Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Guðlaust trúarofstæki og vitsmunahroki

Hópur trúleysingja

Dr. Sigurður Pálsson fyrrverandi sóknarprestur í Hallgrímskirkju og maðurinn á bak við margar bækur sem kenndar eru í kristinfræði í grunnskólum landsins hefur orðið.

Í prédikuninni Grjótkast eða vörðusmíði sem birtist á vef ríkiskirkjunnar trú.is skrifar hann meðal annars:

Og hvað er ég eiginlega að fara með þessu, að grauta saman stóryrðum háskólaprófessors og skylmingum um menn og málefni innan kirkjunnar. Jú, það er til að benda á að sótt er að kirkju og kristni af guðlausum áhrifamönnum og samtökum guðleysingja sem skirrast ekki við að bera fyrir sig vísindalega þekkingu til að kveða upp dóma um tilvist Guðs og vitnisburð Jesú Krists um hann og þagga það allt niður. Þar er andstæðingurinn. Sundruð er kirkjan ófær um að verjast og sækja, byggja upp og styrkja, fræða og vekja. Aðeins sameinuð, biðjandi, boðandi, þjónandi og fræðandi getur kirkjan varist guðlausu trúarofstæki og vitsmunahroka. Sameinaður í kærleika, getur söfnuður Krists á Íslandi varist og sótt í Jesú nafni. Einbeitum okkur að því.

Það er að sjálfsögðu ekki hægt að gera athugasemdir við prédikunina. Þá þyrfti Sigurður að svara fyrir sig og það er ekki í anda "samtalsins" sem ríkiskirkjufólk þykist vera upptekið af.

Ég vil gera eina athugasemd við þessi orð Sigurðar Pálssonar.

Það er lygi að samtök guðleysingja vilji "þagga það allt niður", þ.e.a.s. umræður um tilvist Gvuðs og vitnisburð Jesú Krists um hann. Ekki misskilningur, ekki mistúlkun og ekki heldur ýkjur. Þetta eru hrein og klár ósannindi og Sigurður Pálsson veit betur enda hefur hann fylgst með umræðunni um trúmál hér á landi síðustu ár.

Sú sjálfssagða krafa að boðun trúar fari ekki fram í leik- og grunnskólum á nákvæmlega ekkert skylt við þöggun.

"Guðlausa hrokafulla trúarofstækisfólkið" hefur ávallt verið tilbúið að taka þátt umræðu um þessi mál og hefur í mörg ár reynt að draga kirkjunnar fólk inn í samræður. Vandinn er að umræðan verður að fara fram á forsendum kirkjunnar, það þarf að passa að sýna skoðunum kristinna virðingu, ekki má segja nokkuð sem stuðar eða meiðir þá kristnu. Engar sambærilegar kröfur eru um það sem kemur í átt til þeirra guðlausu. Þöggunin kemur öll úr einni átt. Frá kirkjunni hans Sigurðar.

Matthías Ásgeirsson 21.07.2011
Flokkað undir: ( Leiðari )

Viðbrögð


Eiríkur - 21/07/11 10:38 #

Veistu hverjir vildu heldur ekki boða kristna trú í íslenskum grunnskólum? -Nasistar.

En í fullri alvöru, þá sýnist mér votta fyrir smá "dissonance" hjá honum. Kirkjan verður fyrir ofsóknum yfirgnæfandi fjölda trúleysingja en er samt vinsæl þjóðkirkja. Þetta rímar ekki alveg.

Kannski veldur þessu þögnin frá öllum prósentatugunum sem eru "í þjóðkirkjunni" þegar veist er að kirkjunni. Þeir sem halda að yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga séu kristnir skilja sennilega ekki af hverju trúleysingjarnir vaða uppi áreynslulaust.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 21/07/11 10:42 #

Ágætur punktur. Ég held að sumt ríkiskirkjufólk ofmeti stórlega meinta kristni íslendinga og einnig stuðning við ríkiskirkjuna.

Trúfélagsskráning er líklegasta skýringin á þessu ofmati. Það vita allir að hún gefur kolranga mynd af trúarviðhorfum landans.


Eiríkur - 21/07/11 10:59 #

Já, þetta er áhugavert.

Kannski fyndist mér, ef ég væri kristinn, bara eðlilegt og hentugt að skrá alla strax í kirkjuna, og svo gætu þessar örfáu hræður skráð sig út seinna í sátt og samlyndi.

