefur þessi áhrif. Það er ekkert sem segir að erfðabreytt matvæli sem slík valdi frekar krabbameini en óerfðabreytt, en það er heldur ekkert sem segir að þau valdi síður krabbameini. Og af því að þeim hefur verið breytt frá upprunalegu og þekktu formi í annað form sem er minna þekkt, eru fyllilega tilefni til rannsókna. Hvert tilvik þarf einfaldlega að rannsaka með skýrum og marktækum hætti. Erfðabreytingar eru í sjálfu sér hvorki vondar né góðar, þær eru einfaldlega líffræðilegt ferli, hvort sem það er náttúrulegt eða manngert. Áhrifin af þeim geta hins vegar verið annað hvort góð eða slæm. Ef einhver tekur sig til og erfðabreytir kartöflum þannig að þær myndi meira sólanín, er hægt að segja að áhrifin séu skaðleg. Af hverju einhverjum ætti svo að detta í hug að gera það er svo önnur saga...


Helgi Briem (meðlimur í Vantrú) - 21/09/12 20:19 #

Svo er eitt sem er aldrei ofhamrað á, rottur af þessum stofni fá sjálfkrafa æxli ef þær éta of mikið.

Jafnvel þó athugunin væri fullkomin í alla staði, bendir því til þess að erfðabreytti maísinn valdi æxlunum.

Kannski veldur hann frekar ofáti.

Kannski bragðast erfðabreytti maísinn bara betur.


Helgi Jóhann Hauksson - 21/09/12 23:36 #

Í grundvallaratriðum eru markaði eingöngu tvennskonar erfðabreyttar jurtir og afurðir þeirra. Þ.e. soja eða maís sem ýmist er sýtkt með geni og áföstum vírus-promator til að valda síframleiðlsu proteins sem skapar þol fyrir Reoundup illgresins eyði — eða sem framleiðir eigið Bt skordýraeitur í öllum frumum sínum.

Eins og marg oft hefur komið fram getur aðskotagen eitt og sér ekki valdið neinu — engin lífvera virkjar það eð framleiðir neitt eftir því. En til að komast framhjá þeirri hindrun splæsir erfðatæknin vírus-prómator við genið og sýkir svo stofnfrumur lífverunnar með þessari samsettu einingu sem kölluð er plasmíð og apar í raun eftir vírusum.

Þessvegna er lífveran í raun sýkt og hegðar sér eftir það alltaf sem sjúk, afkastar minna og óvæntar breytingar verða á henni.

Strax árið 1999 sýndi Árpád Pusztai fram á að erfðabreytt lífvera væri önnur og ekki sú sama og einungis sú upphaflega að vibættu vænta próteini splæsigensins. Hann sýndi fram á mikinn og alvarlegan skaða á rottum sem fóðrðar voru á erfaðbreyttum kartöflum. Hann æstti mjög alvarlegri ófrægingaherðfer fyrir vikið og grein hans var yfirfarin af 6 ritrýnum í stað venjulegra 2ja fyrir birtingu í Lancet árið 1999.

Í kringum 2004 uppgötvuðu menn svo að hvert gen stýrir fleiri en einni gerð próteins og reyndar að í hverri lífveru eru til muna færri gerðir gena en próteina.

Áhyggjur manna eru því EKKI þær að DNA sé hættulegt því allir upplýstir gagnrýnendur GMO vita að eitt og sér verður aðskota gen ekki virkjað, hvorki í erfðabreyttri lífveru eða öðrum lífverum, heldur að til að virkja og valda síframleiðslu eftir því — algerlega óháð þörfum lífverunnar sjálfrar — er með erfaðbreytingu splæst við genið vírus-prómator sem veldur síframleiðslu eftir geninu og skapar nýja sjálfbæra einingu plasmíð sem ekki þarf að býða þess að lífveran ákveði að virkja genið heldur fer strax í gang.

Þessa samsettu heilu og sjálfbæru einingu gens og vírus-prómator og fl., eða palsmið, hefur verið sýnt fram á að t.d. saurgerlar geti tekið upp í þörmum og hafið framleiðslu eftir forskrift gensnis með aðstoð vírus-prómatorsins — þ.e. plasmíð einingin virkar eins og vírus-smit.

Þá er heldur ekki kannað hverjar aðrar og óvæntar afurðir myndast þó vitað sé til þess að alvarlega heilsu-skaðandi ferlar hafa verið í gangi t.d. samkvæmt Árpád Pusztai 1999 og mikið fleiri.

Það má t.d. sjá í þessari klukkutíma löngu video mynd sem verður í forsýningu í nokkra daga enn á netinu: http://geneticroulettemovie.com/


Margrét Hafsteinsdóttir - 22/09/12 02:31 #

Ég held að mjög margt fólk almennt sé orðið þreytt á matvælaiðnaðinum sem slíkum og öllum þessum vondu matvælum, drasli og rusli sem okkur er boðið upp á og okkur talin trú um að sé allt í lagi með. Þegar maður fer að tileinka sér að lesa um innihald í matvörum, þá renna á mann tvær grímur, þegar allt í einu kjötbollur eru komnar með langan lista af aukaefnum, sem margir hafa ekki hugmynd um hver eru. Hvers vegna þarf endilega að setja allt þetta drasl í matvæli? Af hverju getur maður ekki bara farið út í búð, keypt í matinn og verið öruggur um það að það sé allt í lagi með matvælin sem er verið að kaupa? Hvers vegna er sem dæmi kjöt oft og tíðum ekki lengur 100% kjöt? Hvers vegna er búið að bæta sykri í svona margar vörur sem dæmi? Hvers vegna allt þetta fikt í náttúrinni líka? Erfðabreytingar og aukaefni vaðandi yfir allt? Hvers vegna allur þessi fáránlegi iðnaður í kringum matvæli?

Í dag er flest fólk ekki með sína eigin matjurtagarða, en það væri samt lang best, svo fólk viti nú nákvæmlega hvað það er að éta, að það ræktaði einhver matvæli í þessum görðum sínum, sem eru fullir af skrauti. Við getum svo vel bjargað okkur með ýmislegt sjálf, en erum hætt því af því að matvælaiðnaðurinn er orðinn svo valdamikill og hrikalega stór á heimsvísu, að við erum orðin viljalaus verkfæri hans á margan hátt. Matvælaiðnaðurinn er orðinn allt of valdamikill og kærulaus. Það vita það allir sem vilja vita það og opna augun að stór hluti þeirra vara sem hann framleiðir er bara drasl og alls ekki gott fyrir okkur. Þegar iðnaður verður svona valdamikill, þá hefur hann líka efni á rannsóknum, sem vinna að því leynt og ljóst að verja drulluna og fiktið sem þar viðgengst og reyna að klekkja á fólki sem vill bara að við fáum almennileg og heilbrigð matvæli.

Hvort sem það er hægt eða ekki að benda á villur í rannsókninni á rottunum og varðandi erfaðbreytingar í matvælum og skordýraeitur, þá þarf virkilega að taka þennan iðnað í gegn og herja á hann af öllu afli til að fólki megi farnast vel. Ég sé bara akkúrat ekkert að því og í þessu tilefni má fólk líka tala af tilfinningu. Það geta ekki allir verið með nefið niðri í rannsóknum alla daga, heldur lætur það tilfinninguna ráða á stundum, þegar verið er að halda því fram að það sé allt í lagi með skordýraeitur í matvælum sem dæmi! Hvernig getur bara verið í lagi með skordýraeitur í matvælum??? Þegar oftar en ekki matvælin eru úðuð með eitrinu verða þeir sem sjá um það að vera í hlífðarfatnaði og með súrefnigrímur!

