Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Einn á móti skrilljón

Stjörnur

Ég minnist þess ekki að mikið hafi verið skrifað á þessum vettvangi um rök trúaðra um fínstillingu veraldar til að réttlæta guðshugmynd sína. Þetta er þó atriði sem sífellt skýtur upp kollinum í trúarumræðunni. Reyndar finn ég umræðu um þessi mál hér og m.a.s yfirlýsingu frá sjálfum mér um að skrifa grein um málið, en að öllum líkindum hef ég svikið það.

Ég bæti úr því núna.

Ein af stóru spurningunum

Spurning trúaðra er í stuttu máli þessi:

Hvernig stendur á því að veröldin er svona fínstillt til að líf þrífist, ef enginn væri hönnuðurinn til að stilla alla þessa faktora rétt? Ef skeika myndi um einn á móti (mjög há tala) í fyrirkomulagi þessara lögmála hefði ekkert líf getað myndast.

Veröld hönnuð fyrir líf. Þannig vilja menn horfa á það.

Af öllum mögulegum gerðum alheima, með alls konar útgáfur af föstum og náttúrulögmálum, er aðeins ein tegund sem getur af sér alheim eins og þann sem við búum í. Og þar sem okkar alheimur er sannanlega til, þá þýðir það aðeins að þessir fastar eru með akkúrat "réttu" sniði í okkar tilviki. Hvað vitum við um hve margir alheimar eru í gangi, hver og einn með sinn hátt þessara fasta. Hvað vitum við um hve oft alheimar rembast við að myndast. Kannski er tíðni þeirra atburða slík að útilokað væri annað en að alheimur eins og sá sem hér er hefði myndast. Heimsfræðin tefla fram hugmyndinni um marga samhliða alheima, þar sem náttúrulögmálin eru mismunandi og aðeins í nokkrum þeirra eru þau þannig að líf geti myndast.

Heppni, hönnun eða eitthvað annað?

Það er svo aftur annað mál hvort heppilegur heimur lögmála sé hannaður til þess að geta af sér líf. Lífið gæti sem best verið ofureðlileg afleiða af því hvernig heimurinn er, án þess að gera þurfi heminum og eða hugsanlegum skapara hans einhver tilgang. Miklu fremur getum við fullyrt að lífið sé fínstillt fyrir veröldina og þróunarfræðin myndu styðja við þá fullyrðingu.

Alheimurinn er ekkert fínstilltur fyrir líf. Hann er einfaldlega alla veganna. Langstærstur hluti hans er mjög óheppilegur til að líf geti myndast. Hitastig spannar frá nærri alkuli til mörgþúsund gráða hita innan í sólstjörnum. Einhvers staðar hlýtur því óneitanlega að vera að finna svæði þar sem hitastig er heppilegt, hitastig þar sem t.d. efnasambandið vatn er á fljótandi formi.

Sama gildir um þyngdaraflið. Það spannar allt frá engu og upp í þrúgandi ótæpilegt. En kringum sólir svífa reikistjörnur og einhverjar þeirra eru óvart svo heppilega stórar að þyngdaraflið við yfirborð þeirra heldur vatni og andrúmslofti upp að sér þannig að þrýstingurinn skapi góð skilyrði.

Rök fyrir lífið

Ég er ekkert viss um að föst reikistjarna sem væri tvöföld stærð jarðar gæti alið af sér líf, jafnvel þótt hitastig væri þar hagstætt. Aðdráttaraflið sæi sennilega til þess að engin þau efnasambönd sem ala af sér líf gætu myndast og engar lífverur lifað af loftþrýsting og undarlegt veðurlag. En samt sem áður eru mögulega ótal slíkar reikistjörnur á sveimi í alheimi. Ef eitthvert undarlegt vitsmunalíf hefði náð að þrífast þar, skepnur sem þola allan þennan þrýsting og allt þetta aðdráttarafl, myndu þær sitja eins og við og hugleiða hvað alheimurinn er einmitt fínstilltur fyrir þær.

Segir það ekki allt sem segja þarf? Alheimurinn er líf-heppilegur í grunninn, en síður en svo líf-vinsamlegur í reynd. Á stöku stað ríkja þó heppilegar aðstæður. Og lífið þar lagar sig að aðstæðunum en ekki öfugt.

