Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Umburðarlyndi hvað?

Kettlingar

Það er oft með hálfum hug að maður tekur þátt á vinnustaðar- eða kunningjaumræðum um þjóðfélagsmálin. Maður rekur sig í sífellu á hversu mikið hyldýpi er á milli skoðana minna og margra í kringum mig. Ég held að munurinn felist oftast í skoðanamynduninni og það hræðir mig.

Að bulla með virðingu

Ef ég til dæmis orða þá hugsun mína að þjóðfélagsumræðan um mál Snorra í Betel sé á villigötum, þá er ég varla byrjaður að færa rök fyrir þeirri fullyrðingu minni þegar gripið er fram í fyrir mér og sagt með ströngum og ásakandi svip: "Já, gallinn við umræðuna er sá að fólk er ekki tilbúið að bera virðingu fyrir skoðunum annarra." Svo snúast menn á hæli og hraða sér burtu með sigurbros á vör.

WTF!

Svona er maður afgreiddur og dæmdur úr leik, með einfaldri fullyrðingu sem á að gera allt í senn, útskýra málin og þagga niður í andstæðingnum. Ef þetta fólk bara vissi hversu óendanlega grunnhyggin þessi skoðun þess er. Ef það bara vissi.

Er það virkilega vandinn við umræðuna í samfélaginu þessi misserin, að fólk beri ekki virðingu fyrir skoðunum annarra? Hvað þá með virðinguna fyrir skoðunum Snorra Óskarssonar? Menn vilja reka hann og banna hann, ef ekki bara brenna hann! Fólk má alveg hafa þá skoðun fyrir mér, en mér finnst hún röng og vil fá tækifæri til að ræða það málefni. Ég krefst þess ekki að fólk beri virðingu fyrir hommahatursþvælunni út úr honum, ég vil að menn láti svo lítið að svara henni og hrekja bullið, hjóla í málefnið en ekki manninn.

Maðurinn og málefnið

En nei, hræsnin er algjör. Sama fólk og fer með heykvíslar gegn Snorra gjammar í hina röndina að bera eigi virðingu fyrir skoðunum annarra. Í raun er það að segja að bera skuli virðingu fyrir skoðunum þess sjálfs, að ekki eigi að gagnrýna það sjálft. En svo fer það ekki eftir eigin sannfæringu og er svo hryllilega blint að það fattar það ekki.

Skoðanir eru tilgátur sem þarf að prófa. Í hvert sinn sem við vörpum fram fullyrðingu leggjum við hana í dóm annarra. Rökræðan sem kemur í kjölfarið sker svo úr um hvert hið réttasta og skynsamast er þegar upp er staðið.

Hún er undarleg þessi viðkvæmni fyrir því að skoðanir séu dæmdar og hraktar. Skoðanir eru bara það, sumar rangar og aðrar réttmætari. Það er engum greiði gerður með því að hlífa honum við gagnrýni. Við megum ekki láta taugakerfið í okkur fylgja með þegar við útvörpum skoðunum, heldur fagna því ef einhver leggur sig niður við að benda á feilana í hugarstarfi okkar.

Það er ekkert að því að segja "ég hafði rangt fyrir mér".

Vitlaus viðhorf

Felst eitthvert umburðarlyndi í því að leyfa fólki að ganga um með ruglaðar skoðanir? Er það manngæska að veigra sér við að ræða hlutina, af því að einhver gæti móðgast eða orðið sár? Á ekki umburðarlyndi okkar frekar að felast í því að umbera það þegar einhver hefur eitthvað við skoðanir okkar að athuga? Sá sem heimtar virðingu fyrir skoðunum sínum hefur ekkert umburðarlyndi fyrir því að aðrir hafi önnur viðhorf, heldur felur þetta hugarfar í sér fasíska tilskipun um að hver sú skoðun sem fram er sett sé heilög og ósnertanleg.

Um leið getur þetta sama fólk ekki umborið skoðanir annarra og þykir ekkert tiltökumál að heimta að menn séu reknir úr starfi fyrir að viðra þær. Af hverju ekki að rökræða skoðanir Snorra í Betel í stað þess að reka hann út í hafsauga? Hvers lags umburðarlyndi er það?

Virðing fyrir skoðunum annarra er heimskuleg tugga sem skynsamasta fólk tyggur án umhugsunar. Ef þetta sama fólk væri aðeins til í að skoða hvernig það hefur myndað sér þær skoðanir sem það hefur, hvort þær séu fengnar fram með gagnrýninni hugsun eða verið sé að éta upp vinsæl hindurvitni úr umhverfinu... Ef fólk bara nennti að hugsa, þá yrði þetta samfélag strax mun betra.

