Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Tilgangslaus menntun

Prestar

Stór hluti menntunar presta í guðfræðideild Háskóla Íslands fjallar um afskaplega afmarkað efni: biblíuna. Þarna læra verðandi prestar eitthvað í frummálum þessa ritasafns og taka jafnvel heilan áfanga í að stúdera eitt rit í þessu ritsafni. Þessi menntun virðist vera algerlega tilgangslaus.

Prestar og biblían

Ætla mætti að tilgangur menntunarinnar væri sá að prestar muni nálgast biblíuna á fræðilegum nótum. Að þeir nálgist hana ekki bara eins og bláeygðir trúmenn. Þeir virðast hins vegar gera það. Ég er ekki að halda því fram að prestar ríkiskirkjunnar trúi almennt á Nóaflóðið eða að biblían sé óskeikul, nei, enda trúir hinn venjulegi bláeygði íslenski kristni trúmaður því ekki. Venjulegi kristni Íslendingurinn trúir hins vegar alls konar ófræðilegu rugli beint úr biblíunni, og það gera prestar líka.

Ummyndunin

Gott dæmi um þetta er einn þekktasti atburður guðspjallanna, sagan af ummyndun Jesú. Sagan er á þá leið að Jesús fer upp á fjall með þremur lærisveinum og þegar upp á fjallið er komið ummyndast Jesús og klæði hans verða skjannahvít.

Sagan verður síðan enn ótrúlegri því að Móses og Elía spámaður birtast og fara að spjalla við Jesús (um hvað er ekki sagt). Loks heyrist rödd frá himninum: “Þessi er minn elskaði sonur, hlýðið á hann!” Skyndilega hverfa Móses og Elía og eftir allt þetta segir Jesús lærisveinunum að segja engum frá þessu fyrr en hann er búinn að rísa upp frá dauðum.

Ef eitthvað gæti kallast helgisaga, þá er það þetta. Ef maður trúir þessu, þá getur maður alveg eins trúað því að asninn hans Balams hafi talað, að fjöldi heilagra manna hafi risið upp frá dauðum við dauða Jesú við dauða Jesú og bara hverju sem er.

Nýjatestamentisfræðingar velta sér endalaust upp úr þessari sögu, hver merking hennar sé [1] , hvort að hún hafi upprunalega verið saga af því þegar Jesús birtist lærisveinunum upprisinn og svo framvegis. En fræðimennirnir eru sammála því að þetta sé helgisaga.

Vitnið Pétur

Í síðara Pétursbréfi minnist höfundurinn, sem segist vera sjálfur Pétur postuli, á ummyndun Jesú:

Ekki fylgdum vér uppspunnum skröksögum, er vér kunngjörðum yður mátt og komu Drottins vors Jesú Krists, heldur vorum vér sjónarvottar að hátign hans. Því að hann meðtók af Guði föður heiður og dýrð, þá er raust barst honum frá hinni dýrlegu hátign: "Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á." Þessa raust heyrðum vér sjálfir, koma frá himni, þá er vér vorum með honum á fjallinu helga.(2 Pét 1.16-18)

Gallinn við þennan vitnisburð er sá að nýjatestamentisfræðingar eru sammála um að annað Pétursbréf sé fölsun. Þeir hafa góðar ástæður fyrir þeirri skoðun, því að það er fjölmargt í bréfinu sem gerir þetta bréf að augljósustu fölsuninni í Nýja testamentinu [2]. Í formála ritsins í nýju íslensku biblíuþýðingunni er meira að segja viðurkennt að “flestir” telji að þetta sé fölsun [3].

Hvað segja prestarnir?

Nýlega voru prestar ríkiskirkjunnar að predika um ummyndunina. Prestarnir virðast annars vegar trúa því að helgisagan af ummynduninni sé sönn, og hins vegar nota þeir þessa þekktu fölsun, annað Pétursbréf, til að sýna fram á að þetta gerðist:

Sennilega hefur einhver efast um sannleiksgildi sögunnar þegar Pétur postuli sagði frá reynslu sinni og tveggja lærisveina annarra þegar þeir fóru með Jesú upp á fjall. Því hann segir, eins og við heyrðum lesið áðan, í öðru bréfi sínu að hann hafi ekki notað uppspunnar skröksögur þegar hann kunngjörði fólki mátt Drottins, því hann hafi sjálfur verið sjónarvottur að hátign hans eins og hann orðar það.” – Agnes Sigurðardóttir


„Ekki notaði ég uppspunnar skröksögur er ég kunngjörði ykkur mátt og komu Drottins vors Jesú Krists heldur hafði ég verið sjónarvottur að hátign hans […] þá er ég var með honum á fjallinu helga.” Skrifaði Pétur löngu síðar í einu bréfa sinna, eins og við heyrðum lesið hér áðan. (2Pét 1.16-21) Trú Péturs var byggð á reynslu. - Bjarni Karlsson

Hver er tilgangurinn?

