Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kæri Þórhallur Heimisson

Rósir

Þrátt fyrir að mannréttindaráð hafi lagt bann við trúboði þá á ég bágt með að trúa því að þú - háskólagengni og víðlesni embættismaðurinn - sért það illa að þér að þú getir virkilega haldið því fram að grunnskólabörn í Reykjavík megi ekki fyrirgefa?

Hatur á Faðir vorinu

Rétt er það að Faðir vorið kennir lítillega um fyrirgefningu. En þessi bæn er enginn altækur grundvöllur fyrir fyrirgefningu. Kristni hefur ekkert einkaleyfi á góðum siðum og siðferði.

Þú heldur því fram að Besti flokkurinn og Samfylkingin hati kristni. Þín orð. Hefurðu eitthvað fyrir þér í því annað en reglurnar sem mannréttindaráð þar sem öllum trú- og lífskoðunarfélögum er bannað að boða trú sem og lífsskoðun sína í grunnskólum Reykjavíkurborgar?

Skuldunautum

Fyrirgefningin sjálf er ekki bönnuð. Enda er það góð framkoma og til eftirbreytni að fyrirgefa þeim sem hafa gert á hlut annars. Er það ekki þannig sem kristnin kennir þetta? Að iðrast hafi maður gert rangt? Að minnsta kosti segir í Faðir vorinu:

[...] fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.

Það stendur líklegast í Biblíunni að fólk eigi að iðrast hafi það gert eitthvað slæmt á hlut annars. Þetta er hins vegar - eins og fyrirgefning - ekki sérkristið fyrirbæri heldur er hér um siðlega framkomu að ræða, algerlega óháð trú og annarri lífsskoðun.

Meint ofstæki borgarráðs

Þetta er ekki ofstæki. Málið snýst einfaldlega um að það er ekki hlutverk skólanna að bjóða trú- og lífskoðunarfélögum í heimsókn til þess að gefa helgirit sín eða stunda trúboð á annan hátt.

Það sér það hver heilvita manneskja að það er á ábyrgð foreldra að fara með börn sín á helgistaði, hvort sem það er Þjóðkirkjan, félagsheimili Ásatrúamanna, félagsheimili þeirra sem iðka Islam eða hvaða annan stað, til þess að börnin geti fengið að kynna sér trú þess félags sem heimsótt er.

Ofstækið er að vilja vaða fram og troða sínum skoðunum framan í aðra.

Rólegur Þórhallur

Þú setur mál þitt fram á þann hátt að þeir sem eru ekki sammála þér og skoðanabræðrum þínum hljóti að hatast við skoðanir ykkar. Það er ykkur alls ekki til sóma. Einnig má túlka mál þitt, eins og þú setur það fram, á þann hátt að þeir sem eru ekki kristnir séu ekki færir um að fyrirgefa og finnst mér það mjög móðgandi þar sem ég er trúlaus.

Ég tel mig samt sem áður fullfærann um að sýna náungakærleik, taka tillit til annarra og fyrirgefa þeim sem hafa gert á minn hlut og ferlið mundi ganga hraðar fyrir sig ef viðkomandi biðst afsökunar.

Meginpunkturinn minn með þessu svari er sá að ég óska eftir virðingu fyrir skoðunum annarra. Þrátt fyrir að þú - og skoðanabræður þínir - séuð ósammála. Umtöluð virðing hefur þó ekki farið hátt í málflutningi ríkiskirkjunnar undanfarið. Það er miður.

Kær kveðja

Mig langar í leiðinni að benda á pistil sem ég skrifaði í félagi við vin minn. Þar má finna nokkrar vinsamlegar ábendingar til ykkar allra - en þó sérstaklega kirkjunnar manna - er varðar háttsemi.

Að lokum óska ég þess að þú sjáir að þér og vandir orðalag þitt og sýnir þeim sem deila ekki skoðunum þínum á trú, sem og öðru, þá virðingu sem þú vilt að aðrir sýni þér og bið þig því vel að lifa.

Með virðingu og vinsemd,

Kristján Fenrir Sigurðarson 30.11.2011
Flokkað undir: ( Aðsend grein )

Viðbrögð


JohannV - 30/11/11 13:14 #

Flott svar.
Ólíkar skoðanir hljóta að þíða hatur jafnt og Kristin trú jafngildir góðmennsku.
Hugsar enginn hérna um öll börnin sem "munu" lenta í voða seinna á lífsleyðinni vegna þess að þú fengu ekki að endurtaka faðirvorið.
Skal viðurkenna að hugsunin um helvíti virkaði ágætla á mig sem barn. Líka það sem mér gremst mest við skipulagða trú, að predika/"heilaþvo" svona "fallega" hluti yfir börnum.



Jón Ferdínand - 30/11/11 13:25 #

Ekkert nema helgislepja og lýðskrum í honum Þórhalli! Honum er byrjað að svipa til hans Jón Vals Jensens hvað ritskoðun varðar þar sem hann birtir ekki kommentin mín á þessarri bloggfærslu né komment Mána úr Harmageddon, en hann var að tala um þetta blogg í gær og setti þar inn komment lýsandi vanþóknun sinni á þessum heimskulegu ummælum.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 30/11/11 14:40 #

Meginpunkturinn minn með þessu svari er sá að ég óska eftir virðingu fyrir skoðunum annarra.

Eiginlega varð mér um og ó að lesa þessi orð. Aldrei hefði mig órað fyrir því að sjá á forsíðu Vantrúar kröfuna um að borin sé virðing fyrir skoðunum náungans. Ritstjórnarstefnan hefur ævinlega hljóðað upp á hið gagnstæða.

En svo rak ég augun í að þetta er lesendabréf og mér varð rórra.


Arnold Björnsson - 30/11/11 19:16 #

Sama og ég hugsaði Birgir. Ég tók ekki eftir að þetta væri lesendabréf. Það er fráleitt að allar skoðanir eigi virðingu skilda. Ég get t.d. ekki borið virðingu fyrir skoðunum Andreas Brevik.


Hanna Lára - 03/12/11 17:02 #

"Að bera virðingu fyrir skoðunum annarra" er gömul klisja af sama meiði og ruglið um að "sjaldan sé eins sök ef tveir deila".

Eg aðhyllist þá kenningu að slíkt orðagjálfur sé uppfundið af vandræðagemsum, sem áttu erfitt með að axla ábyrð af gerðum sínum og fundu þá upp sakar-endurkast/sak-dreifingu (e: blameshifting).

Því miður kokgleypti alþýða manna þessa vitleysu og heldur henni fram ennþá - eins og um einhver dýrindis sannindi væri að ræða.

Ég harðneita að bera virðingu fyrir ógeðfelldum og kolvitlausum hugmyndum. Hinsvegar er réttur fólks til að hafa slíkar hugmyndir 'heilagur' (ef ég má nota það orð). Ég myndi jafnvel standa vörð um mál- trú - og tjáningarfrelsi presta og pamfíla ef einhver ætlaði að setja því skorður! En ég mun ALDREI virða þær skoðanir sem t.a.m. Þórhallur,Örn Bárður, Karl og fleiri hafa básúnað yfir alþjóð (á fullu kaupi, NB).

Er þetta ekkert að komast til skila ?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.