Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Blekking og þekking 1948

Doktor Dungal

Níels Dungal var á meðal fárra manna á Íslandi sem hafði hugrekki til að gagnrýna opinberlega kukl og hindurvitni á fyrri hluta 20 aldar. Níels lýsti sig opinberlega trúleysingja, en slíkt þorðu fáir á þeim tíma. Nær engir trúmenn þorðu að stugga við Níels sem var brimbrjótur fáfræði og endalausrar trúgirni Íslendinga.

Mögnuð bók hans “Blekking og þekking” kom út árið 1948. Hún olli ákveðnum þáttaskilum í gagnrýni á heilaga Kristni og kirkju sem Íslendingar höfðu stundað af fullkominni undirgefni um aldir. Margir vildu banna bókina fyrir guðlast en á endanum ákváðu kirkjuyfirvöld að horfa framhjá henni til að forðast frekari átök, enda hafði Níels stillt guðlastdómum og bannfæringum kirkju upp við vegg.

Doktor Dungal

Ögn um Níels Dungal

Þórarinn heitinn Guðnason læknir lýsti svo í minningarorðum um Níels: “Hann bar ótakmarkaða virðingu fyrir vísindalegri hugsun og vinnubrögðum og fyrirleit af heitu hjarta allt kukl og hindurvitni. Ég hef fáa menn þekkt sem áttu jafn brotalausa lífskoðun, enda var hún honum sá eldstólpi sem vísaði veginn á hverju sem gekk”

Níels var frumkvöðull í læknisfræði á Íslandi. Hann hóf starfsferil sinn sem almennur læknir og starfaði svo síðar á sviði líffærameina- og réttarlæknisfræði. Hann var rektor Háskóla Íslands á árunum 1936 til 1939. Níels lét byggja Blóðbankann, stóð ásamt fleirum læknum að stofnun Krabbameinsfélags Íslands og stundaði rannsóknir á krabbameini í lungum og maga sem vöktu heimsathygli.

Alla tíð hafði hann mikinn skilning á þörfum fólks fyrir læknishjálp og heilsuvernd og var mjög vel að sér í sýklafræði. Frá upphafi fékkst hann við bólusetningar og aðrar varnir gegn ýmsum barnasjúkdómum; mislingum, kíghósta og barnaveiki. Níels stóð öðrum fremur fyrir því að taugaveiki og barnaveiki var útrýmt á Íslandi.

Brot af því "besta"

Gagnrýnendur fóru á taugum árið 1948 vegna bókar Níels Dungal. Sigurbjörn Einarsson skrifaði í Morgunblaðið 3. september sama ár gagnrýni undir fyrirsögninni “Blekking og hvað?” Segja má að lýsingar Níels Dungal á meðferð kristninnar á mönnum og málefnum fékk Sigurbjörn til svíða undan, því hann féll í þá grifju að beita fyrir sig stórfelldum niðursetningarvaðal af sinni einstöku hrákaritgleði. Grípum niður í gagnrýnina:

[...] í einstökum atriðum minna svo mjög á stig trúmálaumræðnanna hjá okkur forðum daga í 2. og 3. bekk, að það er nálega með ólíkindum. Höfundur hefur aðeins komist yfir fleiri skruddur og tínt meira í sarpinn en við höfðum tök á í þá daga [...]

Enginn leggur sig niður við að svara slíkri “árás” sem er langt fyrir neðan það lágmark, sem gera verður til svaraverðar ádeilu [...]

[...] Höfundur kann ekki nokkur skil á því, sem hann er að skrifa um [...]

Slík eru vinnubrögð þessa höfundar og sannfræði bókarinnar. Það þarf ótrúlega kergju til þess að setja saman bók upp á meira fimm hundruð bls., þusandi svona í sífelldu kafi botnlausrar vankunnáttu um þau efni sem hún fjallar um [...]

[...] en þessi bók vekur einkum efasemdir um höfundinn [...]”