Mig grunar að þetta sé í hugum margra kristinna ekki spurning um hagsmuni kirkjunnar, heldur einfaldasta fyrirkomulagið miðað við aðstæður. Þess vegna kemur trúleysistalið svona illa við þá.

En röksemdafærslan getur laumast í hring þegar maður segir: "best að skrá bara alla strax, kirkjan er greinilega vinsæl, sjáið bara hversu margir eru í henni, best að skrá alla strax"

Vinsældir hennar eru soldið eins og vinsældir Solitaire í PC-tölvum.


Rökkvi Vésteinsson - 21/07/11 11:09 #

Ótrúlega aumkunnarvert að beita þessu hugtaki "vitsmunahroki" alltaf fyrir sig. Já það er rosalega hrokafullt að telja að þeir sem hafi meiri vitsmuni geti kannski verið betri í því að skilja hluti en þeir sem hafa minni.

Eða þá að ef vísindin hafi ekki útskýrt allt mögulegt þá getum við bara alveg eins trúað á hvað sem er annað og það sé alveg jafn gott og gilt (nema auðvitað aðrar trúr en kristni, þær eru augljóslega allt annað mál).


Matti (meðlimur í Vantrú) - 21/07/11 11:38 #

Ætli dr. Sigurður Pálsson hafi aldrei gerst sekur um "vitsmunahroka"?


Eiríkur - 21/07/11 11:56 #

Má ekki búa til fleiri svona hugtök. Það þarf bara einn jákvæðan lið með áföstum neikvæðum lið:

Hvað með "staðreyndaöskur"

"Hvenær ætla trúleysingjar að láta af þessu linnulausa staðreyndaöskri sínu?"

Ætli "hroki" sé ekki annars skylt "hraukur". Er hyggnum manni ekki betra að byggja hús sitt á vitsmunahrauki en trúarhógværð?


frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 21/07/11 12:50 #

Sigurður Pálsson hefur líkt gagnrýnendum kristni við barnamorðingja og tryllta andskota. Það er ekkert offramboð af kinnum eða kærleika að finna í skoðunum hans á trúleysingjum.


Jón Ferdínand - 21/07/11 20:05 #

Fucking A við þessa grein! Þetta er ekkert nema ''vitsmunaheft'' og kjánalega barnalegt pakk í þessu fáránlega bákni sem kölluð er Þjóðkirkjan.

Annars fagna ég þessum svokölluðu átökum sem hann virðist vera að hvetja til, þar sem þessir pésar eiga ekki séns í jafnvel hinn lítilmótlegasta trúleysingja ef til alvöru rökræðna kæmi.

Önnur pæling: ''guðlausu trúarofstæki''. WTF!! Hvað í déskotanum er guðlaust trúarofstæki? Maðurinn talar í þversögnum!


Matti (meðlimur í Vantrú) - 21/07/11 21:33 #

Þetta er ekkert nema ''vitsmunaheft'' og kjánalega barnalegt pakk í þessu fáránlega bákni sem kölluð er Þjóðkirkjan.

Slökum aðeins á í alhæfingunum ;-)

"Guðlaust trúarofstæki" er það þegar trúleysingi tjáir gagnrýni sína á trúarbrögð (sérstaklega kristindóm) opinberlega og þegar trúleysingi andmælir fullyrðingum presta eða guðfræðinga. Þá er trúleysinginn um leið orðinn veraldlegur pósitívisti (sem er óskaplega púkó að mati guðfræðinga) sem trúir því að vísindi geta svarað öllum spurningum.


Jón Steinar - 24/07/11 02:27 #

Er að reyna að gera það upp við mig hvort er verra vitsmunahroki eða fákænskuhroki. Gáfumannahroki eða fábjánahroki.

Held hið síara hafi vinninginn. Fátt vera en ignoramus sem telur sig hafa alla visku heimsins og leyfir sér að tala niður til annarra úr þeirri holu.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 29/07/11 12:01 #

Ég skil ekki þessa upphafningu einfeldninnar, sem mér finnst vera gildismatið sem skín í gegn um orðið "vitsmunahroki". Sigurður gerir sínum eigin trúsystkinum ekki hátt undir höfði, ef hann segir að vitsmunir séu neikvætt element við okkur hin.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.