Einn á mót skrilljón. Slík rök eru einfaldlega engin rök.

Birgir Baldursson 20.01.2012
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Erna Magnúsdóttir (meðlimur í Vantrú) - 20/01/12 12:44 #

Það sem oft gleymist líka er tímafaktorinn. Hversu lengi lífið var að þróast í þá mynd sem er eitthvað í líkingu við það sem það er núna, þ.e. frumur með erfanlegt erfðaefni.

Er ekki líka nokkuð ljóst að ef líf þróast á annað borð, í hvaða heimi sem það væri, þá yrði lífið að taka mið af alheimsföstum þess alheims. Er það ekki bara augljóst mál að lífið á jörðinni er ekki eina jafnvægið sem gæti myndast, að ef fastarnir væru aðrir þá hefði bara þróast líf sem lyti öðrum lögmálum?


Carlos - 20/01/12 13:25 #

Ágætis samantekt, Birgir og Erna. Úttektir á borð við þessa hér fyrir ofan og undirliggjandi vísindi segja mér að það eina sem trúarbrögð geta gert andspænis slíkri þekkingu er að samþykkja hana og snúa sér að öðru en að reyna að tefla forvísindalegar heimsmyndir sínar gegn síbreytilegri þekkingu mannsins.

Styrkur trúar liggur annars staðar en í skýringum á uppruna veraldar.


Hjörtur Brynjarsson (meðlimur í Vantrú) - 20/01/12 15:22 #

Annað mikilvægt í þessu er að sama í hvaða alheimi vitsmunalíf myndast, sama í hvaða hluta þess alheims og sama á hvaða plánetu þess hluta lífið myndast, það mun ALLTAF líta þannig út að alheimurinn hafi verið hannaður utan um lífið sökum þess að lífið verður að aðlagast því ástandi sem það býr í, annars deyr það.

Ergo, þar sem er vitsmunalíf, þ.e.a.s. líf sem getur pælt í þessu, hefur það verið þar nógu lengi að það er búið að aðlaga sig mjög vel að umhverfi sínu og því er staðan orðin sú að hægt er að rembast við að sjá þetta frá hinni hliðinni, þ.e.a.s. að plánetan sem lífið er á og alheimurinn með, hafi verið hannaður fyrir vitsmunalífið sem getur spurt sig þeirrar spurningar.

Það sem er svo minna impressive af þessum guði sem á að hafa mixað þetta allt er sú staðreynd að nánast 100% allra lífsforma sem til hafa verið í sögunni eru útdauð, stór svæði jarðar halda upp litlu lífi til langs tíma og m.v. hvað alheimurinn er stór þá er fáránlega lítill hluti þess sem getur viðhaldið lífi, að undanskyldri allri gerðeyðingastarfseminni sem alheimurinn fremur daglega, gríðarleg geislun, öfgakennd hitastig og sveiflur, súpernóvur, svarthol, etc.

Ef verkfræðingur hefði hannað þennan alheim með það að markmiði að hlúa að og viðhalda lífi þá fengi hann eitt stórt flennifeitt ''F'' í einkun.


Guðmundur Þórarinsson - 20/01/12 15:41 #

Ég tek undir öll skynsamleg rök hérna og það eru þau öll, það er hinsvegar svo að þar sem okkur þrýtur skynsamleg rök (sem er yfirleitt mjög snemma fyrir mannkynið amk)þar tekur trúin við.

Neðanritað er ensk þýðing úr hinu upphaflega (sumsé ekki tilsniðin kirkjuútgáfa) faðirvori sem ritað var á "máli Jesú" Arameisku

Abwûn "Oh Thou, from whom the breath of life comes,

d'bwaschmâja who fills all realms of sound, light and vibration.

Ef að þið sýnið eðlisfræðingi þennan texta og spyrjið hann að því hvað Jesú gæti verið að tala um í honum, þá myndi sá hinn sami eðlisfræðingur nokkuð örugglega giska á skammtafræði.

Það er neðri tilvitnunin sem vekur hvað mesta athygli hér. Hér er Jesú að tala til Guðs sem augljóslega býr í alheimi sem fullur er af, hljóði,ljósi og titringi.

