Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þú ert svo mikið öfga

Fyrir kosningarnar 2007 fór vinkona mín og talaði við fólk á kosningaskrifstofum þeirra flokka sem hún gat hugsað sér að kjósa. Á einni skrifstofunni barst VG í tal og sá sem sat á skrifstofunni sagði eitthvað á þessa leið: "Þau eru svo mikið öfga". Ég held að þetta hafi haft þveröfug áhrif á vinkonu mína sem spurði sjálfa sig hvers konar rökstuðningur þetta væri eiginlega.

Ef sá sem sat fyrir svörum hefði svarað: "Ég tel sjálfur að við þurfum að nýta auðlindirnar meira en VG vilja" eða "Mín skoðun er sú að róttæk friðarstefna eins og VG boðar gangi ekki upp eins og staðan í heimsmálunum er" þá hefði verið einhver samræðugrundvöllur. Það er hægt að vera sammála eða ósammála málefnum, reyna að færa rök fyrir skoðunum sínum og svo framvegis. Það að stimpla einhvern öfga er að stimpla sjálfan sig úr leik (nema að það sé vel rökstutt).

Þegar við heyrum fréttir frá til dæmis Íran (og frá Sovétríkjunum hér áður fyrr) er orðið harðlínumaður stundum notað. Hvað þýðir það? Það má segja að harðlínumenn séu þeir sem vilja ekki breyta þeirri stefnu sem er ríkjandi. Umbótasinnar eru síðan þeir sem vilja, eins og orðið ber með sér, bæta kerfið. Í raun og veru eru þetta stimplar sem þýða "góður" og "vondur".

Það má hins vegar ekki segja það hreint út og í staðinn eru notuð veigrunaryrði. Þá getur fólk þekkt góða fólkið frá því vonda án þess að hafa fyrir því að kynna sér málin. Ég tek fram að ég er langoftast á bandi þeirra sem eru kallaðir umbótasinnar. Ég tel líka að við í Vantrú séum umbótasinnar og að ríkiskirkjusinnar séu harðlínumenn.

Í raun gildir það sama um stimplana "öfga" og "hófsemd". Í Íran eru umbótasinnarnir örugglega kallaðir öfgamenn og harðlínumennirnir jafnvel sagðir hófsamir. Enn og aftur þá þýðir þetta bara "góðir" og "vondir" eða "við" og "hinir". Þeir sem stimpla okkur í Vantrú sem öfga, eða jafnvel ofstækis(!), eru bara að segja að við séum vond. Yfirleitt fylgja engin eða léleg rök. Þetta er orðatengslaleikur. Með því að kalla okkur öfga þá er verið að skapa tengingar í höfði fólks við allt það slæma sem við köllum (réttilega) öfgar.

Það er öfgafullt að hvetja til þess að drepa fólk, það er öfgafullt að hvetja til þess að fólk sé svipt réttindum sínum vegna kynhneigðar, húðlitar eða trúar og það er öfgafullt að segja einhverjum að þeir hafi rangt fyrir sér og rökstyðja þá skoðun sína. Ef ég hefði sem krakki séð þetta sem getraun í Barna-DV þá hefði ég strax vitað hvað það var sem passaði ekki í hópinn.

Óli Gneisti Sóleyjarson 26.03.2012
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Eiríkur Kristjánsson (meðlimur í Vantrú) - 26/03/12 09:23 #

Orwell dekkaði svona hugtakanotkun ágætlega í Politics and the English Language:

"In the case of a word like democracy, not only is there no agreed definition, but the attempt to make one is resisted from all sides."

Maður ætti sennilega aldrei að nota orð sem maður gæti aldrei notað um sjálfan sig. Öfgafólk er alltaf bara "aðrir en við" og við erum auðvitað "hófsemdarfólk". Engum finnst hann vera öfgamaður (frekar en "vígamaður" eða andstæðingur "stöðugleika")

Sennilega ætti maður líka sleppa hugtökum ef andstæða þeirra er fáránleg. Vinstri menn kalla sig ekki andstæðinga frelsis frekar en hægri menn mótmæla jafnrétti.

Og auðvitað elska allir lýðræðið.


Halldór Benediktsson - 26/03/12 17:59 #

Mér finnst ekkert að því að vera kallaður öfga-maður eða öfga-eitthvað og mér finnst heldur ekkert að því að kalla aðra öfga-eitthvað að sama skapi. Öfgar eru ekki bara ofbeldi eða grimmd í mínum huga. Ég les þetta þannig að viðkomandi gangi of langt, að mati annara.

Þannig er hægt að tala um Vantrú sem öfgafélag þar sem það gengur of langt (í að gagnrýna trú) að mati margra.

Þið eigið að eigna ykkur orðið en ekki mótmæla notkun þess. Svona svipað og 'nerd'.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 26/03/12 18:59 #

Það hefði nú engin áhrif á umræðuhefðina og fólk finnur sér bara alltaf ný orð til að nota til að kalla fólk vont.


Kristján (meðlimur vantrú) - 01/04/12 18:31 #

Allt utan við normið er auðvitað öfgafullt, því ef maður fylgdi alltaf ramma þess sem þykir venjulegt eða eðlilegt, yrðu engar breytingar. Þar sem öfgar í mínum skilningi táknar vilja eða aðgerðir til þess að breyta því sem fyrir er, þá er ég bara sáttur við að vera öfgamaður.


Eiríkur Kristjánsson (meðlimur í Vantrú) - 03/04/12 21:56 #

@Kristján: Að þínum skilningi ólöstuðum held ég ekki að margir deili honum. Öfgar eru ekki fyllimengið af norminu. Small og Large eru ekki öfgafullar stærðir miðað við Medium. Allavega ekki í skilningi flestra, grunar mig. (XXXL aftur á móti...)

@Halldór: 1) Ég er soldið tortrygginn út í þetta "að mati annarra". Mér finnst nefnilega skipta heilmiklu máli hvort verið er að stunda einhverjar öfgar í alvöru eða ekki. Ef maður tæki allar "öfgar!"-upphrópanir fólks alvarlega þá væru allir meira og minna "öfgamenn" og þá þyrfti að finna upp nýtt orð til að lýsa fyrirbærinu. 2) Sammála með að það sé sterkur leikur að eigna sér skammaryrði, en verða þau ekki að vera sértækari svo að þetta virki? Mig grunar, án þess þó að vera viss, að skammaryrðið megi bara ganga í aðra áttina (sbr queer og nerd) til þess að apprópríasjónin gangi.


Eiríkur Kristjánsson (meðlimur í Vantrú) - 03/04/12 22:09 #

@Kristján: Að þínum skilningi ólöstuðum held ég ekki að margir deili honum. Öfgar eru ekki fyllimengið af norminu. Small og Large eru ekki öfgafullar stærðir miðað við Medium. Allavega ekki í skilningi flestra, grunar mig. (XXXL aftur á móti...)

@Halldór: 1) Ég er soldið tortrygginn út í þetta "að mati annarra". Mér finnst nefnilega skipta heilmiklu máli hvort verið er að stunda einhverjar öfgar í alvöru eða ekki. Ef maður tæki allar "öfgar!"-upphrópanir fólks alvarlega þá væru allir meira og minna "öfgamenn" og þá þyrfti að finna upp nýtt orð til að lýsa fyrirbærinu. 2) Sammála með að það sé sterkur leikur að eigna sér skammaryrði, en verða þau ekki að vera sértækari svo að þetta virki? Mig grunar, án þess þó að vera viss, að skammaryrðið megi bara ganga í aðra áttina (sbr queer og nerd) til þess að apprópríasjónin gangi.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.