Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Jón Valur brjálast yfir jafnræði lífskoðana

Kisur í kassa

Jón Valur Jensson er brjálaður. Og af hverju er Jón Valur brjálaður? Jú, af því að nú á að fara að veita enn einum hópnum - sem er öðruvísi en hann sjálfur - sömu réttindi og hann hefur. Þetta virðist fara illa í Jón.

Kærleiksfordómar

Ég ætla aðeins að fara yfir það sem þessi mikli mannréttindavinur skrifar um þær fáránlegu tillögur sem munu von bráðar koma fram á þingi um að lífsskoðunarfélög sem ekki byggja á trú fái sömu réttindi og trúfélög.

Þau fyrrnefndu eru með hraðsuðunámskeið fyrir "fermingarbörn" sín, en nánast ekkert samfélag um mannrækt né siðrækt eftir það.

Hér talar Jón Valur í fleirtölu en staðreyndin er að svona breyting myndi bara hafa áhrif á eitt félag á Íslandi, Siðmennt. Og hefur mannvinurinn mikli rétt fyrir sér? Nei.

Siðmennt býður upp á borgaralegar giftingar, útfarir, nafngjafarathafnir og fermingar sem Jón kallar af einhverjum ástæðum "hraðsuðunámskeið". Einhvern tíma hefði það þótt furðuleg nafngift á námskeiði sem inniheldur tólf 80 mínútna kennslustundir.

Auk þessa heldur Siðmennt fundi og námskeið um málefni sem tengjast húmanisma og jafnrétti lífsskoðana ásamt því að félagið kemur öðru hverju að því að flytja inn erlenda fyrirlesara. Þetta er engan vegin tæmandi upptalning á starfi Siðmenntar, en hún ætti að sýna fram á að fordómar Jóns eru einmitt bara fordómar.

Dogma í óvissunni

Nefnd lífsskoðunarfélög "miða starfsemi sína við siðferðisgildi og mannrækt," en naumast er nokkur samfella né samræmi meðal trúlausra um grunn sinna siðferðisgilda, enda fjöldamargt (og innbyrðis ósamstætt) til í vopnabúri hinna ólíkustu heimspekinga og siðfræðinga veraldlegra, sem trúausir geta leitað til, en seint orðið sammála um. Eru þar sumir efahyggjumenn, aðrir dogmatískir í sinni afneitun og enn aðrir dogmatískir um óvissuhyggjuna.

Þetta á auðvitað ekki við um trúfélögin sem njóta stuðnings og styrkja ríkisins í dag. Það er mikil samfella og samræmi á milli kaþólskra, múslima, ásatrúarmanna og svo aðventista eins og ég er viss um að Jón Valur samþykkir fúslega. Trúarleiðtogar og guðspjallamenn eru meira og minna allir þeir sömu hjá trúarhópum heimsins og litlar deilur um siðferðisgildi og kennisetningar.

Markmið þeirra breytinga, sem ráðherrann hyggur á, mun vera "að tryggja jafnræði", en þetta mun trúlega leiða til þess, að sjóðir safnast upp hjá Siðmennt og jafnvel herskáum trúleysingjum.

Já, það væri nú auðvitað hræðilegt ef einhverjir sjóðir söfnuðust upp hjá Siðmennt og lítið jafnræði í því.

Herská hógværð

En Jón er eiginlega alveg örugglega að vísa til Vantrúar þegar hann talar um „herskáa“ trúleysingja. Látum vera að þegar talað er um herskáa trúmenn þá er í mörgum tilfellum átt við einstaklinga og hópa sem beita ofbeldi og jafnvel hryðjuverkjum en að herskáir trúleysingjar eru fólk sem gengur svo langt að hreinlega skrifa greinar á internetið og í blöðin!

En Vantrú er ekki lífsskoðunarfélag í anda Siðmenntar. Félagið hefur aldrei sóst eftir samskonar skilgreiningu og mun ekki gera það nema að gerðar verði grundvallarbreytingar á eðli og stefnu félagsins. Vantrú er á móti því að ríkið styrki trúar- og lífsskoðanir. Fólk sem vill tilheyra trú- og lífsskoðunarfélögum á einfaldlega að standa undir kostnaði þeirra sjálft.