Tökum nú vísindalega skilgreiningu hér inní og lítum á þetta:

Ljós er rafsegulgeislun; sveiflur í rafsviði og segulsviði og í því felst orka. Í daglegu tali er ljós sá hluti rafsegulgeislunar sem er sýnileg mönnum (sýnilegt ljós) en í eðlisfræði er ljós rafsegulgeislun sem einkennist af bylgjulengd sinni, hvort sem það er sýnilegt eða ekki. Ljós hefur bæði eiginleika bylgna og agna. Það svið eðlisfræðinnar, sem snýr að rannsóknum á ljósinu, kallast ljósfræði og er mjög mikilvægt í nútíma eðlisfræði.

Þessi skilgreining í dag gæti kannski vakið spurningar hjá einhverjum, hvernig stendur á því að maður sem kallaði sig Jesú, hélt því fram löngu fyrir tíma skammtafræðinnar, ljósfræði eða eðlisfræði amennt að alheimurinn væri samanstandandi af þeim þáttum er í bæn hans getur?

Þ.e. Ljósi, bylgjuhreyfingu (titringi), og hljóði (hljóð skapar titring).

Árið 1923 varpaði Louis de Broglie, franskur námsmaður fram eftirfarandi kenningu:

If the fundamental building block of light, the photon, is a particle as well as a wave, is it possible that the basic units of matter, such as electrons, are waves as well as particles?

Tveimur árum seinna staðfestu tveir Bandarískir vísindamenn þeir C.J. Davisson og L. Germer, kenningu Broglie fyrir "tilviljun".

Lítum á aðra tilvitnun að gamni, upphaf Jóhannesar Guðspjalls: 1 Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð.

Er ekki verið að segja hér að Guð sé ORÐ,HLJÓÐ eða bylgjuhreyfing?

og samkvæmt ofangreindri kenningu þá hefur ljós möguleika á því að mynda efni þar sem það geymir í sér bæði agnir og bylgjuhreyfingu og efni hefur möguleika á hinu sama þar eð byggingarblokkir þess rafeindirnar geyma í sér sömu eigindi.

Þá komum við aftur að þessu, er þetta einn á móti skrilljón? Hvernig stendur á því að 2000 ára gömul skræða er full af tilvitnunum í að hið ríkjandi afl í þessari veröld séu akkúrat þessi fyrirbrigði sem að nútíma eðlisfræði er fyrst að uppgötva nú á síðustu áratugum?

Úrþví við vitum ekki meira en raun ber vitni og hlytum að hafa talist algerðir bjánar hvað þetta varðar fyrir 2000 árum síðan, er þá ekki mögulegt að eitthvað meira sé að fara framhjá okkur?

Ef að við sjálf höfum t.d. aðlagast lífinu svona vel í þessum tilviljanakennda alheimi, er þá ekki rétt að álykta sem svo að við hljótum að líkja að einhverju leyti eftir honum? Þróast til aðlögunar ef svo má að orði komast. Andlegt atgerfi okkar hlýtur þá að taka til sín einhver eigindi úr umhverfinu eða kosmósinu jafnt sem hið veraldlega atgerfi, eða hvað? Segjum t.d. viljinn til framkvæmda? Hvað ef við kæmumst nú að því "fyrir tilviljun" á morgun að alheimurinn sem við búum í hafi sinn vilja líka?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 20/01/12 15:56 #

Þar sem þekkinguna þrýtur tekur trúin við, segirðu. Því miður er það þannig enn með marga meðbræður okkar. En í ljósi þeirra áhalda sem mannkynið býr að í dag, s.s. vísindalegrar aðferðar, stærðfræði, raungreina o.s.frv. ætti orðatiltækið fremur að vera: Þar sem þekkinguna þrýtur tekur leitin við.


Guðmundur Þórarinsson - 20/01/12 16:05 #

Jú það er rétt og maður byrjar víst ekki að leita að einhverju nema maður trúi því að það sé til, eða amk týnt.