Fyrir ca. 10 árum var fjallað um á RUV um stóra og viðmikla rannsókn, sem var sænsk að mig minnir, varðandi hvítblæði í ungbörnum. Niðurstaða rannsóknarinnar var að aðalástæðan væri "skordýraeitur í matvælum, sem móðirin neytti á meðgöngu". Þessi rannsókn virðist hafa verið þögguð niður, enda er ennþá verið að bjóða fólk upp á matvæli með skordýraeitri.

Mér finnst bara að allir sem eitthvað vit hafa í kollinum ættu að ráðast gegn þessum risa matvælafyrirtækjum, sem vilja sölsa allt undir sig og hafa víða um heim hrakið smábændur frá bæjum sínum og hafa sölsað undir sig lönd víða til að rækta korn, grænmeti og ávexti á sem hagstæðastan og arðvænastan hátt fyrir þau sjálf. Og í krafti valdsins gert hrikalega hluti á kostnað fólks víða um heim. Hvað ætli stór hluti af eiturframleiðslu heimsins, sé í eigu risa matvælaframleiðenda?

Tóbaksiðnaðurinn er slæmur, en matvælaiðnaðurinn er enn verri. Fyrir utan þá aðila sem eru að reyna að stuðla að því að bæta hann og bjóða góðar og heilnæmar vörur, sem eru ekki fullar af drasli.

Hvers vegna allt þetta krabbamein sem herjar á fólk, ungbörn og litla krakka? Þetta er bara ömurlegt! Þrátt fyrir að við lifum lengur, þá sérstaklega í svokölluðum velferðarríkjum, virðumst við samt alltaf vera að verða veikari. Þurfum að okkur er talin trú um fleiri og fleiri bólusetningar, sem eru orðar mjög umdeildar. Svo eigum við alltaf að þakka það að við lifum lengur aukinni heilsugæslu og velferð, þegar við að talsverðu leyti getum þakkað því auknu hreinlæti.

Ég á vinkonu sem er háttsettur læknir á sjúkrahúsi erlendis, og hún sagði mér að þegar er gerð herferð á sjúkrahúsinu og fólk hvatt til að þvo vel hendur og stunda almennt hreinlæti fram yfir það sem það er vant þá verður alltaf miklu minna um hvers konar smit. Þessar herferðir eru oft gerðar á sjúkrahúsum þegar flensur eru í gangi. Þessi kona sem er með tvær doktorsgráður er ekki hlynnt flensu bólusetningum sem dæmi.

Svona væri lengi hægt að skrifa áfram en ég læt þetta nægja að sinni :)


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 22/09/12 05:42 #

Þrátt fyrir að við lifum lengur, þá sérstaklega í svokölluðum velferðarríkjum, virðumst við samt alltaf vera að verða veikari.

Þetta er ekki rétt, ef Ísland er tekið sem dæmi hefur heilsufar almennings aldrei verið betra m.a. vegna bólusetninga.

Annars varðandi þessa "rannsókn" þá finnst mér borðleggjandi að með því að velja þennan rottustofn hafi rannsakandinn haft það fyrir augum að geta sent út krassandi fyrirsagnir til fjölmiðla. "Rottur sem átu erfðabreyttan maís fengu krabbamein!!!" o.s.frv.

Aldrei má vanmeta óheiðarleika þessa hyskis.


Helgi Jóhann Hauksson - 22/09/12 11:18 #

Lárus Viðar, mér hinsvegar finnst augljóst að rannsakandinn hafi með vali þessa rottustofns einfaldelga verið að kanna hvort þessi efni ykju á hættu á krabbameinum þar sem hún væri fyrir.

Fyrri rannsóknir hafa bent til þess að þessar megin línur erfðabreyttra matvæla sem eru nær einar á neytendamarkaði þ.e. maís og soyja breytt til að annarsvegar að þola Roundup og hinsvegar til að framleiða sjálft í öllum frumum sínum Bt skordýraeitur (eða hvorttveggja) — og afurðir þeirra — valdi nýrnarskemmdum, lifrarskemmdum, vansköpun milli kynslóða dýra sem eru fóðruð á þeim, hægi vöxt og valdi offitu svo það helst sé nefnt — en menn hafi ekki sérstaklega haft tilefni til eða látið í ljós áhyggjur af myndun krabbameina vegna þeirra, þetta er því nýtt að þvíleiti. Má vera að tilraunin sýni ekki fram á að Roundupþolinn erfðabreyttur maís valdi krabbameinum einn og sér en berlega eykur hann krabbameinin og gerir líkama rottanna erfiðara um að vinna sjálfar bug á þeim á frumstigi svo þau verða fleiri og verri og myndast hjá fleiri rottum en annars — þar sem hætta er á þeim. Þetta skiptir auðvitað líka miklu máli þar sem við vitum að önnur megin orsök krabbameina er meðfæddur veikleiki en hin er umhverfisáhrif og fæða.

Árpád Pusztai sýndi fram á það strax 1999 (birt í Lancet 1999, eftir yfirferð 6 ritrýna í stað venjulega 2ja) að erfaðbreyttar kartöflur voru ekki bara summa þeirrar orginal og hins vænta próteins af splæsigeninu — og með tilraun hans á rottum kom hið sama fram og síðar í Rússlandi og nú hér að erfðabreytta jurtin reyndist rottunum stór hættuleg og flestar þeirra drápust.

Allt varð vitlaust og feikna órfægingarherferð fór af stað gegn Árpád Pusztai — hann var sviptur öllu, starfi sínu og sæmd og sett lögbann á að hann greindi frá rannsókninni sem fór fram við eina helstu rannsóknastöð breska ríkisins The Rowett Research Institute í Aberdín í Skotlandi þar sem hann hafði starfað í 36 ár. Seinna fékk hann banninu hnekkt en ekki starf sitt.

Kartöflurnar hurfu hinsvegar hljóðalust af markaði án þess að neinn viðurkenndi að neitt væri að þeim og án þess að neytendur fengju tækifæri til að hafna þeim (allt ómerkt). Það gerðist líka með tómatana sem voru fyrstu erfaðbreyttu neytendavörunar, þeir hurfu fljótt aftur hljóðalaust af markaði og án þess að greint hafi verið frá því hversvegna höfundurinn og framleiðandinn hætti að leita arðs af uppfinningu sinni og framleiðlsu. Samt tala íslenskir vísindamenn hér eins og þeir hafi ekki hugmyndum þetta og haldi að erfaðbreyttir tómatar séu enn á neytendamarkaði.


Helgi Jóhann Hauksson - 22/09/12 11:27 #

Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 22/09/12 05:42 # Þú leyfir þér að kalla gagnrýnendur erfðabreyttra matvæla hyski. Ég vil benda þér á að það fólk stofnar störfum sínum og sæmd í stór hættu fyrir ekket nema það sem það telur sannleikann — hinsvegar standa að baki erfaðtækninni trilljóna dollara hagsmunir þar sem ekki einungis þessi viðskipti Monsanto eru í húfi heldur áform Monsanto um að geta krafsit höfundalauna af ræktun alls matarkorns í heiminum — og því haft tekjur af og stjórn á allri matvælaframleiðlsu heims — allsstaðar. Aðeins talsmenn erfðatækninnar geta verið knúnir áfram af græðgi og feikna peningahagsmunum og annarlegum hvötum sem byggja á því að bæði neytendur og stjórnvöld kaupi áfram málflutning þeirra um öryggi og skaðleysi erfðabreyttra matvæla — án rannsókna og án þess að þeir sjálfir endurtaki að eigin frumkvæði rannsóknir eins og þessa og rannsókn Árpád Pusztai og sanni skaðleysið. — Ef þú vilt finna hyski þá er til muna vænlegra að leita þess þar.