Af hverju í ósköpunum er verið að eyða pening í það að mennta þessa presta í biblíufræðum þegar það breytir augljóslega engu? Annað hvort loka þeir eyrunum algerlega fyrir því sem er kennt upp í Háskólanum, eða þá að þeir átta sig á því að það sem þeir lærðu er “óheppilegt” fyrir kristna trú, og þess vegna borgar það sig ekki að láta bláeygðu trúmennina á kirkjubekkjunum vita af því.


[1] Sú útskýring sem mér finnst sennislegust er sú að þetta tengist deilum um hvaða gildi orð Jesú eigi að hafa í sambandi við helgirit gyðinga. Móses og Elía standa fyrir lögmálið og spámennina, og að orð guðs “Hlýðið á hann!”, þýði þá eitthvað í líkingu við “Hlýðið á hann, frekar en þessa hina tvo!”. Við vitum að í frumkristni voru deilur um hvaða stöðu helgirit gyðinga ættu að hafa, og í þannig deilum er ansi hentugt að segja að guð sé sammála þér!
[2] Ástæðurnar eru meðal annars þær að langur tími er liðinn frá heimsendaspám í frumkristni, hann virðist þekkja safn bréfa Páls sem heilaga ritingu, bréfið er byggt á öðru bréfi í Nýja testamentinu.
[3] “Síðara almenna Pétursbréf var lengi eignað Pétri postula en nú álíta flestir að bréfið sé skrifað eftir daga hans og sé yngsta bréf Nýja testamentisins. Höfundur þekkir bréf Páls postula (3.16) og er bréfið að hluta til nær samhljóða Júdasarbréfi. Bréfið fjallar um endurkomu Krists. Menn virðast hafa verið farnir að spyrja: „Hvað verður úr fyrirheitinu um komu hans? Því að síðan feðurnir sofnuðu stendur allt við hið sama“ (3.4). Svar höfundar er þetta: „Dagur Drottins mun koma sem þjófur“ (3.10) og hann hvetur lesendur til að „lifa heilögu og guðrækilegu lífi“ (3.11).” #

Hjalti Rúnar Ómarsson 15.05.2012
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Jon Steinar. - 16/05/12 08:31 #

Hafnar þessi "fræðigrein" ekki líka því sem kallast hærri krítík? Þ.e. gagnrýna skoðun á bókinni og eftirgrennslan eftir uppruna hennar sögu og eðli. Þeir sem slíkt stunda og spyrja áleitinna spurninga fá ekki einusinni störf í akademíunni og eru í flestum tilfellum útmálaðir sem rugludallar.

Árangur þess fjár og tíma sem fer í þessi "vísindi" sýnir sig kannski best í því sem frá þessum "fræðingum" kemur. Þeir þurfa að svara spurningum á sjálfum Vísindavefnum eins og: Getur guð búið til svo stóran stein að hann geti ekki lyft honum? Píslarvotturinn Bjarni Randver (sorry að ég skuli nefna snöru í hengds manns húsi) svarar hér þessari spurningu: http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=427


Jón Steinar - 16/05/12 08:49 #

Það að Pétursbréf þræti fyrir að þarna sé um lygar að ræða segir manni það eitt að fólk í frumkristni hafi í raun sagt þá vera að ljúga og hafi ekki veri að kaupa allt þetta dellumakerí. _Örvæntingin í að bera af sér lygina er augljós af versinu. Hvers vegna annars að taka þetta fram?

Það hafði ekki nokkur maður heyrt af þessum feiknum frá neinum öðrum eða fengið nokkurn vitnisburð um þau frá nokkrum manni öðrum.

Ég tek undir með Richard Dawkins þegar hann kallar guðfræðina "Non diciplin".


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 16/05/12 18:09 #

Hafnar þessi "fræðigrein" ekki líka því sem kallast hærri krítík? Þ.e. gagnrýna skoðun á bókinni og eftirgrennslan eftir uppruna hennar sögu og eðli. Þeir sem slíkt stunda og spyrja áleitinna spurninga fá ekki einusinni störf í akademíunni og eru í flestum tilfellum útmálaðir sem rugludallar.

Nei, nýjatestamentisfræðingar hafna ekki "hærri krítík". Þú færð alveg starf í "akademíunni" ef þú hafnar t.d. því að Pétur postuli hafi skrifað 2. Pétursbréf, ég efast stórlega um að annað sé kennt í háskólum (fyrir utan háskóla sem reknir eru af bókstafstrúarfólki) á vesturlöndum.