Hjörtur Brynjarsson (meðlimur í Vantrú) - 20/01/12 16:48 #

@Guðmundur:

Munurinn á vísindamönnum og trúmönnum í þessu samhengi er einkum sá að vísindamenn viðurkenna að þeir viti ekki hvað er handan við mörk hins þekkta en þá dauðlangar að komast að því og elta sönnunargögnin þangað sem þau leiða. Trúmenn hinsvegar segjast vita hvað er hinum megin og sjá því engan tilgang að vera að eltast við þá hluti vísindalega, bókin er nóg.

Svo er það alls ekkert endilega þannig að þú verðir að trúa því að það sé eitthvað að finna, það að það sé EKKERT að finna er ein tegund svars þó það sé harla ólíklegt að leitin endi þannig, alheimurinn virðist alltaf hafa eitthvað nýtt að færa okkur þegar við stígun næsta skref í viðleitni okkar að skilja hann.


G2 (meðlimur í Vantrú) - 20/01/12 17:00 #

@GÞ

Það að biblían (eða Jésu) segi eitthvað um skammtaeðlisfræði er náttúrulega bara bull. Það er hægt að taka nánast hvaða texta sem er og snúa upp á hann einhverri 'speki'.

Hvað segir annars Jésú um M-kenninguna og strengjafræðina?


Guðmundur Þórarinsson - 20/01/12 17:32 #

Að vita ekki hvað er handan við mörk hins þekkta, er ekki það sama og að afneita tilvist EINHVERS þar. Ef að þú trúir ekki, þá einfaldlega læturðu það eiga sig ekki satt?

Ef að vísindamenn eru teknir sem dæmi þá er frekar ólíklegt að til dýrra og flókinna rannsókna sé stofnað ef að enginn sem nálægt verkefninu kemur trúir því að hvorki vegferðin né niðurstaðan skili sér í einu eða neinu. Þá er fjármögnun verkefnis með slíka yfirskrift ábyggilega frekar erfið.

Þessutan að ef viðkomandi trúir því allsekki að hann fái fjármögnun fyrir einhverju sem hann trúir allsekki að skili neinum árangri, þá verður þetta ferðalag varla mikið lengra, eða hvað?

Jesú hafði þetta að segja um M-kenninguna og strengjafræðina:

Leitið og þér munuð finna.

Knýið á og yður mun upplokið verða.

En hann benti líka á að án trúar væri ómögulegt að þóknast þeim sem alla vitneskju í alheimi hefur þ.e. Guði almáttugum.

Eða með öðrum orðum, ef að þú ekki trúir, þá munt þú ekki leggja af stað til að leita og þarafleiðandi ekkert fá að vita, og ekkert skilja.


G2 (meðlimur í Vantrú) - 20/01/12 19:08 #

Ef að vísindamenn eru teknir sem dæmi þá er frekar ólíklegt að til dýrra og flókinna rannsókna sé stofnað ef að enginn sem nálægt verkefninu kemur trúir því að hvorki vegferðin né niðurstaðan skili sér í einu eða neinu. Þá er fjármögnun verkefnis með slíka yfirskrift ábyggilega frekar erfið.

Þetta er einmitt það frábæra við vísindin - fólk þarf að hafa einhverja hugmynd, rökstudda tilgátu eða vísbendingar til að fá hljómgrunn. Með trúna þarf hins vegar ekkert slíkt. Það er alveg sama hvaða rugl fólki dettur í hug, allt er jafngilt - byggjum margmilljarða musteri, setjum fólk á launaskrá hjá ríkinu, blöðrum þvælu út og suður og allir eru kátir. Engin skynsemi, ekkert vit. Til að stunda vísindi og gagnrýna hugsun þarf ekki trú, heldur skynsemi og athygli.

Mér finst Ésú, ræfillinn, heldur slappur í eðlisfræðinni ef hann hefur ekkert gáfulegara að segja um M-kenninguna og strengjafræðina.


Guðmundur Þórarinsson - 20/01/12 20:35 #

Rökvissuna fyrir trú þinni eða vantrú geturðu fengið með því að leita. Það getur enginn annar en þú ekki satt.

