Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Mannréttindi og sóknargjöld

Monnís

Á nýlegu aukaþingi ríkiskirkjunnar voru tvö mál á dagskrá. Annað þeirra var staða sóknargjalda. Það kemur eflaust engum á óvart að kirkjuþingið vildi fá meiri pening frá ríkinu (þau kalla það “leiðréttingu sóknargjalda”). Ýmislegt áhugavert kom fram í umræðunum sem að maður heyrir sjaldan frá kirkjunnar mönnum: til dæmis það að sóknargjöld brjóti hugsanlega gegn mannréttindum utantrúfélagafólks.

Mannréttindanefndin

Í umræðunum á kirkjuþingi kom til umræðu að í nýlegri umfjöllun mannréttindanefndar Sameinuðu Þjóðanna hefði verið gerð athugasemd við sóknargjöld. Nefndin lýsti yfir áhyggjum af því að ríkið “setur kirkjuskatt á borgara, óháð því hvort þeir séu meðlimir í trúfélögum eða ekki” og sagði að ríkið ætti að laga þetta. [1]

Svona lýsti ríkiskirkjupresturinn Baldur Kristjánsson gagnrýni mannréttindanefndarinnar:

Það var í fyrsta lagi það að allir þyrftu að greiða vegna trúfélagsaðildar þó þeir væru ekki í neinu trúfélagi. Það er litið á þetta þannig að þeir sem eru ekki í neinu trúfélagi séu þá að greiða hærri skatt en aðrir. Þetta verður augljósara þegar rök kirkjunnar eru tekin með að þetta sé félagsgjald. Þá verður augljósara að þeir sem eru ekki í neinu trúfélagi þeir greiða hærri skatt en aðrir. [2]

Ef að maður gefur sér að sóknargjöld séu félagsgjöld (sem þau eru ekki), eins og talsmenn kirkjunnar halda sífellt fram, þá er það augljóst að á Íslandi væri utantrúfélagsfólk að borga hærri skatta, hálfgerðan trúvillingaskatt.

Það er auðvelt að sjá þetta ef maður ímyndar sér tvo menn, Jón og séra Jón, sem eru með nákvæmlega jafn háar tekjur og borga báðir 100.000 krónur í tekjuskatt á ári. Ef “félagsgjöld” séra Jóns eru innifalin í þessari upphæð, 8.500 krónur, þá er ljóst að séra Jón borgar í raun 91.500 krónur í tekjuskatt á meðan Jón borgar 100.000. Mannréttindanefndin telur þetta brjóta gegn mannréttindum Jóns.

Alvöru sóknargjöldin

Raunin er samt sú að séra Jón er ekki að borga ríkinu neinar 8.500 krónur í “félagsgjöld” árlega. Tekjuskattur Jóns og séra Jóns fara beinustu leið í sjóði ríkisins. Úr þeim sameiginlega sjóði ákveður Alþingi að styrkja trúfélögin með ákveðinni upphæð. Sóknargjöld er ríkisstyrkur.

Ég er alls ekki einn um að vera á þessari skoðun. Í umræðunum upplýsti kirkuþingsmaðurinn Gísli Gunnarsson að það séu “margir sem sitja við borðin þarna í ráðuneytunum, þeir fullyrða bara að þetta sé ríkisstyrkur.”[3]

Annar kirkjuþingsmaður, guðfræðiprófessorinn Hjalti Hugason, virðist átta sig á því hvers vegna starfsmenn ráðuneytanna telja að um ríkisstyrk sé að ræða: “Sóknargjöldin líkjast um of ríkisstyrk hvað varðar innheimtuaðferðina og endurgreiðsluaðferðina[...]” [4]. Hjalti Hugason virðist samt telja að sóknargjöldin séu félagsgjöld. En ef það labbar eins og ríkisstyrkur og kvakar eins og ríkisstyrkur, þá er þetta bara ríkisstyrkur.