Þannig að hógværi trúmaðurinn Jón Valur þarf ekki að hafa áhyggjur af því að Vantrú fái peninga frá ríkinu eins og hvert annað trúfélag.

Heimshyggjuósóminn

Eins og önnur lagafrumvörp heimshyggjunnar, sem gengið hafa gegn kristnum sið í landinu, mun þetta frumvarp eflaust fá forgangsmeðferð á þingi vinstri flokkanna...

Gengið hafa gegn kristnum sið í landinu! Það er aldeilis. Það að ásatrúarfólk, múslimar, hindúar, gyðingar, búddistar og fólk af hvaða öðrum trúarbrögðum sem eiga sér sögu geti (og hafi í mörgum tilfellum) stofnað trúfélög og fengið sóknargjöld og stuðning og vernd hins opinbera er í fínu lagi. En að það sama gildi um Siðmennt er hreinlega aðför að kristnum sið í landinu!

Auðvitað er þetta fáránlegur málflutningur manns sem getur ekki samþykkt það að heimurinn hagi sér ekki eftir grillunum sem lifa í höfðinu á sér. Og sjálfsagt er algjör óþarfi að benda á hversu veikum fótum svona áróður stendur. En stundum þarf maður bara að pústa aðeins, þegar fordómar illa áttaðs fólks menga andrúmsloftið.


Mynd frá mrstg

Egill Óskarsson 20.09.2011
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


JohannV - 20/09/11 10:36 #

Ohhh, hélt þarna um stund að Vantrú væri orðið að lífskoðunarfélagi, sem hélti cult fundi í dimmum kjöllurum. Alltaf viljað nota munkakuflinn minn til að kyrja og teikna fimmhyrndar stjörnur :P
Eyðilagðir þetta alveg Egill í seinni hluta greinarinnar, skammastu þín :D


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 20/09/11 17:28 #

Sorry Jói. Ég get kannski útvegað þér aðstöðu í bílskúr ef þig virkilega vantar að kyrja:)


JohannV - 20/09/11 17:33 #

Takk en það er óþarfi, mátt hinsvegar halda áfram að skrifa góðar greinar :)


Einar - 20/09/11 21:58 #

Maðurinn er sorglegur. En málflutningur hans kemur mér ekkert á óvart.

Léttvægt í raun, miðað við það sem undan er gengið úr þessari áttini.....


Jón Ferdínand - 22/09/11 17:07 #

Þessi maður er náttúrulega eitthvað út að aka

Þið þurfið ekki nema að skoða skilyrðin á blogginu hans fyrir leyfðum athugasemdum, þar kemur meðal annars fram : ''Áskiljum okkur rétt til að útiloka menn kunna að árásum á kristindóm og kirkju''

Semsagt þeir sem eru ósammála honum mega ekki fá birtar athugasemdir sínar á vef hans.

Ritskoðandi fasisti og trúarnöttari, enda er hann hægrimaður


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 22/09/11 17:28 #

Höfundur þessarar greinar er líka hægrimaður, svo því sé haldið til haga.


Styrmir Reynisson - 23/09/11 00:44 #

Ég er á báðum áttum með þetta. Mér finnst alveg jafn fáránlegt að ríkið komi að fjármögnun trúfélaga þó að "lífsskoðunarfélög" fá líka sinn pening.

Best væri auðvitað að ríkið leyfði trúmálum að vera í friði algerlega. Það vita hins vegar Örn Bárður og félagar að kirkjan yrði ekki lengi að veslast upp og drepast ef hún þyrfti að sjá fyrir sér með frjálsum framlögum og sölu á þjónustu eða einhverju.

Lífsskoðunarfélög hafa það held ég bara fínt án ríkispeninga.


Jón Ferdínand - 23/09/11 02:00 #

Svo sem allt í lagi að vera hægri maður, er sjálfur bara hvorki né, en það er því miður voðalega algengt að fasistar og trúarnöttarar lendi í hægri helmingnum enda íhaldssamari helmingurinn og virðist það oftar en ekki henta trúarnötturum ágætlega.


Cicero - 26/09/11 19:12 #

Joseph Göbbels eitraði fyrir börnunum sínum sex - áður en hann drap sig. Það var ekki að ástæðulausu :)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.