Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Muamba og máttur bænarinnar

hjartaáfall

Einhver þarna uppi var að fylgjast með mér. Það sem gerðist var meira en kraftaverk. Á leikdaginn baðst ég fyrir með föður mínum um morguninn og bað Guð að vernda mig og hann brást mér ekki.

Knattspyrnumaðurinn Fabrice Muamba, miðvallarleikmaður Bolton, fékk hjartaáfall í leik gegn Tottenham 7. mars síðastliðinn. Það er algengt að einstaklingar sem virðast í mjög góðu líkamsástandi verði bráðkvaddir vegna hjartagalla.

Muamba hinn heppni

Muamba var "heppinn", hann hneig niður á knattspyrnuvelli þar sem þrautþjálfaðir læknar stóðu á hliðarlínunni og voru komnir til hans á augabragði. Auk þess var hjartasérfræðingur meðal rúmlega þrjátíu þúsund áhorfenda þennan dag og tók hann einnig þátt í að bjarga lífi Muamba. Sjötíu mínútur liðu þar til hjarta Muamba fór að slá aftur. Í rúman klukkutíma hnoðuðu læknar og bráðaliðar hjartað fyrir hann og sáu til þess að súrefni barst til heilans. Ósennilegt er að lífi hans hefði verið bjargað ef Muamba hefði verið staddur annars staðar þegar hjartað hætti að slá.

Muamba veit þó hver það var sem bjargaði lífi hans.

Ég er sannfærður um mátt bænarinnar. Í 78 mínútur var ég dáinn og jafnvel þótt ég lifði af var reiknað með að ég yrði fyrir heilaskaða. En ég er sprelllifandi og sit hér og tala. Einhver þarna uppi var að fylgjast með mér.

Það voru einhverjir þarna uppi að fylgjast með honum. Áhorfendur í stúkunni og sjónvarpshorfendur um heim allan. Læknar liðanna, sérfræðingurinn í stúkunni, bráðaliðarnir í sjúkrabílinum, starfsfólk spítalans. Þetta er fólkið sem bjargaði lífi Muamba og sá til þess að hann yrði ekki fyrir heilaskaða.

Morosini hinn ekki svo heppni

Rúmum mánuði eftir að Muamba hætti næstum því að vera til, þann 14. apríl, stoppaði annað hjarta á öðrum knattspyrnuvelli í Evrópu. Piermario Morosini 25 ára leikmaður Livorno hné niður á vellinum í miðjum leik. Þrautþjálfaðir læknar mættu strax á vettvang, sérfræðingur meðal áhorfenda tók þátt í að reyna að halda Morosini á lífi. En gvuð bjargaði ekki í þetta skipti. Kannski var Morosini ekki nógu duglegur að biðja bænirnar sínar. Það voru ekki jafn margir að fylgjast með þessum leik í neðri deild á Ítalíu, a.m.k. ekki gvuðinn hans Muamba.

Svona atvik gerast og á tímum hnattvæðingar berast fréttir af þeim um allan heim.

Það er ekki beinlínis hægt að setja út á það að einstaklingur þakki almættinu fyrir að bjarga lífi sínu. Ég neita að trúa öðru en að Muamba hafi þakkað þeim einstaklingum persónulega sem björguðu lífi hans og hef séð myndir af honum með læknunum þremur sem sinntu honum á vellinum.

Ákalla á ákall ofan

Þetta ákall til almættisins er frekar merki um leiðinlegan ávana trúmanna. Ávana sem þeir ættu að venja sig af því hann er í raun, þegar málið er skoðað, gróf móðgun við ótal aðila. Þetta er móðgun við aðstandendur allra hinna sem létust á sviplegan hátt, þeirra sem ekki lifðu af flugslysið, rútuslysið, hjartaáfallið eða krabbameinið.

Þegar almættið fær heiðurinn af lífsbjörginni er um leið verið að segja, þó það sé óbeint, að almættið hafi ekki bjargað hinum.

Sérstaklega er þetta móðgun við allt það frábæra fólk sem hefur helgað líf sitt því að geta bjargað okkur hinum þegar líkaminn bregst eða slys eiga sér stað. Það fólk verðskuldar allt þakklætið.

Matthías Ásgeirsson 23.04.2012
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Einar - 23/04/12 13:44 #

Hugsaði einmitt það sama þegar ég las þessa frétt.

Hann hrundi niður á knattspyrnuvelli v/ hjartaáfalls eftir að hafa beðið bænir sínar fyrir leik.

"Takk guð. Þú passar heldur betur upp á mig".

Er veruleikafirringin endalaus hjá trúuðum eða er þetta bara hann?


Halldór L. - 23/04/12 13:51 #

enn eitt merkilegt við þennan guð hans; hefði Muamba dáið hefði guðinn SAMT verið góður enda hefði dauði Muamba verið merki um frjálsan vilja og hluta af áætlun guðs


Einar - 23/04/12 14:15 #

Halldór, ekki gleyma. Guð hefði haft plön fyrir hann í himnaríki, ef maðurinn hefði látið lífið.

Svona trúarbrögð geta ekki klikkað. Svör við öllu.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 23/04/12 14:36 #

Muamba þakkar læknum og starfsfólki spítalans. Hann hefði mátt láta þar við sitja.


Baldvin - 26/04/12 21:58 #

Var að lesa í Kórarinun. Datt þar á grein sem segir að allt gott komi frá guði og allt vont frá okkur sjálfum. beinum orðum.(finn þetta ekki aftur) Man ekki hvort þetta sé sagt í bíblíunni en geri ráð fyrir því þar sem þetta er sama efnið. Væri fróðlegt ef einhver gæti fundið þetta í báðum bókum og upplýst okkur.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.