Þegar fólk greinist með sjúkdóma á Íslandi vill það oft verða svo að á því dynur flóðbylgja af upplýsingum um óhefðbundnar lækningar á hvers konar meinum. Fjöldinn allur af efnum eru markaðsett sem hálfgerðar töfralausnir og eru til sölu á Íslandi í dag. Oftast eru efnin kynnt þannig að umfjöllun um þau er sett í vísindalegan búning, þannig að upplýsingarnar hljómi jafnvel nokkuð sannfærandi fyrir fólk sem ekki hefur sérþekkingu á lífefna- og læknavísindum.
Í raun þyrfti heilan greinaflokk til þess að fjalla um öll þau efni sem haldið er að landanum í dag sem lausnum á hverjum þeim líkamskvillum sem hann hrjá. Hér verður fjallað um eitt efnanna, pHenomenal, sem meðal annars hefur verið haldið að krabbameinssjúklingum. pHenomenal er markaðssett sem lyf til leiðréttingar á sýrustigi og þar með efnaskiptum líkamans, og á þannig að vera allra meina bót.
Markaðsefnið fyrir pHenomenal á íslensku er ekki aðgengilegt á netinu og er hér því vísun í nær samhljóða umfjöllun á ensku.
Í bæklingnum er því haldið fram að sýrustig líkamans raskist við streitu og rangt mataræði. Staðhæft er:
Of súrar aðstæður í líkamanum lækka súrefnisstuðul hans og valda þannig sleni,eymslum, einbeitingarskorti og vökvasöfnun. Auk þessa auðveldar súrt umhverfi bakteríum og gerlum að þrífast og dafna.
Textinn heldur áfram og útskýrir hvernig magn vetnis í vökva eykst við súrar aðstæður en magn súrefnis við basískar og útskýrir svo hvernig pHenomenal vinnur á vandanum, þ.e. súrum líkamanum;
pHenomenal er búið til úr þremur vatnssameindum. Þannig að í stað H2O sameindarinnar (sem eru tvær vetnis frumeindir og ein súrefnis frumeind) notar pHenomenal H6O3.
Rannsóknarteymið á bak við þessa vöru, fann síðan leið til að fjarlægja eina vetnisfrumeind af allri sameindinni, þess vegna samanstendur pHenomenal í raun af H5O3-sameind sem aftur gerir hana hungraða eftir þessari einu vetnis frumeind sem hana vantar til að komast í sitt upprunalega og náttúrulega form, sem er vatn (meðtveimur vetnis frumeindum og einni súrefnis frumeind).
Og haldið er áfram:
pHenomenal er engin alsherjar lækning eða lausn. Hinsvegar erum við flest að kljást við einhverjar afleiðingar af of lágu sýrustigi (þ.e. of súrum aðstæðum) í líkama okkar. Eftir því sem þú upplifir meiri óþægindi vegna vandamála sem stafa af þessum afleiðingum, því jákvæðari áhrif ættirðu að upplifa með notkun á pHenomenal.
Og svo til þess að breikka markhópinn enn fremur er bent á að pHenomenal sé einstaklega gott fyrir þá sem stunda líkamsrækt því að það hjálpi til við að hreinsa mjólkursýru úr vöðvum og geri fólki því kleift að stunda stífari líkamsrækt.
Það eina góða við þennan texta er í raun hvað hann er arfavitlaus og auðvelt er að benda á vitleysuna og sýna fram á loddaraskapinn.
Í fyrsta lagi er innbyggt í mannslíkamann kerfi sem viðheldur sýrustigi flestra vefja á afar þröngu bili (pH 7.3-7.4). Ef sýrustiginu hnikar frá þessum gildum hættir líkaminn einfaldlega stöfum og deyr. Ferli eins og taugaboð og hjartsláttur byggja á því að sýrustig líkamans sé alltaf fínstillt. Það þarf því engin lyf til þess að leiðrétta sýrustig líkamans, hann sér alveg um það sjálfur.