Bjarki - 22/09/12 12:34 #

Takk fyrir góða og ýtarlega grein, ég er mjög þakklátur fyrir framtakið. Greinar sem þessi eru samt dæmdar til að vera lesnar af mjög takmörkuðum hópi. Hvernig væri að gera vandaða útdrætti af þessum greinum og reyna að fá þá birta í fjölmiðlum (hægara sagt en gert, ég veit!). Þetta myndi samt auka til muna áhrif (impact) greinanna ykkar.

Takk aftur!


Bjarki - 22/09/12 12:42 #

Aðeins meira um sama mál. Best væri náttúruega að fá fastan pistil á vísi eða mbl. Etv væri hægt að fá það í gegn með því að höfða til (að vísu oft veiks) vilja sumra ritstjórna til að bjóða upp á vandaðan og upplýstan fréttaflutning.


Margrét Hafsteinsdóttir - 23/09/12 00:46 #

Lárus...... heilsufar almennings aldrei verið betra? Allskonar sjúkdómar, krankleikar og vandamál að hrjá fólk.

Ég styð alla sem vilja vinna að náttúruvernd og almennu heilbrigði, og fólk getur líka bara notað skynsemina.


Arnar Sigurður (meðlimur í Vantrú) - 23/09/12 10:27 #

Margrét, hvernig væri að benda á eitthver gögn máli þínu til stuðnings. Ef þú ætlar að vera ósammála staðhæfingu Lárusar þar að segja.


Guðmundur Guðmundsson - 23/09/12 22:28 #

Fyrir leikmann eru þetta afar fróðleg skoðanaskipti. Mér finnst Erna Magnúsdóttir fara langt með að afgreiða greinina margumtöluðu og af fréttum að dæma er hún ekki eini vísindamaðurinn sem er ósáttur við skrifin. Þrátt fyrir það hafa hvorki erfðabreyttur maís né Roundup fengið heilnæmisskírteini. Öðru nær. Því þótt margt bendir til þess að erfðabreytt korn sé skaðlaust þeim sem neytir er hitt óumdeilt að það færir fáeinum risafyrirtækjum geypilegt vald sem mannkyninu öllu gæti orðið bumbult af.

Plöntuerfðafræðingum hættir til að einblína á tæknileg atriði en horfa algjörlega framhjá þeim hrikalegu pólitísku afleiðingum sem erfðabreyttar landbúnaðarafurðir kunna að hafa í för með sér. Þeim er kannski vorkunn. Pólítík er ekki þeirra svið og kannski ekki heldur landbúnaður, hvað þá samfélagslegar afleiðingar einokunar í ræktun þeirra afurða sem fimm þúsund milljarðar manna þurfa að geta gengið að í nægu magni á viðráðanlegu verði. Jafnvægi framboðs og eftirspurnar með korn er mjög viðkvæmt. Uppskerubrestur á hveiti í Úkraníu veldur hungursneyð í Afríku.

Nýting erfðabreyttra lífvera er skilyrt af einkarétti risafyrirtækja sem beita fyrir sig her lagasnápa til að verja eign sína. Af mikilli hörku eru bændur þvingaðir til viðskipta eða í gjaldþrot að öðrum kosti, ekki aðeins í þriðja heiminum, heldur líka á vesturlöndum, í Bandaríkjunum og Kanada. Þessi fyrirtæki hugsa aðeins um gróða og með einokun á sáðkorni eru þau komin með afar arðsama formúlu. Ef sú þróun er ekki stöðvuð er framtíð akuryrkju í mikilli óvissu og þá um leið framtíð þeirra sem hún þarf að brauðfæða. Viljum við láta matbjörg mannkynsins í hendurnar á Jónum Ásgeirum heimsins?


Erna Magnúsdóttir (meðlimur í Vantrú) - 23/09/12 23:53 #

Guðmundur, ég er alveg sammála þér, pólitíkin sem tengist þessari tækni er umræða út af fyrir sig.

Mér finnst vera ábyrgðarhlutur fyrir sérfræðinga að tjá sig um vísindahlutann, þannig að umræðan um hann byggist á staðreyndum.

Það vill brenna við í þessari umræðu að fólk blandi saman öllu í einn graut, tilfinningum, pólitík og svo vísindunum. Ef fólk í minni stöðu leggur sig fram við að taka þátt í umræðunni á vísindalegum forsendum, þá hlýtur það að stuðla að upplýstari umræðu um málið.

Ég einblíni einmitt á tæknileg atriði því að ég hef þjálfun til að skilja þau. Það er mitt framlag í umræðuna.


Diddi - 24/09/12 08:34 #

Það er auðvelt að efast... og að sjálfsögðu er það af hinu góða.

Þó má taka fram að þrátt fyrir alla vankanta þessarar rannsóknar, þá er þetta engu að síður ein umfangsmesta og vissulega lengsta rannsókn af þessu tagi; aðrar rannsóknir hafa ekki dekkað meira en 3 mánuði og einungis uppfyllt þær lágmarkskröfur sem iðnaðurinn er skikkaður til að uppfylla. Og iðnaðurinn á bak við erfðabreyttar afurðir eru í raun sömu aðilarnir og hafa staðið á bak við flestar þær rannsóknir sem að GMO snúa. Conflict of interest?

Það er ýmislegt mjög athugavert við notkun erfðabreyttra lífvera við matvæli, hvort sem að þessari rannsókn hér er flaggað sem heilögum sannleik eða blátt áfram kjaftæði. Sem dæmi má nefna hið lagalega einráðsumhverfi sem að fyrirtæki á borð við Monsanto hafa þvingað í gegn. Þannig er ákveðið gen tekið úr einu dýraríki, splæst yfir í plöntuna sem á að rækta og presto; Monsanto hefur einkarétt á þessu geni... þeir "eiga lífið" sem genið "þeirra" er í og hafa því tekið mestallt vald úr höndum þeirra bænda sem rækta fyrir þá. Fjölmörg tilfelli þekkjast þar sem óheppnir bændur hafa fengið frjókorn erfðabreyttra tegunda inná sitt land og í kjölfarið lent í lagalegu stríði við (td.) Monsanto, þar sem Monsanto hefur yfirleitt lokaorðið - hjálpar að hafa her af lögfræðingum.

Vel ætti að nægja að kynna sér hina stórfelldu óánægju bænda í m.a. Indlandi og Bandaríkjunum; tvær þjóðir þar sem ræktun erfðabreyttra lífvera hefur verið talsverð.

Þannig að áður en fólk efast um "samsærið", þá má kynna sér málin af alvöru. Ég er ekki að segja að neinn hér eigi að taka mig á orðinu; kynnið ykkur einfaldlega málið til fullnustu; það snertir okkur öll.


Erna Magnúsdóttir (meðlimur í Vantrú) - 24/09/12 09:00 #

Diddi, þessi rannsókn er einmitt ekki viðamikil af því að stærð rannsóknar ákvarðast í raun af samanburðarhópnum, sem hér voru 2x10 rottur. Ég myndi segja að það væri lítil rannsókn og efast um að allar aðrar rannsóknir hafi verið minni en það.

Mig langar líka að ítreka að það má ekki rugla saman tæknilegu atriðunum á bak við erfðabreytingar og svo áhrif þeirra á lífverur á annan veginn og svo pólitíkinni á hinn veginn. Það sem skemmir alla umræðu um erfðabreytingar er að fólk grautar þessu saman í eitt.


Diddi - 25/09/12 08:21 #

En getum við þó ekki verið sammála um það, Erna, að 2 ára rannsókn tekin af óháðum aðila hljóti að vera áreiðanlegri en 3 mánaða rannsókn sjálfra framleiðandanna? AÐ sjálfsögðu er hægt að gera það sem þeir kalla "manufacture results", þeas, tryggja að rammi rannsóknarinnar gefi ákveðnar niðurstöður yfir aðrar. En aftur, þá er í raun vafasamara að treysta niðurstöðum sjálfra framleiðandanna frekar en 3ja aðila af sömu ástæðu.