Punkturinn minn í greininni er einmitt sá að þrátt fyrir að prestarnir ættu að hafa lært þetta í Háskólanum, þá láta þeir eins og þeir hafi aldrei heyrt af þessu.


Jon Steinar. - 16/05/12 19:10 #

Ég náði innihaldi greinarinnar. Það hefur lengi verið ljóst að þessir menn (og konur) vita betur og eru því afar óheiðarleg í túlkun sinni og prédíkunum útávið. Þeir láta sem þeir trúi en en eru litlu minna skeptískir en við ætla ég.

Varðandi æðri gagnrýni þá reikna ég ekki með að margir slíkir kandídatar séu hér svo það reynir varla á. Teitur vinur ykkar Atlason var jú trúlaus í þessu námi en laut dogmanu í einu og öllu til að ná prófum. Hann var þó lagður í einhverskonar einelti þarna og hrökklaðist úr landi fyrir rest.

Af Robert Price og fleirum að skilja, þá er allaveg ákvðið djúptt sem menn mega voga sér í biblíurýni ef þeir ætla að halda stöðum innan háskóla í USA og víðar. T.d. það að efast um tilvist Jesú sem svona default útgangspunkt er ávísun á bannfæringu og þykir mesta firra.

Eisenman hefur þá afstöðu að hann hafi verið til í einhverri mynd og hangir inni í akademíunni. Hans niðurstaða er þó að líklega hafi maðurinn ekki heitið Jesú og ekki fæðst í Betlehem og ekki búið í Nasaret. Hann hafi ekki unnið kraftaverk og ekki verið krossfestur og alls ekki stigið til himna. Hvað er þá eftir spyr ég? Mælskur förumaður sem fór með þekkta frasa um guðdóminn og lífið. Þetta ku jafngilda því að Jesú hafi verið söguleg persóna!

Allir prestar eru meðvitaðir um þessa orðræðu alla og hvaða efasemdir eru frammi, en samt láta þeir eins og ekkert sé útávið af því að þetta er jú brauðstritið þeirra. Ég gæti ekki horft á sjálfan mig í spegli ef þetta væri mitt viðurværi allavega.


Jón Steinar - 16/05/12 19:22 #

Nefna má að Bart Ehrman var að gefa út bók sem er á svipuðum nótum og Eisenman. Hún er stappfull af rökvillum og ógrunduðum ályktunum í bland við grófar persónuárásir. Hann hefur sennilega þurft að draga línuna með sína skeptík til að halda virðingunni. Dýpstu rök hans og margendrurtekin eru "no true Scotchman" rökleysan í birtingarmyndinni "no true scolar".


Valtýr Kári - 19/05/12 03:31 #

Jón Steinar, þakka þér fyrir tilvísunina á Vísindavefinn. Svarið er frekat stutt og ómerkilegt, en svar Eyju Margrétar Brynjarsdóttur er þeim mun betra. Mér finnst alltaf jafn gaman að lesa svona.


Jón Steinar - 20/05/12 01:44 #

Það er kannski ástæða fyrir því að menn vilja halda í 2. Pétursbréf þótt það haffi verið svo æpandi fölsun að það átti ekki að fá að vera með í ritningunni. Í fyrsta lagi er það þetta bréf sem segir að spámennirnir hafi mælt orð Guðs. Þ.e. bein tilvísun í að Biblían sé Guðs orð, sem hvergi er sagt svo berum orðum í bókinni að því er ég best veit.

Aðallega tel ég þó að fastheldni íslenskra preláta í bréfið eigi sér orsök í því að í þessu bréfi er talað um að einn dagur hjá guði sé eins og þúsund ár. Þetta er jú premisið í sjálfum þjóðsöngnum okkar svo menn láta það ekki svo létt af hendi.

Það yrði mikill missir fyrir örvænta trúverjendur að missa þessi atríði úr fátæklegu vopnasafninu sínu.;)


Jón Steinar - 20/05/12 01:55 #

Álíka vafasamt bréf 2. Tímóteusarbréf segir raunar á svipuðum nótum að ritningin sé innblásið orð Guðs. Menn voru í því svona post hoc að loka fyrir alla gagnrýni á herlegheitin sem síðar varð aðalsmerki Kristninnar og skilur þau trúarbrögð frá öllum öðrum á þeim tíma. Múslimirnir átu þetta svo að sjálfsögðu upp líka.

Síðar lá dauðarefsing og útskúfun við öllum efasemdum sem gerði Kristnina að "best heppnuðu" trúarbrögðum sögunnar. Fyrir mikið kraftaverk breisddist hún út með eldingarhraða upp frá þessu. ;)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.