Fimm dögum síðar skrifar P. V. G. Kolka (1895-1995) læknir - sem var mikill trúmaður og kirkjuvinur - af bræði: “Bók hans er líkhússkýrsla, en ekki lífrænt verk. Það leggur af henni nálykt, en ekki ilm lífsins”. #

Í Tímanum þann 23. sept. 1948 skrifar Halldór Kristjánsson með fyrirsögninni “Skotið fram hjá marki” og þvær hann kristnar hendur sínar með orðunum:

[...] að sumir vildu banna slíkar bækur [...]

[...] þó að hún fari raunar utangarðs að mestu eða öllu [...]

Kirkjuritið ársins 1948 lætur sitt ekki eftir liggja og breiddi ritið út sinn kærleiksríka faðm með niðrandi ummælum um Níels Dungal:

[...] og hefði hann (Dungal) þó mátt mikið læra af móðurbróður sínum [...]

[...] hefði helst verið ástæða til að fara nánar og leiðrétta villurnar, sem úir og grúir af. En leiðréttingarnar yrðu og löng skrá fyrir stuttan ritdóm, þær mundu verða heil bók [...]

[...] Bókin er undarlega ómerkileg [...]

Auglýsing

Hér er lokakafli bókarinnar Blekking og þekking:

ÁLYKTUNARORÐ

Trúarbrögðin eru dætur fáfræðinnar og munu ekki lengi lifa móður sína -Schopenhauer.

Samkvæmt núgildandi stjórnarskrá ríkir algert trúfrelsi á Íslandi, en þó er hér lúthersk ríkiskirkja. Í raun og veru er trúfrelsið ekki algert, þegar hvert barn sem fæðist, er tekið inn í lúthersku kirkjuna meðan það er óviti.

Trúfrelsið á að vera fullkomið, en er það því aðeins, að ríkið skipti sér ekkert af trúarbrögðum og taki enga kirkju fram yfir aðra.

Lútherstrú á Íslandi er leifar danska konungsvaldsins, sem lagði undir sig eigur kirkjunnar við siðaskiptin. "Cujus regio, ejus religio" er úr gildi gengið. Sú kenning kirkjunnar er döguð uppi, eins og svo margar fleiri. Konungar af guðs náð verða innan skamms ekki til, heldur samkvæmt vilja þjóðarinnar. Og hér á Íslandi hvílir stjórnarforusta landsins ekki lengur á neinni náð frá himnum, heldur á rétti fólksins, sem landið byggir.

Það getur ekki samrýmst andlegu frelsi, að ríkið geri út stétt manna til að halda uppi áróðri fyrir hjátrúarkreddum og trúarbragðafjarstæðum, sem mótaðar voru af kirkju, sem hneppt hefir allan hinn menntaða heim í því meiri fjötra og andlegt myrkur, sem hún hefir náð meira valdi yfir mönnum. Margir hugsandi menn lita svo á, að tími sé kominn til að varpa þessum fjötrum af sér, losna við slíka ríkisstofnun, sem enn hefir rétt til að koma sínum fáránlegu hugmyndum inn í saklausar barnasálir.

Hinsvegar væri ranglátt, að beita nokkru ofbeldi í þessum málum. Þótt ríkið skilji við kirkjuna, getur hver haldið sinni trú þrátt fyrir það og sótt sínar guðsþjónustur. En það eiga að vera frjálsir kirkjusöfnuðir í frjálsu landi. Ríkið á ekki að skipta sér af trúarbrögðum, en menn eiga að vera frjálsir um að stofna söfnuði og trúarbragðafélög án íhlutunar ríkisvaldsins.

Ríkið á ekki heldur að kosta neina trúarbragðaskóla, og það á að afnema alla kennslu í trúarbrögðum. Eins og allt annað andlegt verðmæti, sem maðurinn öðlast, á trú hans að vera kominn undir reynslu, vinnu, þroska, íhugun og samvisku hans sjálfs, en ekki að mótast af gömlum trúarkreddum, sem skapast hafa af valdafíkinni og fégráðugrikirkju.

Fæðing og dauði eru mál þjóðarheildarinnar, og nafngiftir og útfarir eru borgaraleg einkamál, sem vandalítið er að koma fyrir án íhlutunar kirkjunnar.

