Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Læknamiðlar gegn krabbameini

Kind

Í helgarblaði Fréttatímans, fyrir dagana 27-29. apríl, var heilsíðu-viðtal við konu sem hélt því fram að hún hafi náð að sigrast á krabbameini með hjálp "óhefðbundinna lækninga". Í viðtalinu kemur fram grundvallarmisskilningur á krabbameinsmeðferðum auk þess sem þar er að finna margar aðrar rangfærslur.[1]

Umfjöllunin er algjörlega einhliða og engar tilraunir gerðar til að leiðréttar rangar staðhæfingar. Rætt var við Hallgrím Magnússon “lækni” sem þekktur er fyrir óhefðbundnar aðferðir. Blaðamaður hafði ekki fyrir því að ræða við starfandi krabbameinslækna til að fá aðra sýn á málið.

Læknir skar í burt meinið

Í viðtalinu segir Hólmfríður Árnadóttir frá því þegar hún var greind með brjóstakrabbamein, frá systrum hennar tveim sem hafa látist úr brjóstakrabbameini, meðferðinni sem hún gekk í gegnum og "lækningunni". Af greininni að dæma greindist hún með mein í öðru brjóstinu og fór í fleygskurð þar sem skurðlæknir fjarlægði meinið.

Hún gerir þó lítið úr þeim þætti "lækningarinnar" síðar í viðtalinu og lætur í ljósi að það hafi nánast gerst "óvart". Eftir aðgerðina var henni ráðlagt að fara í frekari lyfja- og geislameðferð. Hún kaus að gera það ekki, enda hafa allir fullan rétt til þess að afþakka meðferð.

Í greininni segist hún hafa tekið til í sínu lífi, lagað mataræðið, passað sig á að líkaminn yrði ekki "súr", stundað jóga í gríð og erg, farið í heilun á Indlandi, notað blómadropa og fengið hjálp lækna handan móðunnar miklu með hjálp "læknamiðils".

Ég sé ekki ástæðu til að eyða miklum tíma í að fara út í hversu lítið vit er í þessum meðferðum við krabbameini en flestum ætti að nægja að vita að ekki eru til almennilegar gagnreyndar rannsóknir sem styðja gildi þessara meðferða við krabbameini.

Strax í upphafi viðtalsins kemur fram að aðeins er eitt og hálft ár síðan hún greindist með krabbameinsæxlið. Hún segist sjálf vera læknuð. Vegna þess að enn geta verið til staðar smá meinvörp sem ógerlegt er að greina með nútíma tækni, miða læknar við að einstaklingur sé sjúkdómsfrír í það minnsta 5 ár frá því að meinið var fjarlægt. Viðmiðunartíminn getur verið breytilegur eftir krabbameinum.

Ögn um krabbameinslækningar

Það ætti þó að vera flestum ljóst að það var ekki jóga á Indlandi eða framliðnir læknar sem losuðu hana við æxlið. Það var hnífur skurðlæknis, meðferð sem varla telst “óhefðbundin”. Tilgangur frekari meðferðar með lyfjum og geislum (eða frekari skurði) er einmitt að draga úr líkum á endurkomu krabbameinsins með því að útrýma örsmáum meinvörpum og æxlisleifum. Fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á það að lyfja- og/eða geislameðferð eftir aðgerð bjarga mannslífum [2,3,4].

Því miður vitum við ekki enn nákvæmlega hvaða konur þurfa viðbótarmeðferð og hvaða konur geta sleppt henni alfarið. Ýmsar framfarir hafa þó orðið á undanförnum árum og í dag er hægt með hjálp tölvuforrita að reikna út áhættuna á endurkomu byggt á ýmsum þáttum s.s. aldri konunnar, stærð æxlis, fjölda meinvarpa í eitlum, vefjagerðar og hvort ákveðnir boðefnaviðtakar eru tjáðir af æxlinu.

Tækni framtíðarinnar mun vafalaust gera þessar spár enn nákvæmari og bæta horfur krabbameinssjúkra enn frekar.

Dæmi um krabbamein

Til að átta sig betur á meðferð eftir að krabbameinsæxli er tekið úr brjósti mætti taka sem dæmi 20 konur sem allar eru 60 ára og hraustar. Þær greinast allar með samskonar æxli. Segjum 3.1-5 cm að stærð af gráðu 2 (lýsir gerð æxlis í smásjárskoðun), næmt fyrir estrógen hormónum og með meinvörp í 4-9 eitlum.

Ef við bíðum átekta og fylgjumst með lífi kvennana næsta áratug kemur í ljós að af þessum konum þá lifa 6 konur góðu lífi eftir 10 ár án endurkomu krabbameinsins, 13 eru aftur komnar með brjóstakrabbamein og einn hefur dáið af öðrum orsökum (t.d. hjarta- og æðasjúkdómum).

Ef aftur á móti konurnar fá allar lyfjameðferð eftir aðgerð þá eru 4 konur til viðbótar sjúkdómsfríar eftir 10 ár og því búið að bjarga þeim frá brjóstakrabbameini, það eru því aðeins 9 í stað 13 sem fá meinið á nýjan leik [5].

Ábyrgðaleysi Fréttatímans

Ein af meðferðunum sem Hólmfríður sótti var læknamiðlun þar sem hjúkrunarfræðingur var með framliðna lækna með í ráðum. Þarna er um mjög vafasama "meðferð" að ræða. Merkilegt nokk þá passaði allt sem læknarnir að handan sögðu við það sem hún hún hafði lesið sér til um í óhefðbundum fræðum.

