Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hverjir vilja láta blekkja sig?

Háskóli Íslands

Öðru hverju undanfarna áratugi, en oftar undanfarin ár í tengslum við fyrirlestra mína um trú og trúarbrögð á alþjóðlegum ráðstefnum í Bandaríkjunum og Evrópu á sviði trúarvísinda og líffræði mannlegs atferlis hef ég hitt guðfræðinga.

Þeir eru sérfræðingar í málum guða, m.a. skapara og einræðisherra himins og jarðar, þ.e. guðs Gyðinga (Jehovah) og síðar einnig guðs kristinna og ríkis- og herguðs Rómverja samkvæmt ákvörðun einræðisherra (um 300) með tilheyrandi ólýsanlegum ofsóknum gegn öllum öðruvísi þenkjandi. Síðan einnig guðs Múhameðstrúarmanna (nærri 700, kallaður Allah). Líklega ættuð frá einræðisríki Egypta barst þessi uppáhaldsspegilfyrirmynd einræðisherra hingað (um 1000) – á sverðsoddi einráðs konungs – um 850 árum fyrir þróunarkenningu Darwins og 900 árum áður en mannkynið vissi hvað stjörnuþoka var hvað þá um 100 milljarða slíkra, hver með um 100 milljarða stjarna.

Ofannefndir guðfræðingar trúa ekki á tilveru neinna guða, heldur ekki þess sem gat einkason með konu annars, en lét deyja á rómversku pyntingadrápstæki rétt eins og þau hundrað börn sem nú deyja úr hungri á hverri klukkustund. En þeir eru sammála um mikilvægi þess að halda vitgrönnum og óstýrilátum lýðnum (sumir sögðu skrílnum) í skefjum og til þess væru trú og trúarbrögð þrautreynd tæki. Hafa þeir e.t.v. meiri trú á mátt blekkinga en upplýsingar og lýðræðis?

Í bernsku heyrði ég presta ríkiskirkjunnar lýsa – sem heilögum sannleika – tilveru almáttugrar ósýnilegrar ofurveru, sem þeir væru fulltrúar fyrir. Þeir fullyrtu jafnvel að manngæska væri háð trú á ofurveruna, sem sjálfri allt leyfist, en enga ábyrgð ber. Sérhvert barn, sem ekki trúði þeim sögðu þeir hafa hrokafullt hjarta, já, hrokafullt barnshjarta. Slíkt gleymist seint og andlegt ofbeldi gagnvart börnum ásamt óteljandi öðrum voðaverkum þjóna ósýnilegu ofurverunnar, m.a. gagnvart börnum, koma óhjákvæmilega upp í hugann.

Ofurþjónarnir hafa flestir fengið menntun sína við Guðfræðideild H.Í. og því áhugavert að kynnast viðhorfum guðfræðinga þar. Stórafmæli eins helsta lærimeistara deildarinnar varð nýlega tilefni opinnar ráðstefnu um guðfræðileg málefni í fundarsal Þjóðminjasafnsins. Ræðumenn voru fræðimenn úr ýmsum greinum s.s. guðfræði, verkfræði og lögfræði. Í lokaumræðunni spurði ég því hvað væri um yfirnáttúrulegar verur við deildina. Svörin komu hiklaus og skýr. Fyrst svaraði kvenprestur, sem mun vera doktor í guðfræði frá Bandaríkjunum, og sagðist hún ekki vilja kannast við neitt annað en náttúruleg fyrirbrigði. Strax á eftir svaraði sá er stórafmælið átti. „Það eru engar yfirnáttúrulegar verur hjá okkur“, sagði hann og leit um leið spyrjandi m.a. til hóps guðfræðinga á sviðinu. Enginn andmælti og hann bætti við: „Við erum bara að túlka gamla texta“. Hann kvað þó tilveru kirkjunnar verjandi en þá mest vegna minningaræðanna.

Guðfræðingar H.Í. virtust þannig jafn vantrúaðir og ofannefndir starfsbræður þeirra, sem og nánast allir meðlimir í Vísindaakademíum Bandaríkjanna og Bretlands. (Sjá “Good Without God: What a Billion Nonreligious People Do Believe”, eftir Greg Epstein, 2009. Sjá www.hbl.hi.is/religion.)

Hvaðan hafa þá prestarnir þetta sem þeir kalla heilagan sannleika um almáttuga, ósýnilega og einráða ofurveru sem allt viti og allt hafi skapað? Var það aldrei uppáskrifað af guðfræðingum Guðfræðideildar H.Í. þar sem menn bara túlka gamla texta rétt eins og aðrir t.d. Eddu eða Íslendingasögur og ættu e.t.v. að upplýsa almenning um? Það virðist ófært að fullyrðingar um ósýnilegar ofurverur o.s.frv. geti virst á ábyrgð helstu vísinda- og fræðastofnunar þjóðarinnar. Þó hér tíðkist ríkiskostuð ríkiskirkja, ríkistrúarbrögð og ríkistrúboð á 21. öld, virðist óhugsandi að háskóli taki nokkurn þátt í að ginna almenning og fá jafnvel fátæka til að lifa og strita í óraunverulegum heimi með loforðum um borgun síðar – í öðru lífi – sem einnig er lofað. Hverjir sjá í slíku samfélagsstoð og hverjir grundvöll siðferðis?