Ýmsir óttast, að allt muni loga í deilum milli trúabragðaflokka, ef ríkiskirkjan væri afnuminn. Sá ótti virðist ástæðulítill, a. m. k. eins og er, þegar trúarbragðaáhugi manna er rýrnaðar niður í ekki neitt hjá öllum fjöldanum, en hinir áhugasömu heyja deilur sín á milli, sem ef til vill mundu eitthvað harðna, en eru algerlega utan við áhugasvið almennings.

Í Bandaríkjum Ameríku, þar sem fullt trúarbragðafrelsi hefir ríkt hátt á aðra öld, hafa trúarflokkarnir lært að láta hver annan í friði, svo að þar ber síst meira á trúarbragðadeilum en í öðrum löndum, sem hafa ríkiskirkju. Þar eru trúarbrögð ekki kennd í skólum ríkisins, en hinsvegar hafa trúarflokkarnir sérstaka skóla, þar sem veitt er kennsla í trúarbrögðum.

Hver, sem hefir kynnt sér viðureign kirkjunnar við vísindi og menningarmál og hugleitt þær afleiðingar, sem stefna hennar hefir haft fyrir mannkynið, getur ekki verið í neinum efa um, að kirkjan á mikla sök á því, hve seint framförum mannkynsins hefir miðað. Þegar vér lítum yfir síðustu 50 árin, sem er sá tími, sem liðinn er, síðan fyrst fór verulega að losna um kirkjuvaldið í Evrópu, og sjáum, hve geysilega miklar framfarir hafa orðið á því tímabili, þá hlýtur sú spurning að vakna, hvort mannkynið mundi ekki vera miklu lengra á veg komið, ef kirkjan hefði ekki staðið svo óþyrmilega í vegi fyrir sannleikanum. Ekki aðeins með því að bannfæra þá, sem hæst báru merki frjálsrar hugsunar, heldur ekki hvað síst með því að halda uppi stöðugum áróðri fyrir hjátrú og kreddum, trúgirni og bábiljum, sem beinlínis miða að því, að sljóvga heilbrigða skynsemi og slæva dómgreind manna og er það óþurftarverk, að gera mennina heimskari en þeir eru.

Sumir játa, að trúin sé blekking ein, en ætla að mennirnir þurfi þessarar blekkingar með, vegna þess hve ófullkomnir þeir sé, og því þurfi þeir að óttast æðri máttarvöld, sem haldi uppi óskeikulu réttlæti þessa heims og annars.

Þessi fullyrðing er mjög vafasöm, og reynsla undanfarna alda staðfestir hana ekki. Mannkyninu hefir liðið að sama skapi verr, sem kirkjan hefir haft meiri völd og haft betri aðstæður til að beita sínum taumlausa áróðri. Menningarástandið versnar öld fram af öld, uns kirkjan hefir lagt allt undir sig og allir eru orðnir andlegir og margir einnig líkamlegir þrælar hjátrúarfullra presta, sem misbjóða mannlegri skynsemi svo freklega, að heilar þjóðir rísa upp á móti þeim.

Blekkingar geta aldrei orðið heilbrigður grundvöllur undir þroska nokkurs þjóðfélags. Trúarkenningar, sem reistar eru á opinberunum, sem fáfróðir menn gátu trúað á fyrir 2000 árum, eiga heima í sömu skúffu og galdrar og hjátrú af þeirri einföldu ástæðu, að þær kenna fölsk lífslögmál, sem standa í vegi fyrir eðlilegum þroska mannsins, ef eftir þeim er farið. Ef einu sinni er lagt út á þá braut að tína dómgreindarlaust einni eða fleirum fullyrðingum um opinberun, sem stríðir á móti þekktum náttúrulögmálum, eru engin takmörk fyrir þeim vitleysum, sem menn geta lent í, og hafa lent í eins og sýnt hefir verið hér að framan. En þannig myndast söfnuðir og sértrúarsöfnuðir, sem ekkert er sameiginlegt um, annað en ofstækisfull sannfæring um ágæti sinnar eigin trúar og skaðsemi allra annarra trúarbragða. Ef greiða ætti atkvæði í heiminum um gagn eða skaðsemi hverrar trúar fyrir sig, mundi sú atkvæðagreiðsla koma mjög illa út fyrir trúarbrögðin. Því að hver trúarbrögð fyrir sig mundu verða fordæmd af öllum, sem ekki hefði tekið þá sérstöku hjátrú.