Hvað margmilljarða musteri varðar þá er nóg til af fólki, sem eftir leit sína hefur fundið það út að ÞEIRRA SJÁLFRA hagsmunum sé best varið með því að hafa peninga af trúgjörnu fólki, fólki sem er tilbúið að trúa hvaða vitleysu sem er vegna þess einfaldlega að það nennir ekki að leita Guðs og heldur að það fái frið í samviskuna með því að kaupa hann.

Biblían er meira að segja full af frásögum af slíku fólki. Kóngum og prelátum.

Þú sérð það hinsvegar HVERGI í sögunni um Jesú Krist að hann hafi krafist slíks, reynt að pretta af fólki peninga eða ljúga að því sjálfum sér til hagsbóta.

Þvert á móti sagði hann, ÞÚ SJÁLFUR ert musteri Guðs, því himnaríki er í sál þinni og hvergi annarsstaðar. Leitaðu innra með þér að þesum fjársjóð og þá finnurðu hann, þar liggur öll þekking og öll viska.

Þér hefur verið gefin hún af þeim sem allt skapaði, en því miður er mannkynið orðið svo sjúkt að það verður að hafa fyrir því að nálgast þennan sjálfsagða hlut og grafa sig í gegnum drulluna sem það hefur hlaðið utan á sálina með fordómum, hjátrú og öðru slíku.

Gerðu eins og ég og vertu tilbúinn til þess að leggja jafnvel líf þitt í sölurnar fyrir vini þína, þá ert þú sannur vinur.

Fyrirgefðu þeim sem að gera á hlut þinn, alveg sama hvað það er. Það er þín sjálfs vegna líka því ef þú gerir það ekki, þá eyðileggur þú það dýrmætasta sem þú átt sem er sálarheill þín.

Hvern þú hefur verið að hlusta á félagi þegar þú fórst að mynda þér skoðun á kristi er alveg greinilegt.

Þú hefur verið að hlusta á þá sem þú ert að gagnrýna (réttilega) og kokgleypt á lygina hjá þeim um að þeir væru Kristnir.

Hann kom einmitt til þess að losa fólk undan því að þurfa að hlusta á rugludalla á borð við þá sem þú ert að lýsa. Hversvegna í ósköpunum heldurðu að þeir séu bissí við að ljúga að þér um það hver Kristur var? Hvern heldurðu að Kristur hafi verið að tala um þegar hann talaði um djöfulinn? Rauðan púka með horn og klaufir?

Aldeilis ekki, hann var stöðugt að kenna fólki að fást við sínar eigin hugsanir og ekkert annað. Græðgi og heimska verður hvergi til nema í hausnum á fólki...andaverur vonskunnar í himingeimnum talar hann um. Snúðu þessu yfir á nútíma mál og þá færðu einfaldlega:

Þegar ein belja mígur, þá þurfa þær allar að míga. Ef þú hefðir haft augun hjá þér fordómalaust þá hefðirðu séð þetta. Illur vilji, vilji til þess að gera hluti á kostnað annarra sameinar fólk alveg eins og hið góða.

Það þurfti ekki nema EINN MANN til þess að fá HEILA ÞJÓÐ til þess að sameinast um að slátra 6 milljónum í seinni heimstyrjöld.

Ertu að kveikja á perunni? Hvað er hægt að tala um annað en að slík vonska og öll vonska, því hún er eins í eðlinu geti kallast annað en andavera vonnskunnar í himingeimnum?

Hérna getur þú svo aftur staðfest það sem ég sagði hér áður. Hvernig fékk þessi eini maður illsku sína til þess að ferðast inn í huga heillar þjóðar? Hann TALAÐI við fólkið, ekki satt? Orð hans flugu um himingeiminn, eins og það hefði kannski verið orðað fyrir 2000 árum síðan.

O


Bergur Ísleifsson - 20/01/12 23:04 #

... og það er nákvæmelega út af þessu sem Guðmundur Þórðarson hefur verið að segja hér sem ekki má rugla saman trú og trúarbrögðum.


Bergur Ísleifsson - 20/01/12 23:08 #

... Þórarinsson ... afsakið.