Nýlega sagði skírður og fermdur reykvískur verslunareigandi um fimmtugt mér að hann bæði til Guðs daglega, en hafnaði þróunarkenningu Darwins: „Hún stenst ekki,“ sagði hann. „Tökum t.d. ketti. Svo lengi sem menn muna hafa kettir bara verið kettir… og sama gildir um menn“. (Einnig tungumálakunnátta hans var hverfandi.)

Ættu frekar aðrar háskóladeildir að koma að inntöku (fermingu) ungs fólks inn í nútímaheim fullorðinna m.a. með raunverulegri áherslu á heiðarleika, lágmarksþekkingu varðandi uppruna og þróun alls lífs og um aldur, stærð og gerð alheimsins? Að bíða í áratugi eftir betur menntuðum kynslóðum virðist ekki lengur ásættanlegt heldur þarf þjóðarátak – í þágu alls almennings.

Greinin var send til birtingar í Fréttablaðinu en birtist á Vísi.is í dag. Birtist á Vantrú með leyfi höfundar.

Magnús S. Magnússon 16.04.2012
Flokkað undir: ( Háskólinn )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 16/04/12 12:42 #

Ríkiskirkjupresturinn og stjórnlagaráðsmaðurinn séra Örn Bárður vísar á grein Magnúsar á Facebook síðu sinni.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 16/04/12 15:04 #

Örn Bárður hjólar beint í manninn og sakar hann um fúsk fyrir það eina að benda réttilega á að gvuðinn hans sé ekki til.


Arnold - 16/04/12 15:14 #

Þetta fólk vill aldrei ræða kjarna málsins. "Fræðin" þeirra ganga út á hvernig er nokkur möguleiki á að ræða ekki kjarna málsins. Þessi viðbrögð Arnar Bárðar eru dæmigerð og fyrirsjánleg. Gaspur og grenj.


JohannV (meðlimur í Vantrú) - 16/04/12 23:12 #

Er séra Örn ekki bara að benda á skort á Guðfræðimenntun við HÍ. Gengur ekki ef þeir eru búnir að tína "yfirnáttúrulegu verunni" ;)


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 17/04/12 02:48 #

Alltaf sérstakt þegar guðfræðingar svara gagnrýni á þann veg að hér sé um illa lesinn einstakling að ræða og vísa í eitthvað lesefni eftir guðfróða höfunda. Einn á það til að vísa í þýskar bókmenntir!

Skemmtileg grein annars, allir þumlar upp.


Arnar Sigurður - 17/04/12 09:16 #

Þessi umræða hjá Aulabárð er drepfyndin!


Eiríkur Kristjánsson (meðlimur í Vantrú) - 17/04/12 10:11 #

Ég skil hvernig kattamanninum líður. Einu sinni horfði ég á kaktus í heilt síðdegi og ekkert gerðist. Þessi þróunarkenning er greinilega á villigötum.


Jón Steinar - 17/04/12 19:52 #

Ég sé að þarna Facebookþræðinum mæla menn með hreinsunum í Háskóla Íslands. Það virðist styttra í miðaldir en margan grunar.

Getur einhver frætt mig um þéssa meginsynd Magnúsar að beita fyrir sig "Freudískri Trúarbragðatúlkun". Hvað er það og hversvegna er hún svona ofsalega lummó og gamaldags í ljósi þess að fleira hefur verið rannsakað og ritað s.l. 100 ár. Eins og Frú Anna Grétarsdóttir setur svo menntað hér fram. Ericson, Winnecott og Rizzuto geta kannski frætt okkur um þetta, hverjir sem þeir nú kunna að vera.:D


Teitur Atlason - 17/04/12 22:54 #

Hérna er eitthvað um Rizzuto.

http://yalepress.yale.edu/Yupbooks/book.asp?isbn=9780300075250

Hér er wiki um Winnecott

http://en.wikipedia.org/wiki/Donald_Winnicott

Ég fann ekkert um Ericson, enda algengt nafn. Spurning um að Arna Grétarsdóttir leggi orð í belg um þessi þrjú sem nefnd eru.


Sveinn Þórhallsson - 17/04/12 22:57 #

Fyndið hvernig kristni er svo svakalega flókin að það er aðeins á færi mikilla fræðimanna að tala um hana, helst aðeins þá sem hafa lesið ákveðnar bókmenntir, oftar en ekki skrifaðar á síðustu 100 árum eða svo (svo ekki sé talað um að þeir þurfi að hafa ákveðnar skoðanir líka auðvitað). Þegar hentar eru hins vegar 95% Íslendinga kristnir...


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 18/04/12 11:24 #

Hún er væntanlega að tala um Erik Erikson, ekki Ericson (þó að ég geti auðvitað ekki verið viss).


Matti (meðlimur í Vantrú) - 18/04/12 13:03 #

Örn Bárður með fróðleg ummæli.