Birgir Baldursson 17.02.2012
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Rökkvi Vésteinsson - 17/02/12 13:44 #

Ég er sammála þessu með misnotkun á "virðingu fyrir skoðunum annarra" eða "virðingu fyrir trú annarra" á þann hátt að maður eigi ekki að mega gagnrýna skoðanir eða trú annarra. Þetta er auðvitað mótsögn í sjálfu sér, því þetta sýnir ekki beinlínis virðingu fyrir skoðunum um skoðanir eða trú annarra.

Aftur á móti finnst mér rétt að reka Snorra, en það er af því að hann er kennari. Ef hann væri til dæmis forritari eða bifvélavirki er ekkert óeðlilegt að hann megi tjá þessar skoðanir sínar opinberlega. En ég sé ekki að maður sem predikar hatur og fyrirlitningu á vissum samfélagshópum og predikar jafnframt afneitun á sönnuðum vísindum (þróunarkenningunni) sé hæfur um að ala upp og mennta börn.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 17/02/12 13:58 #

En hefur það ekki komið fram að hann heldur þessum viðhorfum sínum frá kennslustofunni? Og vissu ekki vinnveitendur hans af þessum viðhorfum þegar þeir réðu hann til starfa?


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 17/02/12 14:35 #

Er ekki aðalmálið að það er gjarnan sama fólkið sem ber enga virðingu fyrir skoðunum Snorra í þessu máli (réttilega!) og lítur á Vantrúarseggi sem hin verstu fól fyrir að bera ekki skilyrðislaust virðingu fyrir skoðunum fólks?

Þannig skildi ég Birgi.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 17/02/12 14:45 #

Eiríkur Örn Norðdahl um málið.


Daníel Freyr Jónsson (meðlimur í Vantrú) - 17/02/12 14:50 #

Ég er persónulega frekar sammála Steinunni Stefánsdóttur um þetta en Eiríki Erni. http://visir.is/tjaningarfrelsi-og-abyrgd-kennara/article/2012702179963


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 17/02/12 14:54 #

Það er hluti af þessu, Ásgeir. Alvarlegri tónn greinarinnar (hafi það farið fram hjá fólki) er bannfæringarstemningin sem hefur myndast gagnvart vondum skoðunum. Ef enginn treystir sér til að ræða skoðanir Snorra við hann sjálfan, eða hverjir við aðra, mun hann eftir bannfæringuna halda áfram að burðast með skoðun sína og er kominn í píslavættishlutverk í þokkabót.

Nei, hann á að kenna áfram við skólann, en koma þarf honum og öðrum í skilning um það, með heiðarlegri rökræðu, að skoðanir hans eru rangar og skaðlegar. Foreldrar barna sem hann kennir gætu t.d. tekið upp þá umræðu við matarborðið og sýnt börnum sínum fram á það með einföldum rökum, t.d. þeim að samkynhneigð sé meðfædd, en ekki val manna.

Þeir gætu líka bent á að margt í Biblíunni sem tekið var gott og gilt gegnum aldirnar hefur nú verið afskrifað, t.d. blóðfórnir, aftökur, dauðarefsingar, kvennakúgun, þrælahald, fordæming á giftingum fráskilinna og þar fram eftir götum. Við gætum síðan öll spurt Snorra hvaða viðhorf hann hafi til þeirra hluta og af hverju hann hafi fallið frá bókstafnum þar, en ekki samkynhneigðarklásúlunum.

Ræða málin! Koma svo! Ekki banna og útiloka.


Eysteinn Björnsson - 17/02/12 15:49 #

Í allri þessari umræðu hafa mér fundist menn vera að tala mikið á skjön hver við annan - margir virðast rugla saman rétti Snorra til að hafa þessar skoðanir og tjá þær annars vegar, og hins vegar rétti hans til að vera grunnskólakennari með þessar skoðanir. (Ég styð hið fyrra, en ekki hið síðara.)

Persónulega sé ég engan mun á Snorra í þessu hlutverki og síðan þjóðkirkjuprestinum sem hefur greiðan aðgang að börnum innan veggja skólans. Báðir fá sama tækifærið til að miðla til barnanna skoðunum sem flestum finnst óviðeigandi á þeim vettvangi. Og auðvitað lesa börn blogg kennara sinna. Ég get ekki barist gegn því að prestar leiki lausum hala í grunnskólanum, og boðið Snorra síðan velkominn. Það er mótsögn í mínum huga.

Ég tek fram að mér finnst líka "óendanlega grunnhyggið" (svo ég noti orð BB) að líta svo á að maður eins og Snorri geti alfarið haldið skoðunum sínum utan skólastofunnar. Það hefur komið fram að börnin geri sér leik að því að veiða skoðanirnar upp úr honum, þannig að þau gera sér eflaust fulla grein fyrir því hvernig maðurinn er innréttaður. Skaðinn er skeður.