Kristnum mönnum finnst jafnfráleitt að trúar beljur Indverja, eins og Indverjum þykir skynsamlegt að vera ennþá að eta mann, sem dó fyrir 1900 árum. Kristnir prestar geta séð skaðsemi Brahmatrúarinnar á Indlandi sem stimplar verulegan hluta þjóðarinnar sem viðbjóðslegar verur sem enginn má snerta, svo að þeir eru útskúfaðir frá samneyti við aðra. Og þótt kristnir menn sjái glöggt, hve hættuleg sú sólartilbeiðsla er, sem gengur svo langt að engum dettur í hug að slökkva eld, vegna þess, að hann er heilagur, og horfi rólegir á heila borg brenna upp, heldur en að gera tilraun til þess að slökkva eldinn, þá geta þeir þar fyrir verið starblindir á hættuna, sem stafar af því að fylla hugi barna með fjarstæðum, sem síðan verða eins og steypugalli í heilbrigðri hugsun.

En þótt trúaðir menn geri kröfur til að vera öðrum heilskyggnari, virðist manni þeir oft verða glapskyggnir og blindaðir af trú sinni. Þegar Cortez og menn hans komu til Mexíkó fundu þeir í höfuðmusteri þjóðarinnar beinagrindur af 30.000 manns, sem fórnað hafði verið guð þjóðarinnar á síðustu 30 árum. Brunalyktin af nýfórnuðum líkum lagði fyrir vit þeirra í hinu mikla musteri. Þeim blöskraði er þeir sáu æðsta prestinn tala á móti unglingspilti í viðurvist trúaðs mannfjöldans, bregða sveðju sinni á kvið piltsins og skera úr honum hjartað, bráðlifandi og halda því á loft. En er þeir höfðu lagt landið undir sig og þvingað trú sína upp á landslýðinn, fannst þeim ofureðlilegt er Trúverndin fór að steikja menn lifandi og er ekki getið um að sú lykt hafi komið neitt illa við þá. Það var gert þeim sanna guði til dýrðar.

Þótt enn sé til menn, sem prédika komu guðsríkis og endurkomu Jesú, þá eru tiltölulega fáir, sem taka mark á slíkum prédikunum. Fyrir meira hluta manna er slík trú ekkert annað en leifar gamalli hjátrú, sem vinnur ekki neitt við að vera prédikuð með sannfæringu og því síður með ofstæki. Slík trú er steindauð og á sér engrar upprisavon fremur en trúin á syndafallið og erfðasyndina, hvernig sem reynt er að mála hana upp og gera hana útgengilega.

Fyrir þá, sem ekki hafa getu, vit eða vilja til þess að afla sér þekkingar, verður alltaf til trú, einfaldlega af þeirri ástæðu, að hún er svo miklu auðteknari heldur en þekkingin og vegna þess, að einfaldir menn og fáfróðir eru og verða ávallt auðblekktari heldur en þeir sem hafa þroskað hugsun sína treð því að afla sér þekkingar og þjálfað dómgreind sína með íhugun, skilningi náttúrulögmála og reynslu.

En eins og hverjar aðrar blekkingar hafa öll trúarbrögð, hversu miklar og dýrlega eilífð sem þau hafa boðað, orðið að láta sér nægja takmarkaðan aldur á þessari jörð. Og banamein þeirra allra hefir verið hið sama: Blekkingar, sem einu sinni voru prédikaðar sem heilagur sannleikur, gátu ekki lengur hulist í myrkri leyndardómanna, Þegar þekking manna hafði náð nægum þroska til að sjá í gegnum þær.

Goð Dala-Guðbrands, sem reyndist fullt af rottum, þegar það var brotið niður, var ekki lengur unnt að tilbiðja í Noregi frekar en líkneskjurnar í Asíu, sem menn fundust í, þegar þær voru brotnar niður, og uppljóstraðist, hvernig rödd guðsins, sem þeir höfðu trúað á, var ekki annað en prestablekking.