Örn Bárður Jónsson Við verðum að gera vandaðar og fræðilegar kröfur ... til HÍ og allra æðri menntastofnana. Þessi svonefndi „rannsóknarprófessor“ talar mjög frjálslega um þróuð fræði og virðist fákunnandi á sviði guðfræði svo dæmi sé tekið. Hver skyldi fjármagna stöðu hans?

  1. Er þetta ekki dálítið hrokafullt hjá Erni Bárði? Hvaða kröfur uppfyllir hann sjálfur?

  2. Hvaða á þessi spurning um fjármögnun að þýða? Væri þetta túlkað sem hótun ef ég myndi skrifa þetta?


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 18/04/12 14:22 #

Hann er náttúrulega að vega að starfi hans með því að dylgja um að sá sem fjármagnar starfið hans ætti að hugsa sig tvisvar um. Ég les ekkert annað en hótun út úr þessum orðum.


Magnús Magnússon - 19/04/12 14:23 #

Ég var að sjá þessi ummæli sóknarprestsins og guðfræðingsins rétt núna og þætti gaman að vita hvar þau birtust. Tal einhvers um að mínn fræðilegi grundvöllur o.s.frv. sé freudian sýnir einungis barnalega vankunnáttu. Ég kynnti mér auðvitað Freud snemma í háskólanámi, en eins og svo ótal margir vísindamenn hef ég alltaf verið anti-freudian svo þetta tal er beinlínis það sem enskumælandi kalla "hillarious" (og myndi raunar vekja kátínu hjá sumum kunningja minna).

Blekkingameistarar trúarbragðanna eru jafnan tilbúnir með hvers kyns "mystfications" m.a. fáránlegar tlvísanir í ótrúlegustu rit og það gjarnað gagnvart fólki sem aldrei neitt les eða hefur lesið. Þeir segjast jú sumir beinlínis trúa á mikilvægi "mystfications" og taka þar sumir starf sitt alvarlega.

Á þeim litla bókalista sem eg hef komið upp, www.hbl.hi.is/religion má þá m.a. finna bókina "The Biology of Religious Behavior" þar sem ég ritaði einn kafla. Þessi bók hefur nú verið ritrýnd í furðumörgum alþjóðlegum fræðitímaritum sem varða religion og ummæli jafnt guðfræðinga sem annara vísindamanna verið einkar jákvæð.

Ég hef svolítið verið að vona að sumum guðfræðingum myndi sárna skrif mín um þá og koma aðeins út úr þagnarskápnum og afsanna ásakanir um um þáttöku í blekkingarleik gagnvart grandalausu góðu fólki, en lítil von er eflaust til þess.

Enn hvað varðar minn bakgrunn má t.d. í ofannefndri bók lesa um minn nú alllanga vísinda- og fræðimannsferil, en ég hef m.a. gegnt stöðu deputy director við Mannfræðistofnunina á Museé de l'Homme í París og háskólaprófessorsstöðum við Parísarháskóla (sálarfræði og líffræðideildir). Ég neyddist til að snúa aftur til Íslands af fjölskylduástæðum, en hef reynt að lifa það af þó æðsta menntasofnunnin hér væri þá í raun örsmár "undergraduate school" (en frábærar framfarir þar síðan).

Ég er EKKI guðfræðingur og hef sannarlega hvergi haldið því fram, enda hefði ég þá síður aflað mér vísindalegrar þekkingar á atferli manna og annara dýra (þó aldrei að vita því nútíma guðfræðingar telja sig oft vísindamenn með opinn huga). Mannkynið býr loks yfir nýrri alvöru þekkingu varðandi jafnt hugsun sem atferli, ekki síst félagslegt, þökk sé vísindalegum rannsóknum; líffræilegra, sálfræðilegra, mannfræðilegra, félagsvísindalegra og taugavísindalegra - en raunar einnig á sviði sagfræði, guðfræði, fornleyfafræði o.fl. Það eru alveg nýjir tímar hvað varðar mannlega þekkingu og fyrir þá sem fengið hafa aðgang að henni verður varla aftur snúið til barnalegrar hjátrúar og hvers kyns endema, vanþekkingar, hindurvitna og trúarbragða fornaldar.

PSPS. Mér þótti heldur miður að ritstjórnin breytti að mér óspurðum inngangi greinar minnar þannig að ekki varð séð að ætíð var um sama guðinn að ræða. Getur sú staðreynd farið í taugarnar á einhverjum? Mér er sagt að ritstjórinn sjálfur sé prestsonur?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 23/04/12 13:06 #

Ummæli Arnar Bárðar er að finna á fésbókarsíðu hans.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 23/04/12 13:22 #

Á línan að vera:

Þeir eru sérfræðingar í málum skapara og einræðisherra himins og jarðar [...]


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 25/04/12 07:04 #

Virkilega flott grein! Ég held að guðfræðingar hljóti almennt að vera mjög áhyggjufullir um framtíðina, höfnun á blekkingarvefnum verður sífellt algengari og kristni (sem og önnur skipulögð trúarbrögð, t.d. íslam) eru á hröðu undanhaldi.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.