G2 (meðlimur í Vantrú) - 21/01/12 01:16 #

Á hverju ert þú nafni?


danskurinn - 21/01/12 01:25 #

„Einn á mót skrilljón. Slík rök eru einfaldlega engin rök.“

Ok, en skrilljón skrilljónir, eru það rök?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 21/01/12 05:12 #

Rökvissuna fyrir trú þinni eða vantrú geturðu fengið með því að leita. Það getur enginn annar en þú ekki satt.

Markviss leit með traustum aðferðum skilar sam-mannlegri þekkingu, Guðmundur. Við þurfum ekki hvert og eitt að afla upplýsinganna. Það er innbyggt í kerfið að nýjar og betri upplýsingar leysi þær eldri af og næsta öruggt að hinum sérfróðu gangi betur að leiða þekkinguna í ljós undir ströngu aðhaldi hvers annars, en ef allir væru að fúskast við þetta heima hjá sér, hver í sínu horni.

Þar með er ég ekki að hengja mig í vísun í yfirvald sem röksemd heldur frekar að lýsa yfir trausti mínu á hinni vísindalegu aðferð.


Þórður Magnússon - 21/01/12 18:20 #

Þessi heimur sem við lifum í er alls ekki fínstilltur fyrir líf, til dæmis hefur súrefnismagnið bæði verið minna og miklu meira í andrúmslofti en nú er á mismunandi tímum. En það líf sem er á jörðinni á hverjum tíma er fínstillt fyrir þann veruleik sem það lífir í. Orsakasamhengið er því akkúrat öfugt. Nú hefur fundist líf við neðansjávarhveri þar þrýstingurinn er ógurlegur og hitinn yfir 100 gráður. Er sá heimur fínstilltur fyrir líf eða lífið sem þar þrífst fínstillt fyrir þær aðstæður?

Líkurnar á því að allt annarskonar líf þrífist á öðrum hnöttum er eiginlega svo yfirþyrmandi að allt annað telst nánast óhugsandi. Við höfum fundið líf á jörðinni okkar við aðstæður sem fyrir örskömmu þóttu áhugsandi. Vitsmunalíf - þ.e. á okkar vitsmunastig eða meira er útilokað að spá um, en hvers vegna ekki?


Guðjón Eyjólfsson - 21/01/12 18:58 #

Það er tilgangslaust að rífast um þessa hluti en ég hvet alla til þess að lesa Skipulag alheimsins eftir Hawkins og Mlodinow. Í framhaldi af því hvet ég menn til þess að mynda sér sjálfir skoðun á þessum málum og láta ekki aðra hugsa fyrir sig hvort sem þeir heita Birgir Baldursson eða eitthvað annað. Ef menn lesa þessa bók af athygli er hægt að finna þar margt áhugavert, en reyndar ekkert sem ég hef áhuga á að ræða á þessum vettvangi. Ég vil hins vegar vekja athygli á að hvort sem menn eru trúaðir eða ekki er það staðreynd að heimsmynd okkar tíma byggir á eðlisfræðinni sem er að mínu mati afskaplega áhugaverð og býður uppá margvíslegar túlkanir. Trúað fólk ætti ekki óttast vísindi- þó að vísindamenn séu flestir trúleysingjar. Ég hef þá sögu að segja að kynni mín af vísindum bæði vegna starfs míns og menntunar og sem áhugmál eru á einn veg. Öll minnimáttakenda gagnvart vísindamönnum er horfinn og auk þess sem ég lít á þá sem hverja aðra menn sem er ekkert öðruvísi en annað fólk þegar kemur að málefnum sem þeir hafa takmarkað vit á.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 21/01/12 19:06 #

Í framhaldi af því hvet ég menn til þess að mynda sér sjálfir skoðun á þessum málum og láta ekki aðra hugsa fyrir sig hvort sem þeir heita Birgir Baldursson eða eitthvað annað.

Á þessum tímapunkti er rétt að benda á að þessari grein er ætlað að tækla "einn á móti skrilljón" rökleysuna fremur en fjalla af einhverri nákvæmni um heimsfræðin. Þau hef ég einfaldlega ekki forsendur til að úttala mig mikið um. Endilega lesið Hawking og aðra þá sem búa að fræðilegri þekkingu á málunum.