Öll hafa þessi trúarbrögð dáið út. Og enginn hefir heimtað annað líf fyrir þau. Í krafti þeirra hafa menn fórnað mannslífum í flestum löndum. Þau hafa verið notuð til að svala losta manna, grimmd og græðgi, og í fáfræði sinni hafa menn fórnað þeim dýrmætustu eignum sínum og jafnvel lífi barna sinna og ástvina.

Alls staðar, í öllum löndum hefir þeim verið fórnað fé og víðast völdum.

Og þótt fórnir sé ekki lengur færðar goðum né guðum, eins og til forna þá útheimta öll trúarbrögð ávallt eina fórn, sem allir trúaðir menn virðast vera svo örir færa guði sínum: skynsemina á altarið. Sanntrúuðum mönnum kann að sýnast þeir vera ávallt nægilega ríkir af þeirri gáfu.

En hinir sem ekki hafa fært þessa fórn og eru ekki sannfærðari um eina trú en aðra, skoða það engum guði vegsauka, að vera talinn harðstjóri, sem vill heimska börn sín, og heimtar af þeim stöðuga tilbeiðslu eins og Asíukonungur.

Vér vitum ekki, að guð hafi skapað manninn í sinni mynd. En vér vitum, að maðurinn hefir skapað guð í sinni mynd og í ótal myndum öðrum. Vér vitum, að flest af því, sem hingað til hefir verið talið guðs handaverk, eru afleiðingar orsakabundinna fyrirbrigða sem ekki eiga frekar skylt við guð heldur en vínandi á skylt við anda. Meðan menn höfðu enga hugmynd um efnafræði héldu þeir að andi væri í víninu, sem gerði menn drukkna. Í fáfræði sinni kenna menn öndum og guðum um. allt sem þeir geta ekki skilið. Og það sem enn er kennt við guð og anda, er ekki nægilega þekkt, en hættir að vera kennt við guð eða anda þegar nægileg þekking er fengin.

Trúarbrögðin eru engin undantekning frá þeirri reglu, sem segir, að það gefist ekki vel að fullyrða mikið um þá hluti, sem menn vita ekki um.

Hvort áróðrarmenn þeirra læra þessa reglu nokkurn tíma, er óvíst.

En verið getur, að hinum fari fjölgandi, sem sjá og skilja, að vegur mannsins til þroska liggur eftir þeim leiðum, sem aldrei þurfa að óttast birtu þekkingar, reynslu og sannleika.

Baráttan mun halda áfram milli þeirra, sem þykjast hafa fengið allan sannleika opinberaðan frá guði og hinna, sem eru vantrúaðir á opinberanir, en eru knúðir af þrá eftir þekkingu, sem þolir birtu og gagnrýni og þarf ekki að fara í felur með neinn leyndardóm.

Lessing hefir lýst þessari afstöðu betur en nokkur annar: "Ef guð héldi á öllum sannleika í hægri hendi sinni, og í þeirri vinstri á engu nema eirðarlausri þrá eftir sannleika, og þó með þeim agnúa að vera sí og æ að villast, og segði við mig : "Kjóstu !”, þá mundi ég beygja mig í auðmýkt fyrir vinstri hendi hans og segja “Faðir, veittu mér! Hreinn sannleikur er fyrir þig einan".

Ef þörf er fyrir nokkurra nýja trú, þá er það trúin á sannleikann, nakinn sannleikann, sem dafnar í jarðvegi reynslunnar og andrúmslofti frelsisins, þar sem hátt er til himins og vindar gagnrýninnar stæla og styrkja það sem lífvænlegt er, en feykja hisminu frá. Í stað trúar og hjátrúar með öllum þeirra fordæmingum, formælingum og refsingum kemur þekking og skynsemi sem ber virðingu fyrir mannlífinu, leitast við að skilja í stað þess að fordæma og lætur stjórnast af góðvild og miskunnsemi, hjálpfýsi, sanngirni og viljanum til að skapa fegurra líf og betri menn.

