Nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi þess efnis að ríkið semji við ríkiskirkjuna um að messað verði um hverja helgi á Þingvöllum. Fyrsti flutningsmaður er Árni Johnsen, en aðrir flutningsmenn eru Gunnar Bragi Sveinsson, Ragnheiður E. Árnadóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir og Vigdís Hauksdóttir.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi þingsályktunartillaga er lögð fyrir Alþingi, af sömu flutningsmönnum, því það gerðu þeir líka í fyrra. Tillögunni var vísað til Allsherjarnefndar, en svo virðist ekkert hafa gerst eftir það. Tillagan virðist hafa sofnað í nefndinni, eins og svo margar tillögur gera á Alþingi.
Þingsályktunartillagan sem var lögð fyrir núverandi þing hljómar svona:
Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að semja við þjóðkirkjuna um fasta þjónustu prests tengda Þingvöllum og Þingvallakirkju þannig að guðsþjónustur megi vera þar allar helgar ársins.
Tillagan frá því í fyrra hljómar nánast eins. Nú gæti manni flogið í hug, út frá þessari tillögu, að það sé ekki messað í Þingvallakirkju. En það er nú öðru nær, eins og Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstri Grænna og þáverandi (og núverandi) formaður Þingvallanefndar upplýsti í umræðum um þessa sömu tillögu á fyrra þingi:
... Þingvallaprestur, séra Kristján Valur Ingólfsson, hefur greint frá fjölda messudaga og sérstakri þjónustu vegna annarra athafna. Ég verð að segja að mér sýnist sú þjónusta vera mikil. ...
Til upplýsingar er rétt að geta þess að messað er í Þingvallakirkju hvern helgan dag frá því seint í maí til septemberbyrjunar, sem er háannatíminn. Messað er á öðrum tímum árs til jafnaðar einu sinni í mánuði og svo á stórhátíðum þar fyrir utan. Kvöldbænir eru í Þingvallakirkju öll fimmtudagskvöld í júní og júlí í framhaldi af fræðslugöngu þjóðgarðsins, tónleikar fjögur þriðjudagskvöld í júní og júlí í samvinnu við Minningarsjóð Guðbjargar Einarsdóttur frá Kárastöðum.
... Eins og ég gat um áðan er messað hvern helgan dag á sumrin og að jafnaði einu sinni í mánuði yfir vetrartímann sem þýðir að á árinu 2009 voru messur og guðsþjónustur á Þingvöllum 24 og þar af fjórar í umsjón gestapresta en það er liður í þeirri tillögu sem hér liggur fyrir. Þar er fermt, þar eru skírnir, hjónavígslur og bænastundir við kistulagningu. Það var fermt í júní árið 2009 og eins og ég sagði áðan voru gestaprestar fjórir og á árinu 2009 var einnig útimessa í Skógarkoti.
Eins og ítrekað hefur verið bent á hér á Vantrú eru skattpeningar okkar m.a. notaðir til að greiða laun presta. Það er því svo að nú þegar stöndum við, skattgreiðendur á Íslandi, undir kostnaði við messuhald í Þingvallakirkju.
Nú vill Árni Johnsen, ásamt hinum þingmönnunum, að sá launakostnaður sé aukinn. Til hvers í ósköpunum, spyr maður sig. Er það nauðsynlegt? Árni virðist sannfærður um það, en í umræðum um tillöguna á fyrra þingi sagði hann:
Þær hugmyndir sem liggja að baki þessari tillögu eru að gera Þingvallakirkju að föstum lið, föstum möguleika fólks í landinu til að heimsækja á helgum dögum og auðvitað hlyti slíkt að vera opið fyrir aðra kristna söfnuði. Á Þingvöllum slær Íslandsklukkan í sál Íslendinga og gamla kirkjan sem þar stendur er tákn um auðmýkt, lítillæti og þakklæti íslensku þjóðarinnar fyrir kristnina, þann sið sem tekinn var upp á Alþingi á Þingvöllum árið 1000 og gerði Íslendinga að einni þjóð. Oft var þörf en nú er nauðsyn að þétta raðirnar hjá íslenskri þjóð. Þetta getur verið liður í því, virðulegi forseti, að hnykkja á og festa í sessi það starf sem mögulegt er að starfrækja í þessari litlu, íslensku, gamaldags kirkju.
Nú er ég aðeins aumur skattgreiðandi, en ég spyr mig aftur og aftur: Til hvers í andskotanum? Yrði messuhald á Þingvöllum til að „þétta raðirnar“? Er messa einhvers konar „meðal“ við þeim vandamálum sem blasa við á Íslandi? — Nei, það er af og frá. Það sér hver maður að meðulin sem við þurfum á að halda eru meiri jöfnuður, ítarleg og góð rannsókn á meintum afbrotum peningaaflana og möguleg réttarhöld, ásamt úrbótum á réttarkerfinu og stjórnsýslunni. Og ég spyr mig líka: Er mikilvægt að meiri peningum sé veitt til messuhalds á Þingvöllum, á tímum samdráttar í ríkisfjármálum?
