Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Guðfræðilegar bollaleggingar

Ísafjörður

Séra Hildur Eir Bolladóttir prédikaði í Hólakirkju á dögunum að hún hefði farið í ferðalag um Vestfirði með fjölskyldunni og lesið sér til um svæðið.

Sérann varð uppnuminn af fegurð landsins og eigin láni og sagði:

Mér finnst alltaf svo merkilegt að vera Íslendingur þegar ég ek um þetta land, ekki af því að ég hafi persónulega átt nokkurn þátt í að skapa það heldur vegna þeirrar staðreyndar að ég tilheyri svona fámennri þjóð í svona líka stóru og mikilfenglegu landi. Af hverju urðum við svona fá í öllu þessu landrými? Það liggur auðvitað í augum uppi að landið er ekki byggilegt nema að hluta en samt sem áður er það mun stærra en við þurfum nokkru sinni á að halda eins fá og við erum. Það hlýtur að vera einhver tilgangur með þessari ráðstöfun, við erum ekki bara lítil þjóð í stóru og tilkomumiklu landi, punktur, við hljótum að þurfa að draga ályktanir af þessari ráðstöfun skaparans. #

Prédikun sína kallaði hún „Af fátæku fólki og ríku“. Um fátæka fólkið sagði hún hins vegar:

Og nú horfum við til meðbræðra okkar og systra í Austur - Afríkuríkinu Sómalíu, meðal þess sem hefur áhrif á líf íbúanna þar eru stríðsátök, hátt matarverð, verðbólga og þurrkar og nú eru það þurrkarnir sem hrella helst enda þeir mestu í manna minnum. Fréttirnar greina okkur frá börnum sem verða hræætum að bráð í máttleysi sínu vegna hungurs og maður heldur að slíkt geti ekki gerst í sömu veröld og maður vaknaði til í morgun. Í svona ástandi fara farsóttir af stað, fólk neytir mengaðs vatns með fyrrgreindum afleiðingum og dugmiklir bændur og hirðingjar horfa á hræ dauðra húsdýra af því að ekkert korn vex til að fóðra í gegndarlausum þurrkum.

Nú reynir á skynsemina. Ef guðinn muldi sérstaklega undir rassinn á Hildi Eir með „ráðstöfun“ sinni má gera ráð fyrir að hörmungar Sómala séu hluti af sömu ráðstöfun. En auðvitað sendir Guð engar hörmungar yfir nokkra menn, því hann er svo góður. Hörmungarnar eru mannanna verk eða afleiðingar þeirra – eða það er ekki til nein vonska heldur aðeins skortur á gæsku. Hvernig sem menn snúa sér er ljóst að heppileg „ráðstöfun skaparans“ nær ekki jafnt til allra.

Hvernig má það vera? Þegar leitað er svara við því reynir á guðfræðina og þá er ekki úr vegi að líta í óskeikulan og eilífan leiðarvísi okkar aumingjanna hérna á jörðinni, Biblíuna. Og þá er hendi næst að líta á textann í guðspjalli þessa messudags á Hólum, sem presturinn hlýtur að tala út frá:

Sá þjónn sem veit vilja húsbónda síns og hirðir ekki um að hlýða honum mun barinn mörg högg. En hinn sem veit ekki hvað húsbóndi hans vill en vinnur til refsingar mun barinn fá högg. Hver sem mikið er gefið verður mikils krafinn og af þeim verður meira heimtað sem meira er léð. Lk. 12

Er niðurstaðan ekki augljós? „Okkur Íslendingum er svo sannarlega mikið gefið bæði í umhverfi og tækifærum...“, ólíkt Sómölum, og því verðum við að hlýða harðstjóranum til að verða ekki lúbarin. „Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.“

Reynir Harðarson 28.08.2011
Flokkað undir: ( Messurýni )

Viðbrögð


Eiríkur - 28/08/11 13:23 #

Mundu samt, að ef ritningargrein passar ekki við skoðanir þínar, þá ertu ekki að skoða hana í réttu samhengi.