Í stað þess að slá slöku við lífið og möguleika þess, fyrirlíta líkamann og vanhirða hann, en einbeita sér að því að tryggja sér eilífa sælu eftir dauðann, stefna menn að því að gera þetta líf vert þess að lifa því, fyrir sjálfa sig og aðra, fyrir eftirkomendur og óbornar kynslóðir.

Í stað þess að þurfa að hugga sig við blekkingar trúarinnar þegar mikið amar að, læra menn að stæla huga sinn og þrek til að vera menn til að mæta hverri raun án þess að láta hugfallast. Það er fyrirhafnarsamara heldur en að trúa einhverri blekkingu og útheimtir meiri manndóm, en ekki mun frjálsmannlega upp alinn æskulýður setja þá þjálfun fyrir sig.

Vér vitum ekki hvort lífið heldur áfram eftir dauðann. Sumir eru sannfærðir um það, en aðrir eru efagjarnir. Skyldu allir þeir, sem vilja lifa eilíflega, hafa reynt að gera sér hugmynd um, hvað eilíft líf er? Mundu þeir vera fúsir að lifa eilíflega á jörðinni, ef þeir ættu þess kost? Mundu margir vera fúsir til að vaka hér einlægt, þótt þeir hefðu aldrei svefnþörf ?

En hvað sem er um lífið eftir dauðann, þá væri það brot á öllum kunnum lífslögmálum ef besti undirbúningurinn undir það væri að vanrækja þetta líf. Hitt hlýtur að vera betri undirbúningur, að neyta sem best hæfileika sinna í þessu lífi og stefna að því að hver einstaklingur verði sem fullkomnastur að andlegu og líkamlegu atgervi.

Í siðalögmáli kristindómsins er margt gott og nothæft, en einnig margt skaðlegt: Þetta siðalögmál er orðið úrelt og verður að víkja fyrir öðru heilbrigðara, sem er í meira samræmi við lifið og lögmál þess.

Kristindómurinn hefir lagt alla áherslu á bænagerðir, en ekki á vinnu, sem er móðir allra dyggða. Í öllu Nýja testamentinu er hvergi minnst á vináttu, frekar en hún væri ekki til milli manna. Þetta er mikil vöntun í kenningum um mannrækt, því að vinna og vinátta er hvortveggja til mikilla mannbóta. Við höfum lært alltof mikið um syndir, en of lítið um dyggðir og í stað þess að prédika fyrir fólki á öllum aldri um syndir og syndagjöld, þarf að ala menn upp við góðvild, sanngirni, orðheldni, sannleiksást og trúmennsku, jafnframt því sem fegurðartilfinningin er þroskuð frá barnsaldri.

En siðmenning verður fyrst og fremst að vera reist á uppeldi, sem er vel rótfast í reynslu og þekkingu á lífslögmálum. Látum opinberanirnar hverfa aftur til þeirra guða sem þær hafa gefið, og gerum oss ljóst, að það sem fæst svo ódýrt, er einskinsvirði, er að þekkingin, sem tekur við af blekkingum og opinberunum, er öruggara lífsnesti og varanlegra.

Því meira sem þekkingin eykst þess meira dofnar yfir trúnni og öllum hennar greinum og ávöxtum, hjátrú og hindurvitnum. Það er einkenni á frumstæðu. þjóðfélagi að það er fullt af hjátrú. Vér Íslendingar erum á góðri leið að komast upp úr hjátrúarþokunni og kasta af oss trúathamnum.

Vér eigum áreiðanlega ekki eftir að upplifa neitt guðsríki, samkvæmt gömlum gyðinglegum hugmyndum. En þekkingin getur átt eftir að gefa oss betra fólk í betra landi, þegar ný og voldug orkutækni hefir brætt ísinn af sjó og landi og skapað hér betri og veðursælli veröld.

