Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Átök klerks við barnamorðingja og tryllta andskota samtímans

Hann er stundarkennari við guðfræðideild Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands. Einnig hefur hann samið kennslubækur fyrir börn sem kenndar eru í öllum grunnskólum landsins auk fræðsluefnis fyrir æðri menntastofnanir. Hann er sóknarprestur í Hallgrímskirkju og heitir Sigurður Pálsson. Miðað við menntun og störf er eðlilegt að gera þá kröfu til hans um að flytja mál sitt af fræðimennsku kennimannsins sem útskýrir og segir rétt frá með alla sína akademíu upp á vasann. Þann 2 janúar predikaði hann yfir söfnuði sínum í Hallgrímskirkju og bar ræðan hans nafnið "Átök" Svo merkileg þótti messan að hún komst á vef Þjóðkirkjunnar.

Í stuttu máli gerir séra Sigurður að umtalsefni meint barnamorð í Nýja testamentinu sem Heródes átti að hafa fyrirskipað með undarlegum formerkjum. Orðrétt úr ræðunni:

Þjónar bölvunarinnar tryllast. Þetta er gömul saga og ný. Þar sem guðsríki hefur framgang, espast þeir sem ekki vilja af því vita. Sagan er full af slíkum dæmum. Sumum blóðugum, öðrum penni á yfirborðinu en tilgangurinn er hinn sami. Að hindra að vilji Guðs verði. Þessi saga af barnamorðunum í Betlehem er dæmi um hin sístæðu átök góðs og ills, átök milli Guðs og andskota hans." ... "Heródesar samtímans, þótt þeir séu ekki með blóðugar hendur, færast í aukana, koma úr felum og reyna að hindra þann framgang. Það hefur örlað á slíkri andspyrnu í einstaka blaðagrein, m.a. þegar sagt var frá starfsáætlun kirkjunnar nú í haust." ... "Og á vefnum, sem mikið er notaður af ungu fólki, er haldið úti vefsíðum, þar sem kirkju og kristni er úthúðað með óvönduðum meðulum. Að vera Jesús Kristur kostaði ofsóknir og átök. Að fylgja Jesú Kristi kostar hið sama.

Nú verður að segjast eins og er að þessi predikun á meira skylt við ofstæki en heiðarlega vörn. Þegar menn fara að líkja þeim sem gagnrýna kristna trú við barnamorðingja og tryllta andskota þá er fokið í flest skjól í ad hominem rökvillum. Auðvitað er heilbrigðu fólki brugðið við slíka gagnrýni enda hef ég ekki heyrt nokkurn mann kalla séra Sigurð barnamorðingja né þaðan af síður trylltan andskota. Það er því full ástæða að gagnrýna framgöngu Sigurðar í þessu máli. En þessar samlíkingar verður hann á endanum eiga við sjálfan sig og sína samvisku. En skoðum málið aðeins dýpra og hvað séra Sigurður Pálsson guðfræðingur með meiru er að nýta sér til andlegar heilsubótar.

Sagan segir okkur að fjöldamorð á sveinbörnum í Betlehem áttu sér ekki stað í upphafi okkar tímatals. Til eru nákvæmar heimildir ritaðar af Gyðingum frá þessum tíma sem lýsa oft ótrúlegum smáatriðum af samskiptum Rómverja og Gyðinga. Þar er hvergi minnst á fjöldamorð á börnum en slíkir atburðir hefðu örugglega komist í sögubækur þeirra. Heldur eru engar heimildir um viðlíka fyrirskipanir Heródesar í Rómverskum heimildum. Sagnfræðingar eru almennt sammála um að gríðarlegan herafla hefði þurft til að bæla niður uppreisn Gyðinga gegn jafn ótrúlegu ofbeldi sem hefði síðar leitt til stríðsátaka. Þannig eru sagnfræðingar og hófsamir kristnir fræðimenn sammála um að meint barnamorð eru tilbúningur í Matteusarguðspjalli. Reyndar eru bókstafstrúarmenn þessu ósammála og telja barnamorðin staðreynd.