Hvar liggja hagsmunirnir og hagsmunaárekstrarnir í þessari umræðu? Og etv það mikilvægasta; hvar liggur SÖNNUNARBYRÐIN, hugtak sem þið hér hjá vantrú ættuð vel að þekkja? Er það neytendans að sanna skaðsemi vörunnar? Eða er það iðnaðarins að virkilega sýna fram á skaðleysi vörunnar?

Það er margt í kýrhaus erfðabreyttra matvæla og í raun matvæla almennt. Þó er ýmislegt sem að rökrétt bendir til þess að erfðabreyttar afurðir séu vafasamar... erfðabreytitæknin sjálf. Skoðum málið svona; byrjað var að splæsa genum vel áður en td mennska genarófið hafði verið greint. Enn í dag er heill risahellingur ólærður um gen og erfðir... að ganga út frá því að vísindaleg þekking í dag sé (í fyrsta sinn í sögunni) "fullkláruð" er gríðarlegur vanþroski og þekkingarfræðilegur misskilningur.

Og hvað varðar pólítíkina; hún sannar oft ýmislegt sem að ekki verður sýnt fram á í rannsóknum. Eða afhverju berjast Monsanto og félagar á hæl og hnakka gegn því að erfðabreyttar afurðir séu annarsvegar merktar í innihaldslýsingu og hinsvegar að óerfðabreyttar afurðir/vörur fái merkinguna "GMO free"?

Pólítískar aðgerðir geta þannig sýnt fram á hagsmunamálin, sem aftur geta varpað ljósi á gæði þessarar ákveðnu vöru.

Ég er mikill aðdáandi vísinda og þekkingar... ég er td sannfærður um að engin tækni sé verri en hvað annað verkfæri; hamar má td nota til að byggja hús... eða til að rífa niður hús, jafnvel myrða mann ef því væri að skipta.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 25/09/12 08:45 #

2 ára rannsókn tekin af óháðum aðila hljóti að vera áreiðanlegri en 3 mánaða rannsókn sjálfra framleiðandanna?

  1. Er þetta óháður aðili?
  2. Eru allar aðrar rannsóknir kostaðar eða framkvæmdar af frameiðendum?
  3. Skiptir ekki meira máli hvernig rannsóknir eru framkvæmdar heldur en hver framkvæmir þær?

Það er vandamál þegar hagsmunaaðilar framkvæma lélegar rannsóknir eða fela rannsóknir sem henta ekki hagsmunum þeirra. Það vandamál leysum við ekki með lélegum rannsóknum sem t.d. hafa of litla samanburðarhópa. Við leysum það með vönduðum rannsóknum.

byrjað var að splæsa genum vel áður en td mennska genarófið hafði verið greint.

Og? Við innbyrðum ekki genin sem við borðum. Það er algjört lykilatriði.


Erna Magnúsdóttir (meðlimur í Vantrú) - 25/09/12 09:14 #

Það skemmtilega við þessa rannsókn er að hún er svo illa unnin að hún er ekki áreiðanleg á neinn hátt. Útkoman er núll-útkoma eins og við segjum oft í vísindunum, það eina sem hægt er að segja er að það var ekki hægt að greina marktækan mun á æxlismyndun í rottum sem fengu erfðabætt fóður með eða án illgresiseyði og viðmiðunarhóp.

Það skiptir engu máli hver gerði rannsóknina, heldur hvað gögnin sýna. Í þessu tilviki sýna gögnin að það voru ekki skoðaðar nógu margar rottur til að draga neina ályktun af gögnunum.


Diddi - 25/09/12 10:07 #

(FRH) og Erna, með hina (van)heilögu þrenningu tæknilegra atriða, áhrifa á lífverur og pólítík þá hef ég þetta að segja; Þó að okkur finnist oft voða þægilegt og snyrtilegt að skipta málum (þessu sem og öðru) í skýrt afmarkaða flokka, þá er það ekki endilega praktískt í raun.

Þó myndi ég td. flokka tæknilegu atriðin og áhrif á lífverur saman, taka svo pólítíkina eins og hún kemur fyrir og bæta við öðru mikilvægu atriði; markaðsáhrifum. Þessi þrenning er mikilvæg í heild sinni og hver þáttur hefur áhrif á hinn. Hver ákveður hvað er öruggt fyrir markaðinn, vísindamenn? Hver ákveður í hvað rannsóknarfjármagn fer... vísindamenn?? Hver ákveður hvaða tegundir iðnaðar fá styrki/skattaafslætti... vísindamenn??? Hver býr til regluverk, lagalegt umhverfi og hver hefur afgerandi samfélagsleg áhrif á þeim forsendum... vísindamenn????

Því miður, þá lifum við í heimi þar sem óvísindalega þenkjandi fólk hefur afskaplega mikið með afdrif vísinda að segja, þmt. afurðir vísindalegra uppgötvana. Því hefur það ekkert uppá sig að vera að aðskilja umræðuna, því í raunveruleikanum er þetta meira samantvinnað heldur en ekki.


Diddi - 25/09/12 11:20 #

Jæja Erna, það er sannleiksgildi í því að viðmiðunarhópurinn sé of lítill, hann ætti í raun að vera 50/50 á móti tilraunahópnum, því er ég sammála. Hinsvegar er almennt mikill skortur á áreiðanlegum rannsóknum á afleiðingum erfðabreytinga á plönturnar sem og lífverurnar sem neyta þessara plantna (við, búfénaður, skordýraflóra, fuglar og annað villt). Þessi 200 rottu rannsókn væri því líklega aldrei afgerandi (frekar en nokkrar aðrar rannsóknir fram til dagsins í dag á þessu máli), en gefa þó til kynna að gríðarleg þörf er fyrir frekari, ýtarlegri rannsóknir.

Ég er talsmaður efans, en ég vil meina að efanum eigi ekki að beita sértækt. Að sjálfsögðu þjáumst við líklega öll af einhverjum "confirmation bias", en maður þarf í það minnsta að gera sér einhverja grein fyrir því. Það að efast um efasemdir fólks á ágæti erfðabreyttra lífvera er að mínu mati órökréttara en efinn á ágæti þess erfðabreytta.

Taka má líka fram, að erfðabreytingar sem eiga sér stað í gegnum tíma, skv náttúruvali/kynbótum er ekki sambærilegur og þessi tegund genasplæsinga; upp koma samsetningar sem aldrei myndu gerast í náttúrunni.

Í öllu falli... þegar kemur að öryggi matvæla, ætti varúðarreglan að gilda; ný/óþekkt efni ætti ekki að vera hleypt inn í hina mennsku fæðukeðju eftir skitna 3. mánaða rannsókn, sem haldið er út af þeim sem kynnir vöruna til leiks. Væri kannski réttlætanlegt ef að hið nýja efni kæmi inn á nokkurs konar "skilorði" til nokkurra ára.

Enn fremur; ef við styðjum notkun erfðabreyttra lífvera í matvælum, þá erum við óhjákvæmilega að styðja þau stórfyrirtæki sem nú eru gjörsamlega markaðsráðandi (t.a.m. Monsanto) og alla þeirra markaðs- og fyrirtækjapólítík. Hvort sem maður er með eða á móti vísindunum, þá ætti þeirra aðferðafræði að særa velsæmiskennd flestra sem hana skoða.

Og dettum ekki í "fallacy of fallacy" þeas, einfaldlega vegna þess að margir eru miklir andófsmenn erfðabreyttra lífvera án nokkurra haldbærra raka eða gildra ástæða, þá þýðir það ekki að erfðabreyttar lífverur og allt sem þeim fylgir sé fullkomlega skaðlaust og alltílagi; að engin haldbær rök séu til gegn þeim.