Ósætti ríkiskirkjunnar

Það er ljóst að ríkiskirkjufólkið er ósátt við núverandi fyrirkomulag sóknargjalda. Ástæðan virðist samt ekki vera óréttlætið gagnvart utantrúfélagsfólki, heldur sú staðreynd að Alþingi getur ákveðið alveg upp á sitt einsdæmi hversu hár þessi ríkisstyrkur sé.

Ríkiskirkjupresturinn Gunnlaugur Stefánsson sagði til dæmis í umræðum að það væri “enginn samningur um sóknargjöld” (sumt ríkiskirkjufólk fullyrðir stundum ranglega að svona samningur sé til), og að sóknargjöld séu “[ákveðin] einhliða án nokkurra samninga við kirkjuna af því að við höfum enga samningsstöðu, af því að það er enginn samningur.” [4]

Hvernig ætti að breyta þessu?

Þessu vill ríkiskirkjan skiljanlega breyta. Góðu fréttirnar eru þær að það er til afskaplega einföld lausn á þessu: Breyta sóknargjöldunum í félagsgjöld.

Kirkjan[5] myndi þá innheimta ákveðna upphæð, eða prósentu sem trúfélögin ákveða sjálf, af því fólki sem er skráð í viðkomandi trúfélög. Það segir sig sjálft að þeir sem væru ekki í trúfélögum þyrftu þá ekki að borga þetta .

Ef að ríkiskirkjunni er alvara með áróðri sínum um eðli sóknargjalda, þá myndi hún fagna þessm tillögum, en raunin er allt önnur. Það glitti í ástæðuna í umræðunum á kirkjuþingi. Presturinn Baldur Kristjánsson benti á að ef það væri farið að breyta fyrirkomulaginu á þá leið að “fólk fer að hagnast á því að vera ekki í trúfélagi, þá segja enn þá fleiri sig úr Þjóðkirkjunni” og að það yrði “stóri skellurinn”. [5].

Þau vita vel að stór hluti þess fólks sem er skráð í ríkiskirkjuna myndi ekki hika við að skrá sig úr henni ef það sparaði því nokkra þúsundkalla árlega. Svo traust telja klerkarnir samband kirkju og þjóðar vera.


[1] Úr áliti mannréttindanefndarinnar:

13. The Committee is concerned that the State party levies a church tax from citizens, regardless of whether they are members of a religious organization. ... The State party should take steps to ensure that the church tax is not levied indiscriminately.

[2] Upptökur af kirkjuþinginu er hægt að nálgast á vef kirkjunnar. 1. mál. 1. umræða ~14:50
[3] 2. mál 1. umræða ~26:20
[4] 2. mál 1. umræða ~05:43
[5] 2. mál 1. umræða ~16:30 Gunnlaugur segir að sóknargjaldið sé ákveðið “einhliða án nokkurra samninga við ríkið”, en hann mismælti sig klárlega og ætlaði að segja kirkjan. [6] Eðlilegasta lausnin væri samt sú að ríkið kæmi ekki nálægt þessum félagsgjöldum, trúfélögin geta séð sjálf um að innheimta þau, en þetta væri fyrsta skrefið í þá átt.

Hjalti Rúnar Ómarsson 07.09.2012
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú , Sóknargjöld )

Viðbrögð


Jóhann Ingi (meðlimur í Vantrú) - 07/09/12 11:04 #

Góð grein.

Það er í raun alveg fáránlegt að árið 2012 þurfi enn að "röfla" yfir þessu.

Verst bara að maður hefur það á tilfinningunni að fólkið sem getur gert eitthvað í þessu hafi engan pung í að leiðrétta þessa vitleysu.


Bisat - 07/09/12 13:40 #

Góð grein og á mannamáli.

Spurning hvort ekki þurfi að fara að koma málum eins og þessu (og fleiri líkum) í blöðin og almenna umræðu nú þegar nær dregur kosningu um tillögur stjórnlagaráðs?

Þótt ég telji aðskilnað ríkis og kirkju fjarlægan draum, þá er afnám ákvæðis í stjórnarskránni samt sem áður fyrsta skrefið í því.


Friðrik Smári Sigmundsson - 07/09/12 14:44 #

Frétt á mbl Sóknargjöld verði ekki lögð á alla

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.