Flestir fræðimenn í guðfræði líta á frásögn kennda við Matteus í Nýja testamentinu um meint barnamorð sem táknræna helgimynd af Jesú en alls ekki sögulega staðreynd. Enda þjónar frásögnin Gyðinglegri arfleið þess guðspjalls. Höfundi Matteusarguðspjalls var mikið í mun að líkja Jesú við Móse. Til að uppfylla þær kröfur er Heródes settur í hlutverk Farós í Gamla testamentinu sem átti að hafa fyrirskipað morð á öllum sveinbörnum Gyðinga í Egyptalandi. Þannig á Jesú að sleppa frá sama hildarleik og Móse til að staðfesta Gyðinglegan guðdóm Jesú Krists. Um þetta eru flestir fræðimenn sammála, einnig hófsamir kristnir fræðimenn. Hins vegar eru bókstafstrúarmenn þessu algjörlega ósammála og telja barnamorðin sannleik.

Ef menn trúa á tilurð meintra barnamorða í Betlehem þá sýna þau fram á rökfræðilega að Yahweh er illur Guð. Þar sem hann er alvitur kærleikur þá vissi hann að ef Jesú fæddist í Palestínu á þessum tíma þá kostaði það líf fjölda barna. Vegna þess að Guðinn hans Sigurðar Pálssonar er alvitur og almáttugur, samkvæmt skilgreiningu kristninnar, þá vissi hann hræðilegar afleiðingar þess að koma Jesú heiminn á þessum tíma og stað. Hann gat því auðveldlega hagað fæðingu hans á annan hátt til að koma í veg fyrir fjöldamorð á börnum. Þannig er trú Sigurðar afskaplega döpur heimsmynd og illskiljanleg hugsandi fólki með lágmarks rökhugsun og kærleik í huga.

Eftir þessa predikun séra Sigurðar Pálssonar kemur betur í ljós að í Þjóðkirkjunni er bullandi bókstafstrú ríkjandi, hulin Grænsápuguðfræði. Hann er ekki að fræða söfnuð sinn um tilurð og merkingu Nýja testamentisins heldur notar textann eins og bókstafstrúarmaður til ausa aur og skít yfir gagnrýnendur kristinnar hugmyndafræði. Sigurður hefur með þessari átakapredikun sinni einfaldlega kastað gríðarlegri rýrð á sjálfan sig og alla fræðimennsku við guðfræðideild Háskólans.

Frelsarinn 15.01.2005
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


G2 (meðlimur í Vantrú) - 15/01/05 09:21 #

Ég dirfðist að gagnrýna 'starfsáætlun' kirkjunar í blaðagrein í haust og finnst mér líklegt að klerkur sé að vísa til þess. Reyndar gagnrýndi ég aðeins fyrirætlanir klerkaveldisins varðandi löngun þeirra og einbeittan vilja til að nauðga sínum kristilega kærleika og brengluðu lífsskoðun upp á börn í grunnskólum landsins. Það er ekki skrítið að séra Siggi skuli bregðast illa við slíkri gagnrýni þar sem hann er höfundur kristinfræðibóka sem brúkaðar eru til að útbreiða boðskapinn í skólunum. Blessaður kallinn mundi sjálsagt missa spón úr aski sínum ef hætt yrði að kenna bullið úr honum sem heilagan sannleik.


Bjoddn - 15/01/05 12:23 #

En ef Heródes var vondur af því að hann drap fullt af börnum í Betlehem, hvað var þá guð þegar hann drap alla frumburði egypta?

Eins og alltaf, þá eru það ekki gjörðirnar sem gera hlutinn vondan, heldur hver framkvæmir og hver græðir.

Fólk þarf að átta sig á því að kristin trú er fyrir vont fólk. Handrukkarinn vinnur í samræmi við biblíuna þegar hann nauðgar systrum og dætrum skuldara en homminn er að sama skapi réttdræpur fyrir sína kynhneigð. Er þetta eitthvað í samræmi við siðferðisskoðanir fólks í dag? Er þetta ekki bara úrelt og sjúkt og er það þá ekki bara staðreynd að biblían er einfaldlega ekki bók sem stenst tímans tönn eins og hagsmunaaðilar vilja telja fólki trú um?


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 15/01/05 13:14 #

Hmm... sannkristni handrukkarinn?