Sveinn Þórhallsson - 01/10/12 22:23 #

@Diddi

Það að efast um efasemdir fólks á ágæti erfðabreyttra lífvera er að mínu mati órökréttara en efinn á ágæti þess erfðabreytta.

Það fer algjörlega eftir því á hverju efasemdirnar byggja. Langflest fólk sem efast um ágæti erfðabreyttra matvæla, svo pent sé til orða tekið, byggir efasemdir sínar á bulli sem hefur litla ef einhverja stoð í raunveruleikanum. Bulli eins og illa unnum rannsóknum, samsæriskenningum og áróðri frá aðilum sem hagnast gríðarlega á ræktun og sölu svokallaðra "lífrænna" afurða.

Taka má líka fram, að erfðabreytingar sem eiga sér stað í gegnum tíma, skv náttúruvali/kynbótum er ekki sambærilegur og þessi tegund genasplæsinga; upp koma samsetningar sem aldrei myndu gerast í náttúrunni.

Þetta er fullyrðing án rökstuðnings. Þú verður að útskýra í hverju þessi meinti munur felst, þá í öðru en "maðurinn gerir þetta en náttúran gerir hitt". Er einhver EÐLISmunur á þessu tvennu? Er einhver EÐLISmunur á geni sem kóðar fyrir myndun insúlíns/x, og hefði líkast til ekki orðið ráðandi í stofni lífveru í náttúrunni þar sem það hagnast lífverunni takmarkað, og geni sem komið er til af náttúrulegum sökum? Ef svo er, hver er hann. Ef ekki þá er þetta rakalaus fullyrðing.

Og dettum ekki í "fallacy of fallacy" þeas, einfaldlega vegna þess að margir eru miklir andófsmenn erfðabreyttra lífvera án nokkurra haldbærra raka eða gildra ástæða, þá þýðir það ekki að erfðabreyttar lífverur og allt sem þeim fylgir sé fullkomlega skaðlaust og alltílagi; að engin haldbær rök séu til gegn þeim.

Nei auðvitað ekki, en maður spyr sig hvar þessi haldbæru rök séu. Það fer afskaplega lítið fyrir þeim. Hins vegar fer mjög mikið fyrir hinu bullinu.

Ég segi á móti, dettum ekki í hinn pakkan: Þrátt fyrir að það séu mögulega til "haldbær rök" gegn erfðabreyttum matvælum, þá þýðir það ekki að það séu til "haldbær rök" gegn erfðabreyttum matvælum Á meðan engin rannsókn bendir til þess og allar rannsóknir benda til hins gagnstæða þá hef ég enga ástæðu til að trúa því að erfðabreytt matvæli séu óholl.


Diddi - 04/10/12 08:32 #

@Sveinn

Hér er löng romsa af því sem ég vil meina að sé rökstuðningur og gild dæmi. Ég kem hinsvegar ekki með heimildarskrá, því ég geri ráð fyrir að þú og aðrir hér séu fullfærir um að kynna sér málin á gagnrýnum og rökföstum nótum. Ég hef mikið reynt að kynna mér málið og sótt í heimildir og upplýsingar úr öllum áttum. Það er í raun besta leiðin til að skilja heildaráhrif erfðabreyttrar ræktunar á samfélagið í dag, að mínu mati.

Stígum nokkur skref til baka og spyrjum okkur... hvað er grundvallarmunurinn á ræktun t.d. erfðabreyttrar plöntu og lífrænt ræktaðrar plöntu... fyrst að hið slæma sagt um erfðabreytt er "áróður" og hið jákvæða sagt um lífrænt er líka "áróður" (samkvæmt því sem þér virðist finnast).

Í fyrsta lagi, "lífrænt" ræktað er í raun ræktun sem líkir meira eftir ferlum náttúrunnar heldur en ekki. Sem dæmi má taka lífrænt ræktuð vínber; mjög margir "hefðbundnir" vínberjaræktendur nota sveppaeitur. Hinsvegar hefur verið sýnt fram á að innihald m.a. andoxunarefna er hærra í lífrænt ræktuðum vínberjum. Afhverju? Afþví að þegar plantan fær ekki tækifæri til að beita eigin vörnum gegn sveppasýkingu þá einfaldlega framleiðir hún ekki jafn mikið af andoxunarefnum, sem virðast vera hluti af varnarferli plöntunnar. Þetta er bara eitt dæmi sem stendur þó fyrir ákveðnu "general trend", semsagt að of sterílíserað, ofverndað umhverfi getur af sér veikbyggðari plöntur þar sem þær þurfa ekki að fást við þær áskoranir/áreyti lífsins sem þær þurfa til að ákveðin gen séu tjáð (þeas gene expression). Þetta getur hver sem er sannreynt sem reynt inniræktun í litlu, lokuðu eða nokkuð lokuðu rými; ef planta fær t.d. ekki vindáreyti þá verður stilkur hennar of veikbyggðu til að bera þyngd fullvaxta plöntunnar, ávöxt og alles.

"Lífræn" ræktun er ennfremur lítið annað en endurbætt útgáfa af allri ræktun sem stunduð hefur verið frá upphafi landbúnaðar til byrjunar "green revolution" í kringum '40-'50 þegar stríðsáraverksmiðjurnar sem unnu nitur, fosfór ofl til sprengju-/vopnagerðar þurftu nýtt hlutverk. Í raun og veru er ekkert "hefðbundið" við þá ræktun í sögulegu samhengi, þar sem hún hefur ekki verið stunduð í nema örfáar kynslóðir manna.

Erfðabreyting lífvera er gjarnan kölluð "the second green revolution". Til gamans má geta að svo gott sem sömu aðilarnir standa að baki beggja þessara "byltinga", Monsanto, t.a.m, hafa verið í efnaframleiðslubransanum frá því vel fyrir WWII. Til frekara gamans má geta að hið sívínsæla "Roundup", glífosat plöntueitrið sem er selt í massavís samhliða erfðabreyttum fræjum þeirra, er byggt á hinum alræmda "Agent Orange" svokölluðum "defoliator" sem notaður var í Vietnam stríðinu til að eyða skógum og þar með minnka skjól Vietkong manna. Klárar heimildir eru fyrir skaðsemi Agent Orange, gríðarhá tíðni fósturdauða/fósturskaða, ýmissa þrálátra kvilla og krabbameins hafa verið skráð þar sem mest var úðað af efninu úr lofti.

Bara sú staðreynd að svo gott sem allt erfðabreytt er baðað í Roundup, náfrænda "Agent Orange", ætti að vera ástæða til að efast um erfðabreyttar afurðir. En það er ekki allt.

Sjálf erfðabreytingin hefur líka afgerandi áhrif á lífferla plöntunnar/lífverunnar sem er erfðabreytt. Afhverju? Afþví að gen úr öðru dýraríki hefur verið splæst í genamengi lífverunnar og framleiðir hið ákveðna gen sem sóst var eftir... en það stoppar ekki þar. Fjöldi "foreign" próteina/ensíma hafa fundist í vefjum erfðabreyttra plantna, þeas. próteina sem ekki hafa áður fundist í náttúrunni, eða amk aldrei í vefjum þessara lífvera. Líffræðileg þekking samtímans er gríðarleg... en þó er gríðarlega langt í land með að lífverur verði skilnar til fulls. Eins og ég tók fram í öðrum pósti hér, þá var byrjað að splæsa genum vel áður en genamengi mannsins var afkóðað. Áður en það verk hafði klárast var gert ráð fyrir því að fjöldi gena stæða á rúmu hundraði þúsunda eða meira. Uppá daginn kom að mennska genamengið samanstendur af ekki nema 30.000 genum. Augljóslega, þá eru 30.000 breytur engan veginn nægar í sjálfu sér til að kóða fyrir einhverju eins ótrúlega flóknu og mannslíkamanum (bara takandi heilann sem dæmi, hið flóknasta ferli sem maðurinn hefur kynnst í alheiminum, er alheimurinn í höfðinu á okkur!).

