Á heimasíðu ríkiskirkjunnar voru nýlega birtar tillögur á nýjum lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Fyrir þá sem þekkja ekki til, þá er um að ræða lög sem Alþingi breytir, en kirkjuþing samþykkir oft breytingar og biður innanríkisráðherrann um að flytja þær á Alþingi. Mér finnst þessar tillögur vægast sagt mjög undarlegar.
Það sem er undarlegt er að kirkjan skuli á annað borð vilja svona reglur. Ef maður skoðar núverandi lög kirkjunnar eða tillögur, þá eru þarna til dæmis reglur um hve oft aðalsafnaðarfundi skuli halda, hverjir geti orðið prestar ríkiskirkjunnar og regla um að biskupinn eigi að skipa nefnd til að fjalla um kenningarnefnd.
Maður hlýtur að spyrja sig hvort að allt tal ríkiskirkjufólks um að kirkjan þeirra sé sjálfstæð sé bara innihaldslaust blaður, þegar þetta fólk vill í raun og veru fá reglur frá Alþingi um grundvallarskipulag hennar. Ef það væri eitthvað að marka málflutning þeirra, þá ætti kirkjan auðvitað að vilja fella eins mikið úr gildi í þessum lögum og hún getur, og setja þessar reglur sjálf. Kirkjuþing ætti að sjá sóma sinn í því að gera þær breytingar á þessum tillögum sínum, eða þá að viðurkenna að þau vilji áfram vera í ríkiskirkju.
En endanlegt ákvörðunarvald er auðvitað hjá Alþingi. Ef ríkiskirkjan tekur þá ákvörðun að vilja enn fá reglur frá Alþingi um innra starf sitt, þá ætti Alþingi samt að gera þessa breytingu. Alþingismenn hljóta að sjá hversu óeðlilegt það er að þeir séu að setja reglur um starfsemi einhvers trúfélags, sérstaklega þegar það trúfélag segist vera sjálfstætt. Þeir hljóta flestir að sjá að það sæmir ekki nútímalegu lýðræðisríki að hafa ríkiskirkju.
Hvernig það eigi að haga málum svo að þetta félag verði ekki alveg án reglna og hvort það séu einhver ákvæði þarna sem er ekki hægt að fella úr gildi eða ekki eru tæknileg úrlausnarefni. Hugsanlega eru einhver rök fyrir því að það eigi að halda eftir einhverju þarna, til dæmis tveimur stuttum köflum í lok laganna sem innihalda efni samnings kirkjunnar og ríkisins um jarðir.
En ég sé ekkert sem mælir gegn því að stærsti hluti laganna, kaflarnir “Stjórn og starfsskipan” og “Starfsreglur” verði einfaldlega strikaðir út, og löggjafarþingi kirkjunnar sjálfrar, kirkjuþingi, verði gert að sjá um lög kirkjunnar. Þetta eru útfærsluatriði, en markmiðið ætti að vera ljóst, það á að reyna að henda eins miklu út eins og mögulegt er.
Það hefur lengi verið ljóst að meirihluti þjóðarinnar vill aðskilnað, enda eru góð rök gegn því að ríkið sé að stjórnast til með eitt ríkistrúfélag. Það væri eflaust miklu snyrtilegra ef kirkjan sjálf væri með í þessu ferli, en ég tel ekki líklegt að það sé innistæða á bak við áróður klerkanna um sjálfstæði kirkjunnar. Líklega þyrfti Alþingi að gera þetta í óþökk ríkiskirkjunnar, en það væri ekki í fyrsta skiptið sem Alþingi styddi réttlætismál í óþökk hennar.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Baldurkr - 26/10/11 14:03 #
E.t.v. Verda breytingar á Kirkjuthingi í thá átt sem thú nefnir. Kv. B