Guðjón Eyjólfsson - 21/01/12 19:53 #

Það er gott að við getum verðið sammála um eitthvað þ.e. að áhugamenn um heimsfræði ættu endilega að lesa bók Hawkins.


danskurinn - 21/01/12 20:52 #

„Á þessum tímapunkti er rétt að benda á að þessari grein er ætlað að tækla "einn á móti skrilljón" rökleysuna fremur en fjalla af einhverri nákvæmni um heimsfræðin.“

En „skrilljón skrilljónir“ eru þá sama rökleysan, þ.e.a.s. sú trú að svo mikið sé til af veröldinni og í svo langan tíma, að hvaða vitleysa sem manni dettur í hug hljóti að vera efnisleg staðreynd einhvers staðar einhvern tíma? Að úlfaldinn komist í gegnum nálaraugað ef hann rembist nógu lengi.

Og fyrst minnst var á Hawking þá hefur hann hafnað samhliða alheimsþvælunni (sem hann bjó til sjálfur)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 21/01/12 22:29 #

Það er allt önnur umræða, danskurinn.


danskurinn - 21/01/12 23:01 #

Mér sýnist þú halda fram sömu rökleysu og þú er sjálfur að gagnrýna. "...alheimar rembast við að myndast..Kannski er tíðni þeirra atburða slík að útilokað væri annað en að alheimur eins og sá sem hér er hefði myndast."

Hvað er þetta annað en sama rökleysa og "ein á móti skrilljón" rökleysan? Er ekki alveg eins hægt að segja "alheimar rembast við að myndast ekki"?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 22/01/12 00:28 #

Ég segi ítrekað "hvað vitum við um það". Ég er ekki að uppfræða nokkurn mann um heimsfræðin hér, heldur að benda á veilu rökleysunnar sem greinin fjallar um. Ég hefði reyndar alveg eins getað tekið dæmi um happdrætti. Ef skrilljón miðar hafa selst og einn vinnur, þá gætu sumir sagt að fyrst líkurnar á að einn hafi unnið séu einn á móti skrilljón þá geti hann ekki hafa unnið. En jú, hann vann nú samt.

Ef við snúum því við og segjum að fyrst skrilljón miðar séu í umferð (eða skrilljón skrilljónir fyrst þú endilega villt) og að þar með hljóti einhver eða einhverjir að vinna (skv. líkindareikningi) þá er það ekki rökleysa, heldur stærðfræði.


danskurinn - 22/01/12 01:15 #

Rökleysa jésúhoppara er, að fyrst svo litlar líkur séu á tilvist okkar hljóti guð að hafa haft hönd í bagga.

Rökleysa þín er að fyrst veröldin er svo ógnarstór og gömul að þá hljóti tilvistarlíkurnar að vera nægar til að gera guð óþarfan.

Og hvað merkir "alheimar rembast við að myndast"? Er þetta einhver stærðfræði?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 22/01/12 02:35 #

Myndræn stílísering. Eða tilraun til húmors. Ég veit það ekki, ég skrifa bara svona.

Rökleysa þín er að fyrst veröldin er svo ógnarstór og gömul að þá hljóti tilvistarlíkurnar að vera nægar til að gera guð óþarfan.

Ég man ekki betur en að hafa talað um marga alheima, svona eins og heimsfræðin gera. Þær pælingar eru auðvitað handan allrar vitneskju. Það sem við þó vitum er að a.m.k. einn alheimur eins og sá sem við lifum í hefur myndast, hvað sem líður öllum líkindum og skrilljónum.


Reputo (meðlimur í Vantrú) - 22/01/12 12:44 #

Hérna er mjög skemmtilegt video frá Phil Hellenes sem kemur inn á þessar pælinga ykkar:

http://www.youtube.com/watch?v=VdRCPjXn1DY&feature=share


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 22/01/12 15:53 #

Fín grein...

Í hreinskilni sagt finnst mér alltaf hálf hjákátlegt þegar reynt er að færa "rök" byggð á stærðfræði fyrir því að heimurinn hljóti að hafa verið skapaður af einhvers konar æðri veru.

Fyrir það fyrsta er þessi "fínstillingarrök" fullkominn misskilningur á líkindareikningi.

Og það sem verra er.. jafnvel þó þau stæðust eru það engin rök fyrir að einhvers konar sköpun.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.