Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hinn mikli aðskilnaður

Althingi og dómkirkjan

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi ráðherra sat fyrir svörum í Beinni línu á vefsíðu DV þann 15. maí. Margir nýttu sér tækifærið til að spyrja Árna Pál að því sem brann á þeim og einn einstaklingur bar upp spurningu sem ég hefði sjálfur spurt ef ég hefði haft tækifæri. Hann spurði ráðherrann fyrrverandi hvort að hann myndi beita sér fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju.

Svar Árna Páls var, tjah, áhugavert fyrir áhugamenn um framleiðslu spunarokkana sem Biskupsstofa hefur yfir að ráða:

Ég tel mikla kosti við þjóðkirkjufyrirkomulagið. Aðskilnaður er nú þegar mikill og ég vil stíga varlega til jarðar í frekari breytingum. En allt má ræða.

Árni var svo spurður hvaða kosti þetta fyrirkomulag hefur:

Þjóðkirkjan veitir öllum þjónustu um allt land á öllum tímum. Óháð allri trú eru þetta skyldur til almannaþjónustu sem sjálfsagt er að greitt sé fyrir, ef meirihluti landsmanna telji þjónustuna einhvers virði. Það geri ég.

Kosturinn við ríkiskirkjuna er semsagt sá að hún veitir almannaþjónustu ókeypis án tillits til trúar. Þessi útskýring vekur eiginlega fleiri spurningar en hún svarar. Hvaða almannaþjónustu veitir kirkjan yfirhöfuð? Og hvaða hlutar starfs starfsmanna kirkjunnar eru unnir í sjálfboðavinnu? Og það er nú reyndar bara alls ekki rétt hjá Árna að kirkjan veiti öllum þjónustu, hún gerir það svo sannarlega ekki. En svo er reyndar líka fyrir löngu ljóst að þessi meirihluti sem Árni vísar í er ekki til staðar.

En þetta er ekki það sem ég ætlaði að benda á, eins fróðlegt og þetta er þó. Það sem ég ætlaði að benda á er spuninn um allan hinn mikla aðskilnað ríkis og kirkju sem þegar hefur farið fram. Hann byggir á því, eins og allir góður spuni, að afvegaleiða umræðuna. Sá aðskilnaður sem hefur farið fram felst í því að kirkjan hefur fengið aukinn sjálfsákvörðunarrétt í eigin málefnum. En það er bara alveg óvart ekki það sem átt er við þegar talað er um aðskilnað ríkis og kirkju, ekki nema í miklu minnihluta tilfella.

Það er fyrst og fremst tvennt sem verið er að fara fram á. Annars vegar að vernd ríkisins yfir einu trúfélagi, og þar með í raun yfirlýsing um að hér ríki ein ríkistrúarbrögð, sé fjarlægð úr stjórnarskrá og að sérstök lög um ríkiskirkjuna séu afnumin.

Hins vegar það að ríkiskirkjan, og reyndar öll trúfélög, sjái alfarið sjálf um fjármögnun sína. Eins og staðan er í dag fá trúfélög hlutdeild í ríkissjóði miðað við meðlimafjölda. Þetta er af einhverjum ástæðum kallað að ríkið „innheimti sóknargjöld“ í umræðunni og jafnvel er þessu líkt við félagsgjöld. Slíkt er auðvitað reginfirra eins og sést best á því að nú kvartar ríkiskirkjan yfir því að „sóknargjöldin“ hafi verið skert meira en framlög til annara ríkistofnanna.

Og þar liggur auðvitað hundurinn grafinn. Þegar við greiðum úr spunaflækjunni og skoðum málin sem standa kirkjunni næst, fjármálin, þá sést hvernig ríkiskirkjufólk lítur á kirkjuna; Eins og hverja aðra ríkisstofnun.

Egill Óskarsson 22.05.2012
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 22/05/12 11:23 #

Var þetta ekki einfaldlega prestsonurinn Árni Páll sem þarna sat fyrir svörum? Ég geri ekki ráð fyrir öðru en að hann muni verja hagsmuni ríkiskirkjunnar meðan hann er í stjórnmálum.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.