Í öðru lagi er lýsingin á sýrustigsjafnvægi í bæklingnum röng. Vissulega fer sýrustig eftir styrk jákvætt hlaðinna vetnisfrumeinda, öðru nafni róteinda, í vökva. Hins vegar hækkar ekki sýrustig með auknu magni súrefnis í vökvanum nema að um sé að ræða óbundinna súrefnisatóma sem bindast við róteindirnar og hækka þannig sýrustigið. Sýrustig er einfalt fall af styrk lausra róteinda í vökva. Bæklingurinn er þó að gefa í skyn að pHenomenal-sameindin sé neikvætt hlaðin og virki því sem basi sem hlutleysir súran vökva. En orðalagið gefur til kynna að textahöfundur sé ekki vel að sér í efnafræði.
Í þriðja lagi er efnafræðin á bak við þessa pHenomenal-sameind alveg stórkostleg. Eða réttara sagt alveg stórkostlega röng. Það er vissulega til sameind sem hefur formúluna H5O3 . En sú sameind er ekki til staðar í vatni á fljótandi formi, heldur hefur tekist að mynda hana á efnafræðistofum þar sem hún er í efnasambandi við liþíumsalt, við mjög lágan hita. Sem sagt: ísklumpur bundinn þungmálmi.
pHenomenal er því sagt vera efni sem í raun er ekki til sem á að lækna ástand sem ekki er heldur til. Það er að mörgu leyti aðdáunarvert að sjá hvernig þessi markaðssetning fer fram.
Fyrst eru talin upp "sjúkdómseinkenni" sem hrjá okkur í raun öll. Hver finnur ekki annað slagið fyrir sleni, streitu eða einbeitingarskorti? Og síðan er skáldað upp lífeðlisfræðilegt ástand sem liggja á að baki þessum einkennum og ef vel tekst til skapar það eftirspurn hjá fólki sem eflaust veit ekki betur hvernig líkaminn virkar. Að lokum er fólki seld lausn sem á að innihalda efni sem leiðréttir þessi líkamsferli og markmiðinu er náð.
Allar vörur lúta kröfum um mekingar sem sýna innihald og sannanlega virkni vörunnar ef því er að skipta. Þetta virðist ekki eiga við um allar vörur. Ég rak augun í merkingar á Lúpínuseyði sem voru glannalegri en menn voguðu sér með kínalífselexírinn um aldamótin 1900. Þetta sull á að lækna allt sem mannkyn hrjáir, krabbamein líka. Hvað varð um neytendavernd á Íslandi? Í heilsuvörubúðum má líka finna bókmenntir sem lofa alskyns töfralækningum við banvænum sjúkdómum, en enginn amast við þessum loddaraskap. Á þetta ekki að heyra undir ábyrgð og eftirlit einhverrar opinberrar stofnunnar?
Það er dálítið merkilegt að lesa þessa grein. Maður heyrir það af og til að vítamín séu vita gagnslaus, nún þetta, en heilsubúðirnar blómstra sem aldrei fyrr. pHenomenal vatnið á að vera lífsins elexír, en Rebekka uppástendur að það geri ekkert gagn. Hvernig á maður að vita hvað satt er í þessum efnum. Ég hef enga ofurtrú á lyfja fyrirtækjum, þeir hafa eins og öll önnur fyrirtæki, eitt markmið og það er að græða fé.
Ingibjörg, í pistlinum er ekki verið að mæra lyfjafyrirtæki bara sýna fram á að auglýsingarnar um þetta efni eru rakalaus þvættingur. Það er óumdeilt, hafi maður grunnþekkingu á efnafræði. Þegar eitthvað er auglýst undir rammfölskum formerkjum set ég allavega risastórt spurningamerki við ætlaða virkni þess.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Hrafn Þórðarson - 14/05/12 16:56 #
Hvernig er það, er ekki bannað að blátt áfram ljúga í auglýsingum á Íslandi? Því það er nokkuð ljóst að akkúrat ekki neitt við þessa auglýsingu kemur nálægt raunveruleikanum, eins og þú bentir á. Þvert á móti værum við öll þegar dauð ef allir líkamsvefir okkar væru súrir (en ekki rétt aðeins basískir) og H5O3 er efni sem á ekki neitt skilt við vatn (og þú þarft ekki meira en lágmarksþekkingu á efnafræði að halda til þess að vita að 3(H2O) er ekki það sama og H6O3)