Ég er ekki frá því að nokkur tvískinnungur komi fram í málflutningi sumra hér. Getur verið að það sé vegna þess að undir niðri þyki það ekki stórmál þótt níðst sé á hommum og lesbíum? Einhvern veginn efast ég um að menn hér á bæ styddu "réttindi" Snorra jafn eindregið ef hann héldi því fram að svartir menn séu heimskari hvítum, konur óæðri körlum, eða börn girnileg.

Eða er ég að misskilja eitthvað?

Kveðja


Arnar Sigurður (meðlimur í Vantrú) - 17/02/12 22:09 #

Já þú ert að misskilja, Snorri er á valdi slæmra og hættulegra hugmynda og því á athyglin miklu frekar að beinast að málefninu og þeim hugmyndum sem hann aðhyllist heldur en honum. Það er rosalega einfalt að afgreiða Snorra bara sem eitthvern vitleysing og nöttara en ég veit um a.m.k einn biskupsframbjóðanda sem hefur nákvæmlega sömu skoðun og Snorri á þessu málefni, hugmyndir jú úr sömu bókinni...


Eysteinn Björnsson - 18/02/12 14:59 #

Ég biðst afsökunar á að hafa misskilið þetta.

Það stafar líklega af því að mér finnast börnin skipta meira máli en Snorri - mér þykir talsvert mikilvægara að vernda þau en Snorra. Svona getur maður verið einfaldur.

Svo það sé nú alveg á hreinu, þá vil ég ekkert frekar að þetta tilvonandi biskupsefni komi nálægt ómótuðum börnum. Og ég er ekki með það á hreinu hvers vegna Snorri á að komast upp með vítaverða hegðun, bara af því að aðrir hafa komist upp með slíkt hið sama. Einhvers staðar verður jú að byrja - þetta er fordæmisgefandi.

Og ég sé ekki alveg hvernig hægt er losna við hættulegar hugmyndir án þess að skipta sér að mönnunum sem dreifa þessum hugmyndum. En ég er auðvitað ekki alveg með á nótunum. Það eru greinilega sjálfsögð mannréttindi að mega stuðla að sjálfsvígum barna með opinberri orðræðu sinni.

Getur einhver sagt mér hvers vegna það er í góðu lagi að Snorri geti farið í skólann á hverjum degi og plantað þessum hugmyndum, beint og óbeint, í huga ómótaðra barna, á meðan það er EKKI í lagi að Gídeonsmenn mæti í sömu skóla og kenni börnunum að fara með bæn? Er bænin svona miklu skaðlegri en hómófóbían?

Kveðja


Matti (meðlimur í Vantrú) - 18/02/12 18:27 #

Það hefur enginn haldið því fram að það sé í lagi, hvað þá "góðu lagi", að Snorri boði fordóma sína gegn samkynhneigðum í skólanum. Hefur eitthvað komið fram í þessu máli sem bendir til að Snorri hafi gert það


Hanna Lára - 19/02/12 03:38 #

Ég vil árétta að ég skil mætavel hversvegna skoðanir Snorra sæta gagnrýni - enda gef ég sjálf ekki mikið fyrir þær.

Sömuleiðis er sjálfsagt að virða frelsi hans til að tjá sig, enda er ég rakinn andstæðingur ritskoðunar.

Að virða eingöngu tjáningarfrelsi og rétt þeirra sem eru sammála er óásættanlegt hverjum þeim sem vill telja sig siðaða og heiðarlega manneskju.

Ég myndi því verja rétt Snorra til að halda sínu starfi og rétti til að fara með bull, en áskija mér þann rétt að gagnrýna hann (harkalega) hvenær sem mér sýnist.


Guðjón Eyjólfsson - 19/02/12 11:52 #

Nú hefur það komið fram að samkynheigðum ungmennu í grunnskóla líður bölvanlega og þau séu til dæmis í meiri sjálfsvígshættu. Það er mjög billeg lausn á því máli að reka einn grunnskólakennara og sennilega í framhaldi af því útiloka fólk af hans tagi frá kennslu. Það er ekki nein raunveruleg lausn á þessu máli þó að menn geti í framhaldi af þessu klappað sé á bakið og sagt eru við ekki æðisleg- við létum þessa helvis trúarofstækismenn heldur betur finna fyrir því. Við búum í þjóðfélagi sem er þannig að samkynheigðum ungmennum líður illa og fá greinileg ekki þann stuðning sem þau þurfa. Það er mjög ólíklegt að herferð gegn bókstafstrúarmönnum sem starfa í skólakerfinu breyti miklu varðandi líðan þessara ungmenna. Af hverju byrja menn ekki á því að greina þessar orsakir í stað þess að blása upp eitt mál. Hér koma hagsmunir fjölmiðla- þetta er mál sem auðvellt er að slá upp og benda síðan á þægilega lausn sem er sársaukalaus og auðveld fyrir allan fjöldan- þ.e. herferð gegn fyrilitum minnihlutahópi sem er alveg gráupplaður til þess að bera sökin af vanda sem í raun og veru er flókin og á sér margvíslegar orsakir.