Við getum heldur ekki útilokað þann möguleika að það seúm vér menn sem séum ófullkomnir. Ef guðsi er almáttugur og alvitur, og algóður að auki, þá er skv. skilgreiningu allt gott, ekki satt? Þá er það bara misskilningur hjá okkur að t.d. barnamorð séu af hinu illa. Eða, ef guðsi er til og er algóður, almáttugur og alvitur, þá gerist ekkert nema gott. Barnamorð hafa gerst og gerast. Ef maður fellst á að gvuðsi sé til og algóður, almáttugur og alvitur, þá liggur í hlutarins eðli að barnamorð eru ekki af hinu illa. Ef maður getur ekki fellt sig við annað en að barnamorð séu af hinu illa, þá þarf einnig að breyta einhverju við skilgreininguna á guði: Kannski er hann ekki algóður. Kannski er hann ekki almáttugur. Kannski er hann ekki alvitur. Kannski er hann einfaldlega ekki til.


Ormurinn - 16/01/05 10:32 #

þeger guð drepur börn þá fara þau væntanlega til himnaríkis (ef náðst hefur að skýra þau) þar sem þau læra að spila á hörpu og munu hafa það miklu betra heldur þau geta nokkurntímann haft það á jörðinni.


Bjoddn - 16/01/05 11:05 #

Ætti slíkt hið sama þá ekki að eiga við um Heródes? Ef börnin sem hann drepur eru skírð, þá fara þau væntanlega einnig til himnaríkis svo þar er enginn munur á morðum Heródesar og guðs.

Hvað er það sem gerir morð guðs í lagi á meðan morð Heródesar eru fordæmd? Er það ekki bara spurning um hver drepur og hver hagnast á morðunum?

Er ekki bara málið að kristið siðferði er annað orð yfir eigingirni? Hvaða góðverk gerir kristin manneskja án þess að vonast eftir verðlaunum fyrir? Um hvað snýst kristin trú annað en hagnað fyrstu persónu eintölu, hvort sem um er að ræða krónur á jörðu eða hörpu á himnum?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 16/01/05 16:56 #

Nákvæmlega, Bjöddn. Þarna ræður hið kristilega og siðlausa umbunarsiðferði


Jón Einarsson - 19/01/05 18:32 #

Ef ég skil veslings prestinn rétt þá heldur hann því fram að sá sem setur fram gagnrýni á framgöngu Þjó[]kirkjunnar sé í sama flokki og barnamorðingjar! Og svo segir séra Karl að Þjó[]kirkjan sé "biðjandi, bjóðandi og þjónandi". Séra Sigurður hefur líklega sleppt þvi að lesa kaflana um auðmýktina og friðarboðskapinn þegar hann var í guðfræðinni. Nema hann telji sér öll meðul heimil eftir yfirbótargönguna á Þingvöllum árið 2000.


Reynir - 01/03/05 09:37 #

Við skulum fyrirgefa séra Sigurði því hann veit ekki hvað hann er að gera og taka þar með meistara hans til fyrirmyndar. Hann er svo gjörsamlega marineraður í sinni afstöðu að honum er um megn að skilja þá sem gagnrýna samkrull ríkis og kirkju, trúboð og trúariðkun í skóla o.s.frv. Það er hins vegar óþarfi að kippa sér upp við að vera kallaður andskoti - nema menn vilji leggja kristilegan skilning í það orð. Andskoti er einfaldlega andstæðingur, sá sem skýtur á móti. Ef staðan væri önnur í dag, kirkjan öflugri, gæti stafað ógn af mönnum eins og honum (sem gætu þá útskúfað gagnrýnendur úr samfélaginu, hirt eigur þeirra, pýnt þá og jafnvel drepið), en við núverandi aðstæður, þegar kirkjan er að morkna niður, er Sigurður sjálfum sér og málstað sínum verstur. Sigurður sakar gagnrýnendur um að vilja hindra að guðs vilji nái fram. Slíkt er auðvitað vonlaus barátta ef guð þessi er almáttugur og því hef ég aldrei skilið þennan ofsa manna við að vinna verkin fyrir hann - ofsækja andskota sína, sem er bæði gömul saga og ný. En það er eins og með góðverkin - það þarf víst að framkvæma þau fyrir hann líka. Merkilegast finnst mér þó hvað kristnir menn verja miklum tíma og orku í að segja guði þessum fyrir verkum; blessa þú þetta og hitt (forseta vorn og ríkisstjórn (auðvitað)), hjálpaðu þessum og hinum o.s.frv. En það er auðvitað svo margt sem ég ekki skil. Vegir þessa guðs eru víst órannsakanlegir. Öll rökræða um þetta fyrirbæri endar á því, sem með öðrum orðum þýðir: Það er bara ekkert vit í þessu guðshugtaki.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.