Tvennt sem er gott að læra ef maður ætlar að stunda guðfræði almennilega: 1) hósanna 2) sísanna (=tautology)


frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 28/08/11 14:15 #

Það var ekki ólíkt hér á Íslandi í móðurharðindunum og í Sómalíu nútímans. Þá gátu hungruðu börnin á Íslandi eins og börnin í Sómalíu núna dáið við að horfa á fallegt landslag, þökk sé ríkisguðinum. Mér verður illt við að hugsa að svona guðspeki sé yfir höfuð til.


Árni Árnason - 28/08/11 14:29 #

Móðuharðindin, kennd við móðu eða eiturgufu sem lagðist yfir.

Kveðja Árni


Árni - 28/08/11 15:15 #

Svona veruleikafyrra er óhugnanleg. Það er í raun rannsóknarefni hvernig er hægt að horfa á heiminn með svona kolrugluðum hætti.


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 28/08/11 23:42 #

"Ráðstöfun skaparans" er mikið furðuspil. Hann virðis t.d líta velþóknunaraugum á þá ríku, en skipta sér minna að þeim sem ekkert eiga.

Spélegur guð það.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 30/08/11 04:44 #

Af hverju urðum við svona fá í öllu þessu landrými?

Er þessi spurning borin fram í einlægni? Hefur presturinn aldrei lært Íslandssögu um allar þær hörmungar sem dundu á landsmönnum hér á öldum áður? Farsóttir, náttúruhamfarir og óblítt tíðarfar sáu til þess að fólksfjöldinn stóð í stað í um 50.000 sálum svo öldum skipti. Ef fólksfjölgun hefði verið hér með svipuðum hætti og í V-Evrópu ættu Íslendingar að vera mun fleiri í dag eða sem nemur íbúafjölda Noregs.

Eða kannski var þetta alltaf vilji þess almáttuga eins og séra Hildur segir:

Það hlýtur að vera einhver tilgangur með þessari ráðstöfun, við erum ekki bara lítil þjóð í stóru og tilkomumiklu landi, punktur, við hljótum að þurfa að draga ályktanir af þessari ráðstöfun skaparans.

Miðuðu allar þessar hörmungar, sem þjóðin þurfti að ganga í gegnum svo öldum skipti, að því marki að halda þjóðinni lítilli í stóru landi? Maður hlýtur að setja spurningarmerki við svona hegðun hjá guði.


Jon Steinar - 31/08/11 15:02 #

"...við hljótum að þurfa að draga ályktanir af þessari ráðstöfun skaparans."

Jah...hljótum við það? Kannski ef við leggjum til grunns enn stærri og vitlausari ályktun um að "einhver" hafi skapað þetta allt saman. Það væri óskandi að einhver skonar skapari væri til, til að refsa svona blygðunarlausu yfirlæti, hræsni og sjálfhverfu, sem þessi grein lýsir.

Manni hreinlega flökrar.


Jon Steinar - 31/08/11 15:08 #

Stórfenglegt hvað hægt er að draga brjálaðar ályktanir þegar manni er frjálst að draga forsendurnar upp úr hatti fullum af liggaliggalái.


Árni Árnason - 04/09/11 14:35 #

Þegar þessi umræða, þ.e. um ráðstafanir skaparans, kemur upp dettur mér alltaf í hug lítil blaðagrein sem birtist fyrir allmörgum árum og var eftir þáverandi prest þjóðkirkjunnar. Honum var illa við Reykjavíkurflugvöll og var mikið í mun að útlista hve hættulegur hann væri. Ég man þetta nú ekki orðrétt eftir öll þessi ár, en inntakið var svona:

Um hættuna af flugvellinum þarf vart að fjölyrða: Fyrir fáum árum lenti lítil flugvél utan brautar í Vatnsmýrinni og tveir franskir flugmenn hennar fórust og nú fyrir skömmu fór flugvél Flugfélags Íslands út af brautarenda og í veg fyrir bílaumferð á Suðurgötu, en Guðs mildi réði því að enginn slasaðist alvarlega.

Svo mörg vor þau orð. Mér er þessi litli greinarstúfur í nokkuð fersku minni aðallega vegna þess að mér fannst vart hægt að koma fyrir meiri tvískinnungi, hræsni og bábiljutrú í einni og sömu setningunni. Lái mér hver sem vill.


Halldór L. - 05/09/11 12:12 #

God bless America Iceland and no place else.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.