Hvað er hægt að ráða í þessar niðurstöður? Jú, að gamla viðmótið "eitt gen einn eiginleiki" er steinaldarviðhorf sem á sér ekki stoð í raunveruleikanum. Því er ekki hægt að ganga út frá því að erfðabreyting - sem er mun meira crude tækni en maður myndi gera ráð fyrir - hafi eingöngu þau áhrif að bæta við einum eiginleika með einu geni. Reynslan hefur einfaldlega sýnt að svo er að öllum líkindum ekki.

Annað sem ekki er áberandi í umræðunni, er að notkun glífosat plöntueitursins á akra erfðabreyttra plantna hefur fleiri áhrif en að menga umhverfið og drepa jarðvegslíf... það hefur í raun áhrif á erðabreyttu plönturnar. Hvað gerir glífosat? Það hindrar upptöku plantna á lífsnauðsynlegum næringarefnum með því að bindast við þau og gera þau "biologically unavailable". Þar sem erfðabreyttu plönturnar geta samt tekið upp næringarefni þá lifa þær meðan annað deyr. En fæðuframboðið er engu að síður mjög skert, sem þýðir að notkun áburðar er ekki minni, heldur meiri í þessari ræktun. Mun meiri útskolun áburðar út í grunnvatn og síðar út í sjó á sér stað. Og erfðabreyttu plönturnar vaxa ekki fullkomlega vel, þó svo að þær vaxi og að það sleppi. En skert fæðuframboð hefur líka áhrif á vefjamyndun og fleira í plöntunum, svo að áhrifin eru á engan hátt jákvæð fyrir neytendann, einungis fyrir aðilann sem selur pakkann; eitrið og ónæmu plöntuna. Fjölmargir bændur sem hafa farið erfðabreyttu leiðina dauðsjá eftir því, vegna þess að gæði jarðvegsins hraka ennþá hraðar í þessari ræktun en við hefðbundnari ræktun (og mun meira en í lífrænni ræktun, þar sem tekist hefur að snúa hnignuninni við og raunverulega auka frjósemi jarðvegsins). Einnig taka skilmálarnir sem bændurnir þurfa að lúta frá þeim mesta valdið með ræktunarferilinn, þar sem Monsanto (og önnur svipuð fyrirtæki) hafa einkarétt á sínum splæstu genum og þar af leiðandi ráða mestu um ræktun og ráðstöfun plöntuafurðanna. Algengt er að bændurnir þurfi að selja afurðirnar sínar á skilmálum Monsanto, til ákveðinnar vinnslu eða til ákveðinna fyrirtækja.

Það er margt meira vafasamt við hvort sem heldur líffræðilega, fjárhagslega eða félagslega þætti sem tengjast erfðabreyttri ræktun og þar sem ég er þegar kominn í svo gott sem ritgerð hérna, þá verð ég að sleppa nokkrum atriðum.

Þó væri gaman að taka fyrir hina algengustu erfðabreytinguna, hinar svokölluðu BT afurðir. BT er skammstöfun fyrir bakteríu sem lengi hefur verið notuð til að eitra fyrir skordýrum. Bakterían framleiðir prótein sem hindra öndun skordýra eftir að þau hafa innbyrt próteinin. Venjulega var unnið sprey úr afurðum bakteríunnar og því sprautað yfir akrana. Það góða við þá aðferð er að próteinin geta auðveldlega brotnað niður og skolast burt og skilja því ekki mikið eftir sig á sjálfum plöntuafurðunum. BT erfðabreyttar plöntur hafa genið sem kóðar fyrir þessu próteini. Þær framleiða því sjálfar próteinið sem verður hluti af vefjum þeirra. Það eru 3 vandamál við þetta;

1) próteinið hefur hugsanlega óæskileg áhrif á lífferla plöntunnar... efnaferlar innan lífvera eru flóknir og margslungnir, það er mjög erfitt að sjá fyrir hvað gerist ef ókunnugt prótein er framleitt í lífveru sem áður var án próteinsins.

2) skordýr eru fljót að þróa ónæmi gegn BT próteininu, þar sem það er alltaf til staðar í nokkuð stöðugu (í raun frekar lágu) magni. Þetta er vandamál sem er að verða sífellt erfiðara að eiga við.

3) lítið hefur verið sýnt fram á að próteinið, sem hluti af vefjum plöntuafurðanna, sé öruggt inntöku fyrir fólk. Það er mikil deila þar um.

Svo má taka fram að lífræn ræktun hefur bæði vísindin og skynsemina á bak við sig... svo ekki sé minnst á hagsmuni bænda, neytenda og náttúru. Vísindin hafa sýnt fram á að fjölmörg dæmi sambærileg og með vínberin, séu til. Meira af vítamínum, andoxunarefnum ofl... því að líkt og í náttúrunni, þá fá plönturnar og þær lífverur sem þær hafa þróast með að sjá um sig sjálfar eins langt og það nær. Flest, ef ekki öll hefðbundin ræktun hefur rýrnunaráhrif á gæði jarðvegs. Þegar einhverskonar eitur er notað, þá deyr alltaf meira en það sem átti að drepa. Heildarágóðinn af miklu lífi í jarðvegi er mun meiri heldur en ágóðinn af því að losna við ákveðna pest og um leið stóran hluta jarðvegslífs. Fjölmargar tegundir sveppa og baktería lifa í sambýli við rótarkerfi plantna. Sumar bakteríur búa í hnúðum á plönturótum og binda nitur úr andrúmslofti. Smárar, lúpínur, gullregn og ýmsar baunir/ertur eru gott dæmi. Ýmsir sveppir brjóta niður og ná í steinefni til hjálpar sínum sambýlingi í skiptum fyrir sykrur sem plantan losar úr rótum sínum. Ýmsar plöntur þrífast líka mun betur í sambýli við aðrar plöntur af ákveðnum tegundum. Þetta þekkist að sjálfsögðu vel í vistfræði en á ekki síður við um ræktuð yrki og kynblandaðar/kynbættar plöntur (og dýr að vissu leyti).

Samplöntun hefur sýnt mjög jákvæðar niðurstöður; sumar plöntur ná næringarefnum dýpra úr jarðvegi og flytja upp á yfirborð. Aðrar samplantanir sýna að hægt er að rugla og jafnvel fæla pestir með réttum samsetningum... allt í allt er þetta mjög spennandi svið rannsókna.

Þetta er - að mínu mati - mun vísindalegri leið til að nálgast ræktun, því að hér fær líffræði sannarlega að njóta sín.

Annað sem að eingöngu lífræn ræktun býður uppá... er sjálfbærni. Bændur sem eru húktir á notkun mikillar olíu, áburðar og eiturs eru ekki að búa til sömu verðmæti úr landinu eins og bændur sem nota eingöngu afurðir landsins til að auðga landið. Mörg bráðsnjöll lífræn ræktunarkerfi hafa dúkkað upp sem stefna markvisst að sjálfbærni ræktandans, svosem "Permaculture", "Agroforestry", dæmigerð líræn ræktun og líka það sem jafnvel ég myndi kalla "pseudo-science"; Biodynamic farming. Engu að síður þá Virkar Biodynamic farming, þó svo það byggi á ýmsu í ætt við hjátrú. Það er vegna þess að flestar aðferðirnar byggja á því að auðga líffræðilega fjölbreytni jarðvegslífs, skiptiræktun, búfjáráburði ofl.