Ef læknamiðill er að veita meðferð í umboði lækna sem ekki eru til þá myndi ég telja það afar alvarlegt brot. Ég velti því fyrir mér hvort þessar skottulækningar flokkist ekki undir það að stunda lækningar án lækningaleyfis og heyri því undir landlæknisembættið og dómstóla. Ef ekki þá mætti í það minnsta kæra fyrir fjársvik.

Ég tel að umfjöllunin Fréttatímans hvetji fólk óbeint til að hunsa ummæli lækna og fylgja "óhefðbundnum leiðum", líklega með hörmulegum afleiðingum. Auðvitað á blaðamaður ekki að breyta orðum Hólmfríðar, en ábyrgðarleysið felst í því að birta viðtalið gagnrýnislaust og án frekari útskýringa frá viðurkenndum læknum. Hallgrímur Magnússon nægir engan vegin enda greinilegt að hans markmið er að ýta undir óhefðbundnar meðferðir og kukl.


[1]Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir. Sigraðist á krabba án geisla og lyfja. Fréttatíminn 17. tölublað, 3. árgangur, 27-29. apríl 2012.
[2] Hassan et al. 2010. Chemotherapy for breast cancer (Review). Oncology Rep. 24(5):1121-31.
[3] Bergh et al. 2001. A systematic overview of chemotherapy effects in breast cancer. Acta Oncol. 40(2-3):253-81.
[4] Early Breast Cancer Trialists' Collaborative Group (EBCTCG), Darby S et al. 2011. Effect of radiotherapy after breast-conserving surgery on 10-year recurrence and 15-year breast cancer death: meta-analysis of individual patient data for 10,801 women in 17 randomised trials. Lancet. Nov 12;378(9804):1707-16
[5] Adjuvant! Online sótt 29/4/2011

Þór Friðriksson 23.05.2012
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 23/05/12 18:08 #

Góð grein og þörf. Ein sorglegasta útleggingin við krabbamein er breitt mataræði til redda hlutunum. En krabbameinsfrumur nærast á sama mat og allar aðrar frumur í líkamanum. Krabbameinsfrumurnar slá ekkert á móti hollum mat frekar en aðrar frumur í líkamanum.


Dodds - 24/05/12 11:29 #

Óhefðbundnar mataræðis-aðferðir svokallaðar við að lækna krabbamein virka.Ein meðferðin skilar 50% lækningu við "terminal cancer"En þá hefur læknirinn kvatt sjúklinginn með dauðadómi.Það sem gleymist í umræðunni er að nær útilokað er að sanna gildi óhbl en vitnisburður sjúklinganna er til staðar.


Jóhann (meðlimur í Vantrú) - 24/05/12 11:53 #

Góð vísa er aldrei of oft kveðin. Það þarf að minna þjóðina reglulega á þetta enda er það hrikalegt að það sé auglýst út á við að Íslendingar trúi/treysti á álfa og læknamiðla. Það er hrikaleg auglýsing. Mun verri en sú að íslenskt kvenfólk þyki lauslátt.

Dodds segir: "Það sem gleymist í umræðunni er að nær útilokað er að sanna gildi óhbl en vitnisburður sjúklinganna er til staðar."

Ég ætla að leyfa mér að skipta út "gildi óhbl" (óhefðbundnum lækningum) og setja inn annað dæmi sem sýnir fram á hve rökin eru veik.

"Það sem gleymist í umræðunni er að nær útilokað er að sanna tilvist endaþarmstilraunir geimvera en vitnisburður sjúklinganna er til staðar."


Jóhann (meðlimur í Vantrú) - 24/05/12 11:58 #

*endaþarmstilrauna


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 24/05/12 15:05 #

Afhverju ætti það að vera eitthvað erfitt. Settu einn hóp af krabbameinssjúklingum á þetta tiltekna mataræði, og settu annan sambærilegan hóp í "hefðbundna" krabbameinsmeðferð. Það er ekkert flókið við þetta, eða erfitt.


Jon Steinar Ragnarsson - 28/05/12 02:33 #

Frá því að ég man eftir mér hafa Íslendingar trúað á "náttúrulækningar" og er heil ríkisstyrkt stofnun utan um það. Þessa trú held ég að megi að miklu leyti rekja til einnar bókar, sem líklega hefur verið endurprentuð oftar en nokkur bók Íslensku. (Kannski Laxness og Biblían hafi betur)

Þessi bók heitir læknisdómar alþýðunnar eftir D. C. Jarvis, en hún leggur einmitt út af því að halda sýrustigi líkamans í jafnvægi. Út frá þessu eru allar þessar PH remedíur auðseljanlegar Íslendingum.

Jarvis hafði speki sína af því að fylgjast með búfé og taldi það lækna sjálft sig af alskyns meinum. Bókin er einmitt runa anektóda um slík "kraftaverk" og eru það eini "vísindalegi" grunnurinn sem ginnkeyptir láta sér nægja.

Kerlingabækur um hunang og sítrónur súran og basískan líkama kannast allir við hér á landi sem komnir eru yfir miðjan aldur.

Það er erfitt að sjá hvernig hægt er að vefja ofan af svona mími. Maður vonar bara að fólk fari sér ekki að voða. Sérstaklega þegar einstaklingar troða fram á völl með sögur af slíkum "kraftaverkum." Það er sannarlega ábyrgðarhluti fjölmiðla að dreifa svona vaðli og kannski er besta ráðið að hundskamma þá þegar þetta hendir. Menn virðast allavega opnari fyrir slíkri gagnrýni en áður.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.