danskurinn - 19/02/12 13:14 #

„Það hefur enginn haldið því fram að það sé í lagi, hvað þá "góðu lagi", að Snorri boði fordóma sína gegn samkynhneigðum í skólanum. Hefur eitthvað komið fram í þessu máli sem bendir til að Snorri hafi gert það“

Það er erfitt að átta sig á því hvaða skilning fólk hefur á opinberri umræðu. Það að segja eitthvað í sjónvarpi eða útvarpi, skrifa greinar í blöð eða á vef er að koma fram opinberlega. Og það að boða fordóma sína gegn samkynhneigðum opinberlega er því að boða þá í skólanum þ.e.a.s ef skólinn er hluti af „opinberlega“ menginu.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 20/02/12 11:12 #

Eysteinn Björnsson, sem ég var að svara, líkti þessu saman við bænir í skólum. Ég geri greinarmun á því hvort að kennari eða prestur lætur börn fara með bænir í skólum eða hvort hann fer með bænir á opinberum vettvangi. Ég tel eðlismun á því. Ég hef aldrei andmælt því að prestar biðji bænir sjálfir eða láti börn biðja bænir í barnastarfi kirkjunnar.

Hvort að kristni er orðin svo mikið tabú að kennarar megi ekki ræða hana opinberlega utan skóla er önnur umræða. Ég samþykki að kennarar sinna það viðkvæmu starfi að þeir eiga að forðast álitamál á opinberum vettvangi, en það fellur ýmislegt annað en kristni undir það og þá er umræðan orðin dálítið vandmeðfarin. Fordómar Snorra eru ekki uppfinning hans! Hommahatur Snorra er kristið viðhorf, það er hluti af kristinni arfleifð íslenskrar menningar. Að sjálfsögðu á það ekki heima í grunnskólum.

Ef það er rétt að Snorri hafi áður fengið áminningu útaf ummælum sínum um samkynhneigð getur hann engum kennt um starfsmissi nema sjálfum sér.


Arnþór Jón - 20/02/12 14:00 #

Ég held að það sé ágætt viðmið að þegar kennarar hrauna opinberlega yfir hópa á grunni meðfæddra eiginleika þá séu þeir farnir yfir strikið alveg sama hvaðan hatrið er upprunið. Kynþáttur, kynheigð, fötlun (andleg og líkamleg) osfrv.


Eysteinn Björnsson - 23/02/12 10:02 #

http://www.akureyrivikublad.is/wp-content/uploads/2012/02/08-2012.pdf

Ég mæli með blaðsíðu 13.

Kveðja


Arnþór Jón - 23/02/12 10:22 #

Djöfull er ég ánægður með Pétur!!


Hanna Lára - 27/02/12 20:24 #

Bíðið nú aðeins hæg.

Í fyrsta lagi hefur (hin réttmæta) gagnrýni gegn Snorra beinst að því sem hann predikar yfir sínum söfnuði og á einhverjum bloggsíðum.

Það myndi nú æra óstöðugan að elta alla þá vitleysu sem um er bloggað.

Ég hef þó hvergi séð að Snorri sé gangrýndur fyrir það að predika þetta í starfi sínu sem grunnskólakennari. (Ef hann hefur gert það, hefur það farið fram hjá mér)

Í öðru lagi: Hvernig kennarar eru þá hættulausir fyrir börnin?

Mættu t.d. þeir kennarar sem eru í framboði fyrir pólitískan flokk búast við því að reynt yrði að bola þeim úr starfi vegna pólitískra skoðana?

Hér verður að ríkja samkvæmni. Ef málfrelsi, skoðanafrelsi, tjáningarfrelsi, persónufrelsi, trú- og trúleysisfrelsi og réttur til atvinnu á að ríkja um suma - verður það að eiga við alla.

Enn endurtek ég:

JÁ, Snorri hefur fullan rétt á því að fara með bull og þvaður á sínum einkavef í sinni einkakirkju - og þann rétt ber okkur að virða og verja, alveg eins og okkar réttur til að gagnrýna hann er óskoraður.

NEI: hann hefur engan rétt til að predika yfir þeim grunnskólabörnum sem hann er ráðinn til að mennta.

Að endingu fagna ég þessari umræðu og vona að áfram verði skipst á skoðunum á siðaðan máta, þótt einarður sé.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.