Trúin á himnaríkissæluna á eftir að fara sömu leiðina og trúin á helvíti og er það raunar þegar hjá býsna mörgum. Þessi sælutrú, sem er sprottin upp úr barnslegum hugsunarhætti sem heldur að augnablikssæla geti staðið eilíflega. hlýtur að víkja fyrir þroskaðra hugsunarhætti, sem stefnir að vaxandi fullkomnun mannsins, samkvæmt lögmálum lífsins. Maðurinn verður að læra að hann getur ekki tekið sig út úr sínu umhverfi og þverbrotið frumstæðustu lögmál lífsins sér að meinfangalausu, eins og kristnar kenningar, sem allar voru miðaðar við sáluhjálp, hafa haldið fram.

Mannrækt hlýtur að leiða til betri sambúðar manna á milli og friðar, en trúarbrögð hafa, eins og sagan sýnir, verið einn mesti friðarspillir og eru enn þar sem þau hafa nægileg tök á mönnum.

En þegar nýir spámenn ryðjast fram á sjónarsviðið til að kveikja í tilfinningum almennings með nýrri trú, þá skulum vér ekki brenna þá, eins og kirkjan hefir gert, heldur láta oss nægja að nota aðferð soldánsins í Sofia, sem skipaði slíkum trúboðum að koma með trúarjátningu, skrifaða á. pappír og sagðist mundu taka þá trú, sem ekki brynni i eldinum. Hann taldi það vera það minnsta sem guð gæti gert til að sannfæra menn um réttmæti trúarinnar á hann.

Siðgæðislögmál, sem reist eru á blekkingum, geta aldrei orðið haldgóð. Þau verða að byggjast á reynslu og þekkingu á eðli mannsins og miðast við velferð einstaklingsins og mannkynsins í heild, en ekki dýrð neins guðs, sem enginn þekkir, né paradísar- og helvítistrú sem er dauð og óuppreisanleg.

Blekkingatrúin verður að hverfa, því að af allri vantrú er sú vantrú, sem trúir því, að mennirnir séu svo illa gerðir, að þeir verði að lifa á blekkingum til þess að haga sér sæmilega. Í stað trúarbábiljanna, sem troðið hefir verið í börnin, þarf að innræta þeim virðingu fyrir sannleika, frelsi og mannréttindum, þjálfa þau í drengskap, orðheldni og góðvild, sem öll sambúð manna byggist á, en forðast að fylla hugi þeirra með nokkurri hjátrú. Gera þeim ljóst, að þau eru örlítið eind í hinni miklu tilveru, en samt einstaklingar með stórkostlega þroskamöguleika sem þeim ber skylda til að rækta. Hluti af þeirri tilveru, sem ekki getur staðið í stað, að öllum miðar "annað hvort aftur á bak, ellegar nokkuð á leið", og að það er undir þeim sjálfum komið hvort þau velja drengskaparleiðina og verða góðir menn og batnandi.

Sjá einnig:
Samtal Matthías Johannessen við Níels Dungal

Frelsarinn 25.10.2011
Flokkað undir: ( Guðlast )

Viðbrögð


Úlfur Kolka (meðlimur í Vantrú) - 26/10/11 16:49 #

Hvernig er hægt að dásama hugrekki einstaklings til að lýsa sig opinberlega trúleysingja og gagnrýna opinberlega kukl og hindurvitni og skrifa svo sjálfur undir dulnefni?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 26/10/11 17:06 #

Er ekki ósköp eðlilegt að mæra fólk sem stendur manni framar?


Úlfur Kolka (meðlimur í Vantrú) - 26/10/11 17:14 #

Jú það er reyndar ekkert að því. Það gagnast samt baráttunni við hindurvitni betur ef menn stíga út úr skápnum.


Jón Steinar - 27/10/11 16:57 #

Úlfur ertu afkomandi P. V. G. Kolka, sem ritar svo víðsýnt um bók Dungals? Enginn broddur í þessu, enda engin ástæða til. Ég er bara forvitinn og finnst þetta skemmtileg tilviljun ef rétt er.


Úlfur Kolka (meðlimur í Vantrú) - 27/10/11 21:56 #

Já við erum meira að segja tveir innan Vantrúar sem erum afkomendur hans. Við þekktum hann þó hvorugir þar sem hann var látinn áður en við fæddumst.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.