Málið er... að lífræn ræktun meikar mun meira sens í heiminum í dag, þar sem jarðeldsneyti og afurðir unnar úr þeim fara afskaplega dvínandi. Gengið hefur verið gríðarlega hart á fosfórbyrgðir heimsins þar að auki. Orkukostnaðurinn við "hefðbundna" ræktun er einnig margfaldur á við [sjálfbæra] lífræna ræktun, einfaldlega vegna þess að flytja þarf svo mikið af áburði, eitri ofl efnum inn. Það er bæði kostnaðarsamt og orkufrekt. Það er talað um að hefðbundin ræktun (amk eins og hún er stunduð víðast erlendis, þetta á ekki jafn mikið við hér) kosti 10 kaloríur í "input" orku fyrir hverja kaloríu af "ætilegri" orku. Það þarf ekki mikinn stærðfræðing til að sjá að þetta reikningsdæmi gengur ekki upp, amk ekki í langan tíma.

Ég segi á móti, dettum ekki í hinn pakkan: Þrátt fyrir að það séu mögulega til "haldbær rök" gegn erfðabreyttum matvælum, þá þýðir það ekki að það séu til "haldbær rök" gegn erfðabreyttum matvælum Á meðan engin rannsókn bendir til þess og allar rannsóknir benda til hins gagnstæða þá hef ég enga ástæðu til að trúa því að erfðabreytt matvæli séu óholl.

Fjölmargar rannsóknir, athuganir og almenn reynsla af erfðabreyttum afurðum bendir til þess að ekki sé allt með felldu. Allar eða flestar rannsóknir sem benda til þess að erfðabreyttar afurðir séu skaðlausar hafa verið gerðar af aðilunum sjálfum (og þar trónir Monsanto efst á toppi, eins og iðulega). 3 mánaða rannsóknir þar sem leitast er eftir að fá "hagkvæmar" aka. söluvænar niðurstöður af aðilum sem eru Klárlega í hagsmunaárekstri.

Mæli með að allir sem hafa áhuga eða skoðun á þessu máli kynni sér sögu fyrirtækjanna á bak við erfðabreytt matvæli og almennt söguna í kringum þessa ræktun. Bara það hversu hratt erfðabreyttar vörur komu fyrst inná markaðinn er gott dæmi um hversu lítilvægt öryggisferli var farið í gegnum áður en þessum afurðum var þröngvað inní fæðukeðjuna. Og eins og ég tók fram áður, ef ágæti erfðabreyttrar vöru er það sem þeir segja, þá ættu þessu fyrirtæki ekki að vera sturtandi milljónum á milljónir ofan í það að stöðva merkingar vöru Með erfðabreyttum afurðum OG merkingar vöru ÁN erfðabreyttra afurða. Afhverju má neytandinn ekki vita hvað hann lætur ofan í sig? Hvernig getur neytandinn haft nokkuð valfrelsi ef hann veit ekki hvað hann er að velja? Skiptir það etv. engu máli? Ráðum við ekki hvaða mat við borðum?

"Rökin" eru gjarnan að GMO sé komið með svo slæmt orðspor að það myndi skemma markaðinn að merkja þessar vörur. Það er satt að það myndi skemma markaðinn... markað þeirra sem eru að græða óheyrilega mikið á framleiðslu þessara afurða. Og það eru ekki bændurnir, nota bene. Monsanto og vinir hafa búið svo um að þeir eru ekki bara með vel selda vöru heldur eru þeir gríðarlega markaðsráðandi. Þeir, ekki bændurnir, hafa vald á afurðinni. Þeir, ekki bændurnir (og ekki neytendurnir) hafa hagsmuni í frekari útbreiðslu erfðabreyttra afurða. Í Chile, landi konunnar minnar eru erfðabreyttar afurðir nýlega komnar í ræktun, þrátt fyrir mikla almenna óánægju fólks. Það er þó ekki það eina slæma; fræbankar hafa víða verið keyptir upp, beint og óbeint af Monsanto og co. Þetta er eitthvað sem þeir hafa gert aftur og aftur, í nánast hvert skipti sem þeir koma inná nýjan (ræktunar)markað. Svo er verðið á hefðbundnum fræjum hækkað á meðan verði á erfðabreyttum fræjum er haldið niðri.

Flest það slæma varðandi erfðabreytt matvæli má í raun rekja til lélegra og siðlausra viðskiptahátta Monsanto, þeirra dótturfyrirtækja og annara sambærilegra fyrirtækja. Sjálfur hef ég ekkert á móti sjálfri tækninni, vísindunum sem gera okkur kleyft að erfðabreyta osfrv. Líftækni er óhjákvæmilegt skref í tækniþróuninni sem hvorki verður né ætti að vera afturkræft. Hinsvegar er ég á móti notkun þessarar tækni í því gróðraskyni sem hún hefur verið notuð, það mætti gríðarlega mikið betur fara.

Það er stórkostlegur munur á því að búa yfir/beita þessari tækni og að breyta öllum heiminum í tilraunastofu fyrir gráðug stórfyrirtæki sem sniðganga alla siðferðislega ábyrgð. Og það hafa þeir sannarlega gert, jafnvel ef að skaðsemi sjálfra erfðabreyttu afurðanna væri engin eða lítil.

Aftur vil ég hampa ágæti EFANS... það er jú eitthvað sem fólk hér hjá Vantrú kann að meta. Ég kann einnig vel að meta hvers kyns hóp fólks sem leggur jákvæða áherslu á gagnrýna hugsun; slíkur hugsunarháttur er einstaklega nauðsynlegur í lýðræðislegu samfélagi - annars er lýðræðið í raun fyrir bý. Það er hinsvegar munur á því að efast annars vegar vegna þess að það er "popular opinion" að efast um eitthvað ákveðið, og hins vegar að efast og elta röksemdir, sannanir og upplýsingar, vega og meta; sigta hysmið frá kjarnanum.

Ég legg til að fólk hér beiti ekki efanum á forsendum hentisemi heldur á forsendum gagnrýnnar, sjálfstæðrar hugsunar. Það er nauðsynlegt að skoða hluti í stærra samhenginu, því að það er nánast hægt að komast að hvaða niðurstöðu sem er ef að ekki eru nægar upplýsingar fyrir hendi. Hvað sé satt og hvað sé rangt er afar snúið og flókið málefni í (villu)upplýsingaflóði samtímans. Það besta sem nokkur einstaklingur getur gert er að pússla saman heildarmynd af raunveruleikanum á gagnrýninn og rökfastan hátt, með tilliti til bestu þekkingar og aðferða. Efinn er ekki eitthvað sem maður beitir á sumt en annað ekki... ekkert er fyrir ofan eða neðan að vera dregið í efa. Gagnrýnin ætti heldur ekki að vera nýtt eingöngu sem vopn til að skjóta niður skoðanir sem eru gegn mann eigin, heldur til þess að skoða hugmyndirnar og málefnin út frá eigin gildi, ekki á því hver segir eða af hverju.

Varðandi þetta ákveðna málefni vil ég enn og aftur leggja áherslu á sönnunarbyrðina: Hún leggst ávallt á þann sem heldur einhverju fram en ekki á þann sem efast um það. Þið eruð hinsvegar mörghver að efast um efasemdir gagnrýnenda hins erfðabreytta. Sönnunarbyrðin getur eingöngu legið á þeim sem beitir nýlegri, lítt reyndri tækni til að framleiða vöru sem er svo drifin inná markaðinn, þrátt fyrir mikla mótstöðu og beiðni um mun meiri rannsóknir. Þeir sem halda því fram að erfðabreytt fæða sé skaðlaus (the claim maker) þurfa að standa undir sönnunarbyrðinni. Ekki þeir sem draga þá fullyrðingu í efa.