Skoðum málið aðeins í samhengi. Þingmennirnir hafa vonandi tekið eftir því að það stendur til að draga saman fjárútlát ríkisins til heilbrigðiskerfisins á næsta ári, það er jú eitt af þeirra verkefnum að ákveða ríkisútgjöld. Til stendur að draga úr fjárúthlutun um mörg hundruð milljónir. Yfirmenn helstu heilbrigðisstofnana landsins hafa mótmælt niðurskurðinum og hefur m.a. forstjóri Landsspítala gert nokkuð sem fáir í hans stöðu hafa hafa gert. Hann sagði, í fréttabréfi spítalans varðandi frekari niðurskurð á hans stofnun:
Það er komið nóg! Spítalinn mun þurfa að skera niður þjónustu og hætta að veita vissa þjónustu ef haldið verður áfram á þessari braut.
Yfirmenn flestra heilbrigðisstofnana hugsa ábyggilega á sömu leið. Sumir láta heyra í sér, aðrir ekki.
Þessi tillaga þingmannanna er forkastanleg og svívirða við það góða fólk sem starfar innan heilbrigðiskerfisins. Um svipað leyti og niðurskurður í heilbrigðiskerfinu er boðaður, leggja þingmennirnir til að ríkið leggi til fé til messuhalds! Við höfum ekkert við meira messuhald að gera í þessu landi, þegar við þurfum að minnka þjónustuna í heilbrigðiskerfinu. Hreint ekki neitt.
Þingmennirnir hefðu betur séð sóma sinn í því að leggja fram þingsályktunartillögu um niðurskurð hjá ríkiskirkjunni upp á einn til tvo milljarða og flutning þess fjár til heilbrigðiskerfisins. Heilbrigðiskerfis sem er búið að fjársvelta í mörg ár. En það gerðu þeir ekki. Þeir gerðust svo ósvífnir að biðja um meiri peninga til handa ríkiskirkjunni — kirkju sem þeim virðist mjög annt um. Skattgreiðendur borgi brúsann.
En auðvitað er vonlítið að það komi nokkuð um þess háttar niðurskurð úr þessari áttinni. Vonum að einhver annar hafi í sér kjark til að leggja flutning fjár frá ríkiskirkju til heilbrigðiskerfisins, því heilbrigðiskerfið er svo sannarlega mikilvægt. Mun mikilvægara en messur ríkiskirkjunnar, því Jesú Kristur sér ekki um kraftaverkin, heldur heilbrigðiskerfið.
Hann hefur kannski ætlað að spara með því að borga prestinum svart??
Eitt er alveg klingjandi klárt í mínum huga: Árni Johnsen og co eru ekki að taka það upp hjá sjálfum sér að stýra messuhaldi í kirkjum landsins. Þar væru þau að fara inn á valdsvið biskups. Hér er það kirkjan sem á frumkvæðið og fær sínu fram í gegnum þetta fólk. Þetta er hluti af öllu kvabbinu og uppáþrengingum stofnunarinnar. Kirkjan á agenta á þingi, sem ota hennar tota og hefur ávalt haft. Er þetta ekki svolítið í anda annarrar spillingar? Það er Kirkjan sem er að fara fram á þetta, bara svo það sé á hreinu, en hún ætlar ekki að borga fyrir það.
Svo voga menn sér að halda því fram að þetta sé ekki ríkisstofnun. Á ég að þurfa að greiða fyrir það að Árni Johnsen er hræddur við að enda í helvíti? Hvað á þessi yfirbót hans að kosta? Síðast veifaði hann biblíunni í pontu á alþingi. Ætli hann láti negla sig á tré við stjórnarráðið næst, blessaður þjófurinn.
Þetta er með ólíkindum, ekki stóð "ríkiskirkjan" sig í stykkinu varðandi siðferðilegt uppeldi Árna Jonsen, en það virðast hafa verið helstu rök kirkjunnar fyrir sinni eigin tilvist að sjá um siðferðilegt uppeldi landsmanna. Eftir að Árni fékk uppreisn æru er eins og hann hafi ekkert gert, með ólíkindm alveg. Ég myndi nú frekar styðja blót á Þingvöllum, svona túristablót, við gætum svo selt inn fyrir alla túristana og notað peninginn í heilbrigðiskerfið.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Guðný - 11/10/11 13:46 #
Þetta er ekki bara kjánaleg tillaga þegar hugsað er til fyrirhugaðs sparnaðar í heilbrigðiskerfinu sem er jú nú þegar farinn að ógna öryggi fólks heldur er þetta tillaga sem er einungis fyrir fólk sem býr á höfuðborgarsvæðinu og í 2klst fjarlægð við það. Hvernig á svona nýting á fjármunum að nýtast fólki sem býr á vestfjarðarkjálkanum sem þyrfti að keyra í um 9 klst til að komast í messu... En við hverju er sossum að búast frá Árna Johnsen??