Og með rannsóknirnar... Ein af helstu fyrirstöðum almennilegra, ÓHÁÐRA rannsókna hefur verið "intellectual property" t.a.m. Monsanto á genabreyttum afurðum sínum, þeas. þeir hafa hindrað óháða aðila í að nota "sitt erfðaefni" til rannsókna.

En að lokum má koma fram... ...að ein rannsókn dugir hvorki til þess að hrekja né staðfesta sannleikann; heldur er bara eitt pússl í myndina.


Sveinn Þórhallsson - 05/10/12 01:34 #

@Diddi

Hér er löng romsa af því sem ég vil meina að sé rökstuðningur og gild dæmi. Ég kem hinsvegar ekki með heimildarskrá, því ég geri ráð fyrir að þú og aðrir hér séu fullfærir um að kynna sér málin á gagnrýnum og rökföstum nótum.

Sorrý Diddi, en svona virkar þetta ekki. Ég vil meina að ég hafi kynnt mér þetta ítarlega með opnum en gagnrýnum huga, og komist að nánast þveröfugri niðurstöðu og þú hvað flest varðar. Ég er s.s. ekki bara að far að taka bara þín orð fyrir þessu og "frelsast" (sérstaklega þar sem það er lítið sem ekkert í þessu hjá þér sem ég hef ekki séð áður hvort eð er).

Þú getur með öðrum orðum ekki komið með hverja fullyrðinguna á fætur annarri án þess að bakka hana upp. Það bara gengur ekki. Ég get nefnilega auðveldlega svarað (og meint) án þess að rökstyðja neitt frekar en þú að megnið af því sem þú skrifaðir er annað hvort byggt á misskilningi, hálfsannleik eða er hreinlega bara bull. Á bak við þetta svar mitt er alveg nákvæmlega jafn mikill rökstuðningur og þú komst með í þessari romsu þinni.

Góðar stundir.


Diddi - 11/10/12 10:58 #

Gott og vel, Sveinn, hafðu það eins og þú vilt. En mikið af því sem ég er að segja er ekki eingöngu byggt á sönnunum, þeas; hvort sem sönnunargögnin vísa í eina átt eða aðra, þá byggjast fullyrðingarnar á ýmsum sjálfstæðum rökum.

Sannleiksbyrðin er svo alltaf sú sama; Ekki á þeim sem efast, heldur þeim sem heldur fullyrðingunni fram. Allt sem ég tók fram í rantinu mínu máttu endilega taka með góðum fyrirvara og alls ekki mín áætlun að frelsa einn né neinn. En mikið af þessum fullyrðingum mínum voru í raun efasemdir á gæðum þess erfðabreytta. Út frá því tel ég að sannleiksbyrðin sé ekki jafn mikið á mínum orðum, eins og á þeim sem fullyrða að þessar nýlegu, "manngerðu" lífverur séu fullkomlega öruggar til neyslu.

Ég tel að allir þurfi að komast að sannleikanum á eigin forsendum en þó ekki án raka eða sönnunargagna, slíkt er gagnslaust. ÞESSvegna var ég ekki að fylla commentinn af linkum í heimildir ofan á allt hitt, þar sem ég hef hvorki tíma né nennu í það. Því segi ég eins og stundum er sagt, just fu**ing google it.

megnið af því sem þú skrifaðir er annað hvort byggt á misskilningi, hálfsannleik eða er hreinlega bara bull.

Núnú? Ég gæti líkt sagt það sama um þína afstöðu gagnvart málinu. Ég sé ekki betur en þú takir upp hattinn fyrir líftæknina af einhverri ofurtrú á tæknilegan afrakstur vísindanna?

Ég vil taka skýrt fram að ég er mikill aðdáandi náttúruvísinda; ég tel vísindin almennt eitt göfugasta og merkilegasta framtak mannkynsins en þó ekki jafn merkileg og náttúrulega heiminn sem þau leitast eftir að kynnast. En það er ekki þar með sagt að allt sem vísindaleg þekking er notuð í sé sjálfkrafa gott. Við byggjum á gríðarlega mörgum götum í þekkingu - eins og við höfum gert frá byrjun. Það að gera ráð fyrir að nægur skilningur sé til staðar svo fullyrða megi að erfðabreyttar lífverur séu tilvaldar til manneldis, er að mínu mati byggt á misskilningi og þá helst á skorti fulls skilnings.

Þetta er að stórum hluta heimspekileg/þekkingarfræðileg afstaða, byggð á atburðum og heild mannkynssögunnar fram til nútímans, frekar en afstaða byggð á útkomu einnar ákveðinnar rannsóknar.

Á bak við þetta svar mitt er alveg nákvæmlega jafn mikill rökstuðningur og þú komst með í þessari romsu þinni.

Þú segir nokkuð! Get þó ekki séð mikinn stuðning fyrir neinum af þínum fullyrðingum, hvorki byggð á rökum né sönnunargögnum. Ég kom a.m.k. með einhver rök! Þú komst eingöngu með hina augljósu gagnrýni að ég vísaði ekki í heimild fyrir hverri einustu fullyrðingu. Ég vísaði hinsvegar í eina, mikilvæga heimild; að fólk kynni sér málið sjálft - við það má bæta; "frá fleiri sjónarmiðum en sínu eigin".

Nauðsynlegt er að skoða mismunandi sjónarmið á málefnið, því margflest þjáumst við jú af "confirmation bias". Ég neita því ekki að mínar skoðanir hljóti að vera litaðar af því... enda held ég að það séu fáir eða engir sem geti tekið fullkomlega rökfasta og upplýsta afstöðu gagnvart nokkru, þar sem skilningur og upplýsingar einstakra manneskja verða alltaf takmörkum háð.


Benni - 22/10/12 07:32 #

Af hverju hadið þið að rannsóknir Monsanto taki bara yfir þrjá mánuði? Nægan tíma hafa þeir haft. Hringir það engum viðvörunarbjöllum hjá vantrúarmönnum? Stendur "vantrú" fyrir, vanur að trúa öllu sem hagsmuna aðilar segja mér og hunsa það sem upplýstir segja mér. Diddi. Takk fyrir góða grein, sem bætir við mína takmörkuðu þekkingu og styrkir þá sem ég hafði. Hættum nú að skemma heimsmynd vantrúarmanna. Mannskepnan og vísindin standa guði langt um framar.


Diddi - 22/10/12 08:44 #

Líklega rétt Benni, að það er náttúrulega til lítils að þrasa hér við fólk sem hefur gert upp hug sinn af fullvissu í nafni gagnrýnnar hugsunnar og efa.

Hinsvegar vil ég árétta eitt; þó svo að vísindin hafi vissulega verið notuð til að byggja upp þann landbúnað sem er álitinn "hefðbundinn" og/eða erfðabreyttur, þá er það ekki þarmeðsagt, að þessi tegund landbúnaðar sé "vísindaleg" og t.d. lífrænn landbúnaður sé það einfaldlega ekki. Helsti munurinn eins og ég sé hann, er að "hefðbundinn" landbúnaður byggir á efnafræði og lífefnafræði, meðan lífrænn byggir á líffræði og vistfræði.

Og hvort við stöndum guði framar, veltur á guði og hvort nokkur slíkur sé til. Ef svo er, tel ég afskaplega ólíklegt að nokkur sú trú eða hjátrú sem mannkynið hefur skáldað upp komist með tærnar þar sem sannleikurinn hefur hælana.

Það er bara þannig að við viljum öll fullvissu, hvort sem það fullvissa um að Guð sé til eða ekki til, fullvissa um hægri og vinstri fjórflokkakerfið, fullvissa um frelsi "frjálsa markaðsins" og um yfirburði kapítalismans yfir öllu fyrra og síðara samfélagsfyrirkomulagi.

Sjálfur er ég nokkuð fullviss um hina nánast gríðarlegu ófullvissu sem við lifum í.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.